My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, June 05, 2012

Bækur

Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég gaman af að lesa. Er nær því að vera alæta á bækur. Enn sem komið er þá hugnast mér ekki að kaupa lestölvu en það kemur. Sé vel fyrir mér að ýmsar fræðilegar bækur fara betur í tölvu en í hillu.
Nú seinast las ég seinni hluta ævisögu van Gogh og naut þess í botn. Líklega tek ég fyrri hlutann fljótlega aftur, svona til að hafa samhengið á hreinu. Þar áður las ég bók sem heitir Þrír bollar af te, hún fjallar um mann sem villist af leið þegar hann fer niður af K2. Honum er bjargað af íbúum þorps nokkurs í Himalayafjöllum. Bókin fjallar um hvernig hann reynir að endurgjalda lífgjöfina með því að reisa skóla og byggja brýr. Hann kemst nefnilega fljótt að því að það er ekki nóg að hafa skóla, samgöngur þurfa einnig að vera í lagi. Þegar ég var búin með þessa bók þá tók ég bókina The Great Game fram og er komin vel inn í hana. Sú bók er um kortlagningu Mið-Asíu. Nú les ég sem sagt um Afghanistan, Turkistan, Langtibortistan og Fjarskistan.
Auðvitað slæðist léttmeti með. Ritið Vísbending er fróandi og Söndag léttir mér lífið um helgar.

Um helgina heyrði ég einhvern, líklega Sóleyju Tómasdóttur, segja að ástandið í Afríku væri líkt og það var í Evrópu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Uppreisnir og mótun nýrra landa og siða. Ég hef ónóga þekkingu til að meta hvort það er rétt. Var ástandið í Evrópu eins skelfilegt og fréttir frá Afríku bera með sér? Var verið að deyða heilu flokkana? Ég veit að ríkjaskipan nútíma Evrópu er gerólík því sem var fyrir 1914. Hvað segja fræðin, er sama uppstokkun í Afríku og var í Evrópu?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home