Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, January 31, 2014

Bláhvít birta

Það snjóaði mikið í gær, á örskömmum tíma.

Í morgun þurfti ég að hreinsa svæði til að geta gefið snjótittlingum og ég hreinsaði einnig þar sem ég gef frekjunum (þröstum og störrum). Líklega þurfa báðir hópar tvo skammta í dag, miðað við atganginn í gær, ég gaf eftir að fór að snjóa, þá vilja þeir líklega skammt númer tvö og jafnvel þann þriðja.

Morgunbirtan var falleg, góð. Að vísu sagði vélin að hún vildi aðrar rafhlöður og svo fann ég að það er erfitt að taka myndir með aðdrætti á móti götuljósum.



Thursday, January 30, 2014

Snjóar í lok janúar

Ótrúlegt en satt þá snjóar nú, úr vestri. Því gæti snjórinn verið lengur en ef það væri úr suðaustri. En, samt sem áður brosi ég því það er svo bjart á daginn að snjór hopar hratt.

Verra er að ég klæði mig upp á eftir og fer í partí, þar sem það hefur snjóað þá verður erfitt að sjá hvar klakabunkar eru, ég er frekar hrædd við hálku.

Ég náði mynd af snjótittlingum áður en þá fennti í kaf.

Wednesday, January 29, 2014

Mjúkur dagur

Í dag er enn og aftur yndislegt veður. Ég lagði land undir fót, fór yfir Miklubraut og gekk um Safamýri og Álftamýri. Kom við í fiskbúð og keypti sporðstykki af þorsk. Skoðaði hrogn og lifur, það verður sko þannig í mat að kvöldi föstudags.

Hélt svo heim og byrjaði að spila diska úr kassa nr. tvö. Mér telst til að ég verði út júní að spila alla þá tónlist sem við eigum, að plötum ótöldum. Ótrúlegt að eiga svo marga diska og spila sjaldan eða aldrei.

Leita dyrum og dyngjum að bók sem ég hef átt lengi og lesið margoft. Hvar ert þú, Kristur nam staðar í Eboli?


Tuesday, January 28, 2014

Síðasta lag fyrir fréttir

Á eftir lýk ég við að spila alla diska úr safnkassa. Lýk því með diskum sem bera það fallega nafn Síðasta lag fyrir fréttir. Safn fallegra íslenskra laga sem hafa mörg ómað fyrir hádegisfréttir útvarpsins.

Í dag var verið að klippa tré og limgerði við blokkina. Góður tími. Ég hef aðeins reynt að temja tröllahelsið og beykið. Á eftir að leggja í kirsið, langar að hafa það einstofna ca 30 cm frá jörðu. Svo væri gaman að taka mispilinn vel niður og einu sinni vera á undan laufgun.

Nú er umræða um hættulegasta veg landsins, Miklubraut, og gatnamót. Þó sýnir tölfræði að óhöppum fækkar á tíu á bili. Ég hef tillögur til að minnka umferð. Það er hægt að gera margt. Í fyrsta lagi leggja gjald á bíla sem fara inn fyrir hringinn Langahlíð, Nóatún og svo Dunhagi og samsvarandi götur vestur í bæ. Í öðru lagi hafa lægra gjald fyrir þá sem fara inn fyrir hringinn Háaleitisbraut, Dunhagi og samsvarandi götur vestur í bæ. Í þriðja lagi láta borga í stæði, einnig við Kringluna, Verzló, MH og Háskóla Íslands. Í fjórða lagi efla almenningssamgöngur með tíðari ferðum, á tíu mínútna fresti milli sjö og níu og aftur milli tvö og fimm. Gæti verið á 20 mín þar á milli og fram til sjö á kvöldin.

Sólarlagið hefur verið fallegt undanfarið. Jólarósin heldur enn knúppum en blómstrar ekki.

Monday, January 27, 2014

Ný vika

Á föstudaginn hófst þorrinn. Þá var hreinlega brjálað að gera. Þó var ekki eins hreint og er í dag.
Sigmundur þvoði gluggana í gær, það er eins og ný íbúð. Ég sé svo vel út að undrum sætir. Hvað ætli það sé langt síðan þeir voru þrifnir síðast.

Enn held ég áfram að spila þá tónlist sem við eigum. Er enn í diskum, á plöturnar alveg eftir. Er að verða búin með eina hirsluna og er búin með þann skammt sem var fram í stofu. Það gera alls 53 titla það sem af er janúar. Stundum eru tveir diskar í hulstri.
Helgin var tekin með trompi. Sigmundur fékk að heyra tónlist sem lifandi tónlistarmenn fluttu. Því hljómaði Knopfler, Megas og Sigurður Guðmundsson út í eitt. Ég hvíldi Carmen og Porgy&Bess.
Í dag er það John Tavener og Raggi Bjarna eftir að Carmen og Porgy&Bess hljómuðu.

Thursday, January 23, 2014

Slyddusnjór - eða þannig

Í morgun gerði ég það sem ég geri helst aldrei. Ég hafði kveikt á útvarpi og heyrði dágóðan part af þætti sem er á gömlu gufunni milli sjö og átta. Ég hef oft undrast hvers vegna sendir eru út tveir kjaftaþættir milli sjö og átta. Mér að meinalaustu mættu rásir ríkisútvarpsins vera sameinaðar milli sex og tíu, á þeim tíma eru nákvæmlega eins þættir, kjaftavaðall, vandræðalegt spjall og skrítnir hlátrar eða fliss.

Í morgun fræddist ég þó um að snjókoman í gærkvöldi hafi verið slyddusnjór sem myndi hverfa fljótt þegar hlýnaði. Æ, hvers vegna þagði aumingja konan ekki og spilaði tónlist í staðinn eða hafði þögn.
Það væri smart að útvarpa þögn á þessum tíma. Ég væri alveg til í að minn skattpeningur sem er eyrnamerktur ríkisútvarpinu færi í að útvarpa þögn.

Í tilefni að þessum pirringi tók ég mynd af þeim snjó sem eftir er, um hádegi.

Wednesday, January 22, 2014

Sunnlenskt sumar


Í dag er aldeilis gott veður, stillt, milt og rigning. Ég fór í regnfötin, tók klippur í hönd og lagfærði trén aðeins. Enn eru klakabunkar inn á milli trjánna svo það er erfitt að fóta sig, einnig er erfitt að stíga af stéttinni því hún er svo hál. En samt sem áður á lýsingin við sunnlenskt sumar.

Fyrr í janúar bárust fréttir, í tvo daga, um að á einu dvalar- og hjúkrunarheimili hér á landi kæmi fyrir að valið væri hverjir hefðu fótavist þann og þann daginn og að heimilisfólk væri bundið/fjötrað í rúmið.

Nú berast fréttir frá Danmörk um hvernig sveitarfélögin þar ætla að verja einum milljarði danskra króna í þjónustu við aldraða.
http://www.aeldresagen.dk/presse/nyheder/Sider/Penge-til-aeldrepleje.aspx?visemne=1

Áhersla verður lögð á að kenna öldruðum að ryksuga sitjandi og efla færni í að klæða sig sjálfur. Gert er ráð fyrir að þeir fái að fara í bað einu sinni í viku.

Jamm, ég sem fer í sund á hverjum degi og stundum tvisvar eða oftar ef ég er í góðu formi.

Í sundi í gær spurði ég mig, hvers vegna hreyfi ég mig, borða tiltölulega hollt, æfi hugann með allskonar bókum, gátum og tónlist og tek alla stiga? Svarið var að ég væri að búa mig undir efri árin (það er hreina satt, eitt sinn reyndi ég að komast í kjólinn en nú er markmiðið á að vera tiltölulega hraust þegar ég verð sjötug).

Til hvers vil ég vera hraust sjötug? Er það ávísun á að ég fái að sjá um mig sjálf á allan hátt og losni við að læra að ryksuga sitjandi? Er það ávísun á að ég komist í bað oftar en einu sinni í viku?

Ef svarið er já hversu lengi tryggir það að ég lifi mannsæmandi lífi? Vil ég lifa óhrein? Vil ég lifa bundin í rúm? Vil ég lifa við það að fá einungis að fara á fætur þegar það hentar umönnun?


Tuesday, January 21, 2014

Enn er þíða

Nu hefur lengi verið þíða, í það minnsta hér á suðvestur horninu. Það hefur lítið rignt nema að nóttu og það er enn svo skammur sólargangur að það tekur hægt upp.

Nú eru sígildir diskar í uppáhaldi. Læði einum og einum með frá Sigmundi. Hver annar en hann kaupir tónlist úr myndum? Nei, má ég þá biðja um úrval úr helstu óperum eða allan ljóðabálk Schuberts eða (ég þori varla að skrifa það) heildarsafn með Fritz Wünderlich.

Svona var útsýnið ofan af sjöttu þegar birtu brá.

Monday, January 20, 2014

Marmelaði

Í dag er dagur marmelaðisins, þess gula. Ég hef ekki enn fundið þrusugóða uppskrift að sítrónusultu sem ég gerði nokkrum sinnum og át svo uppskriftina og varð ekki meint af.
Í júlí/ágúst 2013 fann ég svo uppskrift að gulu marmelaði og ákvað að prófa. Það er svona grautur alls þess gula, appelsína, sítróna, greip, aprikósur og ferskja, örlítið vatn og svo sykur. Í haust fór ég í einu og öllu eftir uppskrift, hugsaði ef ég geri hana aftur þá ætti að vera í lagi að breyta þessu og hinu.
Nú gerði ég aftur einn skammt, sleppti ferskjunni, hafði meira af aprikósum og lagði helminginn í bleyti yfir nótt og notaði vatnið af því í sultuna. Dró úr sykri, sem var nú ekki mikill en þurrkaðir ávextir eru lítið annað en sykur.
Aftur varð afraksturinn þrjár krukkur. Nú verður gaman að morgni laugardags. Almennileg heimatilbúin sulta með grófa brauðinu.
Enn hlusta ég á tónlist. Þar sem ég var nokkuð lengi bundin í eldhúsinu valdi ég að ljúka því af sem ég vildi síður hlusta á, setti því disk með Cream á og svo enn og aftur U2. Tónlist U2 er þannig að manni leiðist út í eitt.
Glæsilegt og gómsætt. Ég stilli mig og maula gulrófu, sem er kölluð appelsína norðursins.

Sunday, January 19, 2014

Milt veður

Enn er veður milt og stillt. Þó ýki ég lítið þó ég haldi fram að það taki hægt upp. Enn eru bunkar á götum og gangstéttum og þar sem lítið er farið um þá er ein og íshaf glampi í birtunni. Það sem af er ári hef ég verið ódugleg við að ganga. Hef þó mörg tækifæri til að feta þær brautir sem lítt eru hálar líkt og Laugavegurinn og Skólavörðustígurinn. Líklega er það vaninn einn sem heldur mér heima og letin.
Ég held áfram að leika tónlist, óflokkað úr safni heimilisins. Í dag tók ég fram kassa sem mig grunaði að geymdi ýmsa diska. Það var rétt hjá mér, þar leyndust einnig margir ómerktir diskar. Ég athuga hvernig tónlist er á þeim, eða myndir. Svei mér ef ég fann ekki útgáfu af Rómeó og Júlíu.
Ég tók mynd af fánanum, þar sést vel hve lognið er mikið og að það er enn bjart að verða fimm.

Saturday, January 18, 2014

Helgi

Nú er helgi og allt er gott. Við njótum lífsins. Gætum þess að hneykslast til skiptis svo annað geti verið fordómafullt á meðan hitt glattar út og er víðsýnt og sanngjarnt.
Umræðuefni morgunsins var þorramatur og auglýsingar þar um. Í því tilefni hneykslaðist Sigmundur og tók vini og vandamenn sér til stuðnings. Ég gerði mitt besta til að vera víðsýn og setti mig í spor þess sem rekur kjötborð.
Aftur á móti vorum við sammála um slóðaskap okkar Íslendinga og hve við umgöngumst sannleikann frjálslega þegar innihald og uppruni matvæla er annars vegar.
Verkfærðistofan Verkís er að flytja í Ofanleiti 2. Það fylgir heilmikið af dóti. Ég sem hélt að verkfræðistofa væri þekkingarfyrirtæki og að mannskapurinn tæki mest plássið.

Friday, January 17, 2014

Föstudagur

Föstudagur og mér líður vel. Ég fæ Söndag á eftir og mun gleyma mér yfir honum og öllum hugmyndum sem ég fæ þegar ég fletti fallegu blaði.
Morgundagurinn verður ljúfur, langur laugardagur að mörgu leyti því Sigmundur ætlar að iðka fræði frá hádegi til kvölds.
Kannski æfi ég vöðva og teygi á sinum. Aldrei að vita hvað ég geri.

Það var fallegt að líta út um glugga, sást vel til fjalla allan hringinn. Veður er svo milt og kyrrt. Vonandi verður það svo áfram, þá er veturinn ljúfur. Eiginlega er vetur alltaf ljúfur. Þegar veður eru vond þá er viðkvæðið, það er gott að vetur er vetur og sumar sumar. Þegar vetur eru votir þá er sagt að það sé gott fyrir vatnsforðann. Þegar vetur eru þurrir þá eru allir kátir, nema þeir sem selja tæki og efni til hálkuvarna.

Áðan kættist ég því ég sá vel turn í Straumsvík.

Thursday, January 16, 2014

Við frostmark

Í dag er við það að vera þíða, nú er glerhált. Varla stætt á pörtum. Ég hætti mér út fyrir lóðina og rann til, hvort sem ég var á stétt eða grasi.
Ég hlakka til þess dags þegar ég get óhikað skeiðað um götur og torg.

Það gengur hægt að pakka jólunum. Nú eru þrír kassar hér uppi. Ég kem þeim ekki í geymsluna því hún er full af dóti sem þarf að færa til. Mikið vildi ég að það væri hægt að létta á henni svo ég get snúið mér þar að vild.

Skrítið, eins og það hefur verið undurgott veður undanfarna daga þá hef ég látið vera að flagga. Það hefur ekki skotist í huga mér, þó fer ég út á stétt nokkrum sinnum á dag, gef fuglum, anda að mér hreinu lofti og hirði rusl. Í dag fór fáninn upp, til að fagna því að við erum komin fram í miðjan janúar. Það verður bara bjartara hér eftir. Í gær var bjart fram undir sex, sólin var svo lengi og það var léttskýjað. Það er engin leið að kvarta þegar allt er á betri veg.


Í dag eru myndirnar tvær. Önnur til að fagna fána og hin svo ég muni eftir glerinu fyrir utan stétt.

Wednesday, January 15, 2014

Sólardagur

Ég held áfram að spila þá diska sem við eigum. Við eigum dágott safn og úrval. Nú er gullfallegur diskur í, hann er kallaður huglæg áhrif, 35 leiknar íslenskar perlur. Gríðarlega fallegt og ljúft.

Myndin í dag sýnir að það er alltaf lag fyrir blómstrandi jurtir. Einnig sést að enn eru það sem margir kalla jólaljós uppi, hjá okkur Sigmundi.
Mér finnst riddarastjarna/amaryllis eða hvað sem rétt heiti er, alltaf falleg.

Tuesday, January 14, 2014

Þriðjudagur

Í dag er fjórtándi dagur janúar. Ótrúlega margir sem ég þekki eiga afmæli í dag og það bættist einn við því ég veit að mamman fór í keisara.
Ég held að september sé svona líka, margir sem ég þekki og eiga afmæli einn og sama daginn.
Ég bjóst við að bloggarar og álitsgjafar ýmis myndu aldeilis fara á flug eftir fréttir um að dvalar- og hjúkrunarheimili eigi erfitt með að manna stöður svo heimilismenn fá stundum litla sem enga umönnun eða þá hún er þannig að okkur sem erum heil heilsu og sjálfstæð ofbýður.
Enn einu sinni sannast að við viljum öll verða gömul en engir vilja vera ósjálfbjarga.

Var flott á því í dag. Smurði tvær brauðsneiðar handa fuglunum og skreytti með hnakkaspiki.

Monday, January 13, 2014

Ný vika

Fór á stjá í morgun. Skelfilegt færi. Heppin að vera á bíl. Svona er ég lukkuleg, eiga bíl og geta valið hvort ég geng, nota strætó eða ek sjálf.

Í gær hlustaði ég á disk sem kirkjukórinn á Akranesi gaf út fyrir nokkrum árum. Nú er Tony Bennett allt í kring. Ég á nokkra diska með honum, átti eitt sinn nokkrar plötur. Hann syngur svipuð lög og oft þau sömu og Frank Sinatra en er langt í frá jafn góður.

Frá því fréttir í gær um að á Hrafnistu í Hafnarfirði væri gamalt fólk fest við rúm sín hef ég hugsað mitt. Í sömu frétt var einnig sagt að suma daga væri ekki hægt að koma öllum á fætur. Mér þykir verra að hugsa til þess að það sé möguleiki á því, þegar ég verð ósjálfbjarga að vera föst í rúmi allan sólarhringinn því það sé enginn sem getur hjálpað mér á fætur. Aftur á móti geri ég mér grein fyrir að það getur stundum verið nauðsynlegt að festa fólk við rúm þó er það aldrei gott afspurnar.


Þessi mynd er tekin á sama stað og sú sem birtist í gær. Það tók ótrúlega mikið upp seinnipartinn í gær og í morgun. Nú spáir frosti svo það verður glæra, ef ekki þornar.

Sunday, January 12, 2014

Todmobile eða eftirstöðvar fagnaðar

Todmobile og sinfónían. Gerist vart betra. Þegar það er spilað finnst Sigmundi hann vera á leið í Veiðivötn að vetri til. Ég brosi.
Við hlustuðum á tvær plötur með Rod Stewart í tilefni af afmæli hans.
Gærdagurinn var hreint frábær. Tvær afmælisveislur, önnur kökuveisla um miðjan dag og svo fagnaður, matur og allt sem hægt er að hugsa sér um kvöldið.

Þessa dagana langar mig lítið til að hafa skoðun á landsmálum eða nokkru yfirleitt. Ég vil helst brosa og njóta. Þess vegna er svo gott að það kom tvöfaldur skammtur af dönskum blöðum á föstudaginn. Alltaf gott að lesa, skoða, horfa, láta sig dreyma.

Snjótittlingarnir hrekjast til og frá undan vindi. Ég náði þó mynd af þessum hóp.

Saturday, January 11, 2014

Snjór í kjölfar þíðu

Það snjóaði grimmt í gærkvöldi, eftir rigningu og slyddu. að vísu frekar lítið en lengi. Svo frysti þannig að það er hörð skel yfir öllu.
Fuglarnir eru í vandræðum, ná illa niður úr skelinni. Nú eru flokkar af snjótittlingum á hólnum. Fljúga upp og niður. Ég hef ekki náð hvaða hljóð þeir fælast eða hreyfingu.

Friday, January 10, 2014

Þíða


Nú er safndiskur Rod Stewart í spilaranum. Mörg flott lög með honum. Í gær spilaði ég einnig eitt af mínum uppáhalds Peter&Gordon, aðeins Count Basie og Tony Bennet og svo Regínu Ósk. Sá diskur fer afar sjaldan úr hulstrinu.

Í þíðunni brá ég mér í nudd og nálastungu. Hún Dagmar nær að halda mér nær einkennalausri af bólgu í herðum og hálsi og hún reynir hvað hún getur til að minnka doða í læri. Þar sem ég sat og beið eftir hennir, var aldrei þessu vant á fyrra fallinu, fletti ég Viku frá því sumarið 2013.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að í vikunni var ég samferða svo flottri konu, í strætó. Fyrst biðum við saman á stoppistöð og svo spjölluðum við þann spöl sem við áttum samleið. Gríðarlega flott kona, á óræðum aldri. Skemmtileg að auki. Þar sem ég fletti Vikunni sá ég örugglega mynd af henni. Ég hlakka til að hitta hana aftur.

Mynd dagsins er af knúppum á jólarósinni, ég bíð spennt eftir að hún blómstri. Mér fundust þeir vel á veg komnir í nóvember, mér finnast þeir þrútnir núna í janúar. Það verður gleði þegar knúpparnir springa út.

Thursday, January 09, 2014

Enn af tónlist

Í gær hlustaði ég á diskinn Louis Armstrong Swing your cats. Það er alltaf gaman að rifja upp kynni af jazz. Nú er Guld&Grönne Skove í loftinu, Kim Larsen í góðu formi. Einu sinni fór ég á tónleika með honum, í Danmörku. Stóð á leikvangi í fleiri klukkutíma. Var alveg búin á því. Þó ég hafi gaman af honum þá er ég hætt að fara á tónleika sem eru svona, standa, vera úti, vera í þröng eða svo mikill hávaði að höfuðið fer alveg í rugl.

Nú er hávetur, rétt vika búin af nýju ári. Það er mikið rætt og skrifað um færð, hálku, vetrarþjónustu. Hvað er Vegagerðin að hugsa? Getur það verið að við eigum að sætta okkur við að það geti verið erfitt að komast milli staða eða að það þurfi sérbúna bíla og kunnáttu í vetrarakstri? Hvað með útlendingana? Getur verið að þeir verði að sætta sig við það sem Íslendingar hafa búið við?

Skynsamlegast væri að loka aðgengi að Gullfossi og Geysi í þrjá til fjóra mánuði á ári, yfir vetrartímann. Kannski einnig að vori þegar frost fer úr jörðu. Líklega mætti heimfæra þetta upp á fleiri staði.

Ég hef þá trú að meira að segja útlendingar skilji að það er munur að ferðast um landið eftir því hvaða árstíð er. Kannski eru margir Íslendingar sem skilja það ekki.

Ég gef fuglum, í vetur hefur ein gæs sótt í fóðrið. Ég er alveg viss um að það er alltaf sama gæsin, annars væri flokkur.

Wednesday, January 08, 2014

Tónlist

Undanfarið hef ég rifjað upp tónlist.
Fyrir jólin hlustaði ég á alla tónlist sem við eigum og tengd er jólum. Tók kerfisbundið, skildi engan disk eftir. Fyrstu daga á nýju ári tók ég mér frí, var í þögn nokkra daga. Nú hef ég aftur byrjað. Í gær fóru tvær plötur - í spilarann (auk disksins með úrvali Golden Gate kvartetsins sem er algert eyrnakonfekt). Fyrri platan var Tösedrengene, úrval frá ferli þeirra. Þá rifjaði ég upp fyrsta árið á Bifröst en Steinunn Kolbeins notaði tónlistina til að fá okkur til að vera í það minnsta jákvæð gagnvart einhverju. Eftir það fór diskur með Lis Sörensen í loftið, gott úrval danskrar tónlistar. Nú spila ég disk sem ber nafnið Selv en dråbe, gefinn út til styrktar flóttamönnum. Þá mundi ég eftir því þegar Barði var í Verzló og fékk danskan nema í heimsókn og fór einnig til Danmerkur.
Af því tilefni tók ég myndir af nánasta umhverfi.
 Eitt sinn var Háskólinn í Reykjavík í þessu húsi, því með rauðu plötunum. Nú eru þar höfuðstöðvar Verkís og málaskólans Mímis. Vinstra megin við O2 er það sem eitt sinn var kallað Morgunblaðshöllin (eftir að blaðið fór úr Aðalstræti þar sem höllin var í raun). Nú eru umboðsmenn skuldara og barna þar auk Vinnumálastofnunar.
Hér sést Verzló hægramegin við O2. Fáir bílar á stæðinu enda er degi farið að halla.

Tuesday, January 07, 2014

Nýtt ár

Hverju ári fylgja ný fyrirheit og ný tækifæri.
Árið 2014 er í engu ölíkt fyrri árum hvað það varðar. Nú í byrjun janúar hef ég litið yfir framboð af námskeiðum. Mig langar að læra örlítið í frönsku, nóg til að segja að ég kunni enga frönsku og skilji eiginlega ekkert en ég sé góð í íslensku og dönsku. Biðja um hjálp með því móti. Þær námskeiðslýsingar sem ég hef séð segja allar að farið verði í undirstöðuatriði málfræði, það langar mig ekkert til að gera. Ég veit að með málfræði að vopni þá næ ég ekki því sem ég ætla mér, að vera kurteis en kunna enga frönsku.
Þá tók ég þýskuna fyrir. Hana er hægt að læra á ensku út í endurmenntun HÍ. Því nenni ég ekki. Svo fann ég námskeið í talaðri þýsku, en fyrir það þyrfti að vera búið að taka þýsku I og II. Ég skráði mig í þýsku II, nenni ekki að rifja undirstöðuna upp, ég get gert það hér heima, rennt yfir málfræðina og svoleiðis.
Ef þið spyrjið ykkur hvers vegna ég er að hugleiða tungumálin þá er svarið að við Sigmundur höfum ferðast nokkuð um vestanverða Evrópu og ætlum að halda því áfram. Þá þarf að kunna kurteisi í frönsku og allt í lagi að rifja þýskuna upp, ég var orðin nokkuð góð í henni þegar IRCið var upp á sitt besta.

Fyrir nokkrum árum kom Sigmundur heim með kökubox handa mér, innpakkað og fínt. Ég er reglulega skotin í því. Í desember kom hann með jólasveina sem eru svo fínir.