Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, April 30, 2009

Lok mánaðar - ástarkveðjur

Síðasti dagur apríl - þarf vart að skrifa það, flestir gera sér grein fyrir því.
Mér finnst veðrið undanfarna daga gott. Ég er hlynntari rigningu og frekar heitu í apríl og maí en norðanátt, sól, þurrki og kulda. Gróðurinn á svo erfitt með að þola sól og vind. Auðvitað er ekki gaman að vera úti í roki og rigningu, sjá gróðurinn sveigjast til og frá, vorlaukana leggjast niður, jafnvel brotna. Vel það frekar en sólþurrk og skrælnaðar jurtir og tré.

Sá í blaði í dag að sum fyrirtæki og samtök senda samtökum launþega ástarkveðjur í tilefni 1.maí. Jooooo, sumum reynist erfitt að senda baráttukveðjur, baráttukveðjur fyrir bættum hag verkalýðs. Nú heitir þetta allt samtök launþega, kjarafélög og fleira í þeim dúr. Fælni við orð gerir víða vart við sig. Fötlun, frávik, misþroski. Svo verða orðin afkáraleg og dónaleg í huga sumra eftir því sem tími líður. Finnst oft merkilegt að reynt hafi verið að nota orðið nýbúi um innflytjendur til Íslands. Er nokkuð að því að segja innflytjendur? Hikstum við á því þegar við tölum um Íslendinga sem fluttu til Vesturheims á sínum tíma?

Þegar ég er við skrifborðið mitt þá sé ég þrjú grenitré sem eru orðin mannhæðarhá, tvö líklega vel það. Eitt er við efsta húsið í Ægisgötu, það nær upp að þakskeggi. Hin tvö eru lengra í burtu og eru að líkindum vel á fjórða meter. Þar fyrir utan eru trén í Álfagerði. Eftir helgi finn ég út hvar þau tvö grenitré sem ég sé til viðbótar eru.

Ég get seint þakkað forsjóninni að hafa opnað augu mín fyrir því að mannhæðarhá tré eru ekki yfir þrír metrar :) - hljóta þá að vera meira en mannhæðarhá.

Monday, April 27, 2009

Íhaldssamur og hágreindur

Rakst á þessa setningu á vafri mínu um vefinn, bloggari gaf sitt álit á ESB



Embættismannastétt Sameinaðar meginlands Evrópu vinnur á mjög íhaldssömun grunni og þar veljast til forystu menn með hágreind. http://juliusbearsson.blog.is/blog/juliusbearsson/



Viðurkenni að ég hef ekki séð orðið hágreind áður. Man eftir gervigreind, hátækni og afburða greind. Vissi ekki fyrr en ég las þessi orð að íhaldssemi væri í hlutfalli við greind.

Um helgina vorum við í árlegri ferð Sæmundarmanna í Svignaskarði, árshátíð. Þar sá ég fyrstu rútuna (hunangsflugu). Hún kom í sólinni, laðaðist að gluggunum og flaug inn um dyrnar og sást ekki meir. Annað hvort varð hún fyrir áfalli eða lagðist í dvala.

Monday, April 20, 2009

Nakinn sannleikur

Öðru hvoru skemmti ég mér á Brautinni. Þá hlusta ég á Flosa Ólafsson lesa. Í dag heyrði ég leikdóma.

Eitt sinn höfðu menn (konur eru líka menn en karlar eru ekki konur) komist að því að nekt seldi. Með því að láta leikara vera nakta á sviði seldust margfalt fleiri miðar. Það er nakinn sannleikur.

Palla kom suður um helgina. Við systkinin fórum austur á Hellu og hittum Dísu og Lalla. Samglöddumst Dísu en hún er sextug í dag. Mig rámar í að mér fannst hún gömul og skrítin þegar ég sá hana fyrst. Ég var sjö eða átta ára og hún 15 eða 16 ára. Hún var sem sagt afgömul. Í dag finnst mér hún vera Dísa, ekkert annað, hvorki ung eða gömul, svona án aldurs.

Wednesday, April 15, 2009

Sól, sól og aftur sól

Sólin skín. Skellibjart frameftir kvöldi.
Sigmundur að mála í Hvassaleitinu, ég ætla út og rölta aðeins hér í kring. Þarf að teygja úr mér eftir daginn. Ég fór skakkt inn í hann. Gleymdi einu og öðru í morgun t.d. úrinu. Skrítið hvað ég er lengi að rétta kúrsinn af.

Mikið er ég fegin að vera heil heilsu og hafa nóg að gera. Ég geri svo margt annað en fylgjast með stjórnmálum og hökti í kringum þau að það er líkast frelsi. Ætla að kjósa á laugardaginn, það verður gaman að sjá hvaða tilfinningingar brjótast út þegar ég merki á kjörseðilinn. Hvort verður ofan á heilbrigð skynsemi eða tilfinningar?

Garðurinn er allur að koma til. Krókusar blómstra, fyrsti túlipaninn er búinn að opnast. Páskaliljur kinka kolli. Perluliljur láta lítið fara fyrir sér. Anemónurnar virðast vera sprækar, ég hef sjaldan séð laukana (allium) svona bústna. Svo eru fjölæru blómin að stinga upp kollinum, báðar bóndarósirnar og hjarta lautinantsins. Satt að segja þá horfði ég lengi á hjartað, hvað var að koma upp. Mundi svo (þegar ég var búin að fara yfir garðinn plöntu fyrir plöntu) að ég hafði ræktað það upp af fræi. Jú, jú svona er skammtímaminnið farið að gefa sig. Þá er nú eins gott að hafa gott pláss á harða diskinum og mynd af garðinum með öllum heitunum.

Varð ekki vör við vinnuslys í dag. Í gær var ég svo upptekin í vinnu og við að þrífa bílinn að ég gleymdi að fylgjast með blaðamönnum og málblómum.

Í dag hef ég öðru hvoru leitt hugann að lækkun launa og hækkun skatts. Ef laun lækka þá lækkar skattstofn svo skattur verður lægri. Ef laun lækka um 10% þarf skattprósenta að hækka um 12% til að ríkið fái sömu tekjur.
Ef ríkið nær að semja um lækkun taxta hjá opinberum starfsmönnum yrði aðalávinningurinn í sparnaði á launatengdum gjöldum og til lengri tíma litið í lægri greiðslu lífeyris. Skatttekjur yrðu ekki meiri en þær eru nú.

Ég öfunda ekki þá sem vinna við fjármál ríkisins. Bilið milli útgjalda og tekna er svo mikið að það verður erfitt að brúa það. Mig minnir að þegar ég sló á það þá dygði ekki að skera niður alla málaflokka menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Allt sem fellur undir heilbrigðisráðuneytið yrði einnig að fara. Svo há er fjárhæðin. Tal um að leggja niður utanríkisþjónustuna er eins og að pissa í skóinn, hlýjar rétt á meðan.

Sunday, April 12, 2009

Fæða björn

Slæddist inn á vef DV áðan. Þar var frétt frá dýragarðinum í Berlín. Í fréttinni sagði m.a. ...þar sem verið var að fæða björninn ...

Ég er aldeilis bit. Ég hélt að flest vinnuslysin yrðu á Morgunblaðinu. Nú veit ég betur, þegar textavélin segir eitthvað á þessa leið ...feeding the bear ... þá þýðir íslenskur hámenntaður og velskrifandi blaðamaður ... fæða björninn ... Hvar er heilbrigð hugsun eða almenn skynsemi?

Við fórum í gönguferð í dag. Gengum um Norðlingaholtið og Elliðaárdal. Sund á eftir. Sigmundur heimtar að ganga annars staðar á morgun. Læt það eftir honum. Hann bakaði svo ótrúlega góða súkkulaðiköku í gær.

Úff, þegar ég settist við tölvuna þá var hljóðið á. Sigmundur skildi eftir opna útsendingu. Hvað getur verið verra en Gunnar Þórðarson solo? Gunnar Þórðarson syngur og spilar gömul lög Hljóma? Hlusta á Rúnar Júl? Nú ætla ég að slökka á útsendingunni og fara út í lífið.

Friday, April 10, 2009

Sund

Fór í sund í dag eins og flesta daga ársins. Finnst gott að vera í sundi um páskana, þá eru svo fáir í laugunum. Svo fáir? Nei, ekki árið 2009. Árbæjarlaug var full, það var svo margt fólk. Öðruvísi mér áður brá. Þá var ég svo til ein, nokkrir Pólverjar og Lettar. Örfáir Íslendingar. Í fyrra voru nokkrir Íslendingar á skírdag, engir á föstudaginn langa. Árið 2007 var ég þaulsetin í Árbæjarlaug, sérstaklega um páskana. Þá skrifaði ég nefnilega mastersritgerð. Það fór svoleiðis fram að ég vaknaði og fékk mér te, settist við tölvuna og stundi. Fór í laugina og samdi ritgerðina, gera svona, skrifa hitt, tengja þetta. Það small allt. Svo fór ég heim. Fékk mér te, settist við tölvuna og stundi. Saknaði laugarinnar. Ég hef nokkuð góða þekkingu á því hve fáir Íslendingar voru í laugunum síðastliðin ár.

Í dag sat ég í Víti og naut þess. Tveir menn voru í pottinum, ég hlustaði á þá með öðru eyranu. Greip svo inn í samtalið. Það var ekki fyrr en ég var farin að tala við þá sem ég áttaði mig á því að þeir væru danskir. Eftir smá stund spurðu þeir hvort ég væri dönsk. Nei, hvaðan eruð þið? Auðvitað voru þeir frá Norður Jótlandi, ætli það sé ekki eina talaða danskan sem ég skil reglulega vel.

Nú er Sigmundur að laga glugga í stofunni. Það hefur stundum ýrst vatn inn (gerist í aftakaveðrum af suðaustan). Nú er skipt um lista, þéttikanta og eitthvað fleira. Mér var of kalt til að standa úti og hjálpa. Búin að sópa stéttina, týna allt lauslegt úr garðinum, horfa á laukana. Stara á runnana, vona að þeir taki það til sín og laufgist ekki of fljótt. Pæli í hvað ég ætti að setja í garðinn. Á ég að fá mér bláber? Ef ég geri það get ég sett niður lyngrós :) Nú ætti að snjóa í nokkra daga svo ég gleymi mér ekki í pælingum.

Thursday, April 09, 2009

Bækur

Fyrir nokkrum dögum skráði ég á fésið hverjar uppáhaldsbækur mínar væru. Ég skráði bækur sem hafa fylgt mér lengi. Laxdælu, Veröld sem var og ævisögu Marie Curie. Ég las fyrst Veröld sem var þegar ég var barn. Hef lesið hana hvað eftir annað síðan. Missti af henni um tíma en fann hana í kilju fyrir nokkrum árum. Laxdæla fer með mér um heiminn. Það er gott að lesa hana í flugvélum og á strönd. Ég get lesið hana aftur og aftur, sé sífellt eitthvað nýtt í henni og man sjaldnast ættartengslin á milli lestra. Ævisaga Marie Curie er eins og ævintýrabók. Sýnir hvað er hægt þó kjörin séu kröpp og aðstæður ekki upp á hið besta. Líkast til þarf ég að lesa hana fljótlega. Núna dettur mér í hug að þó mér hafi fundist Marie hafa búið við þröng kjör þá gæti hún ávallt hafa verið sólarmegin í lífinu.

Auk þessara þriggja bóka eru þrjár aðrar sem hafa fylgt mér í gegnum súrt og sætt í fjölda ára. Treg í taumi, Kvennaklósetið og Allt fyrir hreinlætið. Þessar bækur les ég öðru hvoru, handleik eða hugsa til. Ótrúlegt sem ég get náð í kraft við að hafa lesið þær. Þetta eru bækur sem höfða til mín. Þær slá allar á sama streng í mér, kvenmanninn, femínistann, jafnréttissinnann.

Dagurinn var góður, kvöldið er með ágætum. Viss um að það sem eftir lifir helgarinnar verður ágætt.

Wednesday, April 08, 2009

Kalk

Undrast oft þegar ég les leiðbeiningar um þrif á hreinlætistækjum. Leiðbeiningar á íslensku um hvernig best er að ná kalki t.d. úr vöskum eða sturtuhausum. Ótrúlegustu galdraefni sérlega gerð til þess að losa um kalk. Í dag kannaði ég úrval hreinsiefna í Húsasmiðjunni (Sigmundur skoðaði á meðan þéttilista). Þar sá ég gott efni til að bera á gler, þá festist kalk síður við rúðurnar. Uhu - eiginlega Uhu lím. Íslenska vatnið er sérlega steinefnalaust. Það er ekki hart eins og t.d. í Danmörk. Hitaveituvatnið er annað mál, það er oft ríkt af ýmsum efnum og eru kísilútfellingar alþekktar. Kísill er ekki kalk. Kalk er ekki kísill.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Kísill er frumefni með efnatáknið Si og er númer fjórtán í lotukerfinu. Fjórgildur málmungur, kísill er ekki jafn hvarfgjarn og efnafræðileg hliðstæða þess, kolefni. Kísill er annað algengasta frumefnið í jarðskorpunni sem að samanstendur af 25,7% kísil ef mælt er eftir þyngd. Það finnst í leir, feldspati, kvars og sandi, þá aðallega í formi kísiltvíoxíðs (þekkt einnig sem kísl) eða sílikata (efnasambönd sem að innihalda kísil, súrefni og málma). Kísill er aðaluppistaða glers, sements, postulíns, flestra hálfleiðara, og silíkona (plastefni).

Erlendis er kalksteinn og annað kalkríkt berg algengt, sem aftur veldur því að vatnið er „hart“, það er í því er uppleyst kalk (CaCO3).
Á svæðum þar sem vatn er „hart“ er í verslunum seldur „kalkeyðir,“ veik sýra sem leysir upp kalkið. Slíkur kalkeyðir hefur sést í verslunum hér, en til að leysa upp kísilhrúður gerir hann minna en ekkert gagn.

Svo mörg voru þau orð :)

Ég skrifa ekki um pólitík og rökræði mest við sjálfa mig um hvenær konur fóru að vinna.

Einhvern tíma í vetur las ég umsögn náttúru samtaka (man ekki hvað þau heita) um þá hugmynd að sleppa hreindýrum lausum á Reykjanes. Það voru margir agnúar á því meðal annars sá að Reykjanes er eitt votviðrasamasta svæði landsins og svo er það Brautin. Þau dýr sem lifðu rigninguna af myndu drepast á Brautinni. Svona er nú það, líkast til anda Suðurnesjamenn með tálknum og eru með sundfit. Núna í vikunni las ég Fréttablaðið, kálf um ferðir. Þar var minnst á Reykjanes sem er afar flatt en þó er þar að finna nokkra hóla og jafnvel fjöll. Með greininni var mynd af Keili og sagt að auðvelt væri að ganga upp norðaustanmegin. Nú veit ég ekki hvað þeim sem ritaði greinina finnst í raun vera Reykjanes. Er það Táin, Vatnsleysuströndin eða Keflavík. Rámar í að Reykjanesfjallgarður sé ágætis fjallgarður, verð að skoða það betur um helgina.

Páskafrí

Er í fríi í dag. Því lengist páskafríið um kærkominn dag. Í dag verður eitt og annað gert t.d. gluggar málaðir í Hvassaleiti, nagladekkin tekin undan og nýr vekjari keyptur.

Ég hlustaði með öðru eyranu á þrjá fyrstu ræðumenn í eldhúsdagsumræðunum. Gafst fljótt upp á Bjarna Ben, fannst Birkir Jón hjakka og vildi fara út í göngu þegar Jóhanna byrjaði. Ósköp eru þingmennirnir óáheyrilegir. Það er ekki einungis að efnið og afstaða þeirra sé lítt áhugaverð heldur eru þeir ekki frambærilegir. Mér leiðist óskaplega þegar XD segir ávallt að það verði að vera sátt á þingi um breytingar á stjórnarskránni. Líkast til er það rétt að það hafi aldrei verið gerðar breytingar á skránni nema í fullri sátt allra þingflokka. Nú er annað ástand. Þjóðin, fólkið, kjósendur vilja þá sem nú eru á þingi burt, frjálsa umræðu, frelsi til athafna utan fjórflokkanna og frjálslyndra.

Tuesday, April 07, 2009

Mannhæð

Ég hef áttað mig á því hvað mannhæð er eða réttara sagt hvað hún er ekki.

Palla systir mín sagði mér montin að tré sem hún hafði gróðursett væri orðið mannhæðarhátt. Heilinn framkallaði mynd af tré sem stóð við húsið hennar og náði upp að þaki (húsið er hæð og kjallari). Svo sagði Palla að tréð væri orðið jafnhátt henni.



Jaaaa, heilinn fór í vörn. Palla er meðalkona á hæð. Hvernig gat þetta staðist? Auðvitað sagði ég ekki orð heldur samgladdist henni. Nú er ég búin að ganga um og skoða tré og umhverfi þeirra. Ég er búin að átta mig á því að mannhæðarhá tré ná ekki upp að mæni reisulegra einbýlishúsa. Ég er búin að átta mig á því að Palla systir mín er mannhæðarhá. Hvað gæti hún svo sem verið annað? Ég bara spyr.



Aftur á móti er ég búin að gleðjast á göngunni. Það er fullt af fallegum trjám í Vogunum. Þau eru ekki veðurbarin og vindsorfin, eitt og eitt er það enda eru Vogarnir afar eðlilegt samfélag. Ég sá sírenu sem er við það að laufgast, rósir með þrútin brum og ösp sem er öll að koma til. Birkið lætur ekki plata sig og er á tíma. Ég heyri í fuglum, sé fugla og hlakka til sumarsins. Heyrði í lóunni í dag. Hlustaði eftir hrossagauk. Ég hef gaman af að velta fyrir mér hvar ég heyri í fyrsta hrossagauk sumarsins.


Eitt af því sem mér finnst vorlegt er eggjahljóð í bjöllunni. Það lærði ég um 1973, að hlusta eftir bjöllunni á vorin. Ég reyndi að rifja upp í dag hvað mér hafði fundist vorlegt þegar ég var krakki því bjallan er lærð hlustun. Ætli það hafi verið þegar berin komu undan snjónum eða þegar hárið fraus ekki á leið heim úr sundi? Svei mér, ég man ekki hvað mér fannst vorlegt þegar ég var krakki. Ætli ég hafi haft skoðun á því aðra en ber og hár :)

Sunday, April 05, 2009

Hvað á að kjósa?

Hvers vegna? Hvers vegna er er sumt fólk gersneytt gróðrargáfu? Dæmi er um að þeir sem hafa alist upp við garðrækt, bæði trjá og matjurta, þekki ekki algengustu tegundir eða viti mun á túlipana og páskalilju. Mér finnst þetta afar skrítið enda hef ég svo gaman að gróðri. Auðvitað á ég líka svona eyður í þekkingu - helstar eru íþróttir (eins og þær leggja sig) og afþreyingarefni í sjónvarpi. Ef ég fer á íþróttaleiki fylgist ég af áhuga með áhorfendum, umgjörð og öllu öðru en því sem er íþróttin sjálf. Enda hef ég engar reglur á hreinu utan þær að í bolta á að skora mark og í hlaupum á að hlaupa í mark. Afþreyingarefni í sjónvarpi nær sjaldan að halda mér marga þætti. Einna helst að Star Trek og fleira í þeim dúr getur það, sérstaklega ef það er vel þýtt. Þá gleymi ég mér í samanburðarfræði þýðinga og við að skoða hvernig framúrstefnulegir þáttagerðarmenn sjá framtíðina fyrir sér. Ef ég trúi því sem ég sé þá verða afar fáir til sem eru af öðrum kynþætti en ég (kákasískum og þá helst arískum). Auðvitað gleður það mig, ef ég lifi lengi þá verða varla til útlendingar nema á öðrum plánetum og þeir verða flestir minni máttar.

Hvað á að kjósa? Hverjum á ég að trúa fyrir atkvæðinu mínu? Hver er framtíðarsýn mín? Hvernig landi vil ég búa í? Fyrir tveimur til þremur árum hefði ég svarað fljótt og örugglega. Nú hefur svo margt breyst. Svo margt sem mér fannst öruggt hefur skekkst á grunninum. Ég efast orðið um fleira en ég gerði (hugsanlega fannst mörgum nóg um). Það sem vefst fyrir mér núna er vantrú á að fólk (Íslendingar) geti í raun tekist á við breytt umhverfi. Ég efast vegna þess að þegar ég sem hef lengst af lifað því sem kallað er gamaldags lífi (tekið slátur, sultað, fyllt frystikistu, ræktað grænmeti, nota helst ekki eldhúsþurrkur og sópa gólf o.s.frv.) stendur ógn af því að minnka innkaup og eyðslu hvernig gengur þá hinum.

Saturday, April 04, 2009

Þrettándakvöld

Við fórum í gærkvöldi og sáum Þrettándakvöld. Frábært verk, góð uppsetning og þar af leiðandi gott kvöld sem endaði í te og huggulegheitum með Guðrúnu og Antoni.

Dagurinn í dag varð síst verri. Við náðum góðu dagsverki í Hvassaleiti og svo fínni afslöppun í sundi. Kvöldmaturinn heppnaðist vel því ég sá um að mala kryddið og segja hvenær væri nóg komið. Ræddum um ræktun grænmetis meðan við sátum við borðið. Sigmundi ofbýður hve salatið sem honum þykir gott er dýrt svo við ætlum að rækta það sjálf í sumar. Að vísu fannst honum ekki gott ef ég ætlaði að breyta skikanum hér úti í kálgarð og fannst gráupplagt að hluti af kartöflugarðinum yrði undir salat og annað grænmeti sem hann ætlar að borða í sumar. Ég sá fyrir mér stanslausar ferðir milli Neðstaleitis og Voga, ég eins og rauð ör á Brautinni með grænmeti og kryddjurtir fyrir Sigmund :)

Þetta minnir mig á, ég þarf að ná mér í útsæði í vikunni. Helst rauðar þó þær séu seinsprottnari en gullauga. Ég er svo vandætin að ég vil alls ekki premier, ekki heldur sem forskot á sæluna (nýsprottnar kartöflur) því mér þykja þær alls ekki góðar.

Á morgun ætlum við að vinna aðeins meira í Hvassaleitinu, pússa yfir sparsl og juða gluggakarmana. Anton á þessa líka góðu vél, juðara. Það er ótrúlega gaman að juða. Komst fyrst í tæri við svona tæki þegar Auðbjörg flutti á Kjalarnes. Þá vorum við nokkrar að mála og undirbúa og notuðum öll rafknúin tæki sem við komumst í tæri við. Dásamleg helgi.

Fékk tvær bækur í dag frá Barða. Önnur, Farsælt líf, réttlát samfélag, er um kenningar í siðfræði. Nauðsynleg lesning til að minna mig á hvers vegna ég er hér. Hin, Þar sem sólin skín, er eftir Lizu Marklund. Veit að ég mun njóta hennar í botn. Ég ætla ekki að reyna að finna út hve margar bækur ég á sem eru ólesnar. Það er alveg víst að þær eru um allt milli himins og jarðar, jafnvel efni þar fyrir utan, en þó alls ekki of margar.

Er að fara út á stétt með teppi, te og súkkulaði, búin að kveikja á hitaranum og olíulampa. Verð að herma eftir Óla og Jette sem sátu úti í 20 stiga hita og logni í dag. Stundum finnst mér veðrinu ekki skipt réttlátlega milli Neðstaleitis og Birkevænget, men jeg er hvor jeg gerne vil være.

Thursday, April 02, 2009

Eterinn

Ég gleymdi að skrifa um Eterinn. Leikverk/gjörningur/uppistand sem er flutt á Smíðaverkstæðinu fram í maí. Við Sigmundur fórum, vá hvað við Sigmundur förum mikið, og hlustuðum, hugsuðum og horfðum. Þetta er einleikur eða einræða um allt og ekkert. Við komum dauðþreytt inn en fórum endurnærð út. Við höfum nokkrum sinnum minnst á verkið, það snerti mig, kom heilasellunum á hreyfingu (já, Palla, það þarf að örva heilasellurnar mínar af og til).

Í kvöld förum við og sjáum Þrettándakvöld. Ég hlakka til, förum svo í te/kaffi til Guðrúnar á eftir. Helgin verður með ágætum. Byrjum að mála eldhúsið og forst0funa í Hvassaleitinu en hvílum okkur að mestu. Ef veðrið verður eins og í dag þá verður hvíldin úti, úti á göngu og í sundi.

Veðrið í dag er hreint frábært, hlýtt og rakt og ekki svo mikill vindur. Í gær var aftur á móti hvasst enda tókum við girðinguna niður og fórum með hana í Sorpu. Við tókum hana þannig niður að ég spurði Sigmund hvernig ég gæti hjálpað honum og svo hoppaði ég í kring og hélt á mér hita. Eftir það hjálpaði ég honum að koma bílnum ósködduðum í Sorpu með því að hafa áhyggjur af því að bandið sem hélt afturhurðinni myndi bresta. Stundum tekur á að vera meðhjálpari :)

Girðingin sem var lítil og gisin og skýldi lítið er farin. Ég hélt alltaf að hún gerði ekkert gagn. Nú finnst mér garðurinn galopinn, ekkert sem rammar hann af nema trén. Þegar ég stend á stéttinni er ég út á Bústaðavegi eða suður á Álftanesi, gersamlega óvarin.

Wednesday, April 01, 2009

Sædýrasafnið

Hugsa sér. Ég gleymdi að blogga um Sædýrasafnið.
Við fórum á það leikrit 24. mars, á afmælisdaginn minn.
Skelfing, ósköp, rugl, þvæla, tímasóun.
Hvaða vitleysa ekkert af þessum orðum rímar við lýsingu á verkinu. Þjóðleikhúsið segir;
Knýjandi spurningar um framtíð okkar, settar fram í sýningu þar sem myndlist, tónlist og dans gegna mikilvægu hlutverki.

Vá, okkur fannst verkið lélegt. Okkur fannst við hafa sóað tímanum til einskis. Engar spurningar vöknuðu nema hvenær komumst við út, burt, bara eitthvað annað en sitja í Kassanum í einn og hálfan tíma án hlés. Tónlistin var vart heyranleg og áreiðanlega ekki eftirminnileg, þó er hún eftir Barða (ekki minn Barða). Myndlist, ja, ef svart blautt plast er myndlist þá var nóg af henni en þá var myndlistin ærandi í síðustu uppfærslu á Pétri Gaut, þar var plastið hvítt og þurrt. Dans, já ég vissi það ekki fyrr en mér var sagt það að tveir leikendur dönsuðu, það heitir víst nútímadans. Mér fannst það fígúratífur látbragðsleikur.

Sem sagt, mér finnst Sædýrasafnið með lélegri leiksýningum sem ég hef farið á. Tímanum var reglulega illa varið.

Athyglisgáfa

Las skýrslu í dag, svo sem ekki í frásögur færandi, hún var skrifuð af fólki er vinnur við rannsóknir á kennslu. Mér fannst margt áhugavert en eitt var það sem mér fannst óborganlegt.
Vissi ekki fyrr en í dag að nemendur hafa mis langa athyglisgáfu. Í skýrslunni stendur að sumir nemendur hafi stutta athyglisgáfu og aðrir langa. Kaflinn sem þetta stóð í fjallaði um, að því er mér skildist, hve mikla eirð börn hafa. Sum eru eirðarlaus og una stutt við hvern hlut á meðan önnur eira lengi við sama hlut. Mín málvitund er mikil eða lítil athyglisgáfa, ég er að vísu ekki menntuð í uppeldisfræðum :)

Villi V á svörtum Volvo rauk fram úr hverjum bílnum á fætur öðrum á Reykjanesbrautinni í dag. Honum var slétt sama þó línan væri óbrotin eða stutt í þá sem komu á móti. Einnig fannst Villa V lítið til þess koma þó bílstjórar sem komu frá álverinu væru að reyna að smeygja bílum sínum inn í umferðina. Villi V ók greitt framhjá. Þetta var ótrúlegt dæmi um hreinan og beinan glannaakstur.

Nú styttist í páskana. Þá hlusta ég á Síðustu orð Krists á krossinum, læt Megas rúlla með Passíusálmana og svo Super Star. Þetta er allt hvert með sínu sniði en þó um sama efnið. Þegar við Barði vorum í Costa Rica fórum við í píslargöngu og göngu að morgni páskadags. Það var afar sérstakt.