My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Sunday, July 03, 2011

Sumar

Ég nýt sumarsins í botn (reyndar er ég einnig hrifin af haustinu, heilluð af vorinu og finnst vetur ágætur upptaktur).
Svei mér þá. Anemónurnar blómstra og breiða úr sér. Þær verða fegurri með hverju árinu. Árið 2008 hélt ég að ég væri að setja niður hnýði sem lifðu eitt sumar, óvíst með blóm. Það sumar var ég nokkuð viss. Svo ræfilslegt. Þegar leið á vorið 2009 þá sá ég eitthvað sem gæti verið anemóna gægjast upp úr moldinni. Núna er brúskurinn stór og blómin falleg.
Önnur gleðifregn er að bóndarósirnar ætla að blómstra í ár. Þær setti ég einnig niður sumarið 2008. Eftir það hef ég gætt að þeim, skoðað með stækkunargleri (gleraugun mín), hlúð að með stuðningi og áburði. Þær hafa verið blaðfagrar en engir knúppar. Nú eru blöðin minni en knúpparnir margir. Þegar ég hafði bóndarósir í garðinum á Akranesi þá voru þær ekki eins lengi að taka við sér. Þær voru líka allar minni um sig. Líkast voru þær á sólríkari stað. Næst verður farið í að höggva niður tré :)
Túlipanarnir er mjög fallegir. Ég er með túlipana, lága og tvílita, bleika og gula, sem blómstra seint, eru enn í fullum blóma. Þessir rauðu, gulu, appelsínugulu og hrein bleiku eru allir búnir.
Keypti fúksíur um daginn. Eina sem þarf að fara í frostlaust, bjart rými yfir veturinn. Aðra sem þarf að vera upp við hús til að lifa, gott að setja grein yfir til að skýla. Hún er færeysk, harðger og sein. Blómin lítil en falleg. Hin er útlendingur í raun og viðkvæm. Blómin stór og falleg. Ég fæ bílskúrinn lánaðan, einnig loforð um vökvun öðru hvoru. Líklega er ég að komast á þann hluta ævinnar sem ég hef lengi beðið eftir. Rækta jurtir sem þurfa húsnæði yfir veturinn. Sé fyrir mér dalíur og fleira fallegt.
Eitt árið sett ég niður írisa (lauka). Það komu afburða falleg blóm fyrsta árið, svo hélt ég að það kæmu engin fleiri, bara blöð. Blómstur í fyrra og það eru knúppar í ár. Að vísu minni en fyrsta árið og seinna. Þetta eru risaplöntur, góðar þegar lygnt er en lítt til þess fallnar að standa sunnlenska lognið af sér án þess að svigna verulega.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home