My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, May 08, 2012

Kaldir dagar

Ég er óforbetranlega bjartsýn á veður og gróður. Alveg síðan við Sigmundur komum heim frá Amsterdam í byrjun apríl hef ég beðið eftir íslensku sumri og gróðri. Ég styn og horfi, geng út og þreifa. Vonast til að það hafi hlýnað all verulega og að það sé varanlegt. Þó veit ég að íslenskt vor er kalt og þurrt. Ég veit að sumar kemur um miðjan júní, ef við erum heppin.  Samt, samt sem áður þá vonast ég til að það breytist.

Nú er svo kalt að ég sái ekki, ég set ekki matlauka niður og þori ekki að setja fúksíuna út. Þó er Sigmundur búinn að útbúa gróðurhús. Gróðurhúsið er kassi úr IKEA, boraði göt og svo ætla ég að hvolfa honum yfir fúksíuna. Ak, ja. Ég verð að vera þolinmóð.

Bót í máli er að ég er iðin við að fara í sund. Það er í lagi þó það sé kalt. Ég syndi og syndi, líkt og enginn sé morgundagurinn. Allt í einu þá fann ég mig í 500 metrum til kílómeter. Ég held það styttist í að mér líði vel í 1,5 kílómeter. Þá slæ ég tvær flugur í einu höggi. Er úti eins og ráðlagt er og hreyfi mig. Að auki þá blómstra freknur.

Ég horfði á garðinn í gær. Það var um 7° hiti og lygnt. Ég þarf að færa japans hlyninn. Hann kelur hroðalega illa þar sem hann er. Líklega dafnaði hann betur nær húsinu, svo verður að skýla honum. Ég hef enga hugmynd, enn sem komið er, hvað ætti að koma þar sem hann er. Þá þarf að setja vindbrjót til að minnka streng sem kemur úr austri meðfram birkinu. Kannski gæti gul hyrna (cornel) komið vel út. Þá gæti ég sett rauða  hyrnu rétt við birkið út með Kringlumýrarbraut.

Það er eitthvað að gægjast upp úr moldinni milli litla eldrunna og mispils. Ég vona að það sé dalalilja. Við settum eina niður þar fyrir tveimur árum. Ég varð ekkert vör við hana í fyrra en nú er státinn broddur að stinga upp kollinum. Dalalilja, dalalilja, ég hef lengi verið hrifin af þér.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home