Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, July 31, 2012

Auð og ógild atkvæði

Vissuð þið að auð atkvæði eru talin með ógildum?
Vissuð þið að þegar sá sem kemur á kjörstað velur að setja auðan kjörseðil í kassann þá er hann talinn hafa ógilt atkvæðið?
Mér finnst það vanvirðing við þá sem koma og lýsa því yfir að enginn frambjóðandi/framboð höfði til hans og skilar auðu  skulu vera taldir hafa skilað ógildu.
Það að mæta ekki á kjörstað er  hjáseta. Það að mæta og skila auðu er sterk yfirlýsing um að enginn sem var í framboði sé verðugt atkvæðis.
Það er verðugt baráttumál að fá auð atkvæði talin sérstaklega og að þau hafi áhrif á niðurstöður. Þetta er nefnilega greitt atkvæði.
Hvað segið þið rússneskir lesendur mínir, eruð þið til í að senda bréf til alþingismanna varðandi þetta efni? Skrifa eins og eina grein í blað hver fyrir sig?
Annað mál sem er einnig verðugt er endurskoðun á lögum og reglum um hjólreiðar. Helst vildi ég hafa ákvæði um að sá sem skiptir á milli götu og gangstéttar að vild sé réttdræpur :)
Þriðja málið er að það verði sérstakar laugar fyrir útlendinga. Já, já, ég veit að móðir mín er færeysk og býr í Danmörk. Þrátt fyrir það vildi ég gjarnan vera laus við útlendinga úr sundlaugum. Þeir eru sóðalegir, virða engan veginn umgengnisreglur og ábendingar starfsmanna og þeirra gesta sem taka að sér að leiðbeina þeim (ég tek skýrt fram að ég yrði aldrei ótilneydd eða að fyrra bragði á útlending og þá kann ég yfirleitt ekkert nema íslensku, ef ég hef heyrn yfirhöfuð). Mér finnst ógeðslegt að sjá stríðsmálaðar konur fara í sund án þess að þvo sér (vil sem minnst hugsa um karlana). Hálfu verra finnst mér svo þegar þær koma rennblautar og standa fyrir framan skápana og sóða allt út. Þá gæti ég myrt, einkum helv. frá Bandaríkjunum og Kanada. Mér er nokk sama um að þar sé allt í felum og ekkert gert nema undir tjaldi. Hér er siðurinn annar og fólk verður bara að haga sér samkvæmt því.
Ég vil frekar vera í laug þar sem vatnið er hreinna og minna af klór en í laug þar sem fólk fer svo óhreint ofan í að klórdælur fara á fullt. Málið er að það eru skynjarar í laugum sem mæla fjölda gerla og svo er sjálfvirk dæling á klór. Á góðviðris dögum er mikið meira af klór en í rigningu og roki. Oh, ég elska að vera í sundi í rigningu. Ég þoli eina og eina íslenska píku sem er flott og heldur að hún verði enn flottari ef hún fer skítug ofan í laugina en ég fyrirlít helv. útlendingana sem eru uppfullir af fyrirlitningu og vanvirðingu gagnvart menningu og siðum Íslendinga.
Jamm, þessi pistill er í boði mín. Ef þjóðfélagið væri fullkomið væru sérstakar laugar fyrir útlendinga (bara svo það sé alveg skýrt), lög og reglur þar sem hjólreiðamenn væru réttdræpir ef þeir skipta eftir behag milli götu og gangstéttar og síðast en ekki síst þá væru auð atkvæði talin sérstaklega.

Sunday, July 29, 2012

Skipt um heimili

Um helgina prófuðum við Simmi hluta þess að skipta um heimili. Við skiptum við franska fjölskyldu, hún var í íbúðinni okkar og við vorum á meðan í Ofanleiti. Lágum á vindsæng og borðuðum úti.
Við lærðum nokkuð af þessu. Til dæmis er Simmi hrifinn af því að ég þríf vel undan og eftir. Við þurfum að hafa leiðbeiningar um heimilið, það sem okkur finnst sjálfsagt er vandfundið þegar aðrir leita. Það er skemmtilegt að segja frá heimilinu, hvaða myndir eru á veggjum, hvernig við erum í raun. Svo þurfum við að útbúa leiðbeiningar fyrir þvottahúsið.
Þar sem við vorum í útilegu fórum við í bíó, höfum ekki farið lengi, lengi. Mig minnir að mynd sem við fórum á áður var þessi með bláa dýrinu, í þrívídd og gerðist út í geimnum. Alveg rétt, myndin sem við fórum á er frönsk, eitthvað um þá ósnertanlegu (untouchable) ef ég man rétt. Góð mynd, góður húmor, ágæt tónlist. Hún væri skelfileg ef hún væri bandarísk. Stundum var óþægilegt að sjá hvað allt var sjálfsagt í getu og möguleikum því peningar skiptu ekki máli.
Nú erum við að hugsa, hrm og humm. Væri ásættanlegt að athuga hvort einhver á Norður-Jótlandi hefði áhuga á skiptum? Eigum við að einbeita okkur að Frakklandi og ná tveimur til þremur vikum næsta sumar/haust/vor? Værum við góð í að skipta yfir helgar. Svo er náttúrulega sá möguleiki að hætta og vera heima. Vera alltaf á hóteli þegar farið er út fyrir landsteinana.
Skrifin á undan þessu voru með heitið tak hrm, hrm og eitthvað meira.
Ég fékk athugasemd við það, einhver sem vildi láta mig birta langa runu af spurningamerkjum, upphrópunar merkjum og fleiru. Þeir sem lesa skrif mín eru flestir í Rússlandi, svo er Suður-Kórea.

Friday, July 27, 2012

Tak eða hrm lítt þjálfaður líkami, hrm

Ég geri mér grein fyrir, fullkomlega, að ég er í lélegu formi. Einna lélegasta formi sem ég man eftir. Svo er það aldurinn, maður lifandi, það er langt síðan ég hætti að yngjast. Ég hef gert mér grein fyrir að styrkur vöðvanna minnkar. Er til dæmis orðin arfaslök að halda undir stóra og þunga hluti, finn hvernig ég nota allt annað en handleggi og axlir til að halda þunganum uppi.
Svo hef ég verið að synda, þá lengjast vöðvar, styrkjast og með tímanum verða þeir flottir en það tekur tíma.
Nú hef ég verið á fullu í líkamlegri vinnu. Fyrst í garðinum í Ofanleiti, tók allt í gegn og stakk meira að segja sjálf upp og kantskar. Svo fór ég að þrífa þar og tók skurk í Neðstaleiti í leiðinni. Ég hef meira og minna gengið hálfbogin í hálfan mánuð en lítið látið það á mig fá. Farið með strætó, reynt að ná tíu þúsund skrefum, upp og niður stigana í Neðstaleiti (eiginlega betra að losna við hnykk í lyftunni).
Svo fór ég að laga til fyrir Frakkana, þið vitið þessa sem verða í íbúðinni um helgina, í staðinn eigum við innskot í frönsku Ölpunum. He, he - held það sé í Frakklandi. Nú styn ég, kveinka mér, er meira en hálfbogin og á eftir að sofa á tjalddýnu í tvær nætur. Ja, það sem kona leggur á sig fyrir útlitið! Eða er það lítið spennandi að sjá bogna, andvarpandi og stynjandi konu á rölti um borg og bý? Eiginlega sé ég heitu pottana í hillingum. Farin að lengja eftir tíma hjá Dagmar nálastungu.
Skrefin tíu þúsund. Langar  ykkur að vita hvernig að gengur? Ég skil illa hvernig nokkur kona hvað þá karl nær tíu þúsund skrefum á sólarhring. Ég reyni og reyni. Næ um átta þúsund þegar ég er á fullu, geng og geng, hreyfi mig bilað. Flesta daga er ég í ca fimm þúsund. Ég vinn í þeim ásetningi að efla viljann til að fara í gönguferð á kvöldin. Undir svefninn. Það hlýtur að vera skynsamlegt að ganga í hálftíma frekar en sitja við og leggja kapal í hálftíma áður en ég fer í rúmið og les. Hálftími er um þrjú þúsund skref. Svo, ef ég fer með strætó og rölti aðeins í hádeginu og fer út á kvöldin, nokkrar ferðir upp á sjöttu hæð og tel aldrei eftir mér sporin þá næ ég langt. h

Thursday, July 26, 2012

Afrek

Ég er lítið fyrir íþróttir, horfi afar sjaldan á útsendingar í sjónvarpi, hlusta enn sjaldnar á beinar lýsingar í útvarpi. Fletti hratt yfir íþróttafréttir í blöðum, ef ég sé þær á annað borð. Hlusta aldrei á gamlar lýsingar á kappleikjum eða frjálsum.
Eiginlega er mér alveg sama hvort það er fjallað um íþróttir í fjölmiðlum eða hvort dagskrá riðlast af þeim sökum. Ég er enn svo vel sett að ég get gert annað en horfa á eina eða tvær rásir. Ég fer út, í heimsóknir, tek til, dunda í garðinu, les, legg kapal eða geri eitthvað allt annað þegar íþróttirnar heltaka fjölmiðla.
Þó finnst mér skrítið að það efni sem tekið er upp á unglingalandsmóti UMFÍ er sýnt mörgum mánuðum síðar. Hvers vegna er það ekki sýnt fljótlega og haft á safninu fyrir þá sem vilja sjá aftur og aftur?
Hvers vegna er afrekum íslenskra kvenna sem leika körfubolta gert lægra undir höfði en karla skussunum í landsliðinu í fótbolta?
Hvers vegna er Annie Mist haldið utan við það að vera kjörgeng til íþróttamanns ársins?
Hvers vegna eru áhöld um það hvort sýnt verði frá Ólympíuleikum fatlaðra?
Hvers vegna eru sýndar, endursýndar, margsýndar og fleirsýndar ótrúlega óskemmtilegar mínútur frá fótbolta karla?
Hvar er íslenski kvennaboltinn? Karfa (þar sem þær eru bestar), fótbolti (þar sem þær eru þúsundfalt betri en karlarnir), handbolti (þær leyna á sér þar).

Wednesday, July 25, 2012

Berst á hæl og hnakka

Það er stundum skrítið hve erfitt er að finna út úr sjálfsögðum hlutum.
Nú reyni ég mitt besta til að muna hvað það er að berjast í bökkum og hitt að berjast á hæl og hnakka. Hvorugt er gott, held að þegar ég berjist á hæl og hnakka þá geri ég meira en mitt besta til að losna úr þeirri stöðu sem ég er í.  Svo þegar ég berst í bökkum, þá er ég blönk, eignalaus, allslaus. Kannski er þetta misminni hjá mér. Kannski er ég bara enn einu sinni á villigötum og búin að gera mér mitt eigið myndmál.
Get ég kannski barist um á hæl og hnakka til að losna við að berjast í bökkum?
Nú er Ofanleitið alveg að verða til. Rétt eftir að þrífa gólfin og gluggana. Það er alveg ferlegt hvernig Sigmundur málar, hann lætur ekkert á gólfin og svo fer málning út um allt. Hreint og beint veðst út.
Einhvern tíma set ég myndir inn af garðinum fyrir og eftir tiltekt.

Tuesday, July 24, 2012

Garður

Um daginn var spáð leiðindaveðri, talað um hvassviðri, ótrúlega mikla úrkomu. Fólk ætti að halda sig heima og gæta að öllu lauslegu.
Ég horfði út í garðinn og hugsaði mitt. Ég vildi frekar njóta lengur. Út fór ég, í blíðu, batt upp blóm, klippti önnur í vasa og færði sum að húsinu, bjó til skjól fyrir þau sem ég gat ekki fært. Svo beið ég og beið eftir vonda veðrinu sem myndi færa mér ótal trampolin og garðhúsgögn frá öðrum og rigningunni sem myndi lemja niður alpaþyrninn og bóndarósina (eiga bæði eftir að blómstra). Meðan ég beið tók ég myndir, bæði inni og úti. Að vísu kom veðrið aldrei en aldrei er of varlega farið sagði nunnan.
 Þarna er dalhían komin í hornið ásamt brúðarauga, bellis, rósmarín og sólblómi.
Á myndinni að neðan sést hve írisarnir voru flottir, hjarta lautinantsins í bakgrunni.


 Írisar tóku sig vel út á sófaborðinu.

Það voru anemónur á borðinu hjá kaktusnum

Monday, July 23, 2012

Humm og humm

Helgin var með ágætum.  Ég snuddaðist heima, eldaði, bakaði, þreif, þvoði, straujaði, saumaði og svo var það garðræktin. Bæði í Neðsta og Ofan. Já, já. Það var kominn tími á snudd. Simmi á fullu í Ofan og þurfti mað og með kaffi. Þvoði gardínur úr Ofan, straujaði og lagfærði sauma. Setti niður í garðinn í Ofan, eini, garðablóðberg og lauka sem ég tók upp þegar ég hreinsaði beð. Þá sáði ég salati og radísum og setti rósmarín og salvíu niður. Í garðinum í Neðsta klippti ég nær alla írisana og setti í vasa. Spáin var svo herfileg að ég bjóst við að þeir myndu fljúga út í veður og vind. Ég klippti líka anemónurnar og setti í vasa. Færði alla potta og kyrnur heim að húsi í var. Svo var lítill vindur og þetta hefði allt getað verið á sínum stað. Nú hefjast flutningarnir miklu, allt úr vari aftur.
Ég er búin að væla um útilegu, alveg síðan ég kom heim af ættarmóti. Ég fæ útilegu um næstu helgi. Þá liggjum við í Ofanleiti þar sem við erum búin að lána franskri fjölskyldu það Neðsta. Já, svona er það. Fyrst við vorum tvöföld bæði laugardags- og sunnudagsmorgun og lágum á gólfinu og teygðum, strekktum og rúlluðum, ákváðum við að liggja á dýnu í Ofanleiti um leið og við leggjum lokahönd á málningu og þrif. Vonandi verðum við iðin í vikunni svo við getum farið í bíó og annað skemmtilegt, svona fyrst við erum í útilegu.
Við skruppum í Hveragerði og keyptum eininn. Alltaf gaman að sjá Hveragerði.

Friday, July 20, 2012

Skref talin og pæld

Nú er ég öll í skrefum. Ég er búin að finna það út að ég vinn kyrrsetu vinnu. Það eru afar fá skref sem ég stíg þegar ég er á vinnustað. Ég hef tekið daga til að finna það út. Nú þarf ég að gera bragarbót þar á. Fara út í hádegi, ganga ca 10-15 mín og ef veðrið er arfavitlaust og ég illa klædd þá eru það stigarnir. Ég á eftir að telja hvað mörg skref eru upp á Réttarholt og til baka, eða litla hringinn, eða Fossvoginn (lítinn og stóran) og svo þann vinsæla, yfir í Safamýrina.
Stóra spurningin er hvort sund sé með þegar skref eru talin. Sigmundur vill fara auðveldu leiðina og heldur því fram. Ég segi nei, það sé stuðið á hælinn sem telur.
Undanfarna daga hef ég unnið í garðinum í Ofanleiti. Ég er öll útbitin á höndum og handleggjum, smábólur sem klæjar í. Nú er það að verða búið og þá fer ég í smáviðvik og annað sem þarf.

Thursday, July 19, 2012

Tölfræði

Ég er ávallt undrandi þegar ég skoða tölfræði fyrir bloggið mitt. Þeir sem skoða, hvort sem það eru vélar eða mannfólk eru oft frá ríkjum Austur-Evrópu og Asíu. Stundum koma Bandaríkin sterk inn. Ég hefði haldið að þeir sem lesa bloggið í raun og veru séu á Íslandi.
Ég er komin með skrefateljara, það er hægt að tékka á vegalengd ef maður veit hvað skrefið er langt að jafnaði. Ég hef meiri áhuga á fjöldanum á meðan Sigmundur er meira fyrir lengdina.
Hverjar eru líkurnar á því að hitta einhvern sem kona þekkir í Laugardalslaug? Ég held að það séu litlar líkur. Frá því ég fór að fara nær því daglega í laugarnar hef ég hitt fjóra.
Reyni Ragnarsson, hann er víst alltaf í hádeginu, Sigursteinu, hún syndir oftast um níuleyti, Huldu Óskars, hún fer í laugarnar og syndir með Görpunum. Hulda Óskars er mikill Garpur, komin á níræðisaldur og var að læra skriðsund því fæturnir þoldu bringusundið illa. Þessi þrjú hef ég hitt, hvert fyrir sig, einu sinni. Þar sem ég sat og pústaði eftir að hafa farið 1.150 metra kom maður ofan í pottinn. Rétt á eftir kom kona, hún dæsti og sagði að þetta væri yndislegt. Eftir smástund ákvað ég að taka undir og svaraði. Þá tók maðurinn við sér, þetta var Bogi Valur. Hann er í stuttu fríi hér á landi. Ótrúlegt að hitta hann. Ef ég hefði ekki svarað þá hefðum við ekkert spjallað, röddin kemur upp um mann. Úff, ég sem hélt að ég félli alltaf í fjöldann.

Wednesday, July 18, 2012

Hreyfing og holdafar

Um daginn fór ég til Hjartaverndar í tékk. Ég fór einnig fyrir fimm árum og fékk þá dóminn að allt væri í lagi en ég ætti að gæta að þyngdinni (ég væri í það þyngsta). Nú fannst mér tími kominn til að fara aftur þar sem ég hef þyngst nokkuð, hreyfi mig minna, borða jafnmikið og þrekið hefur minnkað sem og snerpan.
Þeir voru langt í frá jafnánægðir með mig og um árið. Nú er ég of þung, verð að léttast, gildin eru innan marka en það má lítið út af bregða til að þau verði brengluð.

Nú veit ég margt um hreyfingu, heilnæmi og ágæti. Ég nýt þess að vera úti, mér þykja sumar kökur góðar og nokkrar tegundir sælgætis. Best þykir mér þó súr epli, nýjar íslenskar gulrætur og rófur, te og vatn. Á því get ég lifað lengi, lengi. Ef syndi og geng að auki þá er allt í lagi. Því má spyrja sig, hvernig getur kona sem hefur ánægju af öllu því sem hollt er og heilsusamlegt lent í því að vera fyrirskipað að breyta lífsstíl. Svarið er líklega leti, meðvirkni og lítil hugsun.

Í útvarpinu heyrði ég að það eru margir sjúkdómar sem fylgja þessum óholla lífsstíl (hreyfingarleysi og ofþyngd). Það væri hægt að fyrirbyggja margt með hreyfingu. Bretar telja að tvær og hálf klukkustund í göngu, hjólreiðum eða garðvinnu á viku sé nóg til að halda heilsu. Danir segja, þrjátíu mínútur á dag en hverjar fimm mínútur gera mikið.  Á sama tíma og ég heyri og meðtek þörf fyrir hreyfingu og færri hitaeiningar þá eru fréttir af fólki sem leitar til læknis vegna ofþjálfunar, ofurálags á líkamann. Auðvitað er ég langt í frá að vera í hættu þess vegna þó ég syndi kílómeter, fari svo í garðinn í Ofanleiti í nær þrjá tíma, rölti upp á sjöttu hæð (komst í gær án þess að hvíla) og athuga hvað ég borða.
Eru virkilega engar skyndilausnir til? Verð ég að vinna þetta alveg sjálf og lifa skynsamlega hér eftir? Það styttist í skrefateljarann, líklega kemur hann í þessari viku. Það gæti farið svo að ég yrði að taka fleiri ferðir upp á sjöttu eða eftir stokknum til að ná átta þúsund skrefum. Danir segja að tíu þúsund skref á dag séu hæfileg, ég ætla að sjá eina viku, ef ég er langt undir tíu þúsund þá ætla ég að ná fyrst átta þúsund, svo níu þúsund og eftir það tveimur til þremur vikum í tíu þúsund. Þar eftir ætla ég að vera róleg þó ég nái að jafnaði um níu þúsund skrefum á dag. Ég þarf að vita hvað tíu þúsund skref eru mikið til að vita hvort ég hafi áhuga á þeim á hverjum degi.

Tuesday, July 17, 2012

Tengsl milli mittismáls og sjónvarpsgláps

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Á vef Morgunblaðsins las ég að það væri tengsl milli mittismáls og sjónvarpsgláps. Rannsókn sýmir að þeim mun meira sem tveggja til fjögurra ára börn horfa á sjónvarp þeim mun meira er ummál mittis við tíu ára aldur. Mælt er með að börn horfi ekki lengur en tvo tíma á sólarhring á sjónvarp.
Ju, sko, sjónvarp. Þegar ég var á þessum aldri, tveggja til fjögurra ára, þá var ekkert sjónvarp heima hjá foreldrum mínum. Þó var ég með meira mittismál en jafnaldrar mínir (langflestir) þegar ég var tíu ára. Nú bý ég svo vel að eiga sjónvarp, meira að segja tvö (annað ótengt í bílskúrnum). Ég horfi lítið, marga daga ekkert, þó er mittismál mitt umfram það sem heilbrigt er talið m.v. aldur, hæð og kyn. Mittismálið er klárlega í samræmi við þyngd.
Lítil virkni hlýtur alltaf að vera verri en meðal. Svo kvörtum við yfir of mikilli virkni. Það er vandlifað í henni veröld. Tveir tímar á dag fyrir framan skjá er of mikið fyrir svona lítil börn. Ég er hissa þegar ég sé börn glápandi á skjái í bílum og á matsölustöðum. Ég hef séð foreldra draga upp tölvur og stilla á borð fyrir framan börn þegar farið er út að borða. Svo una allir við sitt, foreldrar við mat og síma og börnin við myndir. Engir tala saman, það er að segja ekki við þá sem eru við borðið því það er svo mikilvægt að sinna hinum, þeim sem eru í símsambandi, hvort sem það er símtal, gsm eða tölvupóstur.
Við erum að skipta um leigjendur í Ofanleitinu. Við erum ekki sammála um hve lengi við erum búin að leigja íbúðina út. Sigmundur vill meina að hann hafi strax flutt í Neðstaleiti með allt sitt hafurtask og við leigt út strax haustið 2005. Það stenst engan veginn. Vorið 2006 tók ég baðherbergið í Neðstaleiti í gegn og þá vorum við í Ofanleiti, þegar Sigmundur fór í Veiðivötn þá var verið að ljúka framkvæmdum. Mamma kom í heimsókn haustið 2006 og þá var hún í Ofanleiti og drakk allt úr barskápnum (ég hélt að það hefði verið frægt í skrám Sigmundar).
Sigmundur mæðist inni, það á að mála allt. Við erum sammála um að seinast var málað 2004, gott að vera sammála um eitthvað.
Ég veltist úti, skríð með iðnaðarmannapúða á hnjánum, bogra og reyni að muna að anda og teygja eins og í jóga. Klippi, reyti, moka, raka. Garðurinn er ferlegur. Vonandi náum við leigjendum sem hugsa um hann. Að öðrum kosti er reynandi að fækka beðum, minnka þau og stækka stéttina.
Eftir langa þurrkatíð þá er ég nú í kapphlaupi við rigningu. Það er spá rigningu um helgina, eins gott að klára þrif sem fyrst svo ég geti sáð og borið á fyrir vætuna.
Eitt beðið er nær alveg tómt, ekkert fjölært. Hvað ætti að vera þar? Ætti að kaupa mispil og eitthvað sígrænt? Eitthvað sem þekur fljótt?

Monday, July 16, 2012

Hóst og stuna

Einu sinni kynntist ég manni í gegnum nám og vinnu. Mér féll hann engan veginn, hann var skelfilegur kennari og enn verri þegar hann reyndi að selja mér (vinnustað mínum) þjónustu. Mér fannst hann montinn, sjálfhælinn, fákunnandi, sýndi nemendum vanvirðingu og hrokafullur gagnvart þeim sem hann ætlaðist til að keyptu þjónustu af honum.
Eftir því sem hægt er hef ég sneitt hjá honum og öllu sem honum tilheyrir. Nú er úr vöndu að ráða. Ég er í ágætum hóp um garðrækt á snjáldurskinnu. Legg yfirleitt lítið til málanna en hef gaman af að lesa, fræðast og fylgjast með. Skoða myndir, fæ áhugaverða linka og bara sjá allt það sem fólk fæst við.
Nú hefur þessi maður tengst hópnum. Hann er viljugur að setja inn myndir, segja frá því sem hann er að gera og SETJA út á aðra. Heimta, oft ruddalega, að þessi hópur áhugamanna um ræktun sé svona og hinsegin. Eins og hann vill.
Ég skrifa um þetta hér því ég vil síður setja það á snjáldurskinnuna og alls ekki á hópinn.
Sem sagt, ég hef gefið honum séns, þrisvar sinnum, og ávallt sýnir hann dónalega, ráðandi hegðun. Því skrifa ég, ég afsaka að ég hafi leyft skrifum og myndum XX að komast inn í huga minn. Ég kveð hann og sný mér að öðru sem er meir gefandi og skemmtilegra.

OOOOOO franskir ostar. OOOOO franskir ostar. Yndislegir ávextir, frábært hunang, miel, miel, miel. Ég er spennt að sjá hvort Barði verði frankofil (francophile).

Friday, July 13, 2012

Ritstífla

Er haldin nokkurri rit- og lesstíflu þessa dagana. Tók langt frí frá blogginu því mér fannst ég hafa um lítið að skrifa og gerð korts af Hveragerði barnæsku minnar vék fyrir útiveru í sumrinu.
Er farin að synda reglulega og næ orðið nokkuð góðum lengdum og tíminn er að verða ásættanlegur. Ég næ 1100 metrum í Laugardalslaug án þess að stoppa mikið, varla til annars en teygja á öxlum og handleggjum þegar ég er hálfnuð. Oft er lítið eftir af þrekinu þegar ég er að koma að bakkanum en það endurnýjast við fráspyrnuna. þegar ég syndi í styttri laugum ligg ég í 1500 metrum, það er auðveldara að synda í 25 metra laug, fráspyrnan er svo oft. Svo geri ég mitt besta til að ganga og vera úti. Garðvinnan telur og ég næ góðum gönguferðum inn á milli, einnig þegar ég rölti í laugarnar. Þá er ég farin að vera í þreki, æfa þol í tröppum. Tek stigana í Neðsta, alveg frá kjallara upp á sjöttu einu sinni á dag hið minnsta. Oft er ég við það að vera andlaus þegar upp er komið en fín þegar ég stend aftur í kjallaranum. Ég vil gjarnan að hreyfing verði lífsstíll hjá mér. Ég hef allt í það, gaman af að hreyfa mig, mikla hreyfiþörf, nýt þess að ganga, synda og hjóla.
Mig langar í skrefateljara, einfaldan sem telur skref, langt í frá að það sé tæki sem tengt er við tölvu svo ég geti fylgst með skrefum mínum þar. Ég er að reyna að fækka stundum við tölvuna og að auki þá er ég öðruvísi markmiðsdrifin en lesa graf á tölvu.
Um daginn lauk ég bókin The Great Game, hún er um baráttu Rússa og Breta um yfirráð og ítök í Asíu, eiginlega allt nema Malasíu. Bókin er skrifuð frá sjónarhorni Breta. Áður hafði ég lesið bækur um Indland. Nú langar mig að lesa meira um þetta svæði. Yndislega gaman. Yndislestur minn þessa dagana er rit Sögufélagsins, að ég held frá 2009. Er í miðri grein Guðmundar Jónssonar um kreppur (hagsveiflur), aðaláherslan 1870-2006.

Thursday, July 12, 2012

Sól í sinni

Nú er enn ein sólarvikan að líða. Sól, nær því logn og þurrkur. Þurrkur og allt sem ekki er vökvað er gulnað. Að vísu koma öðru hvoru dembur, að mér virðist helst að nóttu eða snemma morguns. Í gær, þegar ég var að vökva, með volgu vatni til að blómin mín fái ekki sjokk, hugsaði ég hvað ég er heppin að búa á Íslandi. Ég er heppin með eindæmum. Ég get reynt að rækta hvað sem er úti, búið til skjól og sett áburð og svo ótakmarkað vatn. Þarf ekkert að hugsa, það sem ég greiði Orkuveitunni á ári er ekkert miðað við lúxusinn.
Já, ég er heppin að búa á Íslandi, vildi að vísu að sumt væri öðruvísi. Það væri svo gaman að eiga heima í Eldorado. Sælulandið.
Hvað væri í landi sælunnar sem vantar á Íslandi? Jamm, raunverulegir vetur, góð haust, hlý og rök vor og svo löng sumur, sólrík og lygn. Þá væru almenningssamgöngur frábærar og notaðar. Þá væru útlendingar í lokuðum sundlaugum, aðgangur bannaður fyrir aðra en útlendinga og útlendingum bannaður aðgangur að sundlaugum sem Íslendingar sækja.
Í landi sælunnar væri Sundabrautin og göngin undir Hlíðarfót löngu komin sem og nýtt og sameinað húsnæði fyrir háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið á Akureyri væri öflugt og flugvöllurinn þar væri sérlega góður. Enginn flugvöllur væri í Vatnsmýrinni. Innanlandsflug hér sunnanlands væri í Keflavík.
Í landi sælunnar væri hugsað af mikilli framsýni um sorpmál. Það væri flokkað, brennt, moltað, endurunnið og alles. Þar væri bannað að reka sveitarfélag sem leggur milljónir á milljónir ofan í allskonar fyrir alla en ákveður að flytja sorp til annarra. Íbúar í Vestmannaeyjum eiga að skammast sín fyrir að vilja ekki láta krónu af miklum tekjum sínum og eignum renna til sorphirðu og eyðingar. Þeir ætla að flytja allt í burtu.
Nú má alls ekki misskilja mig, ég vil láta brenna vel flokkað sorp en ég er lítt hrifin af því þegar fólk flytur vandann yfir á aðra.
Kannski skrifa ég meira um sælulandið seinna en núna ætla ég að huga að blómunum. Írisarnir eru alveg að springa út, margir, margir í einu.

Wednesday, July 11, 2012

Hásumar

Ég elska þig stormur! hm, nei, það er óviðeigandi að vitna í þetta ljóð Hannesar Hafstein á sólfögrum degi. Ég elska þig sumar er betra og frá mér komið.
Áður en ég skrifa meira þá bendi ég á að Hannes Hafstein sjálfur notaði þetta orð, elska storm. Nú er oft bent á að það er vart við hæfi að segjast elska sól, blíðu, mat, lestur o.s.frv. Maðurinn elskar aðra mannveru ekki hluti og gjörðir.

Það er búið að vera aldeilis fínt veður og flestur gróður ber þess merki. Meira að segja írisarnir eru státnir og flottir, það er stutt í að þeir blómstri, allir 18 knúpparnir. Hortensían er farin að sýna blóm, eitt og eitt hvítt. Sú  færeyska er um 50 cm há og alsett knúppum. Ég læddist og keypti mér dahlíu og setti út við glervegg því laukarnir eru búnir að syngja sitt síðasta. Anemónurnar ætla að blómstra tvisvar og njóta sín vel í skugganum við hlið tveggja brúska. Matlaukur í keri þýtur upp og ég fæ vatn í munninn við að hugsa um nýjan lauk og nýjar kartöflur með rósmarin og blóðbergi úr eigin garði. Vorlaukurinn sem Palla færði mér verður þokkalegur, alveg ágætur.

Flestir hafa heyrt af því að föt minnki í þvotti og í skápum. Svona eins og þvottur og geymsla hafi þau áhrif. Ég get vart kvartað undan því. Ég veit að ég stækka sífellt en brókin ekki. Ég glími við annað vandamál. Ég hreint og beint týni spjörunum, eiginlega utan af mér. Á mánudag man ég eftir mér í sólbaði og ég var í brjóstahaldara. Ég man líka að ég ákvað að vera í honum frekar en bikini því ég get ekki fest það sjálf. Svo hef ég farið úr haldinu. Nú finn ég það hvergi. Ég er búin að búa um rúmið, taka saman sólbaðsdótið, skipta um á rúminu, fara í gegnum skúffur og hillur í fataskáp og inn á baðherbergi. Til öryggis athugaði ég flesta skápa í eldhúsinu. Ég hallast helst að því að ég hafi hent haldinu, kannski um leið og ég fékk mér te, hafi laumað honum í ruslafötuna og svo út í sorpgeymslu með tepokanum. Ég er alveg lens en þetta er svo sem langt í frá fyrsta skipti sem föt sem ég á hverfa. Það hefur bara aldrei áður gerst að þau hverfi utan af mér.

Hugur minn fylgir þér djarfur og glaður