My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Saturday, April 04, 2009

Þrettándakvöld

Við fórum í gærkvöldi og sáum Þrettándakvöld. Frábært verk, góð uppsetning og þar af leiðandi gott kvöld sem endaði í te og huggulegheitum með Guðrúnu og Antoni.

Dagurinn í dag varð síst verri. Við náðum góðu dagsverki í Hvassaleiti og svo fínni afslöppun í sundi. Kvöldmaturinn heppnaðist vel því ég sá um að mala kryddið og segja hvenær væri nóg komið. Ræddum um ræktun grænmetis meðan við sátum við borðið. Sigmundi ofbýður hve salatið sem honum þykir gott er dýrt svo við ætlum að rækta það sjálf í sumar. Að vísu fannst honum ekki gott ef ég ætlaði að breyta skikanum hér úti í kálgarð og fannst gráupplagt að hluti af kartöflugarðinum yrði undir salat og annað grænmeti sem hann ætlar að borða í sumar. Ég sá fyrir mér stanslausar ferðir milli Neðstaleitis og Voga, ég eins og rauð ör á Brautinni með grænmeti og kryddjurtir fyrir Sigmund :)

Þetta minnir mig á, ég þarf að ná mér í útsæði í vikunni. Helst rauðar þó þær séu seinsprottnari en gullauga. Ég er svo vandætin að ég vil alls ekki premier, ekki heldur sem forskot á sæluna (nýsprottnar kartöflur) því mér þykja þær alls ekki góðar.

Á morgun ætlum við að vinna aðeins meira í Hvassaleitinu, pússa yfir sparsl og juða gluggakarmana. Anton á þessa líka góðu vél, juðara. Það er ótrúlega gaman að juða. Komst fyrst í tæri við svona tæki þegar Auðbjörg flutti á Kjalarnes. Þá vorum við nokkrar að mála og undirbúa og notuðum öll rafknúin tæki sem við komumst í tæri við. Dásamleg helgi.

Fékk tvær bækur í dag frá Barða. Önnur, Farsælt líf, réttlát samfélag, er um kenningar í siðfræði. Nauðsynleg lesning til að minna mig á hvers vegna ég er hér. Hin, Þar sem sólin skín, er eftir Lizu Marklund. Veit að ég mun njóta hennar í botn. Ég ætla ekki að reyna að finna út hve margar bækur ég á sem eru ólesnar. Það er alveg víst að þær eru um allt milli himins og jarðar, jafnvel efni þar fyrir utan, en þó alls ekki of margar.

Er að fara út á stétt með teppi, te og súkkulaði, búin að kveikja á hitaranum og olíulampa. Verð að herma eftir Óla og Jette sem sátu úti í 20 stiga hita og logni í dag. Stundum finnst mér veðrinu ekki skipt réttlátlega milli Neðstaleitis og Birkevænget, men jeg er hvor jeg gerne vil være.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home