My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Saturday, August 04, 2012

Helgi

Enn ein helgin að ganga í garð. Dásamlegur tími, lok viku og upphaf þeirrar næstu. Það gerist vart betra. Við verðum heima. Höldum áfram að vinna í Ofan og tökum það rólega í Neðsta á milli þess sem Barði og Simmi skreppa í lax. Við Simmi vorum orðin langeygð eða langþreytt eftir langri helgi. Við erum bæði þreytt og hálfgert með kvef. Það verður aldeilis gott að geta ráðið hraðanum og verkefnum algerlega í þrjá daga.
Það er langt síðan ég hef farið að heiman um verslunarmannahelgi. Þegar við áttum heima á Akranesi var farið í Vatnaskóg (í það minnsta einu sinni), nokkrum sinnum í útilegur í Skorradal og í Svínadal. Að mestu var verið heima, farið til Reykjavíkur með galtómri Boggunni, á bíó í Reykjavík og stundum gist hjá Deddu eða fyrir Fjörð að kvöldi. Eftir að ég kom til Reykjavíkur hef ég alltaf verið heima. Barði hefur stundum/oft farið. Ég man eftir London, skelfing. Litla barnið í utanlandsferð þegar valið var um þjóðhátíð í Eyjum eða eitthvað annað fyllerísmót. Svo þegar ég var fullvissuð um að þar sem hann væri lítið sem ekkert niður í miðbæ á nóttunni þá hefði ég litla ástæðu til að halda að hann yrði í verstu hverfum London. Jamm, ég er aðeins eldri nú og farin að gera mér grein fyrir að ég vissi svo sem ekkert hvar hann var á nóttunni eða hvað hann hafði fyrir stafni svona almenn.
Ég hef verið að mig minnir á þremur þjóðhátíðum. Mér að meinalausu hefði ég getað misst af þeim öllum. Ég hef aldrei haft gaman af því að vera með eða innan um dauðadrukkið fólk sem verður sífellt þreyttara og ógeðslegra.
Mér finnst flott að vera heima, baka vöfflur, lesa, fá gott te. Fara í sund, jafnvel í bíó. Það er svo yndislegt að vera í ró og næði og heima hjá sér. Það eina sem vantar er heitur pottur. Þá væri upplifunin líkt og að vera í sumarbústað nema allt helmingi betra.
Að því sögðu ætla ég að ná skrefum í teljarann. Mér gengur ágætlega, ligg í níu þúsund. Er farin að taka rúnt um Smáíbúðahverfið á kvöldin.
Hvað finnst ykkur um að ég prófi að búa til sultu úr sítrónum? Ég hef nokkrum sinnum búið til lemon curd, langar núna að búa til sultu, varla hægt að kalla það marmelaði.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home