My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, June 04, 2012

Van Gogh

Fyrir nokkrum árum síðan las ég fyrri hluta ævisögu Van Gogh. Bókin var gömul, afskrifuð frá bókasafninu á Raufarhöfn. Ég hef nokkrum sinnum lesið hana. Hún heillar mig, lýsingar á kolanámum, aðstæðum verkamanna og bænda fyrri tíma. Allt um það hvernig Van Gogh lærði að mála, teiknaði mennina og reyndi að ná aðstæðum. Mig langaði í seinni hlutann. Þann part af lífi hans þar sem sólblómin komu við sögu.
Ég bað Pöllu að athuga hvort seinni hlutinn væri til á fornbókasölu á Akureyri. Hún sagði mér að svo væri ekki. Ég bjó mig því undir bið, bið eftir ómótstæðilegum lýsingum á sólblómum.
Biðin varð styttri en vænt var. Palla kom í heimsókn um daginn og hafði bókina með. Oh, hvað ég varð glöð. Ég las og ég las. Hann kallar sólblómin sólliljur. Hann málaði þau/þær á veggi í húsi þar sem hann bjó. Það er víst heitt í Rhonedal. Það er víst grimm norðan átt í Rhonedal. Það er víst ævintýralegir litir í Rhonedal.
Þegar við Sigmundur vorum í Amsterdam í mars þá létum við vera að fara á Van Gogh safnið. Ég var vanbúin, þurfti að vita meira áður en ég færi þar inn. Við fórum í Ríkislistasafnið og sáum verk eftir Hals, Rembrandt og fleiri.
Næst förum við og skoðum verk Van Gogh. Þá verð ég búin að lesa ævisöguna aftur og kannski fleiri, jafnvel þó þær séu á útlensku.
Nú er ég að rækta sólblóm. Ég hef lengi verið hrifin af þeim. Lengi, lengi, allt frá því ég var um 14 ára og þar til ég var að nálgast þrítugt átti ég stórt púðaver alsett sólblómum. Ég setti það yfir koddann minn og notaði hann svo sem púða á daginn og þegar ég var að lesa.
Vonandi fæ ég fullt af blómstrandi sólblómum. Ég sáði bæði í potta og í beð. Í pottunum eru nú sjö plöntur sem eru komnar með fjögur blöð hver. Í beðinu get ég talið þrjár plöntur með tvö blöð hver. Nú pæli ég, hvenær má setja blómin úr pottum í stærri potta eða beint í beð?


Svona sá Van Gogh sólliljur.
Sjáið litina, sjáið hvað allt er fallegt, líka þó þau séu farin að verpast.
Vincent van Gogh's Four Cut Sunflowers Painting

0 Comments:

Post a Comment

<< Home