Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, June 26, 2012

Að loknu ættarmóti

Dagana 22. til 24. júní hittust afkomendur föðurafa míns og ömmu að Þingborg. Fyrirvarinn var langur, boðað var til mótsins fyrir tveimur árum, staður og stund gefinn upp. Svo var að bíða, undirbúa og þreyja þorrann og góuna.Síðastliðið haust var ég ákveðin í að vera tvær nætur, hef ávallt verið á laugardegi og farið heim að loknum kvöldverði. Nú ætlaði ég að vera í tjaldi/tjaldvagni/hjólhýsi/fellihýsi eða bara hverju sem var. Tjaldvagn fékkst að láni hjá Rafiðnaðarsambandinu. Við Sigmundur fórum austur að Þingborg að morgni föstudags, vorum komin um níu, völdum okkur stað og svo var farið að reisa. Líklega var gott að við vorum tvö ein því við náðum ágætri þjálfun í þolinmæði og hlátri. Okkur gekk ekkert að láta tjaldvagninn tolla uppi. Þar að auki var hann með þeim annmörkum að fyrir báðum hliðum var stöng sem þveraði dyr þær sem fortjald var fest á. Ég þvertók að ganga um þær, það væri ekki bjóðandi að verða að bogra í hvert sinn sem ég ætlaði inn í svefnrýmið, og þar sem Barði ætlaði að vera með mér í vagninum þá hafði ég hann auðvitað í huga. Sigmundur var viss, þetta væri svona í öllum tjaldvögnum. (Þið hljótið að gera ykkur grein fyrir að við erum byrjendur í faginu). Eftir mikla mæðu, mörg símtöl og þökk sé nýjustu tækni, myndsendingum, þá kom í ljós að stöngin sem þveraði dyrnar átti að vera efst í vagninu og þá var líka allt eins og það átti að vera.
Til Reykjavíkur komum við brosmild og létt. Svo fór Sigmundur að útbúa veiðiferð og ég að pakka fyrir helgina. Austur fór ég aftur þegar Barði var búin að vinna.
Við vorum svo heppin að okkur sópaðist ágætis sambýlungar. Palla, Olga, Eiki og Benni Axels. Allir hinir voru á öðru svæði, þó á Þingborg. Það var heitt, sólríkt og lygnt. Við komum flest rauð og sælleg heim aftur, sum rám og aðrir skakkir. Það liggur við að óþreyjan sé svo mikil að ég sé farin að bíða eftir næsta móti.

Jæja, garðurinn er í blóma. Hortensían er falleg, beykið afburða flott. Anemónurnar eru að ljúka fegursta tímanum. Írisinn er vænlegur. Fucshian er flott og sú færeyska er svo girnileg, að vísu sé ég enga knúppa en þeir koma. Matlaukurinn er afar státinn, vorlaukurinn er þokkalegur og hugsanlega verður eitthvað úr sólblómunum sem ég sáði. Þá verður gaman að sjá hvort það koma ber á kirtilrifsið, ég ætla að prófa að búa til sultu úr því. Ummmm, ber. Ég er farin að láta mig dreyma um bláber, krækiber og annað góðgæti.

Thursday, June 21, 2012

Sambandsleysi

Skrifað í tómið, fyrir skúffuna, fyrir eigin heill.
Ég skrifa og skrifa en verð ekki vör við að nokkur lifandi sála skoði skrifin, lesi eða sjái. Viðbrögðin eru engin. Það er svo sem allt í lagi en hvers vegna skrifa ég þá á vefinn? Hvers vegna geymi ég skrifin þar í stað þess að eiga kompu í skúffu eða skrá á sameign? Það er svo langt í frá að mig langi að vera skúffuskáld en ég finn að ég verð að þjálfa skrifgenið. Þjálfa mig í að setja orð saman svo þau hljóði þokkalega vel á prenti. Hugsun er líka mótaðri ef hún fer á blað/skjá en þegar hún veltist eingöngu í höfði manns.
Þegar ég fór til Kaupmannahafnar í janúar fór ég á sýningu um sorp, fór meira að segja tvisvar sinnum (hef skrifað um það fyrr hér á vefnum). Um líkt leyti bað umhverfisráðuneytið þjóðina að koma með tillögur að því sem hún vildi sjá í nýjum lögum um úrgang. Ég sendi efni í nafni Sigmundar. Nú eru drög að frumvarpi til laga á vef ráðuneytisins. Jafnhliða því kom bréf til Sigmundar þar sem honum var boðið að senda umsögn um lögin. Líklega hefði verið skemmtilegra að segja honum frá því að hann hafði áhuga í janúar/febrúar. Í gær skildi hann nefnilega lítið í því að hann væri sá sem ráðuneyti sendu drög að frumvörpum til umsagnar.

Wednesday, June 20, 2012

Af erlendu bergi brotið

Útlend, af erlendu bergi brotið, erlend, af öðrum kynþætti, innflytjandi, landnemi, aðkomumaður.
Allt eru þetta orð sem lýsa því að einhver eða eitthvað er nýtt í umhverfi. Líklega eru til fleiri orð yfir fyrirbærið sem sumir telja þróun til framfara á meðan aðrir sjá svartnætti og stöðnun.
Ég er svo heppin að móðir mín er færeysk. Ég er svo heppin að þekkja marga, konur og karla, sem eru af öðru þjóðerni en íslensku í aðra eða báðar ættir. Ég er líka svo heppin að búa í landi sem var að því ætlað er nær mannlaust fram undir árið 800. Ég er líka svo heppin að þeir sem námu land komu með mörg dýr með sér (kindur, hesta, hunda, ketti, hænsn og svín svo eitthvað sé talið). Þeir komu einnig með fræ og minni dýr sem þykja ómerkilegri eins og lús og rotta.
Í Landnámu segir að við landnám hafi land verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Það hefur nokkuð verið rætt og ritað hvað það þýðir. Líklega hefur viðurinn verið hefðbundinn íslenskur birkiskógur, rétt rúmlega mannhæðar hár (muna Palla er mannhæðar há). Allt fram undir 1950 vorum við dugleg við að nýta við sem óx hér til að hita hús, til að fóðra skepnur og til að einangra hús. Við gengum freklega á trén og annan gróður. Landið blés upp, einnig vegna eldgosa, öskufalls og flóða. Gróðurþekjan varð sífellt rýrari og þynnri. Svo fórum við að ræsa fram land. Stórar áveitur líkt og Flóaáveitan gerði Flóann í neðanverði Árnessýslu að því ræktarlega héraði sem nú er. Áveitur voru einnig gerðar í Borgarfirði, Skagafirði og Eyjafirði. Skurðir hér og þar til að veita vatni af landi svo hægt væri að rækta gras eða annað fóður fyrir búpening. Við þetta skertist land sem fuglar og önnur votlendisdýr þurftu. Sumum tegundum fækkaði, aðrar hörfuðu. Nýjar tegundir numu land eða komu í stað þeirra sem fóru.
Með tuttugustu öldinni og ungmennafélags andanum, skátum, samvinnuhreyfingunni og fleiru urðu menn stórhuga. Langaði til að ræka annað en sauðfé og gras. Þá var farið að flytja skipulega inn ýmiskonar gróður, bæði fræ og plöntur. Einnig voru fluttir inn minkar og kanínur. Þá hætti íslenski fjárhundurinn að vera einráður, allskonar tegundir bárust til landsins. Meira að segja önnur kyn nautgripa voru ræktuð á sérstöku búi í Hrísey (liklega Galloway).
Við fögnum ýmsu t.d. litfögrum fuglum sem sumir syngja áheyrilegar en hrafninn. Við fögnum ýmsum gróðri til dæmis hindberjum og kirsuberjum (hindber lifa villt og skríða mikið á meðan kirsuber vilja skjól). Við elskum kanínur sem skjótast um holt og móa en hötum mink sem fer sömu leið. Við erum hughrifin af því að nú eru mörg býflugnabú á landinu en bölvum lúpínu í sand og ösku (þar gerir hún líklega mest gagnið). Við tölum um okkur sem fjölmenningarsamfélag en óttumst að það verði of margir útlendingar miðað við hreinræktaða Íslendinga.
Ef ég væri spurð hvort ég væri andvíg frekari innflutningi landnema af hvaða tagi sem þeir eru þá væri svarið nei. Ef ég væri spurð hvort ég væri fylgjandi því að hingað kæmu tíu þúsund litaðir menn á einu bretti sem yrðu íbúar landsins þá væri ég andvíg því. Ef ég væri spurð hvort ég væri með því að útrýma lúpínu með öllum tiltækum ráðum væri ég harður andstæðingur þess. Ef ég væri spurð hvort ég vildi hreint Ísland í meiningunni Ísland fyrir Íslendinga (karla, konur, skepnur og gróður) væri ég dolfallin yfir vitleysunni.

Tuesday, June 19, 2012

Grænn lífsstíll

Ég væri til í grænan lífsstíl, grænni en ég lifi nú.
Mig langar að nota bíl minna og fætur meira. Mig langar að hafa minna af umbúðum. Nota meira af innkaupatöskum og endurnýjanlegu efni. Mig langar að jarðgera jurtaleifar. Mig langar að gera svo margt.
Ég veit að það er skynsamlegast að byrja með smáum skrefum. Festa þau vel og halda á. Þetta er líkt og með mat og hreyfingu til að vera sem næst í kjörþyngd og vel á sig kominn. Ég veit, ég skil en geri minna.
Hugsanlega er ein leið að finna allt það til sem ég geri nú þegar og bæta við hugmyndum sem ég gæti bætt við. Þá ætti vistvæni, græni lífsstíllinn smátt og smátt að verða með yfirhöndina. Líklega ætti ég að gera eins með mat og  hreyfingu. Horfa á það sem ég geri nú þegar rétt og bæta við því sem gott væri að tileinka sér.

Í dag á Gunnar frændi minn afmæli. Hann er 46 ára. Ég man eiginlega alveg þegar hann fæddist. Ég man hve mér fannst hann flottur og fínn, alveg frá fyrsta degi. Við vorum líka samrýmd í fleiri, fleiri ár. Fórum um alla móa og hæðir við Hveragerði.
Í dag er einnig dagur kvenréttinda en 19. júní, 1915 fengu íslenskar konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Við vorum seinni á ferðinni en konur í mörgum öðrum löndum.

Monday, June 18, 2012

Úlfljótsvatn

Úlfljótsvatn og Ljósafoss. Nú kom ég í fyrsta sinn á ævinni að Úlfljótsvatni, hef oft farið framhjá en aldrei niður að miðstöð skáta, hvað þá stigið fæti úr bíl. að Ljósafossi hef ég komið áður og ávallt haft jafn gaman að. Stöðvarnar í Soginu hrífa mig óendanlega mikið. Nú er sýning, saga skáta, í stöðvarhúsinu við Ljósafoss. Þetta er samvinnuverkefni Landsvirkjunar og skáta. Grétar var alveg viðþolslaus, hann langaði svo að fara og fá kakó og kex á Úlfljótsvatni. Til að friðþægja mig var komið við hjá Ingibjörgu í Hveragerði og keyptar nokkrar gulrætur. Svo var haldið á.
Ég get vart annað en hlegið. Enn og aftur er ég á góðviðrisdegi að skælast um Grafninginn. Ég man hve pabbi var hrifinn af Grafningnum. Þegar við fórum í bíltúr þá vildi hann fara í Grafninginn. Þegar maður fer þar þá er engin sjoppa (Þrastarlundur er í Grímsnesinu). Þegar ég var barn var sjoppa upp við Ingólfsfjall þar sem afleggjarinn niður á Selfoss var (mig minnir að hún hafi verið kennd við Hildiþór). Svo var ekkert nema íslensk náttúra og malarvegir. Náttúran er enn á sínum stað sem og mölin. Ægifagurt, sérstaklega í sól og logni. Mig langaði að ganga, fara úr bílnum og ganga. Það gerðum við ekki, einungis farið til að skoða sögu skáta.
Jú, ég verð að segja frá því. Við fórum einnig í Ölfusborgir. Grétar er einn þeirra sem stóð fyrir byggingu sumarhúsa stéttarfélaga. Hann vildi gjarnan sjá hús bókagerðarmanna (bókbindara eins og það hét hér áður). Hann fór úr bílnum, gegnum kjarr og að húsinu. Þegar við komum þangað þá hélt ég að hann myndi stoppa, horfa og fara aftur í bílinn. Nei, það var að skoða. Sá gamli fór að húsinu, skoðaði allt sem hann gat og leit inn um glugga. Alveg sama þó það væri verið í húsinu. Það er alveg ljóst að við verðum að reyna að fá bústað eina helgi í haust og vera með honum, þó það væri ekki nema dagstund. Við ætluðum að gera það síðastliðið haust en það fórst fyrir. Haustið 2011 fór eiginlega í ekkert nema vinnu og veikindi (sleppum alveg að ræða og skrifa um skemmtilegt ferðalag til Oslóar, annað til Hirtshals, ferð í sumarhús í Skagafirði, aðra á Apavatn og svo Skagafjörðurinn með bæjarstjórum).
Roberto langar að koma til Íslands 2014. Þá eru 20 ár síðan hann fór heim úr skiptinemaárinu. Það er svo stutt síðan en þó hefur margt breyst. Það verður gaman að fá hann í heimsókn. Skrítið að hugsa til þess, hvað skyldi hann vilja sjá, rifja upp og muna.
Að morgni 17. júní fórum við með Grétari og Ingu niður í bæ. Röltum um og skoðuðum. Lentum í því að dagskráin fór úr skorðum, athöfnin í Dómkirkjunni var búinn fyrr en áætlað var og þá var öllu breytt til samræmis. Við vorum langt í frá þau einu sem misstum af því sem við vildum sjá og heyra vegna þess að hraðinn var svo mikill. Nema, við fórum á Jómfrúna og fengum okkur brauð og te/kaffi. Ávallt gott brauð þar.  Svo var bíltúr um vesturbæinn, höfnina og alveg upp í Boðaþing þar sem DAS byggir íbúðir aldraðra. Haukur vinur Grétars og Ingu er að flytja þangað. Útsýnið er stórkostlegt, eiginlega stórfenglegt, man þó ekki eftir að sjá Keili. Grétar og Inga fundu eitt að, það er langt í strætó. Þau vilja eiga heima þar sem er stutt í strætó. dadada, rarara, I love you baby.

Friday, June 15, 2012

Föstudagur

Yndislegur dagur. Veður milt og rakt. Það stefnir í að hiti dagsins verði yfir tíu stigum. Það er yndislegt, ég verð í garðinum og vökva. Áður en ég fór í vinnu tók ég ofan af fuchsíunni og vökvaði hana vel. Palla systir mín segir að raki að morgun dags geri mikið fyrir jurtir.
Veðurspár gera ráð fyrir hæglætisveðri, lítilli úrkomu og frekar lágum hita.

Er frekar sprungin og hef lítið hugmyndaflug. Eins gott að það eru einungis tveir dagar eftir í sumarfrí. Þegar ég fer í frí ætla ég að gera margt t.d. drolla eins lengi og ég vil, fara það sem mig langar og vera í sundi þegar mig langar. Þetta hljómar nú eins og að þegar ég er í sundi þá hafi ég ekkert farið. Ég velti ýmsu tengdu heilsufari fyrir mér. Klárlega borða ég of mikið, of stóra skammta. Hugsanlega borða ég rangt en held þó að það sé frekar of stórir skammtar en of mikil óhollusta. Ég hreyfi mig alltof lítið, í vetur hreyfði ég mig ekkert í fleiri mánuði. Nú er ég orðin svo þung að ég hef áhyggjur, það hlýtur að skila sér í slakri heilsu. Ég hef verið dugleg að synda. Þegar ég fer í Laugardalslaug syndi ég 600 metra í beit, fer svo í potta og tek 50 metra á bakinu. Árbæjarlaug er milli kílómeters og 1200 metra. Mikið betri laug á allan hátt. Ég er stolt eins og páfi þegar ég næ að synda þar. Nú þarf ég að fara að ganga. Raunverulega að ganga. Ef ég verð góð í sumar og tem mér hreyfingu þá ætti ég að fara vel inn í haust og vetur og halda áfram þar. Best væri ef ég færi í yoga samhliða því þá næ ég teygjum og slökun. Hvernig væri að gera plan til tveggja til þriggja ára. Setja stefnuna, hafa vörður og mælikvarða. Sigmundur fer í æfingar þrisvar í viku og hefur gert í tvö og hálft ár. Hann hefur styrkst allur og er nokkuð stæltur. Ef við minnkuðum bæði skammtana þá myndi hann léttast. Tala ekki um ef hann færi með mér í gönguferðir. Ef ég geri plan ætti ég að hafa eina af vörðunum að ná Sigmundi með mér í gönguferðir?

Elska lífið og ætla inn í helgina með bros á vör. Á sunnudag er 17. júní, sá dagur er í hávegum hafður.

Thursday, June 14, 2012

Útivera og garðrækt

Ég hef gaman af garðrækt. Uni mér löngum stundum í garðinum og við lestur og skoðun rita, blaða og bóka um allskonar gróður. Einna helst að matjurtir séu sístar og allt hitt áhugavert. Þó get ég tekið rósir, begóníur og fleira slíkt frá.
Ég hugsa um næringu, áburð og vatn, og skordýr sem leggjast á gróður. Fyrir tveimur árum var ryðsveppur í birkinu. Þá þurfti að gefa sérstakan áburð til að auðvelda trjánum að búa sig undir veturinn. Ryðsveppurinn eyðileggur nefnilega blöðin og þá er hættara við kalskemmdum ef ekkert er að gert. Mér fannst sveppurinn vera lítill í fyrra en trén voru langt frá sínu besta. Ég skellti skuld á kuldatíð í maí og júní.
Núna get ég horft og þuklað á gróðrinum nær daglega. Ég sé að það er enn ryðsveppur svo ég gæti mín í áburðargjöf þriðja árið í röð. Ég finn lítið af lús en þeim mun meir af maðki. Held það séu þrjár tegundir, ein fagurgul, önnur svört og sú þriðja grá og slepjuleg. Enn sem komið er hef ég ekki tekið eintök með mér inn og greint. Læt það vera. Birkismugan gæðir sér á laufblöðunum að vild. Þegar ég tók fyrst eftir henni skildi ég lítið hvað var að gerast. Laufblöðin bólgnuðu og urðu brún. Ef ég tók þau í sundur þá var svartur salli og ekkert kvikt. Lirfur fiðrildis smjúga inn í blöðin og éta það innan frá. Fiðrildið er lítið og óásjáanlegt. Á ferð snemma vors og lirfurnar hljóta að vera smáar því ég hef aldrei fundið þær inn í blöðunum.
Í garðinum eru tveir þyrnar, hélu og brodd. Þeir hafa ekkert breyst, frekar rýrnað og visnað á þremur árum. Svo bætti það lítið að Sigmundur tróð á þeim í vetur og braut. Ég horfði og horfði, hugsaði nú er þetta búið. Fann að þeir eru seinvaxnir, en, en. Svo allt í einu taka þeir við sér. Ný blöð og brum, kvistir og allt. Ég held að ég nái þessu vart. Nú vona ég að veturinn verði þeim góður svo að þeir haldi áfram að braggast.

Wednesday, June 13, 2012

Sagan gamalkunna

Ég hef dálítið hugsað um æsku mína í Hveragerði. Hef gert það frá því ég skrifaði pistil um hana í blað sem kemur út í Hafnarfirði eða kom út síðast liðið haust. Nafnið er gleymt en það með tilbrigði af Hafnarfirði. Það hafa orðið miklar breytingar á bænum síðan ég ólst upp í þorpi. Lóðirnar voru gríðarstórar og margir sumarbústaðir. Götur voru eðlilegar án þess að bundnu slitlagi hafði verið skellt á. Mig minnir að það hafi verið nokkuð um brekkur og lægðir í miðjum bænum en nú eru einu brekkurnar upp úr Hveragerði innað Friðastöðum og að Laugarskarði og Reykjum. Meira að segja þær brekkur hafa verið flattar út.
Ég hef velt fyrir mér hvort ég eigi að teikna upp það Hveragerði sem ég man eftir, einskonar kort. Hlutföll eftir minni, meira lagt upp úr að skrá á reiti hver átti heima og hvað var en að málsetning sé eftir fullkomnustu stöðlum. Ég fer í þetta milli innri endurskoðunar, bókbands, lögfræði, sunds og yoga.



Þessa mynd fann ég á vefnum. Sæmundur Bjarnason er með hana á bloggi sínu, blogg nr. 180. Myndin er líklega frá 1946 eða ellefu árum áður en ég fæddist. Myndin sýnir því vart það þorp sem ég þekkti sem barn en er mikið nær því en bærinn er í dag. Sjáið malarnámurnar fremst! Ég man vel eftir þeim. Ljósa skellan í miðjunni er hverasvæðið. Er óviss hvar húsið sem ég fæddist í er. Ég þekki húsið sem húsmæðraskóli Árnýjar Filipussar var í, það er fyrir miðri mynd með turni.
Í nokkra mánuði hef ég verið dálítið ónóg sjálfri mér. Eftir tvær pestir síðastliðið haust er eins og þrek hefur hvorfið og mér gengur illa að ná því upp aftur. Ef ég geng eitthvað að ráði stend ég lengi á öndinni af hósta. Get synt, syndi eins og hetja en má illa við sprettum, þá er þrekið farið. Palla hefur ítrekað spurt hvort ég ætli ekki í heilsutékk. Ég hef alltaf sagt já, er á leiðinni, ég fer eða eitthvað slíkt.
Í gær ákvað ég að hafa samband við Hjartavernd, gæti fengið tíma með haustinu þegar ég væri búin að synda og ganga, kæmi betur út úr prófum og allt væri í lagi. Til að gera langa sögu stutta þá var hringt í mig áðan og mér boðinn tími nú á föstudag. Svo, ég fer í fyrri hlutann núna strax og seinni tímann, sem er viðtal við lækni, með haustinu.
Auðvitað ætlaði ég ekkert að fara fyrr en ég væri búin að koma upp þreki, léttast og taka á mataræðinu. Veit að það verður sett út á þyngd og hreyfingarleysi. Eins gott að þrýstingur og blóðfita verði innan marka. Annars þarf ég að hugsa um hvað ég set ofan í mig, af fullri alvöru, ólíkt því sem nú er þegar ég gæti að því þegar mér hentar og hreyfi mig þegar ég nenni.
Sagan endalausa er á þann veg að það eru örfáir sem komast upp með að éta alls konar góðgæti að vild og hreyfa sig lítið sem ekkert. Allir hinir verða að gæta að heilsunni. Það er best gert með hreyfingu, útveru og aðgát í hlutfalli þess sem borðað er og brennslu.

Tuesday, June 12, 2012

Nýr dagur

Nýr dagur ber með sér von um nýtt líf.
Vor og snemmsumars er erfitt að sjá mun dags og nætur hér á landi. Enda virðist allt vera iðandi af lífi, ekki síst á nóttu.
Fyrir nokkrum árum fórum við Simmi í gönguferðir seint að kvöldi, komum heim um tvö til þrjú að nóttu. Það var ótrúlegt að vera úti í bjartri nótt. Heyra hvernig allt hljóðnaði og vaknaði svo aftur. Nú ætlum við að hefja leikinn aftur. Rölta í kringum Helgafell, Valahnúka og fleiri áhugaverða staði í nágrenni Reykjavíkur. Fara svo heim og sofa í birtunni.
Dagurinn er einnig nýr að því leiti að í gær var ég með ferlegan höfuðverk, gat lítið synt. Jesúsaði mig milli ferða og hélt fyrir augun. Gat þó horft á einn þátt í sjónvarpinu og rétt byrjað á SÍBS blaðinu sem allt var um mataræði. Bábiljur og staðreyndir. Fann góða stellingu og sofnaði. Svaf til morguns. Er betri en þó með seiðing. Ef ég hefði verið í vinnu hjá Rannís þá hefði ég verið heima í dag. Svo get ég illa verið heima vegna höfuðverkjar  þegar ég á tíma í klippingu og viðtal hjá samfrímúrarareglunni á Íslandi.
Í gærkvöldi lét Simmi úðara ganga yfir garðinn. Ég sagði honum að það þyrfti ekki að úða stéttina, þó þurfti að leiðrétta staðsetninguna því honum fannst litlu skipta þó allt yrði hundblautt þar á meðan ég hafði aðra skoðun.

Alþingi okkar er í hraðri afturför. Þingmenn láta eins og þeir séu leikarar í Leiðarljósi eða einhverri annarri dægursyrpu þar sem hægt er að segja, gera, fara, lifa án þess að áhrif á samhengið verði mikið. Bara skrifaðir út úr handritinu um tímasakir eða til fulls og enginn verður var við nokkurn skapaðan hlut.
Þingmenn hafa lengi sagt mér að ég hafi ekki vit/þor/getu/hæfni/færni/þekkingu eða annað til að greiða atkvæði um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Aftur á móti vilja þeir eindregið að ég greiði atkvæði um hvernig afgjaldi fyrir fiskveiðiauðlindina verði háttað sem og gang viðræðna um aðild landsins að ESB.
Þrjú stór mál sem þeir tefja í það óendanlega. Aftur á móti er hægt að afgreiða með hraði ýmsar tillögur sem eru síst áhrifaminni.
Skrítnast af öllu þykir mér þó að það sé Steingrími Joð að kenna að kostnaður vegna Sparisjóðsins í Keflavík lendir á íslenska ríkinu og þar með skattgreiðendum. Voru engar innistæðutryggingar fyrr en hann varð ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur? Tók ríkið enga ábyrgð á fjármálafyrirtækjum fyrr en Steingrímur Joð tók við málum þeirra í ríkisstjórn? Svo er líklega hægt að deila um keisarans skegg fram og til baka en ég hef þá staðföstu trú að íslenska ríkið hefði ávallt þurft að bera nokkurra milljarða kostnað af falli Sparisjóðsins, sama hver væri ráðherra bankamál.

Monday, June 11, 2012

Týnd grein

Ég hef týnt grein. Skrifaði eina að kvöldi föstudags en sé hana hvergi núna. Það kemur varla að sök því ég man lítið um hvað hún var svo ég skrifa aðra.
Ég er byrjuð á nýrri bók, er með þrjár í takinu auk ógrynni af fræði ritum. Bókin sem ég byrjaði á seinnipart laugardags er dönsk, titillinn er Den lukkede bog.  Áður en ég opnaði hana þá veltist titillinn í höfði mér. Um hvað er bókin, hvað er á bak við titil sem þennan. Það sem er sem lokuð bók skilur mannveran illa. Er það merkingin eða er merkingin óhreinn þvottur sem hefur verið lokaður niðri í langan tíma? Svona þöggun? Ég er byrjuð og hef gaman að. Það er farið fram og aftur í tíma, ætli það séu ekki um fimmtíu ár. Ég viðurkenni að mér hefur oft fundist það verra en ég held ég lifi það af núna. Þó mun ég lesa The Great Game fyrir svefninn og Den lukkede verður yndislestur með tekrús.
HD eða háskerpusjónvarp/útsendingar er eitthvað alveg nýtt en þó þekkt og nær því gömul tækni. Nú er tækninni haldið stíft fram, meira að segja opnar kynningarrásir þar sem HD er. Ég (við Sigmundur) erum með sjónvarp sem þótti aldeilis fínt 2003 eða þar um bil, heimabíó og alles, flott grá túba. Við erum einnig með sjónvarp í gegnum símann og höfum þar aðgang að nokkrum stöðvum og því sem nefnt er vod. Við eigum einnig harðan disk og við getum tekið upp efni og geymt.  Að vísu höfum við aldrei lagt okkur fram um að læra hvernig tekið er upp af öðrum rásum en íslenska ríkissjónvarpinu. Það hefur enn ekki komið að sök. við eigum um 100 þætti eða myndir sem við eigum eftir að horfa á. Erum búin að gleyma hvers vegna okkur þótti sumt áhugavert. Efnið sem er á vod hverfur í eterinn því við náum ekki að horfa innan tveggja vikna. Nú er Borgen komin í steik. Við tókum ekki upp og þáttur hvarf af vod. Hvað gera bændur þá? Ho,ho, út á stétt með te og vindil, rætt um blaðlýs og maðka. Lífsins notið með nið borgarinnar í eyrum og sólarljós glampandi á gler.
Á einni svona kyrrðarstund ákváðum við að kaupa sjónvarp þegar túban væri orðin léleg. Ef við verðum léleg á undan túbunni þá verður einnig keypt nýtt. Á meðan við horfum svona lítið þá er engin þörf á að kaupa nýtt.
Í dag hlustaði ég með öðru eyranu á þátt um mat. Sagt var frá því þegar MacDonalds (held það sé skrifað svona) kom til Rómar (þið vitið skyndibitakeðjan). Mótmælt var með því að pasta var soðið fyrir utan og gefið bragð, pasta er ítalskt vað viðkvæðir, skyndibitinn sem boðið verður upp á er EKKI ítalskur. Þeir sem mótmæltu sögðust ekki vera Makkar. Þeir vöktu litla athygli. Sagt var frá einum sem fór heim og hugsaði málið. Hann fór að skrifa og skilgreina hvað hann væri í stað þess að taka til það sem hann er ekki.
Sagt var frá Sophiu Loren, einni fallegustu konu sem til er. Hún segir að við eigum að borða það sem við ólumst upp við. Borða saman á kvöldin. Njóta matarins. Borða það sem tilheyrir okkar héraði og árstíðum.

Að því rituðu ætla ég að fá mér vatn að drekka og tygja mig til heimferðar með viðkomu í sundi. Í kvöldmat verður baunaréttur með grænmeti alls staðar að úr heiminum.

Thursday, June 07, 2012

Stjórnmál

Nú er mikið barist á þingi, í fjölmiðlum og fundum hér og þar um landið.
Umræðuefnið og baráttumálið er stjórnun fiskveiða eða réttara sagt yfirráðaréttur þeirra sem hafa fengið kvóta yfir fiskveiðiauðlindinni til framtíðar án þess að greitt sé fyrir til ríkisins sem er þjóðin.
Í þessum skilningi má þjóðin vel segja - ríkið það er ég - svo vitnað sé í ummæli Loðvíks IVX sem þóttu hrokafull.
Útgerðarmenn fara mikinn og heimta óbreytt kerfi. Þeir virðast sætta sig við að sjávarútvegsráðuneyti úthluti kvóta og geti skert eða aukið heimildir að vild. Það sem þeir vilja alls ekki er að greiða fyrir aðgang að auðlindinni.
Mér finnst það hraklegt. Ef húsnæði ætlað fyrirtækjum væri takmörkuð auðlind og væri úthlutað til útvalinna væri þá eðlilegt að afgjald húsnæðisins væri ekkert? Væri eðlilegt að afgjald húsnæðisins væri sagt vera ígildi skatts sem greitt væri af rekstrinum þegar búið er að taka til allt sem dregst frá?
Það er nokkuð öruggt að eigandi húsnæðis vill fá greitt fyrir afnot áður en rekstur er gerður upp.
Líklega er kerfi það um stjórnun fiskveiða sem verið hefur hér á landi síst verra en mörg önnur. Aftur á móti þýðir það ekki að peningahliðin sé með ágætum.
Það verður að vara sig á að blanda ekki tvennu saman, stjórn fiskveiða og greiðslu fyrir aðgangi að auðlindinni.
Útgerðarmenn segja að þeir fari á hausinn ef þeir þurfa að greiða fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar. Þá gera þeir það og aðrir taka við. Ég hef litla samúð með þeim sem segja svoleiðis. Bankamenn sögðust flytja höfuðstöðvar bankanna úr landi ef ríkisstjórnin gerði hitt eða þetta í setningu laga. Betur væri ef þeir hefðu farið og hér hefðu verið betri lög um starfsemi fjármálafyrirtækja.
Útgerðarmenn vilja að sjómenn og fiskverkafólk flykkji sér að baki þeirra. Það hlýtur að vera tákn nýrra tíma. Næst verða útgerðamenn þétt að baki sjómanna og verkafólks í landi. Sama hvert málið er t.d. fjöldi í áhöfn og sjómannaafsláttur.
Sárgrætilegast finnst mér þó að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segi af miklum þunga að XD ætli að berjast fyrir útvegsmenn. Hvers vegna vill XD engar tekjur af nýtingu auðlindar? Hvers vegna vill XD verja óbreytt ástand í útgerð?
Guggan ávallt gul! Allur kvóti Meitilsins í Þorlákshöfn hvarf til Eyja! Raufarhöfn í sárum! Flateyri brunarústir! Hvers vegna ætti íslenska þjóðin að vilja óbreytt umhverfi stjórnunar fiskveiða við landið?

Wednesday, June 06, 2012

Áhætta

Ég velti fyrir mér áhættu og áhættusækni. Hvernig má mæla áhættu og flokka. Þetta eru heilmikil fræði sem ég hef lært sitthvað um án þess þó að vera með gráðu.
Nú er ég þó búin, með því að pæla, fletta, pára og gúggla, að komast að því að þegar ég er búin með faggildingu í innri endurskoðun og búin að læra nokkuð í bókbandi og bókagerð þá fer ég í sagnfræði til að geta tekið nokkra kúrsa í lögfræði :)
He, he, er lífið ekki dásamlegt? Hér sit ég og velti fyrir mér hvernig ég komist auðveldar í gegnum lífið (skiljist geti lesið meir, sinnt garði og sofið þegar mig lystir) og fæ þá bráðsnjallar hugmyndir um hvað ég geti lært.

Í gær fór ég eins og svo oft áður eftir vinnu í Laugardalslaug. Ég synti, það var ágætt. Ég var í heitu pottunum og sat svo á bekk og kældi mig. Þegar ég var að fara upp úr saknaði ég Árbæjarlaugar, laugarinnar í Vogum og á Akranesi. Þar fæ ég ávallt spjall og bros. Einhver sem hefur séð mig áður. Í Laugardalslaug eru svo margir, nær aldrei þeir sömu og fullt, fullt af útlendingum. Deginum varð bjargað því þegar ég var á leiðinni út fór skokkhópur hjá. Hver nema Erla Kalla var þar á meðal. Ég fékk það sem mig vantaði, sjá einhvern sem ég kannast við.

Gærkvöldið fór í garðinn, réttara sagt ég var í garðinum í gærkvöldi. Sat fyrst úti og naut þess sem ég sá. Svo var vökvað og leitað að ormum, það er dálítið mikið af þeim en lúsin er lítið komin á kreik. Það er enn ryðsvepur í birkinu, hugsanlega verða nokkur tré illa farin í ár, þá einna helst það sem er næst hliðinu inn í garðinn. Í kvöld þarf ég að herða upp hugann þó það verði kalt og þrífa stéttina fyrir framan garðinn. Svo væri gaman að fara í Hveragerði og kaupa þau örfáu sumarblóm sem ég ætla að fá í sumar og krydd. Ætli það verði ekki rósmarin, kóriander og steinselja eða dill. Sumarblómin verða rauður bellis. Það er falleg jurt og harðger.

Ég á eftir að vinna sléttar tvær vikur. Þann 20. júní verð ég komin í frí og kem aftur í vinnu 11. júlí. Þrjár vikur í beit, getur lífið orðið dásamlegra? Svo tek ég aftur rúma viku í ágúst.

Tuesday, June 05, 2012

Bækur

Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég gaman af að lesa. Er nær því að vera alæta á bækur. Enn sem komið er þá hugnast mér ekki að kaupa lestölvu en það kemur. Sé vel fyrir mér að ýmsar fræðilegar bækur fara betur í tölvu en í hillu.
Nú seinast las ég seinni hluta ævisögu van Gogh og naut þess í botn. Líklega tek ég fyrri hlutann fljótlega aftur, svona til að hafa samhengið á hreinu. Þar áður las ég bók sem heitir Þrír bollar af te, hún fjallar um mann sem villist af leið þegar hann fer niður af K2. Honum er bjargað af íbúum þorps nokkurs í Himalayafjöllum. Bókin fjallar um hvernig hann reynir að endurgjalda lífgjöfina með því að reisa skóla og byggja brýr. Hann kemst nefnilega fljótt að því að það er ekki nóg að hafa skóla, samgöngur þurfa einnig að vera í lagi. Þegar ég var búin með þessa bók þá tók ég bókina The Great Game fram og er komin vel inn í hana. Sú bók er um kortlagningu Mið-Asíu. Nú les ég sem sagt um Afghanistan, Turkistan, Langtibortistan og Fjarskistan.
Auðvitað slæðist léttmeti með. Ritið Vísbending er fróandi og Söndag léttir mér lífið um helgar.

Um helgina heyrði ég einhvern, líklega Sóleyju Tómasdóttur, segja að ástandið í Afríku væri líkt og það var í Evrópu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Uppreisnir og mótun nýrra landa og siða. Ég hef ónóga þekkingu til að meta hvort það er rétt. Var ástandið í Evrópu eins skelfilegt og fréttir frá Afríku bera með sér? Var verið að deyða heilu flokkana? Ég veit að ríkjaskipan nútíma Evrópu er gerólík því sem var fyrir 1914. Hvað segja fræðin, er sama uppstokkun í Afríku og var í Evrópu?

Monday, June 04, 2012

Van Gogh

Fyrir nokkrum árum síðan las ég fyrri hluta ævisögu Van Gogh. Bókin var gömul, afskrifuð frá bókasafninu á Raufarhöfn. Ég hef nokkrum sinnum lesið hana. Hún heillar mig, lýsingar á kolanámum, aðstæðum verkamanna og bænda fyrri tíma. Allt um það hvernig Van Gogh lærði að mála, teiknaði mennina og reyndi að ná aðstæðum. Mig langaði í seinni hlutann. Þann part af lífi hans þar sem sólblómin komu við sögu.
Ég bað Pöllu að athuga hvort seinni hlutinn væri til á fornbókasölu á Akureyri. Hún sagði mér að svo væri ekki. Ég bjó mig því undir bið, bið eftir ómótstæðilegum lýsingum á sólblómum.
Biðin varð styttri en vænt var. Palla kom í heimsókn um daginn og hafði bókina með. Oh, hvað ég varð glöð. Ég las og ég las. Hann kallar sólblómin sólliljur. Hann málaði þau/þær á veggi í húsi þar sem hann bjó. Það er víst heitt í Rhonedal. Það er víst grimm norðan átt í Rhonedal. Það er víst ævintýralegir litir í Rhonedal.
Þegar við Sigmundur vorum í Amsterdam í mars þá létum við vera að fara á Van Gogh safnið. Ég var vanbúin, þurfti að vita meira áður en ég færi þar inn. Við fórum í Ríkislistasafnið og sáum verk eftir Hals, Rembrandt og fleiri.
Næst förum við og skoðum verk Van Gogh. Þá verð ég búin að lesa ævisöguna aftur og kannski fleiri, jafnvel þó þær séu á útlensku.
Nú er ég að rækta sólblóm. Ég hef lengi verið hrifin af þeim. Lengi, lengi, allt frá því ég var um 14 ára og þar til ég var að nálgast þrítugt átti ég stórt púðaver alsett sólblómum. Ég setti það yfir koddann minn og notaði hann svo sem púða á daginn og þegar ég var að lesa.
Vonandi fæ ég fullt af blómstrandi sólblómum. Ég sáði bæði í potta og í beð. Í pottunum eru nú sjö plöntur sem eru komnar með fjögur blöð hver. Í beðinu get ég talið þrjár plöntur með tvö blöð hver. Nú pæli ég, hvenær má setja blómin úr pottum í stærri potta eða beint í beð?


Svona sá Van Gogh sólliljur.
Sjáið litina, sjáið hvað allt er fallegt, líka þó þau séu farin að verpast.
Vincent van Gogh's Four Cut Sunflowers Painting

Friday, June 01, 2012

Júní

Yndislegt veður undanfarna daga. Sól, logn og blíða. Nú vantar ekkert nema rigningu eða að konan nenni að vökva. Ég hef verið með garðkönnuna á lofti en látið vera að tengja slönguna.
Líklega gerist það um helgina. Hugsanlega strax í kvöld. Skrítið hve mér finnst lítið áríðandi að vökva, alla vega í ár. Ég hef svo oft staðið á kvöldin og látið bununa leika um runna og tré, slangan svo legið í moldinni og ég hlaupið út og fært til að ná sem jöfnustu dreifingu.
Nú hugsa ég mikið. Ætti sumarbústaðurinn að vera svona umhverfisvænn? Ætti ég að huga að því að safna regnvatni, nýta til að vökva og kannski í klóset? Hvað er umhverfisvænn bústaður? Á þakið að vera grasi gróið? Hvað fleira?
Mér finnst upplagt að velta þessu fyrir mér á meðan ég er ekki einu sinni búin að setja niður eina kartöflu þar. Í það minnsta veit ég að það er of seint að huga að þessum hlutum eftir að allt er komið í gang.
Svo hef ég verið að hugsa um stærðina, ca 450 fermetrar, líklega 200 sem fara í hús og bílastæði (með stéttum og öllu sem fylgir). Eitthvað er af klöpp, þá er það kartöflugarður, svo verður að vera smáflöt til að leika á eða draga það sem verið er að laga út á. Ætli ég hafi ca 50 fermetra til að rækta trjágróður á? Miklar pælingar en ég er ákveðin í að hafa sem minnst gras, læt vera að sá grasfræi. Stéttar eru betri og svo er stutt í leiksvæðið.
Fullorðið fólk þarf ekki grasbala en ungviði þarf þess.
Um daginn fór ég inn á landið af Eyrarbakkavegi. Sá vegur er alveg jafn grófur og sá sem er inn í landinu en hann fer um fallegt land og vel gróið. Áin er alveg við veginn. Þetta er fallegt svæði.