My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, May 24, 2012

Langþráð rigning

Nú rignir í Reykjavík. Mér finnst langt síðan loftið hreinsaðist síðast. Efsta lag moldar í garðinum var orðið alveg þurrt en um leið og ég rótaði í henni (moldinni) þá var raki. Þegar rignir í hægu veðri líkt og í dag þá dafnar gróðurinn vel. Það er eins og hann fái ofurskot af næringu.
Líklega taka fuglarnir einnig við sér. Ég rumskaði í morgun við mikinn söng og gleði. Þegar ég svo fór á fætur og leit út á stétt þá kom enginn þröstur til að fá gott í gogginn.
Það er þrastapar, í það minnsta tveir þrestir, sem eru þaulsætnir við garðinn. Þegar við Sigmundur komum út þá koma þeir, annar eða báðir, hoppa alveg upp að okkur og mæna. Þeir hreyfa sig ekki á meðan við náum í rúsínur og svo hakka þeir í sig. Ég er alveg viss um að þetta eru ávallt sömu þrestirnir. Sigmundur telur að það geti verið að þeir skiptist á að njóta góðgætisins.

Nú í vikunni hefur verið mikil umræða um lífeyrissjóði, framtíð þeirra, greiðslugetu og aldur til lífeyris. Ég hef lengi haft þá skoðun að frjálsi lífeyrissparnaðurinn væri hugsaður þannig að sá sem ekki sparaði fengi ekkert frá ríkinu í staðinn. Það var aldrei sagt, ég las það milli línanna á því ósagða :)
Þegar rætt er um aldur til lífeyris er sagt að hann muni hækka, lágmark úr 67 ára í 68 ára og engin frávik neðar. Þeir sem vilja draga úr vinnu eða hætta fyrr geti notað frjálsa lífeyrissparnaðinn.
Greiðslugeta lífeyrissjóða fer eftir ávöxtun eigna, greiðslu iðgjalda og hve margir þiggja lífeyri. Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða er bundin í lögum 3,5%. Það er hart sótt að þeirri tölu. Þeir sem sækja hart eru þeir sem vilja fá lán hjá lífeyrissjóðunum við lægri vöxtum. Stjórnendur lífeyrissjóða verjast. Sjóðfélagar ættu einnig að verjast. Ávöxtunartími lífeyrissjóða er talinn í tugum ára, 25 ár er bil sem á að skoða. Eitt til fimm ár eru ómarktæk. Ávöxtunarkrafan er lág, lægri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef við lækkum ávöxtun þá kemur það lítið við þá sem nú þegar eru á lífeyri eða fara á hann innan fimm ára. Breytingin snertir mest þá sem koma á lífeyri eftir ca 25 ár. Hverjir eru það? Það eru þeir sem eru nú 40 ára og yngri.

Lífeyrissjóðir voru mikið framfaraskref. Einn þeirra sem kom þeim á er tengdafaðir minn Grétar Sigurðsson. Hann var einn þeirra sem vann mikið óeigingjarnt starf án þess að fá mikið annað en glósur fyrir og vanþakklæti. Nú er komið að lokum lífs hans. Það er sárt að líf og starf hans hafi ekki verið skráð.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home