My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Sunday, July 10, 2011

Helgi

Horfi og horfi út í garðinn. Rýk öðru hvoru upp, beygi mig undir strekkjarann hans Simma og tek arfakló, fjólu sem er á röngum stað eða afurð fuglafóðurs frá því í vetur.
Ég hef áhyggjur af því hve allt er þurrt, horfi á grenið í plastpottinum. Fann það við bílastæðið fyrir tveimur árum og tók það. Sé fyrir mér að það fylgi mér lengi, lengi. Veit ekkert hvar ég ætla að setja það niður. Hef engan stað. Potturinn og tréð hljóta að stækka með tímanum, jafnvel í sumar. Ætli ég verði kona með grenitré?
Þó ég hafi áhyggjur af þurrki og elski sól þá er tvískinnungurinn svo mikill að hann verður jafnvel þrefaldur.
Ef það er sól um helgar þá er ég ánægð, sit, ligg, syndi eða geng og sóla mig. Ef það er þurrt virka daga þá er ég ánægð. Vinnuskólinn er svo mikið auðveldari í þurrviðri en rigningu. Hvað á ég að gera? Biðja um regn að nóttu til?

Hló þegar ég hlustaði á fréttir í hádeginu. Enn einu sinni vælir ferðaþjónustan. Erna Hauksdóttir hlýtur að vera vælari númer eitt. Það mætti halda að Erna Hauksdóttir og fleiri væru vissir um að ríkisstjórnin eða misvitrir og óhæfir opinberir starfsmenn hafi ákveðið að taka brúna af Múlakvísl. Gott ef vegamálastjóri á ekki alla sök. Þvílík ósvinna að það geti tekið tvær til þrjár vikur að gera bráðabirgða brú. Nú áköllum við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.
Gerið það, setjið óhæfan vegamálastjóra af. Gerið það, takið hlaupið aftur. Gerið það, reddið brú, tengingu eða hverju sem er á einum sólarhring.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home