Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, February 27, 2014

Súr

Í rúma viku hef ég bakað úr og sinnt súrdeigi. Ég ákvað að athuga hvort færni minni í brauðbakstri hefði hrakað frá því Barði var barn og unglingur.
Ég er búin að baka bollur og brauð, fín brauð og gróf. Nú er bíður form með deigi fyrir rúgbrauð að fara í ofninn. Því miður verður það sjálfur Sigmundur sem bakar því ég verð á fundi. Það er með hálfum hug að ég treysti honum fyrir að setja formið í ofninn og fylgjast með þar til kjarnhiti er 97°
Kjarnhiti í brauðum, það er nýtt. Nú segja allar uppskriftir með súrdeigi (danskar) að best sé að nota mæli í stað þess að banka og hlusta eins og ráðlagt var hér áður (þegar ég bakaði sem mest).

Eftir kvöldið í kvöld ætla ég að hvíla mig á bakstri, úr súrdeigi. Ég hef ekkert að gera við svo mikið brauð og mér er illa við að henda súr sem og öðru matarkyns.



Wednesday, February 26, 2014

Staða

Fór á Austurvöll í dag, stóð gegn heimsku.
Ég er svo hrifin af hve margir Íslendingar vilja standa gegn heimsku og fá að taka ákvarðanir sjálfir.
Veður er einstaklega gott, þó verður að klæða sig vel. Á myndinni má sjá þau föt sem ég var í auk skófatnaðar og úlpu. Hvorutveggja var vel hlýtt og skjólgott.

Ég leit við í Sunnubúðinni í Lönguhlíð, á leiðinni niður í bæ, og keypti Bounty. Hlakka til að maula það í kvöld á meðan breskir og sænskir krimmar malla á tímaflakki.


Tuesday, February 25, 2014

Dommaraleg

Er domm, eftir góða daga, sól og mikið að gera, gott að vera í sundi. Vaknaði með aðkenningu að höfuðverk, gat náð að snúa honum niður áður en það varð migreni. Þá verð ég domm, höfuðið fylgir ekki sálinni, eða öfugt.

Eins og veðrið er fallegt, út um gluggann. Frábært glugga- og sundveður.

Gróðurinn er misgóður í að túlka veðurfar. Það hefur verið lítil úrkoma í febrúar en afar bjart með kulda. Enn eru leifar af klakabunka á stéttinni. Eins og sólin nái aldrei að hita nógu mikið til að losa endanlega við þetta. Ég ætti svo sem að láta vera að kvarta, víða er mikið meira af klaka og bunkum en hér hjá mér.

Til að taka af allan vafa þá uxu þessar rósir í gróðurhúsi og voru gjöf frá Sigmundi.

Wednesday, February 19, 2014

Í vari

Nú er austan vindur, kaldur, þurr og lítið aðlaðandi að vera úti. Fréttir berast af miklu ryki í lofti.

Ég fór því niður í kjallara og byrjaði að skoða hvað er í geymslunni, ætla að létta á henni.

Við eigum margar töskur, allskonar, mjúkar, harðar, litlar, stórar, bakpoka, haldapoka o.s.frv.
Þá fann ég kassa með geisladiskum, eingöngu diskar. Ég þarf að skoða hvað er þar. Setja það sem ég hef engan áhuga á í endurvinnslu, koma því sem Barði á til hans og huga að því sem ég vil sjálf eiga, ef það er nokkuð.
Grisja hressilega í bókum. Það er nú meira hvað bækur safnast að. Þær eru heldur fleiri en töskurnar enda koma þar saman bækur nokkurra og einnig arfur. Hélt reyndar að ég hefði látið allar bækur sem komu frá Hólmfríði um árið. Ótrúlegt en það eru líklega tveir kassar með Theresu Charles og fleiru slíku í geymslunni. Það fær allt að fjúka.


Tuesday, February 18, 2014

Líður að góu

Nú styttist í góu, ekki seinna vænna að ljúka jólunum því annars sannast danska máltækið að julen er til påske.

Í dag kláruðust seinustu hneturnar. Hér hafa verið hnetur á borðum frá því um mánaðamótin nóv/des þegar Sigmundur kom heim með sérvaldar valhnetur. Fyrsta flokks uppskera frá frönsku ölpunum, best fyrir mars 2015. Seinna bárust hér inn valhnetur sem seldar eru í búðum á Íslandi. Bandarískar, ekki sagt hvaða uppskera eða flokkun, bestar fyrir lok mars 2014.
Annað hvort verð ég að trúa því að þessar frönsku hafi verið sprautaðar og varðar til að þola geymslu til ársins 2015 eða að trúa því að bandarískar hnetur hafi skamman líftíma. Vart getur verið að hingað séu fluttar hnetur sem eru meira en ársgamlar, þ.e. frá því uppskera var.

Nú er einungis eftir að taka niður ljósin sem eru í birkinu. Við höfðum stefnt á að gera það um liðna helgi en vorum upptekin við annað, mest hreyfingu, félagslíf og át. Stefnum að því að taka þau niður um næstu helgi. Þá er myrkrið líka all mikið búið að lina tökin. Einungis mánuður í jafndægur.

Monday, February 17, 2014

Einmunatíð, og þó

Hvað er einmunatíð?
Er það þegar stillt og bjart er dag eftir dag? Er það þegar gott færi er? Er það þegar frýs á auða jörð svo margir fletir eru með klakabunka með tilheyrandi kali og ólykt. Það er svo skrítið að það er meira mál þegar íþróttavellir kala illa og skólalóðir eru einn svellbunki en þegar þeir fáu bændur sem eftir eru á landinu mæðast yfir kali í túnum.

Ég var í fimmtugsafmæli hjá systursyni mínum, í gær. Skrítið að elsta systkinabarnið skuli vera orðið fimmtugt, svo fjölgar þeim ört næstu árin. Eins gott að þau hin viti ekki það sem ég veit.

Jólarósin heldur blómstrinu, er lögst út af, líklega vegna kulda.
Svo var sólarlagið langt í frá eitthvað til að skammast sín yfir. Undanfarna daga hefur verið góð spá fyrir norðurljós. Við höfum nokkrum sinnum farið upp fyrir Hafravatn en ekkert séð nema ótrúlega flott tungl og margar stjörnur. Kannski höfum við verið of snemma á ferðinni, hvað með það. Fullt tungl og stjörnubjart í logni er lítið til að fúlsa við.

Friday, February 07, 2014

Árin

Í dag bakaði ég köku sem ég hef ekki bakað lengi (að vísu baka ég lítið svo það er ekkert skrítið þó sumar uppskriftir hvíli í ár eða meir). Kakan ber það virðulega heiti húsbóndaterta og er lítið annað en egg, sykur og döðlur, borðað með rjóma og banönum. Ég bakaði hana oft þegar ég átti heima hjá pabba og mömmu í Bláskógum og svo þegar ég bjó í Þorlákshöfn. Ég uppgötvaði í dag að ég hef ekki bakað hana síðan ég eignaðist hrærivél. Ég þurfti nefnilega aðeins að hugsa hvernig ég hefði gert þetta. Hrærivél kom á heimilið árið 1991 eða 1992, ég hallast að síðari ártalinu.

Þar sem ég hugsaði um þetta fékk ég mér te í krús. Krús sem Óli og Jette gáfu mér þegar ég varð fertug. Nú hef ég drukkið te úr krúsinni í 17 ár. Vonandi dugar hún í önnur 17 eða lengur því mér finnst hún afbragð annarra krúsa.


Thursday, February 06, 2014

GÆS

Það er vinsælt að taka GÆS á allt milli himins og jarðar. Þá þýðir GÆS get, ætla, skal.

Í vetur hef ég öðruhvoru tekið gæsina eða réttara sagt fóðrað hana. Í desember var oft ein gæs sem kom og fékk sér korn frá smáfuglunum, hún fúlsaði ekki heldur við brauðbita. Alltaf ein á ferð og ég gaf mér að það væri sama gæsin. Ég hélt að hún væri eitthvað vangæf því hún átti til að renna á rassinn en kannski er það bara vegna þess að það er óhægt að ganga á sundfitum á hálum hól. Svo hætti hún. gæsin, að láta sjá sig. Ég saknaði hennar svo sem lítið. Meira svona að ég hugsaði, það bætist lítið við skítnn þessa dagana sem urðu að vikum og rúmum mánuði.

Í dag mætti gæsin (ég er alveg viss um að það er gæsin mín). Ég gladdist, nú kemur meiri áburður. Hún vill lítið láta horfa á sig, varla með aðdráttarlinsu.

Snjótittlingarnir mega þó eiga það að þeim er sama þó ég möndli með linsu innan við glugga enda er ég langt frá þeim og lítið sýnileg fyrir ýmsu dóti sem er í kistunni. Ég svona læði linsunni á milli útvarps og lampa og gæti þess að hreyfa mig lítið.

Wednesday, February 05, 2014

Skrítnir fuglar

Nóg er af skrítnum fuglum, allir tvífættir, sumir án fjaðra.
Ég huga aðallega að þeim vængjuðu, tek myndir eftir því sem færi gefst og fóðra. Það er mismunandi hvað þeir vilja. Ég veit að þrestir eru mikið fyrir reyniber, eftir að þau hafa frosið. Eitt haustið klippti ég nokkra sveipi og setti í frost, í boxum. Sá fyrir mér að ég gæti notað sveipina sem skraut. Um daginn tókum við til í frystikistunni. Ég setti reyniberin út á hól. Fagurrauð um hávetur. Þrestirnir höfðu allan vara á sér. Þeir vildu frekar gráa fitu og korn. Svo allt í einu varð allt vitlaust, hálf vitlaust. Nú er mosinn upptættur eins og það hafi verið hakkað í hann með hrífu. Öll berin hurfu, á augnabliki.

Tittlingarnir eru varari um sig. Ég gef og gef, þeim fjölgar en tegundirnar eru fáar.


Monday, February 03, 2014

Nýr mánuður

Febrúar er genginn í garð. Við erum svo glöð hve það er bjart yfir. Má segja að við séum búin að gleyma hve það getur verið dimmt á þessum tíma árs. Njótum lífsins og horfum út í birtuna og förum í gönguskóna.

Porgy og Bess í apríl. Evíta í apríl. Leikrit eftir Kristínu Maríu í apríl. Við verðum útheyrð og afar séð að því loknu. Hitum upp í mars með Ragnheiði biskupsdóttur og Sætabrauðsdrengjunum.

Ég held áfram að hlusta á alla þá tónlist sem til er á heimilinu. Hélt um tíma að hér væri til diskur með hljómsveitinni Húm. Það reyndist vera diskurinn Húm með Gunnari Gunnarssyni, Tómasi R. Einarssyni og fleirum. Ég læt hann bíða þar til ég er búin með Rigoletto. Þá fer hann í spilarann áður en Káta ekkjan og Brosandi land eftir Lehár trylla mig.

Við eigum einn disk með John Pizzarelli. Frábær tónlistarmaður. Ætti eiginlega að setja stefnuna á að eignast fleiri diska með honum, líkt og að ná í eins og einn með Geirmundi og annan með Frank Sinatra.