My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, July 13, 2012

Ritstífla

Er haldin nokkurri rit- og lesstíflu þessa dagana. Tók langt frí frá blogginu því mér fannst ég hafa um lítið að skrifa og gerð korts af Hveragerði barnæsku minnar vék fyrir útiveru í sumrinu.
Er farin að synda reglulega og næ orðið nokkuð góðum lengdum og tíminn er að verða ásættanlegur. Ég næ 1100 metrum í Laugardalslaug án þess að stoppa mikið, varla til annars en teygja á öxlum og handleggjum þegar ég er hálfnuð. Oft er lítið eftir af þrekinu þegar ég er að koma að bakkanum en það endurnýjast við fráspyrnuna. þegar ég syndi í styttri laugum ligg ég í 1500 metrum, það er auðveldara að synda í 25 metra laug, fráspyrnan er svo oft. Svo geri ég mitt besta til að ganga og vera úti. Garðvinnan telur og ég næ góðum gönguferðum inn á milli, einnig þegar ég rölti í laugarnar. Þá er ég farin að vera í þreki, æfa þol í tröppum. Tek stigana í Neðsta, alveg frá kjallara upp á sjöttu einu sinni á dag hið minnsta. Oft er ég við það að vera andlaus þegar upp er komið en fín þegar ég stend aftur í kjallaranum. Ég vil gjarnan að hreyfing verði lífsstíll hjá mér. Ég hef allt í það, gaman af að hreyfa mig, mikla hreyfiþörf, nýt þess að ganga, synda og hjóla.
Mig langar í skrefateljara, einfaldan sem telur skref, langt í frá að það sé tæki sem tengt er við tölvu svo ég geti fylgst með skrefum mínum þar. Ég er að reyna að fækka stundum við tölvuna og að auki þá er ég öðruvísi markmiðsdrifin en lesa graf á tölvu.
Um daginn lauk ég bókin The Great Game, hún er um baráttu Rússa og Breta um yfirráð og ítök í Asíu, eiginlega allt nema Malasíu. Bókin er skrifuð frá sjónarhorni Breta. Áður hafði ég lesið bækur um Indland. Nú langar mig að lesa meira um þetta svæði. Yndislega gaman. Yndislestur minn þessa dagana er rit Sögufélagsins, að ég held frá 2009. Er í miðri grein Guðmundar Jónssonar um kreppur (hagsveiflur), aðaláherslan 1870-2006.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home