My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, February 09, 2012

Matur

Flesta daga sjáum við Sigmundur saman um mat. Ákveðum á föstudegi hvað verður í matinn út vikuna og stöndum ca 95% við það. Örsjaldan hnikast til dagur eða svo en í megindráttur þá vitum við með góðum fyrirvara hvað verður í matinn.

Margar vikur þá er Sigmundur upptekinn eitt kvöld í viku, fundur hjá Frímúrurum eða öðrum félagsskap. Þau kvöld borða ég það sem mig langar í. Oft er það hafragrautur með rjóma eða egg, tómatar, kotasæla og túnfiskur úr dós. Nóg af te með og svo gulrætur í eftirrétt. Undanfarið þá hefur mig langað í annað. Mig hefur langað í sviðasultu. Tvisvar hef ég komið við í Miðbæ við Háaleitisbraut og aldeilis ætlað að kaupa sviðasultu, nýja sultu. Í fyrra sinnið var hún ekki til og ég keypti saltað hrossakjöt. Það var nú aldeilis veisla það kvöld. Í seinna skiptið var reynt að selja mér súra sviðasultu, það finnst mér síðri matur og löngunin stóð ekki til súrmetis. Ég rölti og skoðaði skó, leit í glugga fiskbúðarinnar, ætlaði að snúa við og skoða blómabúðina, þegar. Þegar ég sá gotu í borðinu í fiskbúðinni. Inn fór ég og keypti smáar brækur, svona mátulegar í mat fyrir einn. Fékk lifur með, nóg af henni því hún var ókeypis. Veislan var endurtekin.

Nú bíð ég eftir að Sigmundur fari á fund. Þá ætla ég að athuga hvort ég fái sviðasultu eða eitthvað annað spennandi sem tilbrigði við hafragraut.

Ég skal bara segja ykkur það, ef þið drekkið mikið vatn, bætið vel við af te. Bryðjið gulrætur, epli og hnetur. Hafragraut og lýsi á hverjum degi. Þá, og einungis þá, er stærð 48 ykkar. Auðvitað borða ég ýmislegt með t.d. bauna- og hrísgrjónarétti fulla af grænmeti. Fisk og hrísgrjónagraut. Lítið af sælgæti, sjaldan í mánuði. Aldrei gosdrykki eða safa. Skyndiréttir eða unnin matvara sést vart. Kökur eru vart til. Kex er einungis rúgkökur, þessar þunnu og þurru. Ef ég myndi hreyfa mig meira þá væri ég líklega stærð 44.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home