My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, March 06, 2009

Ríkidæmi

Pabbi minn sagðist oft vera með ríkustu mönnum í heimi. Hann ætti 7 mannvænleg börn og fullt af barnabörnum. Þó hann myndi ekki alltaf í hvaða mánuði hver væri fæddur og árin skoluðust aðeins til þá var hann ánægður með afkomendurna.

Mér finnst ég einnig vera rík. Finnst ég eiga stóra fjölskyldu. Ég er svo heppin að hafa fengið tvö börn að gjöf. Þau (Kata og Hilmar) eiga fimm börn samtals. Ég er því fimmföld amma. Svo varð Barði svo lánsamur að fá bónus, Heru Mist. Barnalán mitt er því mikið, hvernig sem á það er litið.

Skrítið hvernig merking orða getur breyst. Fyrir mörgum árum var samið um bónus í fiskvinnslu. Allir vissu hvað það var. Sá sem var duglegur og afkastaði miklu fékk aukagreiðslu. Bónus var ávinningur. Svo varð verslunin Bónus til. Líklega var upphaflega meiningin að fólki finndist það ávinningur að kaupa inn í Bónus. Nú finnst flestum að bónus sé það sama og afsláttur. Fyrir nokkrum árum fórum við tvær frá Rannís til Finnlands. Ég sá um að finna hótel. Pantaði dvöl á Bonus Hotel. Sú sem fór með mér var ekki alveg sátt, sagði mér svo er við komum á hótelið að hún hafði haldið að þetta væri ekki gott hótel. Ástæðan BONUS Hotel. Svona breytist málið.

Nóg að gera um helgina. Ætli við náum að setja myndir á veggina í stofunni. Veit það svei mér ekki. Veit þó að ég ætla að reyna að vaka eftir Wallander í kvöld. Tek svo Barnaby upp annað kvöld.

Lauk við Dronningeofret í gærkvöldi. Langaði í meira. Fullkomin bók. Fullkominn þríleikur. Þess vegna langar mig í meira. Hanne Vibeke Holst skrifar hreint meistaralega.
Kannski fer ég á bókamarkaðinn um helgina. Skoða, vanda mig, athuga hvort þarna séu bækur sem eru áhugaverðar. Meina, hvenær er komið nóg af bókum?

Það er bjart á morgnana. Þegar ég fór suðurúr í morgun þá var albjart. Þegar ég kom heim var bjart. Sólin skein, fuglarnir sungu og laukarnir komnir upp úr snjónum. Hugsanlega fer ég í Garðheima og lít á liti. Hugsanlega sé ég fallega liti í Kaupmannahöfn.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Skilgrining þín á bónus er alveg rétt en skilningur fólks er ekki sá sami eins og þú skrifar. Ég fékk t.d. svo mikinn bónus þegar ég flutti norður að ég er sæl og ánægð í hvert sinn sem ég lít út um gluggann. Skítt veri með vinnuna. Jæja, ég raðaði á lista Samfylkingar og auðvitað hafði það ekkert að segja. Það sem mér finnst skynsamlegt finnst fæstum vit í. Haltu áfram að blogga, mér finnst mjög gaman að lesa það.

9:26 AM  
Anonymous Anonymous said...

Þakka þér fyrir. Nú er ég svo heppin að eiga eina systir og eina vinkonu sem báðar fluttu norður í vetur. Eru báðar svo ánægðar með lífið og tilveruna og það sem þær sjá út um gluggann. Hvað er vit og hvað er vitleysa hlýtur að markast af því hver dæmir.

10:51 AM  

Post a Comment

<< Home