My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, June 12, 2012

Nýr dagur

Nýr dagur ber með sér von um nýtt líf.
Vor og snemmsumars er erfitt að sjá mun dags og nætur hér á landi. Enda virðist allt vera iðandi af lífi, ekki síst á nóttu.
Fyrir nokkrum árum fórum við Simmi í gönguferðir seint að kvöldi, komum heim um tvö til þrjú að nóttu. Það var ótrúlegt að vera úti í bjartri nótt. Heyra hvernig allt hljóðnaði og vaknaði svo aftur. Nú ætlum við að hefja leikinn aftur. Rölta í kringum Helgafell, Valahnúka og fleiri áhugaverða staði í nágrenni Reykjavíkur. Fara svo heim og sofa í birtunni.
Dagurinn er einnig nýr að því leiti að í gær var ég með ferlegan höfuðverk, gat lítið synt. Jesúsaði mig milli ferða og hélt fyrir augun. Gat þó horft á einn þátt í sjónvarpinu og rétt byrjað á SÍBS blaðinu sem allt var um mataræði. Bábiljur og staðreyndir. Fann góða stellingu og sofnaði. Svaf til morguns. Er betri en þó með seiðing. Ef ég hefði verið í vinnu hjá Rannís þá hefði ég verið heima í dag. Svo get ég illa verið heima vegna höfuðverkjar  þegar ég á tíma í klippingu og viðtal hjá samfrímúrarareglunni á Íslandi.
Í gærkvöldi lét Simmi úðara ganga yfir garðinn. Ég sagði honum að það þyrfti ekki að úða stéttina, þó þurfti að leiðrétta staðsetninguna því honum fannst litlu skipta þó allt yrði hundblautt þar á meðan ég hafði aðra skoðun.

Alþingi okkar er í hraðri afturför. Þingmenn láta eins og þeir séu leikarar í Leiðarljósi eða einhverri annarri dægursyrpu þar sem hægt er að segja, gera, fara, lifa án þess að áhrif á samhengið verði mikið. Bara skrifaðir út úr handritinu um tímasakir eða til fulls og enginn verður var við nokkurn skapaðan hlut.
Þingmenn hafa lengi sagt mér að ég hafi ekki vit/þor/getu/hæfni/færni/þekkingu eða annað til að greiða atkvæði um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Aftur á móti vilja þeir eindregið að ég greiði atkvæði um hvernig afgjaldi fyrir fiskveiðiauðlindina verði háttað sem og gang viðræðna um aðild landsins að ESB.
Þrjú stór mál sem þeir tefja í það óendanlega. Aftur á móti er hægt að afgreiða með hraði ýmsar tillögur sem eru síst áhrifaminni.
Skrítnast af öllu þykir mér þó að það sé Steingrími Joð að kenna að kostnaður vegna Sparisjóðsins í Keflavík lendir á íslenska ríkinu og þar með skattgreiðendum. Voru engar innistæðutryggingar fyrr en hann varð ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur? Tók ríkið enga ábyrgð á fjármálafyrirtækjum fyrr en Steingrímur Joð tók við málum þeirra í ríkisstjórn? Svo er líklega hægt að deila um keisarans skegg fram og til baka en ég hef þá staðföstu trú að íslenska ríkið hefði ávallt þurft að bera nokkurra milljarða kostnað af falli Sparisjóðsins, sama hver væri ráðherra bankamál.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home