Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, February 24, 2012

Föstudagur

Föstudagur, nú er hún alveg að koma. Helgin.
Líklega má ég varla skrifa eða segja þetta orð í framtíðinni nema ein í gluggalausu, hljóðeinangruðu herbergi. Helgi er nefnilega kristið orð, trúarlegt. Það gæti verið að einhverjum sem aðhyllist trúleysi þætti það fordómar að nota orð með trúarlega tilvísun um vikulok, fyrsta dag nýrrar viku .
Við erum heppin, í íslensku er einungis helgin og föstudagur með tilvísun í trú. Í Danmörk þá eru dagar Týs, Þórs og Freys. Þeir þurfa að breyta, að öllum líkindum snarlega.

Ég skrifa þetta þar sem nú er komin krafa frá Wiesenthal stofnuninni um að Passíusálmar verði ekki lesnir lengur í íslensku útvarpi. Þeir eru nefnilega andgyðinglegir. Þessi krafa er í ætt við margt sem við sjálf, hér á Íslandi, höfum sett fram. Það að ekki megi tengja kristna trú við jólin er af sama stofni. Stofni kúgunar hugarfars. Kúgunar einhverra sem vilja fyrst brjóta niður það sem er til og byggja svo annað. Eitthvað annað sem við fáum ekki að vita fyrirfram hvað verður.
Góð leið til að leysa upp samfélag er að eyðileggja gildin, siðina og slíta frá rótum.

Ég er kristin. Ég vil íslensk, kristin gildi. Ég tek vel á móti þeim sem flytja til Íslands en þeir verða að laga sig að mér og íslenskum, kristnum gildum. Ég ætla mér annað en verða hvít kona sem fylgir þeim sem galar hæst hverju sinni. Allt í orði mannréttinda, jöfnuðar og fordómaleysis.

Wednesday, February 22, 2012

Myndir úr garðinum

Klifurhortensían. Ég veit ekki hvernig hún kemur undan vetri. Þetta er fyrsti veturinn sem hún er óvarin.



Ber á kristþyrni. Ef ég verð heppin þá get ég náð góðum jólamyndum næsta haust.




Hortensían aftur. Þessi bleiku eru blóm á japanskvist.





Fúksía. Ég er hreinlega stórhrifin af blómum hennar.











Fúksía




Alpaþyrnir og kófdrukknar býflugur.





Japanskvistur, hortensía, alpaþyrnir, beyki og svo birki í limgerði. Auðvitað er kannan græn, ég fann enga í bleikum eða fallega bláum lit.




Írisar, bleik bóndarós, lífviður, mispill og töfratré. Einnig sést skrautkirsi en það var búið að blómstra svo það er lítið skrautlegt. Þá sést baunakergið og eldrunninn.





Ég var svo glöð þegar við fundum limegrænar sessur. Fúksía í potti. Svo vissi ég ekki fyrr en með haustinu að hún vill alveg eins vera í skjóli fyrir mestu sólinni.







Ég er hrifin af garðinum mínum. Ég er búin að safna í hann öllu milli himins og jarðar, í raun búin að sprengja hann. Núna ætla ég að setja inn myndir til að lífga upp á liti í lífi mínu.




Ég auglýsi eftir litlum reit/skika til að rækta á. Mig langar svo að vera með skika þar sem ég get ræktað stikilsber, rifsber, rabbabara, kartöflur, kryddjurtir o.s.frv. Það þyrfti að vera vatn en mig langar lítið í sumarbústað.
























Ég þakka fyrir daginn í dag.



Í gær var ég heima, fór ekki í vinnu vegna þess að ég var veik. Ég kvefaðist á sunnudag og það fór svo í augun að ég þoldi illa birtu. Ég dró fyrir glugga og lá með poka yfir augunum. Ég bý svo vel að eiga svona grjónapúða úr silki, gerðan fyrir tilvik sem þessi. Ég keypti hann einu sinni því hann er svo fallega blár. Ég sé reyndar ekkert þegar ég læt hann mjúklega yfir lokuð augun en það er svo gott að hugsa til þess að þetta mjúka er blátt, kóngablátt.

Ég þakka fyrir daginn í dag því nú er kvefið á undanhaldi og sólin skín í kapp við sjálfa sig. Ef það hefði verið í gær þá hefði ég verið illa stödd.

Nú er ég heima, bíð eftir að klukkan verði fjögur, ætla þá að athuga hvort Danirnir hafi eitthvað handa mér í sjónvarpi. Les lítið, er lítið í tölvu. Einna helst að leggja kapal með spilum. Það er róandi þegar augun eru sár.

Ég hef drukkið ógrynni af te og ýmsum öðrum heitum drykkjum. Brætt vic í heitu vatni og andað. Hreint og beint haldið að ég væri að ganga frá sjálfri mér þegar mentolið berst í öndunarvegi. Það er magnað hve mér finnst mentol vont.

Um daginn smitaðist ég af Barða og Boggu. Þau gengu í félagsskapinn homeexchange.com og ákváðu að skipta á heimili sínu og íbúð í Lyon í júlí. Þau ætla að prófa meira og eru tilbúin að fara um heiminn svo lengi sem það er hægt að komast þangað fyrir rétt verð.

Ég talaði við Sigmund. Ég skoðaði vefinn. Við skoðuðum vefinn. Svo gengum við í félagsskapinn. Það gekk hálfbrösuglega, skráningarmyndin hrökk til og frá. Svo kom Bogga og skjárinn kyrrðist. Nú erum við tilbúin að skipta á heimili við aðra. Þetta er bara gaman. Sigmundur vill fara þangað sem hann hefur farið áður. Ég vil fara þangað sem ég hef ekki farið áður. Það verður áhugavert að sjá hvort það verða viðbrögð og hver þau verða.

Að vísu virðast ekki margir hafa hug á að skipta á þeim svæðum sem við höfum hug á. En það kemur. Ég tel að það sé rétt, ef maður orðar það sem mann langar þá aukast líkurnar margfalt.
Mig langar að sjá og vera í Ardennafjöllum, við Biscayaflóa, í Finnlandi, Írlandi og Möltu. Sigmundur vill koníakshérðaðið í Frakklandi. Svæðið í kringum Munchen, Frankfurt am Main, svo er Danmörk innan sviga.

Jæja, fer ekkert út í dag. Fór ekkert í gær. Er eins og fýsibelgur og hósta þegar ég hreyfi mig.

Sunday, February 19, 2012

Spádómsvísa

Í dag, fyrsta dag góu, hafa brot úr spádómsvísu um veður brotist um í höfðinu á mér.
Ég man .... þeysöm góa ...., vantar þorra. Gæti verið að hann skyldi þurr en hvað þá með einmánuð? Mér finnst lokalínan vera, þá mun vel vora.
Það er nú ekki með eindæmum hve margir hlutir brjótast um í manni.

Ég bakaði bollur í dag, tvöfalda uppskrift af vatnsdeigsbollum, eða van(d)bakkelsi/bagelse eins og það var kallað þegar ég var barn. Ég er skotfljót að baka. Auðvelt að setja súkkulaði á. Er komin á það að fólk velji sér sjálft sultu og rjóma. Við vorum sex í kaffinu, sem var auðvitað te og mjólk. Þegar við stóðum upp þá voru þrjár bollur eftir. Þeim stútuðu við Sigmundur eftir kvöldmat. Við borðum allt sem okkur langar í, það leyfir ekkert af því.

Um helgina tók ég eftir því að ég sá tvisvar sinnum mynd af afar flottum konum, aðra í blaði og hina í sjónvarpi. Flottheitin voru aðallega litirnir, önnur var í fallega grænni peysu og hin var í blárri og grænni skyrtu. Sem sagt litirnir, svo virtust þær báðar vera við kjörþyngd. Ég horfði, hummaði, hugsaði, oh, svona vildi ég geta klætt mig. Þetta er fallegt. Teygði svo hendina út eftir súkkulaði. Sunnudagurinn var einhvern veginn dagur súkkulaðis. Mér datt síst af öllu í hug að klippa myndina út úr blaðinu, líma hana með tonnataki á spegil eða ísskáp og fara út að ganga. Nei, te og súkkulaði voru heillin.

Nú hef ég látið vera að ganga, í tvær vikur. Eins og ég er í lélegu formi, ofanda, er hrædd um að hníga niður og alles bara við það að rölta eftir hitaveitustokknum. Mig langar í göngu í sumar. Ganga til Voga, fara síldarmannagötur og jafnvel eitthvað fleira. Þá þarf ég að geta farið lengra en tvo kílómetra eftir steinsteyptri braut.

Palla leit við í dag. Hún lítur vel út, hún er einhvern veginn beinni í baki og minna grá í andliti en í haust. Auðvitað er skurðurinn yfir gangráðnum enn vel sjáanlegur. Auðvitað er hún enn marin á bringunni. Samt er hún hraustlegri. Það er dæmalaust að læknar hafi ekkert gert fyrr en núna í ár. Hvað þarf til að þeir heyri og skilji það sem sjúklingur segir. Þegar hún var inni á Landspítalanum vorið 2010 hefði átt að snara gangráð í hana í stað þess að útskrifa og segja farvel frans. Þá fór hún í hjartastopp inni á hjartadeild, alla vega einu sinni. Hún sagði að svona væru hjartsláttartruflaninar. Henni liði svona. Nei, nei, sko truflanir eru öðruvísi, þá fer hjartað á fullt, það stoppar ekki. Hennar hjarta var orðið svo veikt að það stoppaði. Maginn sagði stopp. Höfuðið sagði stopp. Samt var hún send heim, heim í bið eftir aðgerð sem alls óvíst var hvort henni yrði til góðs.

Nú er hjartað hætta að stoppa. Nú fer það bara á fullt. Það eru góð skipti að henni finnst. Nú kemst hún í rúm eða stól þegar hjartað ólátast í stað þess að hníga niður og skríða að einhverju til að styðja sig við þegar hún rankar við sér aftur. Ég veit ekki hvort rankar er rétt skrifað, nenni ekki að slá því upp, finnst það réttara en raknar bara vegna þess að prjón raknar upp.

Friday, February 10, 2012

Föstudagur

Í dag er sérkennilegt veður. Þó myndu sumir segja að þetta væri ekta íslenskt vetrarveður. Í dag skaust ég milli húss og bíls. Á sama tíma var haglél, hryðja. Svo mikið að ég hafði á tilfinningunni að bíllinn myndi fyllast rétt á meðan ég skaust í sætið (þó var ég sérlega hraðfara).

Það minnir mig á að Morgunblaðið segir að kuldabylgja gangi yfir Evrópu. Ég hef heyrt og lesið um hitabylgju og kuldakast. Er kuldabylgja til?

Veðurvefir spá kólnandi tíð. Þá bæti ég mold í garðinn. Ég sé að bóndarósin er rugluð, farin að stinga upp kollinum, sú rauða. Sú sem blómstrar hvítu er gætnari. Þær fá þó báðar grein og mold yfir sig.

Thursday, February 09, 2012

Matur

Flesta daga sjáum við Sigmundur saman um mat. Ákveðum á föstudegi hvað verður í matinn út vikuna og stöndum ca 95% við það. Örsjaldan hnikast til dagur eða svo en í megindráttur þá vitum við með góðum fyrirvara hvað verður í matinn.

Margar vikur þá er Sigmundur upptekinn eitt kvöld í viku, fundur hjá Frímúrurum eða öðrum félagsskap. Þau kvöld borða ég það sem mig langar í. Oft er það hafragrautur með rjóma eða egg, tómatar, kotasæla og túnfiskur úr dós. Nóg af te með og svo gulrætur í eftirrétt. Undanfarið þá hefur mig langað í annað. Mig hefur langað í sviðasultu. Tvisvar hef ég komið við í Miðbæ við Háaleitisbraut og aldeilis ætlað að kaupa sviðasultu, nýja sultu. Í fyrra sinnið var hún ekki til og ég keypti saltað hrossakjöt. Það var nú aldeilis veisla það kvöld. Í seinna skiptið var reynt að selja mér súra sviðasultu, það finnst mér síðri matur og löngunin stóð ekki til súrmetis. Ég rölti og skoðaði skó, leit í glugga fiskbúðarinnar, ætlaði að snúa við og skoða blómabúðina, þegar. Þegar ég sá gotu í borðinu í fiskbúðinni. Inn fór ég og keypti smáar brækur, svona mátulegar í mat fyrir einn. Fékk lifur með, nóg af henni því hún var ókeypis. Veislan var endurtekin.

Nú bíð ég eftir að Sigmundur fari á fund. Þá ætla ég að athuga hvort ég fái sviðasultu eða eitthvað annað spennandi sem tilbrigði við hafragraut.

Ég skal bara segja ykkur það, ef þið drekkið mikið vatn, bætið vel við af te. Bryðjið gulrætur, epli og hnetur. Hafragraut og lýsi á hverjum degi. Þá, og einungis þá, er stærð 48 ykkar. Auðvitað borða ég ýmislegt með t.d. bauna- og hrísgrjónarétti fulla af grænmeti. Fisk og hrísgrjónagraut. Lítið af sælgæti, sjaldan í mánuði. Aldrei gosdrykki eða safa. Skyndiréttir eða unnin matvara sést vart. Kökur eru vart til. Kex er einungis rúgkökur, þessar þunnu og þurru. Ef ég myndi hreyfa mig meira þá væri ég líklega stærð 44.

Saturday, February 04, 2012

Laugardagur

Enn er vorveður, milt og rakt. Lítill vindur.

Ég sé að vorlaukarnir eru þokkalega áttavilltir og farnir að stinga upp kolli. Á morgun klippi ég runna og set niður lauka sem hefðu átt að fara niður í haust. Ég keypti fræ í dag, er eins og litla gula hænan. Ég keypti sólblómafræ. Ætla að rækta sólblóm í sumar. Í mars mun ég setja nokkur í mold og forrækta innandyra svo fara nokkur beint út í mold í maí. Ég hlakka til, get vart beðið.
Sigmundur tók þá afstöðu að það ætti að kaupa kryddjurtir af Ingibjörgu Sigmunds, láta vera að rækta sjálfur. Hann samþykkti þó kartöflugarð í Vogunum.

Um leið og ég fagna vorinu í mínum garði þá verð ég að horfast í augu við að enn er þorri. Ég fór í Hvassaleiti í dag, hef ekki komið þar í tvær vikur eða meir. Það er enn fullt af klaka í botnlanganum og það var klakastykki upp við hús, bílastæði og stétt. Þá fórum við í kirkjugarðinn í Gufunesi og þar var snjór og klaki. Okkur langaði að hreyfa okkur svo við fórum og börðum aðeins á klakanum í Hvassaleiti. Hreinsuðum bílastæði og stétt. Að vísu var Inga lítið hrifin, við fórum nefnilega ekki burt með klakann heldur muldum hann niður og settum út í botnlangann. Hún telur að við það hafi orðið illfært eða ófært þarna. Já, já, laun heimsins eru vanþakklæti.

Í gærkvöldi ætlaði ég heldur betur að hafa sjónvarpskvöld. Komin með fullt, fullt af sjónvarpsstöðvum. Fann fátt sem ekkert sem ég festi hugann við. Þó var matreiðsluþáttur á einni af þýsku stöðvunum. Svo var ég búin að sjá þáttinn um Lewis. Þannig að ég var komin í rúmið um hálf tólf og búin með Söndag fyrir miðnætti. Það er náttúrulega skelfing og hreinlega bannað að hafa engan vandaðan enskan, danskan, sænskan eða norskan krimma á dagskrá föstudagskvölds.

Thursday, February 02, 2012

Nálastungur

Í nokkurn tíma hef ég farið reglulega í nálastungur til Dagmarar nálastungufræðings.

Í upphafi fór ég því ég hef lengi verið með doðatilfinningu í utanverðu vinstra læri. Það hefur verið erfitt að standa kyrr því þá færist doðinn/tilfinningin ofar. Þegar ég verð þreytt þá fæ ég þyngslatilfinningu í lífbeinið. Jæja, heimilislæknir sagði að þetta væri ekkert, ef tilfinningin væri ekki farin eftir ár, talaði við hann þegar ég var búin að finna fyrir þessu í ca sex mánuði, þá væri hægt að rannsaka hvort taugaendar væru bólgnir eða eitthvað.

Sum sé, ég nennti ekki að bíða og fara í rannsóknir. Fór til Dagmarar. Hún nuddar, stingur og þreifar. Ég er á því að doðinn hafi minnkað og svæði orðið minna afmarkað. Hún segir aftur á móti að ég sé svo orkulaus, það sé svo lítið líf í mér.

Seinast setti hún glerkoppa á bakið á mér til að fá blóðið á hreyfingu og draga súrefni inn í það.

Sigmundur breytti áskrift að sjónvarpi símans. Nú er opið fyrir margar, margar evrópskar sjónvarpsstöðvar, þó enga breska nema ég telji Sky breska. Þá er opið fyrir alevrópsku stöðina Aljazeera. Mér finnst það fyndin flokkun. Hugsanleg fyrirboði þess er koma skal, þegar Arabar hafa tekið yfir Evrópu og Evrasía er orðin til í reynd, ekki einungis sögulega.

Wednesday, February 01, 2012

Lífshlaup

Í dag skráði ég mig í Lífshlaupið www. lifshlaupid.is

Í fyrra langaði mig svo mikið en kom mér ekki að því. Nú tel ég að ég hafi vel rúm fyrir 30 min í hreyfingu á degi hverjum. Í janúar hef ég rölt eftir hitaveitustokknum, frá Neðsta að Réttarholti. Fyrst var ég hreint og beint yfirkomin af mæði þegar ég kom heim, hóstaði, snýtti mér og hóstaði. Í gær var allt í góðu, aðeins kjöltur, lungun svona að minna á sig. Ég er ca 30 min, í góðu færi, 45 min þegar það er þungt og ég verð að krækja fyrir bílaplanið við RÚV. Nú er að halda sig við þetta. Skrá á vefinn og ýta við sjálfri sér.

Í dag fór ég og náði í vegabréf, það eldra var gatað um leið. Í eldra vegabréfinu var ég líkt og sakamaður (svona eins og þeir eru í bandarískum myndum), allt appelsínugult, ég mændi upp (vélin var einhvers staðar lengst fyrir ofan mig). Nú er ég í eðlilegri litum en lít út eins og þegar ég kem úr löngu ferðalagi, örþreytt, annað augað í pung, hinu skotið langt upp á enni.

Hvers vegna þurfa myndir í vegabréfi að sýna mann frá verstu hliðinni?

Um daginn fór ég í Hagkaup, það var í byrjun janúar. Ég tók út grænmetis- og ávaxtakælana/borðin. Samkvæmt reglugerð á að merkja uppruna ávaxta og grænmetis. Ég sá hvergi merki nema það sem kom fram á umbúðum. Að gamni mínu fór ég í Krónuna Bíldshöfða og gáði að hinu sama. Hvergi merkt nema það sem framleiðandi eða sá sem pakkar gefur upp og það er undantekning ef svo er.

Ég hafði samband við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar, það svið sem sér um eftirlit með matvælum og kvartaði. Kvartaði formlega. Ég fékk svar um að það ætti að skoða málið.

Í dag fór ég aftur í Hagkaup. Það hefur ekkert breyst. Allt ómerkt. Nú ætla ég að ítreka kvörtun mína. Ekki senda tölvupóst heldur bréf þar sem vísað er til tölvupóstsins og svars.

Annars er allt í góðu hér. Ég er að fara í klippingu. Ætla að prófa nýja hárgreiðslustofu. Ég er í raun alltaf að leita að Auði á Papillu.