Í dag er aldeilis gott veður, stillt, milt og rigning. Ég fór í regnfötin, tók klippur í hönd og lagfærði trén aðeins. Enn eru klakabunkar inn á milli trjánna svo það er erfitt að fóta sig, einnig er erfitt að stíga af stéttinni því hún er svo hál. En samt sem áður á lýsingin við sunnlenskt sumar.
Fyrr í janúar bárust fréttir, í tvo daga, um að á einu dvalar- og hjúkrunarheimili hér á landi kæmi fyrir að valið væri hverjir hefðu fótavist þann og þann daginn og að heimilisfólk væri bundið/fjötrað í rúmið.
Nú berast fréttir frá Danmörk um hvernig sveitarfélögin þar ætla að verja einum milljarði danskra króna í þjónustu við aldraða.
http://www.aeldresagen.dk/presse/nyheder/Sider/Penge-til-aeldrepleje.aspx?visemne=1
Áhersla verður lögð á að kenna öldruðum að ryksuga sitjandi og efla færni í að klæða sig sjálfur. Gert er ráð fyrir að þeir fái að fara í bað einu sinni í viku.
Jamm, ég sem fer í sund á hverjum degi og stundum tvisvar eða oftar ef ég er í góðu formi.
Í sundi í gær spurði ég mig, hvers vegna hreyfi ég mig, borða tiltölulega hollt, æfi hugann með allskonar bókum, gátum og tónlist og tek alla stiga? Svarið var að ég væri að búa mig undir efri árin (það er hreina satt, eitt sinn reyndi ég að komast í kjólinn en nú er markmiðið á að vera tiltölulega hraust þegar ég verð sjötug).
Til hvers vil ég vera hraust sjötug? Er það ávísun á að ég fái að sjá um mig sjálf á allan hátt og losni við að læra að ryksuga sitjandi? Er það ávísun á að ég komist í bað oftar en einu sinni í viku?
Ef svarið er já hversu lengi tryggir það að ég lifi mannsæmandi lífi? Vil ég lifa óhrein? Vil ég lifa bundin í rúm? Vil ég lifa við það að fá einungis að fara á fætur þegar það hentar umönnun?