Stóra Skógfellsleið
Á þriðjudaginn lokaði ég hringnum. Gekk frá Vogum til Grindavíkur. Þá hef ég gengið Stóra Skógfellsleið alla. Það eru þrjú ár síðan við Sigmundur gengum frá Ísólfsskála til Grindavíkur. Sáum hvar hægt var að fara til Voga en vildum þá frekar sjá Saltfisksetrið.
Nú er búið að loka setrinu og setja þar jarðeldasýningu (Kviku). Svo líkast til var valið rétt.
Ég er í fríi þessa viku. Á þriðjudaginn þá var ég húsleg. Þreif og þvoði. Hjólaði og tók myndir af tjörninni. Ætlaði svo í sund. Þegar ég renndi á hjólinu inn á planið við sundlaugina var hópur af fólki þar. Ætluðu að ganga til Grindavíkur. Ég með, fór heim og skipti um skó, náði í göngustaf og setti banana og drykkjarföng í bakpokann. Af stað, af stað. Veðrið var frábært, stillt, hálfskýjað og um 14 stiga hiti. Í för voru þrír hundar, sjö börn og sex fullorðnir (ef þetta eru rangar tölur þá er að leiðrétta mig). Við lögðum af stað um tvö og vorum að koma að lauginni í Grindavík um átta að kvöldi. Gengum rúma 18 kílómetra. Nú veit ég það sem mig hafði grunað. Ég er í lélegu formi, skórnir eru slitnir. Það er ekki nóg að hafa tvær litlar safafernur með í svona langa ferð.
Enn einu sinni þá er ég hissa á því hve forfeður vorir voru harðir af sér. Þarna í hrauninu eru markaðar götur, gerðar af fótum sem voru í skinnskóm. Við sem erum vel skædd, höfum allt til alls erum við það að gefast upp á skemmtigöngu. Erum sárfætt, með blöðrur. Verkjar í limi nokkra daga á eftir.
Við fórum í laugina, fengum að skutlast ofan í til að mýkja vöðva. Svo heim til Róberts í hamborgara. Þegar ég læddist inn um miðnæturleiti þá var ég skrefstutt enda á sokkunum einum. Treysti mér ekki í skó og möl er erfið fyrir sárar iljar. Ég stundi og bar mig illa. Vaknaði með Sigmundi um hálf sjö og fór fram. Hökti, mikið skelfing voru tærnar sárar. Fór svo í sund. Synti, fór í heitan pott. Synti, sat á bekk. Synti. Var mikið betri um kvöldið. Ég ætla aftur í sund á eftir. Er búin að uppgötva fleiri nuddbletti. Það er svo mikið kikk að fá sting þegar heita vatnið brennur á fleiðrum.
Mig er farið að langa að ganga Selvogsgötu. Það eru um 30 kílómetrar. Ætti að geta það í góðum skóm og með betra nesti.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home