My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, March 10, 2009

Jafnræði, mismunun, aðgerðaleysi kvenna

Fyrir nokkrum árum vann ég hörðum höndum að því að fá svonefnda 40-60% reglu samþykkta í félagsskap sem ég var í. Vinna hinna hörðu handa fólst að mestu leyti í töluðu orði og kröfu um að bæði kyn kæmu að öllum málaflokkum, stjórnum, ráðum og lífinu sjálfu. Krafan var að um jafnræði væri að ræða og aðal- og varamenn spegluðu hlutföll kynja hér á landi eins nálægt veruleikanum og hægt er.

Oft voru snerrurnar harðar. Beittasta vopn þeirra sem vilja ekki það sem nefnt er kynjakvóti var að tala niður til þeirra sem vildu ákvæði um jafnan rétt kynja. Eitt af því sem kom aftur og aftur var jákvæð mismunun. Ekki vildum við konur komast áfram með jákvæðri mismunun. Nei, við vildum komast áfram á jafnræði og jafnrétti en töldum að stundum þyrfti sértækar aðgerðir til svo sem kynjakvóta. Þegar kynjakvótinn hefði verið festur í sessi, orðið það sem kallast gildi, þá væri hægt að snúa sér að öðru.

Jákvæð mismunun er langt í frá það sama og jafnræði eða jafnrétti eins og lesa má um hér að neðan.

Jákvæð mismunun (e. positve discrimination) Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004: "Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda." Jákvæð mismunun er ekki það sama og sértækar aðgerðir. Íslensk löggjöf styður sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun.

Jafnrétti kynjanna (e. gender equality)Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil, og taki þátt í opinberu og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Samkvæmt íslenskum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, á að gilda jafnrétti á íslandi. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum samfélagssviðum.

Ég gladdist þegar ég heyrði niðurstöður úr nokkrum prófkjörum/forvali eða hvað það kallast nú um helgina. Konur komu vel út, svo vel að nokkrar urðu að víkja fyrir körlum til að kynin yrðu jafn sjáanleg á listunum.

Kom þá ekki umræðan enn einu sinni upp. Í stað þess að gleðjast og sjá hve mikið hafði unnist þá var jákvæð mismunun enn einu sinni dregin upp. Talað um að konur ættu að komast áfram að eigin verðleikum (hvenær hefur það verið talið karlmanni til ágætis að hann komist áfram á verðleikum annarra, hefur nokkur karl komist áfram á verðleikum annarra?).
Svo sat ég til borðs með konum þar sem ein sagði að hún væri orðin svo þreytt á þessu, svo þreytt á kjaftæði um jafnan rétt. Nennti ekki lengur að hlusta á umræðuna eða taka þátt.

Ég verð stundum þreytt, þreytt þegar fólk notar hugtök gagngert til að gera lítið úr öðrum og þá sérstaklega konum. Þreytt þegar fólk snýr sögunni á haus til að gera eigin málstað betri. Þreytt þegar kona þarf að standa sig margfalt betur en karl til að vera metin hálfdrættingur á við hann.

Þó er ég ekki þreyttari en það að ég skrifaði einum sem birti lært blogg um jákvæða mismunun og benti honum á rangfærslur. Hann hefur ekki svarað mér og ekki breytt blogginu.

Einu blóta ég oft, það er hagsýna húsmóðirin. Mér finnst það vera nálægt því að vera skammaryrði. Hvers vegna er talið að hagsýni í rekstri sé líkt við hagsýna húsmóður en athafnamaður - já, við hvað er honum líkt, athafnir, þróun, nýsköpun, framfarir. Allt hreyfing.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home