My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Wednesday, April 15, 2009

Sól, sól og aftur sól

Sólin skín. Skellibjart frameftir kvöldi.
Sigmundur að mála í Hvassaleitinu, ég ætla út og rölta aðeins hér í kring. Þarf að teygja úr mér eftir daginn. Ég fór skakkt inn í hann. Gleymdi einu og öðru í morgun t.d. úrinu. Skrítið hvað ég er lengi að rétta kúrsinn af.

Mikið er ég fegin að vera heil heilsu og hafa nóg að gera. Ég geri svo margt annað en fylgjast með stjórnmálum og hökti í kringum þau að það er líkast frelsi. Ætla að kjósa á laugardaginn, það verður gaman að sjá hvaða tilfinningingar brjótast út þegar ég merki á kjörseðilinn. Hvort verður ofan á heilbrigð skynsemi eða tilfinningar?

Garðurinn er allur að koma til. Krókusar blómstra, fyrsti túlipaninn er búinn að opnast. Páskaliljur kinka kolli. Perluliljur láta lítið fara fyrir sér. Anemónurnar virðast vera sprækar, ég hef sjaldan séð laukana (allium) svona bústna. Svo eru fjölæru blómin að stinga upp kollinum, báðar bóndarósirnar og hjarta lautinantsins. Satt að segja þá horfði ég lengi á hjartað, hvað var að koma upp. Mundi svo (þegar ég var búin að fara yfir garðinn plöntu fyrir plöntu) að ég hafði ræktað það upp af fræi. Jú, jú svona er skammtímaminnið farið að gefa sig. Þá er nú eins gott að hafa gott pláss á harða diskinum og mynd af garðinum með öllum heitunum.

Varð ekki vör við vinnuslys í dag. Í gær var ég svo upptekin í vinnu og við að þrífa bílinn að ég gleymdi að fylgjast með blaðamönnum og málblómum.

Í dag hef ég öðru hvoru leitt hugann að lækkun launa og hækkun skatts. Ef laun lækka þá lækkar skattstofn svo skattur verður lægri. Ef laun lækka um 10% þarf skattprósenta að hækka um 12% til að ríkið fái sömu tekjur.
Ef ríkið nær að semja um lækkun taxta hjá opinberum starfsmönnum yrði aðalávinningurinn í sparnaði á launatengdum gjöldum og til lengri tíma litið í lægri greiðslu lífeyris. Skatttekjur yrðu ekki meiri en þær eru nú.

Ég öfunda ekki þá sem vinna við fjármál ríkisins. Bilið milli útgjalda og tekna er svo mikið að það verður erfitt að brúa það. Mig minnir að þegar ég sló á það þá dygði ekki að skera niður alla málaflokka menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Allt sem fellur undir heilbrigðisráðuneytið yrði einnig að fara. Svo há er fjárhæðin. Tal um að leggja niður utanríkisþjónustuna er eins og að pissa í skóinn, hlýjar rétt á meðan.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home