My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, July 12, 2012

Sól í sinni

Nú er enn ein sólarvikan að líða. Sól, nær því logn og þurrkur. Þurrkur og allt sem ekki er vökvað er gulnað. Að vísu koma öðru hvoru dembur, að mér virðist helst að nóttu eða snemma morguns. Í gær, þegar ég var að vökva, með volgu vatni til að blómin mín fái ekki sjokk, hugsaði ég hvað ég er heppin að búa á Íslandi. Ég er heppin með eindæmum. Ég get reynt að rækta hvað sem er úti, búið til skjól og sett áburð og svo ótakmarkað vatn. Þarf ekkert að hugsa, það sem ég greiði Orkuveitunni á ári er ekkert miðað við lúxusinn.
Já, ég er heppin að búa á Íslandi, vildi að vísu að sumt væri öðruvísi. Það væri svo gaman að eiga heima í Eldorado. Sælulandið.
Hvað væri í landi sælunnar sem vantar á Íslandi? Jamm, raunverulegir vetur, góð haust, hlý og rök vor og svo löng sumur, sólrík og lygn. Þá væru almenningssamgöngur frábærar og notaðar. Þá væru útlendingar í lokuðum sundlaugum, aðgangur bannaður fyrir aðra en útlendinga og útlendingum bannaður aðgangur að sundlaugum sem Íslendingar sækja.
Í landi sælunnar væri Sundabrautin og göngin undir Hlíðarfót löngu komin sem og nýtt og sameinað húsnæði fyrir háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið á Akureyri væri öflugt og flugvöllurinn þar væri sérlega góður. Enginn flugvöllur væri í Vatnsmýrinni. Innanlandsflug hér sunnanlands væri í Keflavík.
Í landi sælunnar væri hugsað af mikilli framsýni um sorpmál. Það væri flokkað, brennt, moltað, endurunnið og alles. Þar væri bannað að reka sveitarfélag sem leggur milljónir á milljónir ofan í allskonar fyrir alla en ákveður að flytja sorp til annarra. Íbúar í Vestmannaeyjum eiga að skammast sín fyrir að vilja ekki láta krónu af miklum tekjum sínum og eignum renna til sorphirðu og eyðingar. Þeir ætla að flytja allt í burtu.
Nú má alls ekki misskilja mig, ég vil láta brenna vel flokkað sorp en ég er lítt hrifin af því þegar fólk flytur vandann yfir á aðra.
Kannski skrifa ég meira um sælulandið seinna en núna ætla ég að huga að blómunum. Írisarnir eru alveg að springa út, margir, margir í einu.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home