Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, March 24, 2009

Afmæli

Í dag á ég afmæli. Ég elska afmæli, mitt og annarra. Mér finnst ég ekki þurfa vera teitiselskandi til að hafa gaman að því að fólk eldist, bæti á sig ári nú eða komi með skilaboð um hvernig veðrið hefur verið síðastliðið ár (það síðasta segi ég því sumir segja að afmælisdagur endurspegli veðurfar liðins árs).

Þegar ég var í bústaðnum um sl. helgi sá ég frétt sem ég las af áhuga, Victoria Beckham beygði sig og beyglaði fyrir (ljósmyndara, tískuhús eða eitthvað svoleiðis). Ég las af áhuga, hvernig beyglar maður sig? Hvernig gerir maður það? Myndin sem fylgdi var ekki af beyglaðri konu. Ég hugsaði og hugsaði (spurði engan, stundum held ég nördinum fyrir mig). Hvað var ólánsgreyið að hugsa sem varð fyrir þessu vinnuslysi? Ætlaði hann sér að nota bugta og beygja? Hvaða enska orð getur bæði þýtt sveigja og beygla? Svona pæli ég í þeim sem skrifa fréttir, hvað vakir fyrir þeim, hvers vegna telja þeir að fréttin eigi erindi til okkar. Beygluð mannvera er frétt, líkast til meiri frétt en beygluð dós.

Nú er ég með aldeilis fína bók, Min mosters migræne. Ég gæti trúað því að ég hafi verið Hanne Vibeke Holst í fyrra lífi (að vísu er hún fædd 1959 og ég 1957 en samt, það hlýtur að vera fræðilegur möguleiki að ég hafi verið hún). Það sem af er bókinni erum við á sömu línu, hugsum svipað um konur og verk þeirra. Verst er að bókin er frekar fáar blaðsíður eða u.þ.b. 200. Af þeim sökum les ég Elisabeth George inn á milli, allt gert til að geta notið mígrenis lengur.

Við förum í leikhús í kvöld, Sædýrasafnið í Þjóðleikhúsinu. Leikrit sem er svo nýtískulegt að ég hefði seint farið á það ef ég hefði keypt einn og einn miða. Í haust keyptum við forskotsmiða á 5 sýningar, ódýrt og öll verkin þannig að ég hefði ekki séð þau annars. Hugsanlega gerum við þetta aftur næsta haust, hugsanlega.

Monday, March 23, 2009

Sumarbústaður

Við vorum í sumarbústað um helgina. Spiluðum heilmikið, Trivial á föstudagskvöld og Partý og Co á laugardagskvöld. Mér fannst ég alveg frábær í partíinu, eftirá finnst mér að hinum hafi ekki fundist ég alveg jafn frábær. Við Sigmundur vorum saman. Stundum átti hann að finna út hvað ég væri að gefa í skyn. Honum tókst það sjaldan (aldrei). Það er nokkuð ljóst að hann hugsar ekki eins og ég. Til dæmis hélt hann að ég væri að hugsa um biblíuna þegar ég lýsti Orwell og helstu verkum hans! Einhver gæti sagt að það segði meir um mig en getu Sigmundar.

Ég var út í garði, tók upp megnið af afklippum og barrið sem ég hafði sett yfir laukana. Það er mikið meir af laukplöntum í garðinum en ég mundi eftir :) hugsanlega er minnið farið að gefa sig. Anemónurnar lifðu veturinn af. Töfratréð er ekkert farið að bruma. Hélurifsið er við það að laufgast.
Svo ætti ég að fá mér útsæði. Ég fæ mér holu í Vogunum, alveg klárt. Verð að setja niður kartöflur.

Tuesday, March 10, 2009

Jafnræði, mismunun, aðgerðaleysi kvenna

Fyrir nokkrum árum vann ég hörðum höndum að því að fá svonefnda 40-60% reglu samþykkta í félagsskap sem ég var í. Vinna hinna hörðu handa fólst að mestu leyti í töluðu orði og kröfu um að bæði kyn kæmu að öllum málaflokkum, stjórnum, ráðum og lífinu sjálfu. Krafan var að um jafnræði væri að ræða og aðal- og varamenn spegluðu hlutföll kynja hér á landi eins nálægt veruleikanum og hægt er.

Oft voru snerrurnar harðar. Beittasta vopn þeirra sem vilja ekki það sem nefnt er kynjakvóti var að tala niður til þeirra sem vildu ákvæði um jafnan rétt kynja. Eitt af því sem kom aftur og aftur var jákvæð mismunun. Ekki vildum við konur komast áfram með jákvæðri mismunun. Nei, við vildum komast áfram á jafnræði og jafnrétti en töldum að stundum þyrfti sértækar aðgerðir til svo sem kynjakvóta. Þegar kynjakvótinn hefði verið festur í sessi, orðið það sem kallast gildi, þá væri hægt að snúa sér að öðru.

Jákvæð mismunun er langt í frá það sama og jafnræði eða jafnrétti eins og lesa má um hér að neðan.

Jákvæð mismunun (e. positve discrimination) Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004: "Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda." Jákvæð mismunun er ekki það sama og sértækar aðgerðir. Íslensk löggjöf styður sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun.

Jafnrétti kynjanna (e. gender equality)Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil, og taki þátt í opinberu og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Samkvæmt íslenskum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, á að gilda jafnrétti á íslandi. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum samfélagssviðum.

Ég gladdist þegar ég heyrði niðurstöður úr nokkrum prófkjörum/forvali eða hvað það kallast nú um helgina. Konur komu vel út, svo vel að nokkrar urðu að víkja fyrir körlum til að kynin yrðu jafn sjáanleg á listunum.

Kom þá ekki umræðan enn einu sinni upp. Í stað þess að gleðjast og sjá hve mikið hafði unnist þá var jákvæð mismunun enn einu sinni dregin upp. Talað um að konur ættu að komast áfram að eigin verðleikum (hvenær hefur það verið talið karlmanni til ágætis að hann komist áfram á verðleikum annarra, hefur nokkur karl komist áfram á verðleikum annarra?).
Svo sat ég til borðs með konum þar sem ein sagði að hún væri orðin svo þreytt á þessu, svo þreytt á kjaftæði um jafnan rétt. Nennti ekki lengur að hlusta á umræðuna eða taka þátt.

Ég verð stundum þreytt, þreytt þegar fólk notar hugtök gagngert til að gera lítið úr öðrum og þá sérstaklega konum. Þreytt þegar fólk snýr sögunni á haus til að gera eigin málstað betri. Þreytt þegar kona þarf að standa sig margfalt betur en karl til að vera metin hálfdrættingur á við hann.

Þó er ég ekki þreyttari en það að ég skrifaði einum sem birti lært blogg um jákvæða mismunun og benti honum á rangfærslur. Hann hefur ekki svarað mér og ekki breytt blogginu.

Einu blóta ég oft, það er hagsýna húsmóðirin. Mér finnst það vera nálægt því að vera skammaryrði. Hvers vegna er talið að hagsýni í rekstri sé líkt við hagsýna húsmóður en athafnamaður - já, við hvað er honum líkt, athafnir, þróun, nýsköpun, framfarir. Allt hreyfing.

Friday, March 06, 2009

Ríkidæmi

Pabbi minn sagðist oft vera með ríkustu mönnum í heimi. Hann ætti 7 mannvænleg börn og fullt af barnabörnum. Þó hann myndi ekki alltaf í hvaða mánuði hver væri fæddur og árin skoluðust aðeins til þá var hann ánægður með afkomendurna.

Mér finnst ég einnig vera rík. Finnst ég eiga stóra fjölskyldu. Ég er svo heppin að hafa fengið tvö börn að gjöf. Þau (Kata og Hilmar) eiga fimm börn samtals. Ég er því fimmföld amma. Svo varð Barði svo lánsamur að fá bónus, Heru Mist. Barnalán mitt er því mikið, hvernig sem á það er litið.

Skrítið hvernig merking orða getur breyst. Fyrir mörgum árum var samið um bónus í fiskvinnslu. Allir vissu hvað það var. Sá sem var duglegur og afkastaði miklu fékk aukagreiðslu. Bónus var ávinningur. Svo varð verslunin Bónus til. Líklega var upphaflega meiningin að fólki finndist það ávinningur að kaupa inn í Bónus. Nú finnst flestum að bónus sé það sama og afsláttur. Fyrir nokkrum árum fórum við tvær frá Rannís til Finnlands. Ég sá um að finna hótel. Pantaði dvöl á Bonus Hotel. Sú sem fór með mér var ekki alveg sátt, sagði mér svo er við komum á hótelið að hún hafði haldið að þetta væri ekki gott hótel. Ástæðan BONUS Hotel. Svona breytist málið.

Nóg að gera um helgina. Ætli við náum að setja myndir á veggina í stofunni. Veit það svei mér ekki. Veit þó að ég ætla að reyna að vaka eftir Wallander í kvöld. Tek svo Barnaby upp annað kvöld.

Lauk við Dronningeofret í gærkvöldi. Langaði í meira. Fullkomin bók. Fullkominn þríleikur. Þess vegna langar mig í meira. Hanne Vibeke Holst skrifar hreint meistaralega.
Kannski fer ég á bókamarkaðinn um helgina. Skoða, vanda mig, athuga hvort þarna séu bækur sem eru áhugaverðar. Meina, hvenær er komið nóg af bókum?

Það er bjart á morgnana. Þegar ég fór suðurúr í morgun þá var albjart. Þegar ég kom heim var bjart. Sólin skein, fuglarnir sungu og laukarnir komnir upp úr snjónum. Hugsanlega fer ég í Garðheima og lít á liti. Hugsanlega sé ég fallega liti í Kaupmannahöfn.

Thursday, March 05, 2009

Frost

Nú er frost. Frosti spáð fram í næstu viku. Norðan átt og hraglandi fyrir norðan en bjart og kalt hér syðra.

Hvers vegna ætli ég skrifi um þetta? Líkast til vegna þess að ég er nokkuð stirð í bloggfærslum en hef ákaflega gaman að lífinu :) Ég er að vísu ákaflega fegin að það sé snjór yfir öllu og lítill vindur. Ég vorkenni gróðrinum svo þegar vindur næðir og sólin þurrkar allt. Svo þarf að klára fuglafóðrið. Ekki dugar að eiga fullt af mör með kornmeti í ef fuglarnir éta það ekki.

Um miðja næstu viku förum við út. Ég hlakka til. Um helgina ætla ég að skerpa á þekkingu minni á óperuhúsinu og hlusta á Kátu ekkjuna um leið. Mikið var ég heppin þegar ég keypti upptöku þar sem Elisabeth Schwarzhkopf syngur aðalhlutverkið (stórkostlegt nafn Schwarzhkopf - minnir mig á þegar einn viðskiptavinur trúði ekki að ég héti Eirný og skrifaði bréf til Irmínu).

Alveg rétt. Við erum botnfrosin. Höldum fjórflokkunum á lofti. Heyrði ekki forsendur könnunar sem Capacent Gallup gerði á fylgi flokka til alþingis, sá niðurstöðurnar og kættist lítt.

Eyrun námu þó forvitnilegt atriði. Rætt var við formann XD, formaður XS afþakkaði viðtal. Rætt var við forsætisráðherraefni XS. Efni? EFNI? Er Jóhanna ekki forsætisráðherra Íslands?

Wednesday, March 04, 2009

Svo lengi lærir sem lifir - Baugsgreiðslustöðvun!!!

Sá viðtal við Þórhall Heimisson í gærkvöldi. Sá Hauk Inga og Guðjón (fyrrum Oz mann) í Kastljósi. Heyrði í einhverjum sem svarar fyrir hóp fólks er vill minnka spillingu á landinu.

Komst að því að ég hrífst af hugmynd Hauks Inga, umræður um hvað við viljum standa fyrir. Hvað við viljum standa fyrir sem einstaklingur, fjölskylda, vinnustaður, sveitarfélag og þjóð. Finnst hugmynd Guðjóns einnig áhugaverð. Þórhallur Heimisson var ágætur. Lærði þó mest af Bjarna Harðar, er hann var spurður hverjir skipuðu efstu sæti framboðslista þá svaraði hann að það væri ekki afráðið frekar en hjá öðrum framboðum. Það er nefnilega það. Þegar reynt er að gera eitthvað tortryggilegt vegna þess að ekki er búið að ákveða allt frá a-ö þá er gott að hafa í huga að hugsanlega er hugmyndin ekki reikulli en hjá framboðum sem hafa verið til allt frá fyrri hluta tuttugustu aldar.

Ég lýsi eftir þeim er getur sagt mér hvað fréttastofa allra landsmanna eigi við þegar ég sé fyrirsögn á frétt
BAUGSGREIÐSLUSTÖÐVUN

Getur verið að fáir starfsmenn fréttastofunnar séu ritfærir?

Tuesday, March 03, 2009

Breytingar

Ég er ein af þeim sem vil breytingar. Breytingar á því hvernig landinu er stjórnað. Breytingu á því hvernig við hugsum. Breytingu á því sem nefnt er viðskiptasiðferði.

Þegar ég tek undir kröfu um breytingar þá er ég oft krafin um hvernig ég sjái framtíðina. Má ekki segja ég vil ekki, ég vil ekki. Verð að segja - ég sé fyrir mér, ég vil, æskilegt væri.

Svo rek ég mig á. Oft veit ég hverju ég vil breyta en hef lítt mótaðar hugmyndir hvernig breytingin á að vera. Þá halda þeir sem trúa á fjórflokkana að ég hafi tapað, að ég trúi því að ég og fleiri falli fyrir yfirbragðinu einu saman. Af hverju ætti ég að kjósa XD fyrir það eitt að Björn Bjarnason hættir á þingi? Af hverju ætti ég að kjósa XS fyrir það eitt að Gunnar Svavarsson hættir á þingi?

Ég óttast. Ég óttast það að í raun þá hræðist Íslendingar breytingar þó kallað sé eftir þeim. Við erum svo heimóttarleg, trú því sem við þekkjum og tilbúin að hæðast að því nýja að framboð eins og L-listinn mun eiga erfitt uppdráttar. Hafa fleiri en ég tekið eftir því hve ný framboð eru skotin niður af miklum ákafa? Gerð hlægileg. Sagt líkt og XD menn segja, kverúlantar og utangarðsfólk.

Auðvitað eru það bara kverúlantar og utangarðsmenn sem voga sér að bjóða fram annað en XB, XD, XS svo við tölum nú ekki um Vg (held að það sé XU) og XF.

Er heima í dag. Var veik um helgina. Fór í vinnu í gær, fannst ég í svo fínu formi en líkaminn fylgdi ekki huganum. Hvað var sagt, andinn er að sönnu reiðubúinn en holdið er veikt. Hugurinn var í vinnu í alla nótt.