Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, May 31, 2012

Lok maí

Í gær var ég við jarðarför Siggu föðursystur minnar. Hún dó 81 árs og var kvödd frá Selfosskirkju. Útförin var ólýsanlega falleg. Tónlist og söngur með afbrigðum fallegt og presturinn góður. Erfidrykkjan var í anda ættfólks míns, látlaus og bragðgott meðlæti og hægt að spjalla við þá sem fylgdu Siggu.
Nú er mér efst í huga hvað ég á margt fallegt og skemmtilegt frændfólk.
Þegar ég vann á hreppsskrifstofunni í Þorlákshöfn, nú bæjarskrifstofan í Sveitarfélaginu Ölfusi, sögðu margir eldri bændur í Ölfusi að ég væri dóttir Lalla í Grænhól. Mér fannst það skemmtilegt en hafði aldrei tengt pabba við Grænhól eða Arnarbælishverfið. Ég vissi að hann tengdist Kotströnd, þar var góður vinur hans, svo var hann fæddur á Gljúfri, einn bróðir hans bjó á Sogni og svo foreldrar hans í Helli og Einholti.
Í gær spurði ég Einar á Gljúfri. Hann sagðist halda að pabbi minn hefði verið á Grænhól og síðar vinnumaður í Arnarbæli. Á Grænhól hefur hann þá verið eftir að hann kom að austan. Pabbi fór um sjö ára aldur austur á Mýrar til Þorbjargar móðursystur sinnar og var hjá henni í nokkur ár. Eftir Grænhól var Arnarbæli viðkomustaður.
Arnarbæli skýrir margt. Pabbi sagði oft frá því að hann hefði farið á skautum til Eyrarbakka. Ég tengdi hann alltaf við Gljúfur, sá reyndar illa hvernig hægt var að fara á skautum þaðan en. En svo margt hefur nú gerst að það er alveg eins mögulegt.

Tuesday, May 29, 2012

Systkini ömmu minnar

Amma mín, Pálína Benediktsdóttir frá Viðborði á Mýrum var af svokallaðri Einholtsætt. Sú ætt er langt í frá eins mannmörg og Bergsætt eða Arnardalsætt en hún er ákaflega mannvæn :)
Ég skrifa eins og ég sé af einni ætt, það er svo sem ekkert skrítið því móðurætt mín er í Færeyjum og bæði afi og amma þeim megin dóu löngu áður en ég fæddist.
Ég þekkti föðurforeldra mína lítið, var fimm/sex ára þegar þau dóu, en þau voru svo nærri. Mörg systkini pabba bjuggu í Árnessýslu og svo voru systkini ömmu í Hveragerði og Ölfusi.
Þó amma mín hafi verið úr Austur Skaftafellssýslu þá var frændgarðurinn stór í Hveragerði og Ölfusi. Þau fluttu mörg systkinin þangað og staðfestust.
Amma mín og afi (Einar Sigurðsson frá Slindurholti á Mýrum) bjuggu á Gljúfri (þar fæddist pabbi minn), svo í Helli og síðast í Einholti. Gljúfur er upp við Reykjafjall, sést vel frá Suðurlandsvegi, stór svartur súrheysturn. Líklega væri núna greinarbest að segja að Gljúfur væri rétt hjá Nátthaga en áður var sagt fyrir ofan Gljúfurholt.
Hellir er þar sem nú er Hellisskógur sem Selfyssingar rækta. Bærinn tók nafn sitt af helli sem er í landinu. Hellirinn var notaður fyrir sauðfé og hey, aldrei sem mannabústaður eins og nýjustu sögur hljóða. Hellir er út í Hrísmýrinni fyrir utan á. Einholt er skiki úr landi Hellis. Í dag eiga mörg ættmenni mín skika í Einholti og rækta þar ýmsan gróður.
Ömmu bróðir minn var bóndi á Gljúfri, Sigurður Benediktsson. Eiginlega var Guðný kona hans vinsælli, hún lifði lengur og því voru rammari taugar til hennar. Sigmar sonur þeirra var uppáhaldsfrændinn. Hann giftist seint og hafði því góðan tíma til að atast í börnum.
Tveir bræður ömmu minnar bjuggu í Hveragerði.
Unnar var giftur Valgerði Elíasdóttur náfrænku minni. Þau bjuggu í litlu húsi rétt við hverasvæðið (það var hver í lóðinni). Húsið hét Þórshamar. Ég var stundum geymd hjá þeim, kynntist skáldskap Jóhannesar í Kötlum og fleirum afbragðsskáldum. Dætur þeirra tvær eru Álfheiður og Elsa. Álfheiður er móðir Jóhanns Ingólfssonar stórvinar Sigmundar og Elsa er móðir Valgerðar sem er enn meiri vinkona Sigmundar. Valgerður Elíasdóttir var systurdóttir afa míns. Börn Unnars voru því náskyld pabba og systkinum hans.
Gunnar bjó einnig í Hveragerði. Hann var giftur Valdísi Halldórsdóttur. Það var enginn hver í lóðinni en heldur meiri gróður og svo voru margar, margar, margar bækur til. Hjá þeim kynntist ég töfrum H.C. Andersen, Þumallína var í uppáhaldi, einnig Hans klaufi.
Jónína (Jonna) bjó á Friðarstöðum fyrir ofan Hveragerði. Ég man óljóst eftir henni en þó var mikið farið þangað. Friðarstaðir eru rétt við hverinn Grýlu. Krakkarnir skondruðust með sápu uppeftir, settu sápuna í hverinn og biðu eftir gosi. Við fengum alltaf gúrkur eins og við gátum í okkur látið þegar við komum á Friðarstaði. Líklega hefur það þó einungis verið á sumrin því engar gúrkur voru á vetrum.
Svo var móðir Ingunnar og Siggu Bjarna systir ömmu. Sú bjó á Mýrum sem og fleiri systkini sem ég kynntist ekkert. Ingunn átti heima í sömu götu og við og Sigga var gift Sigga föðurbróður mínum. Þó þekkti ég Þorbjörgu sem var yngst þeirra. Hún bjó á Árbæ með Sigurjóni manni sínum. Ég var tvö sumur í sveit hjá þeim.
Guðjón Benediktsson var í Reykjavík. Ég heyrði einungis af honum og fannst hann merkilegur. Hann var nefnilega harður baráttumaður fyrir réttindum launþega. Ömmubræðra minna er getið í ýmsum ritum s.s. Gúttóslagnum og fleirum þar sem sagt er frá harðvítugri baráttu vinnandi stétta við auðvaldið.

Friday, May 25, 2012

Draumfarir

Mig dreymdi fallegan og notalegan draum í nótt. Ég var að vinna í sumarbústaðalandinu mínu. Ljósrita skipulag og svo fór ég út og skoðaði landið. Það var huggulegt, sandhólar og góðar lautir. Í vestri var búið að planta ýmsum trjám, ég sá birki, furu og svo víði. Það var hlýtt og lítill vindur en engin sól. Upplagt veður til að njóta útiveru. Mér leið vel, landið var mikið fallegra en mig minnti.
Svo var ég aftur komin á skrifstofuna, að ljósritunarvélinni. Guðný og Ellý komu og vildu tala við mig. Ég vildi frekar fara með þær inn á fundarherbergi/sal en inn á skrifstofuna. Þegar við komum þangað var verið að undirbúa sýningu handverksfólks, allskonar bútasaumur og útskurður.

Ég er drjúg að reita úr garðinum, allt sem ég er óviss með hvað er fær að fjúka. Allt sem ég tel að komi úr fuglafóðri fær að fjúka. Það er sem sagt nokkuð mikið sem ég tek. Venjuleg hegðun hjá mér er, ein yfirferð og allt tekið sem ég sé. Sest niður og horfi. Eitthvað stingur í augun, upp og reiti. Fæ mér te, rjátla um, gríp eitt og eitt kímblað. Ég hef oft tekið frekar gerðarlegar plöntur á frumstigi. Lítið pælt hvað það er í raun og veru.
Núna sáði ég til sólblóma, bæði í potta inni og út í beð. Það sem fór í pottana hefur spírað. Nema hvað, þetta er alveg eins og það sem ég hef ráðist á í garðinum. Næsta vetur ætla ég að gefa sólblómafræ út á hólinn og sjá hvað spírar og verður að blómi. Nú vonumst við eftir góðu vori og sumri árið 2013.

Thursday, May 24, 2012

Langþráð rigning

Nú rignir í Reykjavík. Mér finnst langt síðan loftið hreinsaðist síðast. Efsta lag moldar í garðinum var orðið alveg þurrt en um leið og ég rótaði í henni (moldinni) þá var raki. Þegar rignir í hægu veðri líkt og í dag þá dafnar gróðurinn vel. Það er eins og hann fái ofurskot af næringu.
Líklega taka fuglarnir einnig við sér. Ég rumskaði í morgun við mikinn söng og gleði. Þegar ég svo fór á fætur og leit út á stétt þá kom enginn þröstur til að fá gott í gogginn.
Það er þrastapar, í það minnsta tveir þrestir, sem eru þaulsætnir við garðinn. Þegar við Sigmundur komum út þá koma þeir, annar eða báðir, hoppa alveg upp að okkur og mæna. Þeir hreyfa sig ekki á meðan við náum í rúsínur og svo hakka þeir í sig. Ég er alveg viss um að þetta eru ávallt sömu þrestirnir. Sigmundur telur að það geti verið að þeir skiptist á að njóta góðgætisins.

Nú í vikunni hefur verið mikil umræða um lífeyrissjóði, framtíð þeirra, greiðslugetu og aldur til lífeyris. Ég hef lengi haft þá skoðun að frjálsi lífeyrissparnaðurinn væri hugsaður þannig að sá sem ekki sparaði fengi ekkert frá ríkinu í staðinn. Það var aldrei sagt, ég las það milli línanna á því ósagða :)
Þegar rætt er um aldur til lífeyris er sagt að hann muni hækka, lágmark úr 67 ára í 68 ára og engin frávik neðar. Þeir sem vilja draga úr vinnu eða hætta fyrr geti notað frjálsa lífeyrissparnaðinn.
Greiðslugeta lífeyrissjóða fer eftir ávöxtun eigna, greiðslu iðgjalda og hve margir þiggja lífeyri. Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða er bundin í lögum 3,5%. Það er hart sótt að þeirri tölu. Þeir sem sækja hart eru þeir sem vilja fá lán hjá lífeyrissjóðunum við lægri vöxtum. Stjórnendur lífeyrissjóða verjast. Sjóðfélagar ættu einnig að verjast. Ávöxtunartími lífeyrissjóða er talinn í tugum ára, 25 ár er bil sem á að skoða. Eitt til fimm ár eru ómarktæk. Ávöxtunarkrafan er lág, lægri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef við lækkum ávöxtun þá kemur það lítið við þá sem nú þegar eru á lífeyri eða fara á hann innan fimm ára. Breytingin snertir mest þá sem koma á lífeyri eftir ca 25 ár. Hverjir eru það? Það eru þeir sem eru nú 40 ára og yngri.

Lífeyrissjóðir voru mikið framfaraskref. Einn þeirra sem kom þeim á er tengdafaðir minn Grétar Sigurðsson. Hann var einn þeirra sem vann mikið óeigingjarnt starf án þess að fá mikið annað en glósur fyrir og vanþakklæti. Nú er komið að lokum lífs hans. Það er sárt að líf og starf hans hafi ekki verið skráð.

Wednesday, May 23, 2012

Föðursystkin mín

Pabbi minn átti mörg systkin. Hann var fæddur 1915 (dó 1986) og var með þeim elstu.  Eldri voru Gunnararnir.Ég veit að tvö dóu barnung, Gunnar eldri og Vigdís. Þau sem lifðu og ég þekkti voru Gunnar, Hjalti, Vigfús, Sigurður, Valgerður, Álfheiður, Skafti, Sigtryggur, Sigríður og Benedikt. Nú lifa einungis tveir bræður, Sigga dó nýlega.
Gunnar þekkti ég lítið, vissi að hann var á sjó og bjó í Blesugrófinni. Mig minnir að kona hans hafi heitað Ósk.
Hjalta þekkti ég í sjón, hann kom oft heim. Hann var leigubílstjóri og bjó á Hverfisgötunni, mig minnir að kona hans hafi verið kölluð Kidda. Í minningunni var Hjalti oftast drukkinn þegar hann kom í heimsókn. Mér var illa við það, man að ég faldi mig fyrir barngóðum manninum því mér leið illa þegar drukkið fólk var nálægt mér.
Vigfús, ávallt kallaður Fúsi, bjó í Seljatungu og vann lengi í Kaupfélaginu Höfn. Hann átti Sesselju Sumarrós. Þau þekkti ég bæði. Ég minnist Fúsa sem glaðlegs manns með fallega rödd. Þegar ég var farin að vinna á skrifstofu og var að afgreiða einn viðskiptavin sagði sá - ég hef bara séð einn skrifa svona hönd áður- (skriftin mín hallar til vinstri). Þegar ég spurði hver það væri þá var það Fúsi. Við fórum, að mig minnir, nokkuð oft í Seljatungu. Þar var margt áhugavert til dæmis harðfiskur sem var barinn á steini sem stóð í hlaðvarpanum.
Sigurður bjó á Selfossi með henni Siggu Bjarna og vann í Mjólkurbúi Flóamanna. Fyrr höfðu þau búið við Sogsvirkjanir og á fleiri stöðum. Siggi og Sigga voru náskyld. Þau voru dálítið lík, hjónasvipur með þeim. Þau áttu urmul af börnum sem ég þekkti lítið en vissi þó um flest nöfnin. Það var nefnilega langt á milli Selfoss og Hveragerðis í þá tíð og umheimurinn var afar nærri naflanum. Það voru nokkuð mikil samskipti við Sigga og Siggu þó mér finnist börnin fjarlæg.
Valgerður, Valla,  bjó lengst af í Kópavogi með Haraldi. Þau áttu einnig mörg börn, það er eins og stelpurnar þeirra hafi betri festu í minninu en börn Sigga. Eitt sinn keypti ég málverk af Haraldi og gaf Barða.
Álfheiður, Alla, bjó á Eiríksgötunni. Hún var gift Lárusi. Þau áttu nokkur börn sem ég vissi af og veit enn af en þekki lítið. Þó veit ég að Ásthildur í Vík í Mýrdal er dóttir hennar. Það er gaman að sjá andlit sem ég þekki en þekki þó ekki. Ég man einu sinni eftir að Alla og Lárus hafi komið í Hveragerði. Ég man aldrei eftir að hafa farið til þeirra á Eiríksgötuna.
Skafti býr á Selfossi með Sigrúnu. Eitt sinn bjuggu þau í Hveragerði, þá voru Siggi og Palli litlir guttar og ég aðeins hærri í loftinu en engu eldri. Seinna komu Gréta og Einar í heiminn. Skafti er lifandi dæmi um mann sem afsannar allar kenningar. Hann hefur alltaf séð illa en þó unnið við flest það sem hægt er að hugsa sér. Hann var á sjó, í sláturhúsi og garðyrkju. Það eru ótal sögurnar sem ég hef heyrt af hvernig honum var strítt. Í dag væri talað um að níðst hefði verið á honum og fötlun hans.
Sigtryggur (Siddi) býr einnig á Selfossi með Gústu (Ágústu). Hann vann lengstum hjá Mjólkurbúinu. Kannski hafa þau búið fyrir vestan um tíma, í það minnsta tengi ég þau mikið við Flateyri (frekar en Þingeyri). Mér finnst að hann hafi gifst seint og það var skrítið þegar hann var kominn með konu. Þegar ég skoða hvenær hann er fæddur og hvenær elsta barnið er fætt þá voru Siddi og Gústa langt í frá gömul eða sein í því. Það var barnið sem var með skakka mynd. Siddi og pabbi líkjast mjög mikið. Líklega var Hjalti einnig í sama móti og þeir.
Sigríður, Sigga, bjó á Selfossi með Axel. Þau bjuggu á Tryggvagötunni. Axel var pípari og Sigga vann á símstöðinni. Benni Axels kom í heiminn eftir að ég man eftir mér. Það var ævintýri. Sigga með rauða hárið og hásu röddina. Sigga sem líkist Pöllu á margan hátt, eiginlega allt nema hárið.
Benedikt (Benni), bjó á neðri hæð í sama húsi og Sigga og Axel. Hann var bjartur, enn bjartari en Fúsi. Hann vann lengi hjá Kaupfélaginu og líklega hjá Mjólkubúinu, var á bílum. Fóðurbíl og kaupfélagsbíl. Þegar ég var barn kom  hann stundum í Hveragerði og lagði sig í hádeginu, hvað sem hann var að keyra þá. Þá djöfluðumst við í honum. Það getur ekki hafa verið mikil hvíld. Hann kvæntist seint, Ingibjörgu að mig minnir. Þar voru engin börn.

Friday, May 18, 2012

Erfitt val

Ég er í fríi í dag. Helgin verður því löng, enn og aftur. Næsta vinnuvika verður heilir fimm dagar svo stutt vika og eftir það býst ég við að sumarið sé komið, þá eru allar vikur stuttar, kvöld löng og helgar frábærar.
Ég velti ýmsu fyrir mér. Nú langar mig út í garð en það er kalt, loftið er kalt þó það sé heitara en undanfarið. Þvottakarfan er full og það þyrfti að skipta á rúminu og þvo hlífðarver af púðum.
Ég á erfitt með að ákveða mig. Hvorki garðurinn né þvotturinn fer langt. Líklega hrjáir mig leti og löngun í hita, sól og blíðu.
Jón Magnússon fyrrum alþingismaður, núverandi lögfræðingur og félagi í ýmsum samtökum hefur skrifað um greiðslur til hælisleitenda, ólöglegra innflytjenda og borið saman við greiðslur til þeirra sem eru á lífeyri og án atvinnu. Viðbrögðin eru all svakaleg. Hann er úthrópaður, raunverulega fyrir það eitt að skrifa sannleikann.

Á snjáldurskinnu er ég vinur einnar frænku minnar sem ég þekki lítið sem ekkert í raunheimi. Ég veit hver hún er, við hvað hún vinnur og hver áhugamál hennar eru. Einnig veit ég að hún er í undirbúningsnefnd fyrir mót afkomenda föðurafa míns og ömmu. Í dag setti hún inn hlekk, viðtal við Janne Sigurðsson forstjóra Alcoa á Reyðarfirði. Frænka mín vakti athygli á að Janne segist hvorki vera karl né kona heldur Janne. Það voru komnar nokkrar athugasemdir við þetta. Allar í þá veru að annað hvort er mannskepnan karl eða kona. Ég setti inn athugasemd og benti á að svar færi eftir spurningu og ef samhengið er slitið þá getur svarið verið skrítið.
Eftir það urðu athugasemdirnar rætnar, farið að tala um að sumir væru hvorki karl né kona og myndin benti til þess að Janne væri ein þeirra. Það fannst mér sárt. Stundum hef ég, þegar mér ofbýður umræðan, aftengt vináttu. Mig langar að gera það núna.

Thursday, May 17, 2012

Uppstigningardagur

Dagurinn er ljúfur. Ég hef sérstakar taugar til sérstakra daga kristinnar trúar. Þeir minna á upprunann og flestar tilvísanir sem ég finn í listum, bókmenntum og máli manna. Meira að segja þegar ég les bækur um líf í þeim löndum Asíu þar sem menn hylla íslam þá eru sterkar tilvísanir í grunn kristinnar trúar.
Í Danmörk er umræða um að fækka lögbundnum frídögum. Óvísindaleg könnun fór fram meðal lesenda vefmiðils. Fleiri vildu að dagar eins og 1. maí yrðu virkir en að dagar sem tengjast kristnum hátíðum yrðu virkir.
Ég hef engar forsendur til að meta hversu áreiðanleg útkoman er. Hverjir svöruðu, hver staða þeirra er o.s.frv. Mér fannst þetta áhugavert því ég hef tekið eftir umræðu og skrifum um að staða kristninnar er veik í Danmörk. Sú niðurstaða er leidd út frá því að kirkjur eru illa sóttar og sífellt fleiri velja að vera utan trúfélaga.
Hvað segir það um þjóðfélag sem sækir ekki kirkjur þegar það vill frekar halda í kristna hátíðisdaga en daga sem eru merki um áfanga í réttindabaráttu?
Hvað myndu Íslendingar velja? Myndu launþegar hafna 1. maí vegna þess að það er lummulegt að viðurkenna að maður þurfi að hafa fyrir lífinu? Myndi þjóðin velja að halda í frí á uppstigningardegi og taka sér frí 1. maí?
Um 1970 var aldur til eftirlauna færður niður í Danmörk. Þá var atvinnuleysi mikið og með þessu átti að rýma til fyrir yngra fólki. Hægt var að komast á fortidspension um sextugt og á pension þegar maður varð 65 ára (nú var ég búin að slá inn 1956 ára :) ). Þessi aðgerð leiddi ekki til þess að tækifærum fjölgaði. Einhvern veginn varð það svo að atvinnurekendur réðu ekki yngra fólk til starfa þegar það eldra fór á lífeyri fyrir tímann. Nú er verið að minnka möguleika á að komast á lífeyri fyrir 65 ára aldur. Búið er að gefa út að þeir sem fæddir eru á árunum 1966-1974 komist á lífeyri 67 ára og fortidspension falli alveg niður innan örfárra ára.
Nú veð ég alveg úr einu í annað en er samt sem áður að skrifa um það sama. Tengsl þjóðar við baráttu um réttindi til handa almenningi.
Í dag greiða fyrirtæki enga skatta til sveitarfélaga. Það er að segja utan fasteignaskatta og svo fráveitu- og vatnsgjöld þar sem sveitarfélögin hafa ekki framselt þá þjónustu til fyrirtækja. Eitt sinn voru til aðstöðugjöld sem greidd voru til sveitarfélaga. Þau gjöld voru lögð niður eftir 1991 og fyrir 1997. Meginrök fyrir niðurfellingu þeirra var að fyrirtæki myndu nota þær fjárhæðir sem fóru í aðstöðugjöld til að ráða fleira fólk til starfa. Með því myndu útsvarstekjur sveitarfélaga aukast og þar með myndi tekjumissirinn jafnast út. Það varð aldrei neitt af því. Auðvitað minnkuðu útgjöldin bara sem því nam.
Þegar farið er fram á lækkun lægstu launa. Rökstutt að laun séu svo lág að það er með engu móti hægt að lifa á þeim eru mótrök launagreiðenda að það eru fá fyrirtæki sem bera hærri laun.
Mitt svar er að það er betra að fækka fyrirtækjum sem eru svo illa stödd. Við eigum ekki að monta okkur af fyrirtækjum sem geta ekki borgað lífvænleg laun.

Wednesday, May 16, 2012

Matur

Ég hef lengi pælt í mat og því sem ég kaupi og set í potta. Lengi vel var ég viss um að meginhluti þess sem ég hafði í matinn var fyrsta flokks beint úr sjó eða af landi, veitt af Badda. Kartöflur, sulta og fleira ræktað af okkur. Ber týnd og fryst eða sultuð. Eggin komu frá Engilbert á Bakka eða tekin úr hreiðri bjöllunnar. Slátur gert heima, hrossakjöt saltað. Lambakjöt keypt í heilum skrokkum og sagað í kaupfélaginu eða Einarsbúð. Þá var lítið talað um að best væri að matar væri aflað innan ákveðins radíuss frá heimili. Þá var lítið talað um að njóta á meðan verið væri að útbúa mat og borða.
Nú er í tísku að lifa því matarlífi sem ég bjó lengi við og þótti gamaldags. Nú heitir það slow food og matur úr héraði. Lífræn ræktun hefur bæst við. Gríðarlegar upplýsingar um varasöm efni liggja fyrir. Þegar ég fer í búðir og kaupi þá sækir efi að mér. Ég sæti mat lítið, baka lítið, borða lítið af kexi, lítið af brauði, eiginlega ekkert af unninni kjötvöru. Mér er sagt að til séu 50 heiti yfir sykur. Sykur sé dulbúinn í flestum matvælum og það þurfi minniskubb til að muna öll heitin. Kornsterkja sé í enn meira af mat. Salt sé í eiginlega öllu sem ég kaupi. Vatn er í flestu. Það er víst illmögulegt að komast hjá því að kaupa ferskan kjúkling, fisk eða hakk án þess að fá vatn, salt og sykur þó efnanna sé ekki getið á umbúðum. Hakk er sjaldan hreint, ég hef það fyrir satt að jafnvel bestu kjötvinnslur setji efni í hakkið.
Þá eru það snyrtivörurnar og þvottaefnin. Paraben, alkóhól, vatn, ilmefni og rotvarnarefni. Vaðandi hreint út um allt. Mér er sagt að margt af því sé nauðsynlegt. Bent á lyktarlausu málninguna sem lyktar eins og fúkki, vil ég bera slíkt krem á mig? Þá hugsa ég um krem með kókos sem eru mikið auglýst. Kókos er snefilefni í vörunni, eiginlega talið upp seinast á eftir paraben og ilmefnum.
Olíur og fita. Hvað á að nota? Smjör er nær því hrein fita (salt og vatn viðbætt) og búið til á Íslandi. Samt sem áður er olíum frá útlöndum haldið stíft að manni einnig kókosolíu (olía sem er í föstu formi allt að ca 37 stiga hita).
Sagt er að hvítur sykur sé óhollur. Það eigi að nota alls konar öðruvísi sykur. Líklega er það vegna þess að hvíti sykurinn er dýrari :) Efnið er eins, ég hef séð að það sé misjafnt hve lengi sykur frásogast en þó hef ég ekkert fast í hendi þar um. Yfirleitt er um tískubylgjur að ræða.
Það sem mér finnst erfiðast er að geta lítið treyst því að ég sé að kaupa hreina afurð, afurð lausa við alls konar efni. Ég nota gleraugu en þyrfti oftast stækkunargler að auki til að lesa lýsingar á innihaldi matvara, snyrtivara og hreinsiefna.
Hvernig litist ykkur á að ég færi að bera smjör á líkamann eftir sund?

Tuesday, May 15, 2012

Hjólað í vinnuna

Nú er nær því liðin vika af átakinu hjólað í vinnuna. Í ár eins og fleiri ár þá fá þátttakendur ágætis sýnishorn af veðri. Það er svo sem ekkert að því að hjóla í kulda, hvassviðri er verra. Líklega er einnig heldur erfiðara ef snjór fylgir þokkalegum vindstyrk.
Ég skoða hvernig Sveitarfélagið Vogar stendur í hlutfalli við önnur sveitarfélög. Mér sýnist að í ár sé það einungis leikskólinn sem tekur þátt. Skrítið því sveitarfélagið hefur allt til að bera til að hægt sé að fara á hjóli og/eða gangandi í og úr vinnu.
Það styttist í kosningar til forseta Íslands. Enn sem komið er  finnst mér fjölmiðlar, hvaða nafni sem þeir nefnast, vera afar hliðhollir Þóru Arnórsdóttur og fjölskyldu hennar. Enn sem komið er  finnst mér að of margir eru í framboði. Enn sem komið er finnst mér að Ólafur Ragnar Grímsson eigi að vera forseti áfram. Ef ég skipti um skoðun þá er það vegna þess að Herdís Þorgeirsdóttir hefur unnið mig á sitt band. Það sem ég heyri af henni rennir styrkari stoðum undir það sem mig grunar, hún er frambærileg.
Ólafur Ragnar sagði víst í gær, í útvarpsþætti sem ég hef ekki heyrt, að frumvarp ríkisstjórnarinnar um kvóta væri dæmi um mál sem ætti vel heima í þjóðaratkvæði. Ég er sammála honum, mér finnst það dæmigert mál sem þjóðin eigi að segja álit sitt á. Þingið getur svo lagfært frumvarpið þar til samhljómur hefur myndast.
Það er með eindæmum hvernig útvegsmenn, fiskverkendur og sum samtök launþega (ég skrifa sum því ég hef ekki séð eða heyrt auglýsingu frá þeim öllum) fara offari í auglýsingum á móti frumvarpinu.

Útvegsmenn, himnarnir eru ekki að farast.

Friday, May 11, 2012

Gróðurveður

Það er milt og gott veður. Örlítill úði, lygnt og frekar hlýtt (alla vega á sunnlenskan mælikvarða). Það er svo gaman að sjá hve blóm verða reist og allt frísklegt. Fuglarnir syngja í kapp.
Ég er svo heppin að vera við opið svæði sem fuglar laðast að. Tjaldurinn stjáklar til og frá, stokkandarpar heldur sig langtímum saman rétt við eldhúsgluggann. Gæsir garga og fljúga lágt. Svartþröstur og skógarþrestir eru heimilisvinir. Máríuerla tifar á stéttinni. Starrinn er sjaldséður á sumrin en skrefar mannalega um stétt og grund haust, vetur og vor. Svartbakurinn situr á þaki fyrrum HR. Það er einhver í Kringlunni sem setur nægt fóður út fyrir þá.
Ég skrapp í Fjarðarkaup í morgun. Fann þá hve Vogarnir toga sterkt. Ég var eiginlega lögð af stað suðureftir, te á bæjarskrifstofunni, innkaup í Nettó í Keflavík. Fór einungis í Fjarðarkaup þar sem ég fer upp á völl í kvöld. Sigmundur kemur heim, vika í Munchen.
Mig hefur lengi langað að lesa bókina Der Turm eftir Uwe Tellkamp. Ég hef hvorki fundið hana hér á landi né í Danmörk. Sigmundur lagði á sig að leita að henni í Munchen, fann bókina en einungis á þýsku. Afgreiðslumaðurinn bauðst til að selja honum þýsk/enska orðabók með. Góð hugmynd en ég afþakkaði. Sá ekki að ég myndi lesa bókina með þeim hætti. En þó, en þó - ef það er ekki hægt öðruvísi þá geri ég það með þýsk/danskri orðabók. Þær bækur færu vel í bókahillunni sem hér sést.

Thursday, May 10, 2012

Dúmmdedí og dúmmdeda, hvað á að skrifa í dag.
Heyrði Ragnhildi Ólafsdóttur kveða rímur. Mig langar að læra rímnalag. Sé alveg að ég yrði flott með spil í hendi og rímur á vörum. Ég hef áhuga á rímum og löngum kvæðabálkum. Man eftir því að ég lagði mig eftir því að læra löng ljóð og rímur. Nú hef ég gleymt mörgu en þó glittir í fjársjóð öðru hvoru.
Ég verð reglulega skemmtilegt gamalmenni, þá mun brostin lág röddin fara með -buldi við brestur og brotnaði þekjan o.s.frv. Ég mun einnig muna færeysku danskvæðin sem ég kunni hér eitt sinn.

Það hefur verið svo kalt að ég er farin að gefa fuglunum aftur. Ég gat ekki annað þegar ég horfði á þresti róta í moldinni, ég hef verið dugleg að taka þau fræ og korn sem ég hef séð eftir veturinn, allt sem ég held að spíri fer í burtu. Þá hafa fuglarnir minna að kroppa í kuldatíð. Nú set ég rúsínur út, því miður verð ég hvorki heima á sunnudag eða mánudag. Ég verð að biðja einhvern að gera það svo þrestirnir svelti ekki í kuldakastinu.

Á morgun er 11. maí, vertíðarlok. Ég man þá tíð að þetta var hátíðardagur mikill. Þegar kvótinn var tekinn upp þá breyttist margt t.d. lok vertíða.

Krossmessa að vori er 3. maí. Hret sem spáð er að ganga yfir landið 13. og 14. maí er því ekki krossmessuhret. Nær væri að tengja það við vinnuhjúaskildaga eða fardaga að vori. Hér áður fyrr, lengra aftur í tímann en minni mitt nær, gátu vinnuhjú skipt um húsbændur að vori. Þá voru einnig fardagar, leiguliðar skiptu þá um búsetu ef hægt var og vilji fyrir hendi.
Þar sem ég skrifa þetta skil ég hvers vegna fardagar voru að vori en ekki að hausti. Þegar tekið var við búi á sauðburði og þegar hey voru lítil þá var hægt að meta allan fjanda niður. Ekkert eftir af birgðum vetrarins, nytin dottin úr kúm og hross mögur. Að hausti hefði allt verið verðmeira.

Wednesday, May 09, 2012

Hjólreiðar

Öðru hvoru hjóla ég mikið. Þegar ég bjó á Akranesi fór ég allra minna ferða á hjóli. Var með góða körfu og hafði litla þörf fyrir annan ferðamáta, nema þá hesta postulanna. Þegar ég flutti til Reykjavíkur hætti ég að hjóla. Ég tók þá iðju upp aftur þegar ég var í Vogunum. Þar hjólaði ég grimmt og skráði. Tók þátt í átakinu hjólað í vinnuna og alles. Naut mín sem sagt í botn.

Nú er ég aftur í Reykjavík. Horfi á hjólið mitt, langar út að hjóla en hef ekki farið. Ég óttast aðra hjólreiðamenn meir en bifreiðar. Þá hef ég beyg af þeim sem eru á litlu mótor/rafhjólunum og eru einnig á gangstéttum og þeim fáu hjólastígum sem eru í borginni.

Ég undrast stórlega þá ómenningu sem er í hjólreiðum hér á landi, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem eru á hjólum fara hratt yfir, hraðar en fótgangandi og oft hraðar en sá sem er á bíl. Það er vegna þess að stundum eru þeir gangandi (hjóla á gangstétt og gangstígum), stundum eru þeir á götum og í annan tíma skjótast þeir um stæði og óbyggð svæði. Þeir virðast halda að það gildi engar reglur um hjólreiðar. Líklega er það rétt. Ég gerðist svo djörf að benda Umferðarráði á ómenninguna í hjólreiðum, hvernig farið er yfir götur, gangstíga og annað.
Svar barst frá lögreglunni. Það eru mjög óljósar reglur um hjólreiðar, lögreglan tiltók sérstaklega að margir hjólreiðamenn eru börn að aldri. Ég held að lögreglan sé annars staðar á landinu en ég. Ég veit að börn eru á hjóli á mörgum stöðum á landinu. Í Reykjavík tel ég að fleiri fullorðnir séu á hjóli en börn. Alla vega hafði ég ekki samband við Umferðarráð vegna barna heldur fullorðinna hjólreiðamanna.

Nú safna ég þreki. Ég ætla að skrifa bréf til Umferðarráðs, lögreglunnar, tryggingafélaga og ráðuneytis. Það þarf að setja reglur sem halda. Það er skelfing að sjá hjólreiðamenn skjótast á og af gangstétt eftir þörfum. Hjóla á móti akstursstefnu að vild, fara á móti rauðu ljósi. Engin grið gefin, farið út á götu eða í veg fyrir gangandi vegfaranda. Svo væri sá sem er á bílnum ávallt sekur, hefði ekki sýnt nægilega aðgát. Það er hart þegar kona sem vill helst ganga og hjóla þorir því vart og er farin að vera afar varkár þegar hún er undir stýri.
Íslenska þjóðin nær enn einu sinni fullkomnum árangri í vitleysu.

Tuesday, May 08, 2012

Lygilega óháður

Ég horfði að mestu á kosningasjónvarpið í gærkvöldi. Reykjavík suður, það er mitt kjördæmi. Guðlaugur sat fyrir svörum fyrir XD. Hann var ítrekað spurður út í fjármál, stuðning við flokkinn og hann. Spurður hvort stuðningur leiddi ekki af sér samband og jafnvel kröfu um aðstoð/greiða eða fyrirgreiðslu. Nei, nei, hann hélt nú ekki. Hann hefði aldrei verið beðinn um neitt, enginn hefur leitað til hans sem stjórnmálamanns í þeirri trú/von að hann gæti greitt úr málum. Ef satt er, getur vel verið satt, þá er Guðlaugur lygilega óháður. Hann er svo óháður að enginn hefur not fyrir hann. Hvað hefur flokkurinn að gera við svona mann? Mann sem enginn treystir til að greiða götu eða leggja máli lið. Hver er tilgangurinn með því að styðja hann í fyrsta sæti í flokki sem hefur lengi verið við völd? Af hverju vilja þeir sem velja á lista fá mann sem enginn leitar til?


Sumarið er komið. Veðrið í dag er ótrúlegt, lítið líkt því veðri sem ég bind við sumardaginn fyrsta. Hef tölfræði ekki á hreinu, held að það séu meiri líkur á þurru og frosti þennan dag en rigningu í logni. Að vísu er ég í Reykjavík og mér fróðari um veðurfar segja að hér rigni alltaf, stundum svo hratt að ég verði ekki vör við dropana.

Jæja, þennan pistil skrifaði ég vorið 2009. Hann á enn vel við. Ég tími vart að eyða góðum texta og frábærri hugsun.

Veðrið er mér enn hugleikið. Guðlaugur Þór er ennþá á þingi og kemur fram og gefur álit á hinu og þessu. Nú vorið 2012 lifir umræða um stuðning enn. Líklega ætlar hann sér stóra hluti að ári þegar kosið verður til alþingis.

Ég óttast að grískt eðli Íslendinga komi sterkt fram í þeim kosningum. Eðli þar sem minni bregst og ást á kosningaloforðum og skemmri skírn tekur yfir almenna skynsemi.

Hvað er almenn skynsemi? Mig vantar umræðu og lesefni um almenna skynsemi. Hvað eiga íslensk stjórnmál og almenn skynsemi sameiginlegt?

Kaldir dagar

Ég er óforbetranlega bjartsýn á veður og gróður. Alveg síðan við Sigmundur komum heim frá Amsterdam í byrjun apríl hef ég beðið eftir íslensku sumri og gróðri. Ég styn og horfi, geng út og þreifa. Vonast til að það hafi hlýnað all verulega og að það sé varanlegt. Þó veit ég að íslenskt vor er kalt og þurrt. Ég veit að sumar kemur um miðjan júní, ef við erum heppin.  Samt, samt sem áður þá vonast ég til að það breytist.

Nú er svo kalt að ég sái ekki, ég set ekki matlauka niður og þori ekki að setja fúksíuna út. Þó er Sigmundur búinn að útbúa gróðurhús. Gróðurhúsið er kassi úr IKEA, boraði göt og svo ætla ég að hvolfa honum yfir fúksíuna. Ak, ja. Ég verð að vera þolinmóð.

Bót í máli er að ég er iðin við að fara í sund. Það er í lagi þó það sé kalt. Ég syndi og syndi, líkt og enginn sé morgundagurinn. Allt í einu þá fann ég mig í 500 metrum til kílómeter. Ég held það styttist í að mér líði vel í 1,5 kílómeter. Þá slæ ég tvær flugur í einu höggi. Er úti eins og ráðlagt er og hreyfi mig. Að auki þá blómstra freknur.

Ég horfði á garðinn í gær. Það var um 7° hiti og lygnt. Ég þarf að færa japans hlyninn. Hann kelur hroðalega illa þar sem hann er. Líklega dafnaði hann betur nær húsinu, svo verður að skýla honum. Ég hef enga hugmynd, enn sem komið er, hvað ætti að koma þar sem hann er. Þá þarf að setja vindbrjót til að minnka streng sem kemur úr austri meðfram birkinu. Kannski gæti gul hyrna (cornel) komið vel út. Þá gæti ég sett rauða  hyrnu rétt við birkið út með Kringlumýrarbraut.

Það er eitthvað að gægjast upp úr moldinni milli litla eldrunna og mispils. Ég vona að það sé dalalilja. Við settum eina niður þar fyrir tveimur árum. Ég varð ekkert vör við hana í fyrra en nú er státinn broddur að stinga upp kollinum. Dalalilja, dalalilja, ég hef lengi verið hrifin af þér.