Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, August 10, 2012

Óhapp

Á nær hverjum degi er okkur sagt frá óförum annarra. Allskonar óhöppum sem hendir fólk á öllum aldri. Svo erum við vöruð við, þið getið meitt ykkur á þessu, sumt er við hæfi eldri barna. Sum efni eru skaðleg. Sumir limlesast  á meðan aðrir fara sér að voða.
Við heyrum af áföllum, óhöppum, óláni, skakkaföllum, slysförum, stórmeiðslum, voðaverkum.
Er þetta rétt? Nei, okkur eru sagðar fregnir af slysi, fólk slasast. Meira að segja ung börn slasast þegar þau eru með leikföng sem eru gerð fyrir þau sem eldri eru.

Slys og slasast. Slasast og slys. Þetta virðast vera einu orðin sem til eru. Hvers vegna þarf að segja, kona slasaðist á hendi í slysi sem hún lenti í er hún velti bíl?
Réttara væri að kona meiddist á hendi er bíll sem hún var í valt.

Þetta með bílinn sem konan velti tók ég beint upp úr fréttum. Sagt var frá þremur útlendingum sem höfðu velt bíl. Ég trúi að bílaleigan sé lítið sátt. Hvers konar uppátæki er það að velta bíl sem aðrir eiga?

Ég streða enn við skrefin tíu þúsund. Ég er búin að átta mig á því að það er gott að vera komin með þrjú þúsund skref þegar ég mæti í vinnu, því næ ég með að ganga langleiðina. Það er einnig komið á hreint að það eru fimm hundruð skref milli Neðsta og stoppistöðvar við Verzló. Það eru rúmlega tvö þúsund skref frá Grensás og heim ef ég fer inn í Leitin. Þá er það að ganga, vera sátt við að ná níu þúsund. Það er komið kapp í mig. Eins gott því ég sofnaði þegar ég fór í klippingu í morgun :)  Svo skrítið sem það er þá finn ég mun á fötum eftir að ég fór að safna skrefum. Ég syndi enn, borða vel og það sem mér þykir gott og fötin passa betur. Þetta verður bara gaman. Líklega fer ég að passa í eitthvað af buxum sem ég á.  Nú þegar hef ég hætt að nota einar sem voru orðnar ansi víðar. Ég bíð spennt eftir að aðrar renni sjálfar niður og þá hlýtur að vera lag að skoða hvað passar af því sem fyllir skápa.
Palla, ég á nóg af fötum sem eru alltof stór á þig en of lítil á mig.
Nú ætla ég að verðlauna mig með áfanga. Mig langar í skvísulegan sundbol, til að vera í þegar ég fer í sumarbústað og svoleiðis. Mig langar í skó/sokka til að vera í þegar ég fer í sund. Mig langar í ný sundgleraugu, helst stór (lík skíðagleraugum), mig langar í skæslegan bakpoka, mig langar í aðra sundhettu. Mig langar í stígvél, mig langar í nýja sandala, mig langar í gönguskó. Allt þetta verða viðurkenningar fyrir að ná áfanga.


Thursday, August 09, 2012

Hópar

Í kvöld hlustaði ég upphaf útvarpsþáttar sem Soffía Auður Birgisdóttir og fleiri voru með, efnið var samkynhneigð í bókmenntum. Ég hélt að þeir sem kynntir voru til leiks væru með sæmilega málvitund.
Hópar innihéldu, það var allsendis ófært að segja -í hópnum voru-
Svo var sagt frá sálarkreppu samkynhneigðra karla, hvað þeir höfðu kvalist eftir að Oscar Wilde var nær hálshöggvinn. Ekkert minnst á samkynhneigðar konur. Í upphafi þáttarins var stuttlega sagt frá kynlífshegðun Grikkja til forna. Að þar hefði verið sjálfsagt að njóta ásta og kynlífs með hverjum þeim sem þér sýndist svo lengi sem hann var neðar þér í virðingarstiganum (talið upp ungmenni, þrælar, konur). Það var engin tilraun gerð til að skýra að það er langt í frá samansem merki milli ástar og kynlífs. Það var engin tilraun gerð til að skýra að það samfélag sem við búum í aðhyllist ekki slíkt.
Mér þykir mikilvægt að halda því á lofti því annars fer allskonar undirokun og kúgun að blómstra. Þá verður vændi siður sem við vildum gjarnan fá.

Ég skrifaði hálshöggvinn þegar ég er með í huga að taka hausinn af einhverjum. Mér finnst afhausaður óíslenskulegt og eiginlega bein þýðing á decapiated sem er m.a. notað þegar konungi/fursta er steypt af stóli. Líklega var oft hoggið á háls í kjölfarið.

Nú er suðvestanátt, rigning og vindur, gróður lemst til og frá, ánamaðkar koma á yfirborðið, sniglar njóta sín til fulls. Lóan er farin að hópa sig á túninu við útvarpshúsið. Kópavogskirkja er lýst upp. Mig langaði að prófa að taka myndir en lét það vera, Kannski geri ég það að ári. Ég er óviss með hvort birta sé næg að kvöldi.

Við erum að verða búin með Ofanleiti. Eftir að þrífa gluggana í stofunni, strjúka af rimlagardínum og setja upp, þrífa parkettið og hluta af baðherbergi. Þá á Simmi eftir að setja upp ljós í stofu og eitthvað smádúllerí. Auðvitað er eftir að losa geymsluna og strjúka af hillum og gólfi. Þar verður hvorki þrifið né málað.

Wednesday, August 08, 2012

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Ég er mikið fyrir orðtök og málshætti. Finnst þeir segja margt í fáum orðum. Það kryddar tilveruna að hugsa hvort rétt er með farið eða hvort búið er að gera glænýjan sökum misskilnings. Í raun eru fá ár síðan ég skildi til fulls hvað var að heltast úr lestinni, ég hafði ávallt annað orð, hellast, og sá illa hvernig hestur/maður/kona gæti hellst úr lest, nema þá að á einhverjum tíma hefði það verið kallað að hellast af hesti þegar kona féll af baki. En það var órökrétt því reiðmenn fóru sjaldan í lestum, það voru reiðingshestar.
Ég hef dálæti á málshættinum, það læra börnin sem fyrir þeim er haft og svo finnst mér fjórðungi bregður til fósturs ávallt gott.
Það sem fólk vissi í árdaga, að fóstur/uppeldi hefði áhrif og svo sæju vinir og félagar um afganginn hefur verið sannað í rannsóknum í félagsfræði. Heimili leggja grunn ca fjórðung af hegðun og gildum. Félagar, skóli, hverfið eru með afganginn.
Í vetur var nokkur umræða um kennslu trúarbragða, hvort það ætti heima í skólum. Hvort tengja ætti skólastarf við kirkju þegar jól og páskar væru í nánd. Hvort trúboðar mættu koma í skóla. Sitthvað fleira var rætt og skrifað. Sitt sýndist hverjum, svona eins og gengur. Ef ég væri uppalandi vildi ég síður að misvitrir trúboðar fengu óheftan aðgang að mínu barni. Aftur á móti tel ég að við séum kristin þjóð og að það sé sjálfsagt að kristnum sið sé haldið fram umfram aðra siði. Ef skólar vilja vera gersamlega stikkfrí og hafa nokkurn veginn trúarbragðalaust starf þá en einsýnt að jóla- og páskafrí falla niður. Það er óþarfi að fella skólastarf niður þó kristnir haldi hátíð. Mér finnst það umhugsunarvert ef hluti þjóðarinnar vill taka upp annan sið en kristinn, einhverja nýja siðfræði sem ég þekki lítið til. Helst finnst mér það vera frelsi til að vera trúlaus. Ég man hvergi eftir því að Íslendingum sé bannað að vera trúlausir, utan flokka eða án kynhneigðar.
Hvers vegna skrifa ég kynhneigð? Jú, ég veit að fjórðungi bregður til fósturs. Ég veit að flestir fá fræðslu um kynlíf og kynhneigð frá félögum, umhverfi, myndum, blöðum, eiginlega öllum öðrum en uppalendum. Margir foreldrar reyna, koma sjálfum sér og börnum í erfiðar og kjánalegar aðstæður. Hver vill ræða kynlíf, getnaðarvarnir, kynhneigð við foreldrana? Ég man að ég reyndi að tala við Barða. Ég man að stundum, einkum þegar hann var barn, þá fannst mér hann vita mikið um hluti sem hann skildi alls ekki eða það fannst mér.Ég man hvernig bækur voru mitt uppáhald um tíma. Ég las þúsund síðna bók um rannsóknir á kynhegðun, Kinsey skýrslan. Ég las einnig bók sem fjallaði um heilsufar og mannamein. Stundum bregður fyrir brotum minninga þegar ég var að fræða skólabræður mína um ýmislegt, jepps.
Í gærkvöldi hlustaði ég með öðru eyranu á barnatíma í útvarpinu, hann var og er á gömlu gufunni. Ég var eiginlega standandi hlessa. Þátturinn var bein fræðsla um samkynhneigð, tvíkynhneigð, kynáttunarvanda o.s.frv. Það var ekkert rætt um gagnkynhneigð, barnagirnd, klám, náriðla eða samfarir án samþykkis (fyrirgefið ef ég gleymi einhverju). Þar sem ég læt þáttinn oft ganga þá veit ég að það er verið að höfða til barna um tíu ára aldur, efnið, þeir sem koma í viðtöl og fleira gefa það sterklega til kynna. Ég hugsaði, ef það er ástæða til að halda úti þætti til að kynna ungum börnum heim samkynhneigðra í tilefni þess að þeir halda hátíð þá finnst mér ástæða til að hafa massíva fræðslu um margt annað. Ég sé fyrir mér að fyrir verslunarmannahelgi sé kynnt staða verslunarmanna. Fyrir sjómannadag sé farið vandlega yfir sjávarútveg. Fyrir páska er kristinn siður og gyðingdómur vel og vandlega kynntur o.s.frv. en umfram allt og yfir um kring verður því haldið stíft að börnum og unglingum að kynlíf er dauðans alvara og einkamál hvers og eins. Kynlíf er annað en skrautlegir búningar, förðun, vagnar, tónlist og gleði.
Sjáið fyrir ykkur bekk þar sem kennarinn er ósköp venjulegur. Hann veit upp á hár hve margar mínútur hann á að kenna á hverjum degi, hverri viku og skólaári. Hann veit að í frímínútum þá koma börnin honum ekki við nema hann fái aukamínútur fyrir það. Hann veit að það er langt jóla- og páskafrí, það koma vetrar- og haustfrí og svo vinnur hann af sér svo sumarfríið er langt. Hann veit líka að það er margt sem hann á ekkert að skipta sér af eða hefur litla sem enga þekkingu til að gera. Kennarinn er fráskilinn, á fjögur börn með þremur einstaklingum. Í bekknum eru 24 börn, sum pólsk, sum thailensk, flest eins nálægt því að vera alíslensk og hægt er. Sum eru með eggjaofnæmi, eitt er með mjólkuróþol. Annað á bilaða foreldra. Flest eru kristin að íslenskum sið en þó er bahai og vottur jehóva þarna og þó hljótt fari þá er barn sem á foreldra sem eru siðuð (siðmennt). Hvað á kennarinn að gera þegar hann uppgötvar að þar að auki þá eru börn í bekknum sem eiga tvo pabba eða tvær mömmur? Ég reikna með að það verði haldið dauðahaldi í mínúturnar.

Tuesday, August 07, 2012

Svo margt en þó fátt

Ég er nokkuð viss um hver andlátsorð mín verða.
Íris, írisarnir, fúksía, fúksíurnar.
Svo mörg verða þau orð :) Hvorki fleiri né færri.
Ég gerði sultu úr sítrónum. Sultan varð marmelaði. Næst sker ég sneiðarnar smátt, í uppskrift var sagt sneiða sítrónuna þunnt, ekkert minnst á að þverskera eða tvískera í það minnsta eftir það. Í uppskriftinni var sagt að gott væri að setja örlítinn engifer en ég sleppti honum. Ég ætlaði en fann hvergi sultaðan og nennti ekki í sérbúðir. Svo var örlítil tillitssemi við Simma, hann er lítið fyrir engifer.
Ég gerði mína tillögur að hjónabandssælu, minnug þess sem Guðbjörg Theodórs segir, hafa nóg af smjörlíki og sultu. Ég hef tvö egg, tvöhundruð grömm af smjörlíki, tvö hundruð grömm sykur, hundrað grömm hveiti, hundrað grömm valhnetur, hundrað grömm kókosmjöl og hundrað grömm haframjöl. Fullt, fullt af sultu.
Simmi og Barði fóru í Elliðaárnar, komu heim með tvo. Annar fer í reyk og verður snæddur í vetur. Þá er forrétti á aðfangadag bjargað. Hinn verður grillaður og etinn í kvöld.
Þegar ég fór í Árbæjarlaug fór ég í stutta skrefasöfnun, skrapp rétt út fyrir stíginn og fann fullt af bláberjum. Sum aðeins græn, flest flott og æt. Ég át og safnaði svo skrefum.
Ég hef verið dugleg um  helgina, náð mörgum skrefum. Komist að mörgu nýju um Smáíbúðahverfið. Held að Simmi sé ánægður með nýja göngufélagann. Hann var oft dauðleiður þegar ég spurði hvort hann vildi koma út að ganga. Þá mæddist hann alveg þar til hann sagði frá. Í frásögn var allt svo gaman og hann svo mikið fyrir gönguferðir og svo heilsusamlegt og, og, og. Allt  sem ég heyrði var röfl, tuð, leiðindi og vandræði.
Greyið hefur verið veikt, alveg fárveikur, kvef í nös, verkur í höfði, hósti og særindi í hálsi. Einnig hefur hann þjáðst að stórhættulegum sinadrætti. Liggur við að það hafi þurft að fara á bráðamóttöku út af því. Það er vont að vera svona veikur.
Það er svo mikið betra að synda í Árbæjarlaug. Það er svo gaman að vera þar. Stefni á hana þrisvar í viku.
Svo ég gleymi því ekki. Írísarnir eru allir fallnir, koma tvíefldir að ári. Fúksíurnar eru fínar, sérstaklega sú færeyska. Gæti trúað að það þurfi að skipta um mold á hinni (hvað svo sem  hún heitir). Ætti ég að leggjast í yrki?

Saturday, August 04, 2012

Helgi

Enn ein helgin að ganga í garð. Dásamlegur tími, lok viku og upphaf þeirrar næstu. Það gerist vart betra. Við verðum heima. Höldum áfram að vinna í Ofan og tökum það rólega í Neðsta á milli þess sem Barði og Simmi skreppa í lax. Við Simmi vorum orðin langeygð eða langþreytt eftir langri helgi. Við erum bæði þreytt og hálfgert með kvef. Það verður aldeilis gott að geta ráðið hraðanum og verkefnum algerlega í þrjá daga.
Það er langt síðan ég hef farið að heiman um verslunarmannahelgi. Þegar við áttum heima á Akranesi var farið í Vatnaskóg (í það minnsta einu sinni), nokkrum sinnum í útilegur í Skorradal og í Svínadal. Að mestu var verið heima, farið til Reykjavíkur með galtómri Boggunni, á bíó í Reykjavík og stundum gist hjá Deddu eða fyrir Fjörð að kvöldi. Eftir að ég kom til Reykjavíkur hef ég alltaf verið heima. Barði hefur stundum/oft farið. Ég man eftir London, skelfing. Litla barnið í utanlandsferð þegar valið var um þjóðhátíð í Eyjum eða eitthvað annað fyllerísmót. Svo þegar ég var fullvissuð um að þar sem hann væri lítið sem ekkert niður í miðbæ á nóttunni þá hefði ég litla ástæðu til að halda að hann yrði í verstu hverfum London. Jamm, ég er aðeins eldri nú og farin að gera mér grein fyrir að ég vissi svo sem ekkert hvar hann var á nóttunni eða hvað hann hafði fyrir stafni svona almenn.
Ég hef verið að mig minnir á þremur þjóðhátíðum. Mér að meinalausu hefði ég getað misst af þeim öllum. Ég hef aldrei haft gaman af því að vera með eða innan um dauðadrukkið fólk sem verður sífellt þreyttara og ógeðslegra.
Mér finnst flott að vera heima, baka vöfflur, lesa, fá gott te. Fara í sund, jafnvel í bíó. Það er svo yndislegt að vera í ró og næði og heima hjá sér. Það eina sem vantar er heitur pottur. Þá væri upplifunin líkt og að vera í sumarbústað nema allt helmingi betra.
Að því sögðu ætla ég að ná skrefum í teljarann. Mér gengur ágætlega, ligg í níu þúsund. Er farin að taka rúnt um Smáíbúðahverfið á kvöldin.
Hvað finnst ykkur um að ég prófi að búa til sultu úr sítrónum? Ég hef nokkrum sinnum búið til lemon curd, langar núna að búa til sultu, varla hægt að kalla það marmelaði.

Wednesday, August 01, 2012

Sólardagur

Enn einn dagur með sól. Það er frekar hlýtt og skraufþurrt. Vindurinn kælir. Ég er í góðu yfirlæti í rúminu og rölti af og til fram. Alveg kominn tími á detox, eða svo fannst líkamanum.
Garðurinn stendur í blóma. Alpaþyrnirinn er orðinn blár. Bóndarósin springur út. Írisinn sem ég skildi eftir um daginn er enn fallegur. Dahlían aldeilis fín og japanski kvisturinn er byrjaður að blómstra. Svo er ég spennt að sjá hvort lilja sem ég keypti í Amsterdam í vor nær að blómstra. Sólblómin eru ekki farin að mynda blómvísa en það hlýtur að koma. Erturnar/baunirnar eru með státna belgi. Ég læt það alveg vera að smakka á þeim, held nefnilega að þær fari alveg með magann í mér, hráar það er að segja. Ég held nefnilega að afrakstur dagsins er því að kenna að ég var svöng þegar ég leit út á stétt í gær. Svo er það og þannig er það, hinsegin verður það líka. Í gær hefði ég einungis átt að líta út.
Jæja, hvað segið þið rússneskir lesendur mínir? Hafið þið skrifað bréf sem verða send íslenskum þingmönnum? Munið að hafa það með að þó einn af þeim sem mótmælir Putin sé ásakaður um að hafa stolið timbri þá sé það lítið þegar mál Árna Johnsen eru höfð til hliðsjónar.
Við Simmi ræðum að fara til Ítalíu eða Frakklands næsta sumar. Vera í nágrenni Alpanna, jafnvel í þeim sjálfum. Einhvern veginn held ég að Simmi sjái sjálfan sig sem fjallageit þó hann fari vart milli íbúðanna í Leitunum nema á bíl, ef hann fer á fæti þá er það með nöldri, eftirgangsmunum og þvargi. Við þurfum klárlega að ráða við lengri ferðir en út í bíl eða upp tvær tröppur ef við sjáum Alpana og dásemdir þeirra fyrir okkur sem framtíðarlandið.