Lygilega óháður
Ég horfði að mestu á kosningasjónvarpið í gærkvöldi. Reykjavík suður, það er mitt kjördæmi. Guðlaugur sat fyrir svörum fyrir XD. Hann var ítrekað spurður út í fjármál, stuðning við flokkinn og hann. Spurður hvort stuðningur leiddi ekki af sér samband og jafnvel kröfu um aðstoð/greiða eða fyrirgreiðslu. Nei, nei, hann hélt nú ekki. Hann hefði aldrei verið beðinn um neitt, enginn hefur leitað til hans sem stjórnmálamanns í þeirri trú/von að hann gæti greitt úr málum. Ef satt er, getur vel verið satt, þá er Guðlaugur lygilega óháður. Hann er svo óháður að enginn hefur not fyrir hann. Hvað hefur flokkurinn að gera við svona mann? Mann sem enginn treystir til að greiða götu eða leggja máli lið. Hver er tilgangurinn með því að styðja hann í fyrsta sæti í flokki sem hefur lengi verið við völd? Af hverju vilja þeir sem velja á lista fá mann sem enginn leitar til?
Sumarið er komið. Veðrið í dag er ótrúlegt, lítið líkt því veðri sem ég bind við sumardaginn fyrsta. Hef tölfræði ekki á hreinu, held að það séu meiri líkur á þurru og frosti þennan dag en rigningu í logni. Að vísu er ég í Reykjavík og mér fróðari um veðurfar segja að hér rigni alltaf, stundum svo hratt að ég verði ekki vör við dropana.
Jæja, þennan pistil skrifaði ég vorið 2009. Hann á enn vel við. Ég tími vart að eyða góðum texta og frábærri hugsun.
Veðrið er mér enn hugleikið. Guðlaugur Þór er ennþá á þingi og kemur fram og gefur álit á hinu og þessu. Nú vorið 2012 lifir umræða um stuðning enn. Líklega ætlar hann sér stóra hluti að ári þegar kosið verður til alþingis.
Ég óttast að grískt eðli Íslendinga komi sterkt fram í þeim kosningum. Eðli þar sem minni bregst og ást á kosningaloforðum og skemmri skírn tekur yfir almenna skynsemi.
Hvað er almenn skynsemi? Mig vantar umræðu og lesefni um almenna skynsemi. Hvað eiga íslensk stjórnmál og almenn skynsemi sameiginlegt?
0 Comments:
Post a Comment
<< Home