My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Wednesday, February 01, 2012

Lífshlaup

Í dag skráði ég mig í Lífshlaupið www. lifshlaupid.is

Í fyrra langaði mig svo mikið en kom mér ekki að því. Nú tel ég að ég hafi vel rúm fyrir 30 min í hreyfingu á degi hverjum. Í janúar hef ég rölt eftir hitaveitustokknum, frá Neðsta að Réttarholti. Fyrst var ég hreint og beint yfirkomin af mæði þegar ég kom heim, hóstaði, snýtti mér og hóstaði. Í gær var allt í góðu, aðeins kjöltur, lungun svona að minna á sig. Ég er ca 30 min, í góðu færi, 45 min þegar það er þungt og ég verð að krækja fyrir bílaplanið við RÚV. Nú er að halda sig við þetta. Skrá á vefinn og ýta við sjálfri sér.

Í dag fór ég og náði í vegabréf, það eldra var gatað um leið. Í eldra vegabréfinu var ég líkt og sakamaður (svona eins og þeir eru í bandarískum myndum), allt appelsínugult, ég mændi upp (vélin var einhvers staðar lengst fyrir ofan mig). Nú er ég í eðlilegri litum en lít út eins og þegar ég kem úr löngu ferðalagi, örþreytt, annað augað í pung, hinu skotið langt upp á enni.

Hvers vegna þurfa myndir í vegabréfi að sýna mann frá verstu hliðinni?

Um daginn fór ég í Hagkaup, það var í byrjun janúar. Ég tók út grænmetis- og ávaxtakælana/borðin. Samkvæmt reglugerð á að merkja uppruna ávaxta og grænmetis. Ég sá hvergi merki nema það sem kom fram á umbúðum. Að gamni mínu fór ég í Krónuna Bíldshöfða og gáði að hinu sama. Hvergi merkt nema það sem framleiðandi eða sá sem pakkar gefur upp og það er undantekning ef svo er.

Ég hafði samband við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar, það svið sem sér um eftirlit með matvælum og kvartaði. Kvartaði formlega. Ég fékk svar um að það ætti að skoða málið.

Í dag fór ég aftur í Hagkaup. Það hefur ekkert breyst. Allt ómerkt. Nú ætla ég að ítreka kvörtun mína. Ekki senda tölvupóst heldur bréf þar sem vísað er til tölvupóstsins og svars.

Annars er allt í góðu hér. Ég er að fara í klippingu. Ætla að prófa nýja hárgreiðslustofu. Ég er í raun alltaf að leita að Auði á Papillu.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home