My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Wednesday, August 08, 2012

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Ég er mikið fyrir orðtök og málshætti. Finnst þeir segja margt í fáum orðum. Það kryddar tilveruna að hugsa hvort rétt er með farið eða hvort búið er að gera glænýjan sökum misskilnings. Í raun eru fá ár síðan ég skildi til fulls hvað var að heltast úr lestinni, ég hafði ávallt annað orð, hellast, og sá illa hvernig hestur/maður/kona gæti hellst úr lest, nema þá að á einhverjum tíma hefði það verið kallað að hellast af hesti þegar kona féll af baki. En það var órökrétt því reiðmenn fóru sjaldan í lestum, það voru reiðingshestar.
Ég hef dálæti á málshættinum, það læra börnin sem fyrir þeim er haft og svo finnst mér fjórðungi bregður til fósturs ávallt gott.
Það sem fólk vissi í árdaga, að fóstur/uppeldi hefði áhrif og svo sæju vinir og félagar um afganginn hefur verið sannað í rannsóknum í félagsfræði. Heimili leggja grunn ca fjórðung af hegðun og gildum. Félagar, skóli, hverfið eru með afganginn.
Í vetur var nokkur umræða um kennslu trúarbragða, hvort það ætti heima í skólum. Hvort tengja ætti skólastarf við kirkju þegar jól og páskar væru í nánd. Hvort trúboðar mættu koma í skóla. Sitthvað fleira var rætt og skrifað. Sitt sýndist hverjum, svona eins og gengur. Ef ég væri uppalandi vildi ég síður að misvitrir trúboðar fengu óheftan aðgang að mínu barni. Aftur á móti tel ég að við séum kristin þjóð og að það sé sjálfsagt að kristnum sið sé haldið fram umfram aðra siði. Ef skólar vilja vera gersamlega stikkfrí og hafa nokkurn veginn trúarbragðalaust starf þá en einsýnt að jóla- og páskafrí falla niður. Það er óþarfi að fella skólastarf niður þó kristnir haldi hátíð. Mér finnst það umhugsunarvert ef hluti þjóðarinnar vill taka upp annan sið en kristinn, einhverja nýja siðfræði sem ég þekki lítið til. Helst finnst mér það vera frelsi til að vera trúlaus. Ég man hvergi eftir því að Íslendingum sé bannað að vera trúlausir, utan flokka eða án kynhneigðar.
Hvers vegna skrifa ég kynhneigð? Jú, ég veit að fjórðungi bregður til fósturs. Ég veit að flestir fá fræðslu um kynlíf og kynhneigð frá félögum, umhverfi, myndum, blöðum, eiginlega öllum öðrum en uppalendum. Margir foreldrar reyna, koma sjálfum sér og börnum í erfiðar og kjánalegar aðstæður. Hver vill ræða kynlíf, getnaðarvarnir, kynhneigð við foreldrana? Ég man að ég reyndi að tala við Barða. Ég man að stundum, einkum þegar hann var barn, þá fannst mér hann vita mikið um hluti sem hann skildi alls ekki eða það fannst mér.Ég man hvernig bækur voru mitt uppáhald um tíma. Ég las þúsund síðna bók um rannsóknir á kynhegðun, Kinsey skýrslan. Ég las einnig bók sem fjallaði um heilsufar og mannamein. Stundum bregður fyrir brotum minninga þegar ég var að fræða skólabræður mína um ýmislegt, jepps.
Í gærkvöldi hlustaði ég með öðru eyranu á barnatíma í útvarpinu, hann var og er á gömlu gufunni. Ég var eiginlega standandi hlessa. Þátturinn var bein fræðsla um samkynhneigð, tvíkynhneigð, kynáttunarvanda o.s.frv. Það var ekkert rætt um gagnkynhneigð, barnagirnd, klám, náriðla eða samfarir án samþykkis (fyrirgefið ef ég gleymi einhverju). Þar sem ég læt þáttinn oft ganga þá veit ég að það er verið að höfða til barna um tíu ára aldur, efnið, þeir sem koma í viðtöl og fleira gefa það sterklega til kynna. Ég hugsaði, ef það er ástæða til að halda úti þætti til að kynna ungum börnum heim samkynhneigðra í tilefni þess að þeir halda hátíð þá finnst mér ástæða til að hafa massíva fræðslu um margt annað. Ég sé fyrir mér að fyrir verslunarmannahelgi sé kynnt staða verslunarmanna. Fyrir sjómannadag sé farið vandlega yfir sjávarútveg. Fyrir páska er kristinn siður og gyðingdómur vel og vandlega kynntur o.s.frv. en umfram allt og yfir um kring verður því haldið stíft að börnum og unglingum að kynlíf er dauðans alvara og einkamál hvers og eins. Kynlíf er annað en skrautlegir búningar, förðun, vagnar, tónlist og gleði.
Sjáið fyrir ykkur bekk þar sem kennarinn er ósköp venjulegur. Hann veit upp á hár hve margar mínútur hann á að kenna á hverjum degi, hverri viku og skólaári. Hann veit að í frímínútum þá koma börnin honum ekki við nema hann fái aukamínútur fyrir það. Hann veit að það er langt jóla- og páskafrí, það koma vetrar- og haustfrí og svo vinnur hann af sér svo sumarfríið er langt. Hann veit líka að það er margt sem hann á ekkert að skipta sér af eða hefur litla sem enga þekkingu til að gera. Kennarinn er fráskilinn, á fjögur börn með þremur einstaklingum. Í bekknum eru 24 börn, sum pólsk, sum thailensk, flest eins nálægt því að vera alíslensk og hægt er. Sum eru með eggjaofnæmi, eitt er með mjólkuróþol. Annað á bilaða foreldra. Flest eru kristin að íslenskum sið en þó er bahai og vottur jehóva þarna og þó hljótt fari þá er barn sem á foreldra sem eru siðuð (siðmennt). Hvað á kennarinn að gera þegar hann uppgötvar að þar að auki þá eru börn í bekknum sem eiga tvo pabba eða tvær mömmur? Ég reikna með að það verði haldið dauðahaldi í mínúturnar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home