Lok mánaðar - ástarkveðjur
Mér finnst veðrið undanfarna daga gott. Ég er hlynntari rigningu og frekar heitu í apríl og maí en norðanátt, sól, þurrki og kulda. Gróðurinn á svo erfitt með að þola sól og vind. Auðvitað er ekki gaman að vera úti í roki og rigningu, sjá gróðurinn sveigjast til og frá, vorlaukana leggjast niður, jafnvel brotna. Vel það frekar en sólþurrk og skrælnaðar jurtir og tré.
Sá í blaði í dag að sum fyrirtæki og samtök senda samtökum launþega ástarkveðjur í tilefni 1.maí. Jooooo, sumum reynist erfitt að senda baráttukveðjur, baráttukveðjur fyrir bættum hag verkalýðs. Nú heitir þetta allt samtök launþega, kjarafélög og fleira í þeim dúr. Fælni við orð gerir víða vart við sig. Fötlun, frávik, misþroski. Svo verða orðin afkáraleg og dónaleg í huga sumra eftir því sem tími líður. Finnst oft merkilegt að reynt hafi verið að nota orðið nýbúi um innflytjendur til Íslands. Er nokkuð að því að segja innflytjendur? Hikstum við á því þegar við tölum um Íslendinga sem fluttu til Vesturheims á sínum tíma?
Þegar ég er við skrifborðið mitt þá sé ég þrjú grenitré sem eru orðin mannhæðarhá, tvö líklega vel það. Eitt er við efsta húsið í Ægisgötu, það nær upp að þakskeggi. Hin tvö eru lengra í burtu og eru að líkindum vel á fjórða meter. Þar fyrir utan eru trén í Álfagerði. Eftir helgi finn ég út hvar þau tvö grenitré sem ég sé til viðbótar eru.
Ég get seint þakkað forsjóninni að hafa opnað augu mín fyrir því að mannhæðarhá tré eru ekki yfir þrír metrar :) - hljóta þá að vera meira en mannhæðarhá.