Pabbi minn átti mörg systkin. Hann var fæddur 1915 (dó 1986) og var með þeim elstu. Eldri voru Gunnararnir.Ég veit að tvö dóu barnung, Gunnar eldri og Vigdís. Þau sem lifðu og ég þekkti voru Gunnar, Hjalti, Vigfús, Sigurður, Valgerður, Álfheiður, Skafti, Sigtryggur, Sigríður og Benedikt. Nú lifa einungis tveir bræður, Sigga dó nýlega.
Gunnar þekkti ég lítið, vissi að hann var á sjó og bjó í Blesugrófinni. Mig minnir að kona hans hafi heitað Ósk.
Hjalta þekkti ég í sjón, hann kom oft heim. Hann var leigubílstjóri og bjó á Hverfisgötunni, mig minnir að kona hans hafi verið kölluð Kidda. Í minningunni var Hjalti oftast drukkinn þegar hann kom í heimsókn. Mér var illa við það, man að ég faldi mig fyrir barngóðum manninum því mér leið illa þegar drukkið fólk var nálægt mér.
Vigfús, ávallt kallaður Fúsi, bjó í Seljatungu og vann lengi í Kaupfélaginu Höfn. Hann átti Sesselju Sumarrós. Þau þekkti ég bæði. Ég minnist Fúsa sem glaðlegs manns með fallega rödd. Þegar ég var farin að vinna á skrifstofu og var að afgreiða einn viðskiptavin sagði sá - ég hef bara séð einn skrifa svona hönd áður- (skriftin mín hallar til vinstri). Þegar ég spurði hver það væri þá var það Fúsi. Við fórum, að mig minnir, nokkuð oft í Seljatungu. Þar var margt áhugavert til dæmis harðfiskur sem var barinn á steini sem stóð í hlaðvarpanum.
Sigurður bjó á Selfossi með henni Siggu Bjarna og vann í Mjólkurbúi Flóamanna. Fyrr höfðu þau búið við Sogsvirkjanir og á fleiri stöðum. Siggi og Sigga voru náskyld. Þau voru dálítið lík, hjónasvipur með þeim. Þau áttu urmul af börnum sem ég þekkti lítið en vissi þó um flest nöfnin. Það var nefnilega langt á milli Selfoss og Hveragerðis í þá tíð og umheimurinn var afar nærri naflanum. Það voru nokkuð mikil samskipti við Sigga og Siggu þó mér finnist börnin fjarlæg.
Valgerður, Valla, bjó lengst af í Kópavogi með Haraldi. Þau áttu einnig mörg börn, það er eins og stelpurnar þeirra hafi betri festu í minninu en börn Sigga. Eitt sinn keypti ég málverk af Haraldi og gaf Barða.
Álfheiður, Alla, bjó á Eiríksgötunni. Hún var gift Lárusi. Þau áttu nokkur börn sem ég vissi af og veit enn af en þekki lítið. Þó veit ég að Ásthildur í Vík í Mýrdal er dóttir hennar. Það er gaman að sjá andlit sem ég þekki en þekki þó ekki. Ég man einu sinni eftir að Alla og Lárus hafi komið í Hveragerði. Ég man aldrei eftir að hafa farið til þeirra á Eiríksgötuna.
Skafti býr á Selfossi með Sigrúnu. Eitt sinn bjuggu þau í Hveragerði, þá voru Siggi og Palli litlir guttar og ég aðeins hærri í loftinu en engu eldri. Seinna komu Gréta og Einar í heiminn. Skafti er lifandi dæmi um mann sem afsannar allar kenningar. Hann hefur alltaf séð illa en þó unnið við flest það sem hægt er að hugsa sér. Hann var á sjó, í sláturhúsi og garðyrkju. Það eru ótal sögurnar sem ég hef heyrt af hvernig honum var strítt. Í dag væri talað um að níðst hefði verið á honum og fötlun hans.
Sigtryggur (Siddi) býr einnig á Selfossi með Gústu (Ágústu). Hann vann lengstum hjá Mjólkurbúinu. Kannski hafa þau búið fyrir vestan um tíma, í það minnsta tengi ég þau mikið við Flateyri (frekar en Þingeyri). Mér finnst að hann hafi gifst seint og það var skrítið þegar hann var kominn með konu. Þegar ég skoða hvenær hann er fæddur og hvenær elsta barnið er fætt þá voru Siddi og Gústa langt í frá gömul eða sein í því. Það var barnið sem var með skakka mynd. Siddi og pabbi líkjast mjög mikið. Líklega var Hjalti einnig í sama móti og þeir.
Sigríður, Sigga, bjó á Selfossi með Axel. Þau bjuggu á Tryggvagötunni. Axel var pípari og Sigga vann á símstöðinni. Benni Axels kom í heiminn eftir að ég man eftir mér. Það var ævintýri. Sigga með rauða hárið og hásu röddina. Sigga sem líkist Pöllu á margan hátt, eiginlega allt nema hárið.
Benedikt (Benni), bjó á neðri hæð í sama húsi og Sigga og Axel. Hann var bjartur, enn bjartari en Fúsi. Hann vann lengi hjá Kaupfélaginu og líklega hjá Mjólkubúinu, var á bílum. Fóðurbíl og kaupfélagsbíl. Þegar ég var barn kom hann stundum í Hveragerði og lagði sig í hádeginu, hvað sem hann var að keyra þá. Þá djöfluðumst við í honum. Það getur ekki hafa verið mikil hvíld. Hann kvæntist seint, Ingibjörgu að mig minnir. Þar voru engin börn.