Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, February 20, 2006

Mánudagur

Nú er komið að því að setja baðherbergið í stand. Mig hefur lengi langað til þess. Horft á flísar sem eru byrjaðar að springa og snjáð tæki og alltaf slegið aðgerðum á frest. Hefur lengi grunað að það væri eitthvað að gerast við baðkarið, hélt að sprungur í flísum við enda karsins hleyptu raka niður. Er ég var að dunda mér á ganginum í gær sá ég poka á vegg og er ég potaði í þá var augljóst að það væri raki. Svo Sigmundur byrjaði að brjóta flísar og komast að baðkarinu. Þar er raki, hugsanlega vatnslás sem er að gefa sig.

Ég þarf að koma mér í gír. Finna ástæðu til að fara í búðir og velja flísar, hreinlætistæki og ljós. Svo er að finna iðnaðarmenn. Trésmið, pípara, múrara. Hugsanlega ætti ég að leita upp á Akranes. Sé aðeins til.

Saturday, February 18, 2006

Laugardagur 18. febrúar

Jæja,
Ég verð seint talin glögg á aðgangsorð og lykla. Er ég ætlaði að skrifa smá í vikunni var ég búin að gleyma bæði aðgangi og lykli. Settist svo niður í morgun og ætlaði að muna og prufaði mig áfram. Komst að dálitlu. Ég hef áður bloggað á blogger.com. Auðvitað var það ástæðan fyrir því að notendanafnið mitt gat ekki verið Eirný, var búin að stofna það áður. Þetta er eiginlega hálfu verra en þegar ég bloggaði á raufarhofn.is - ég mundi þó eftir því að ég bloggaði þar en lykilorðið glutraðist oft niður milli blogga sem voru þó allt að fjögur á viku.

Skemmti mér með vinum og fjölskyldu fram á nótt. Vinna snemma í morgun og svo gestir í mat í kvöld. Sé morgundaginn í hillingum. Hann var reyndar í hillingum þegar í gær. Svo er ég hálfhrædd um mánudaginn, ef ég verð svifasein á morgun þá verð ég þreytt á mánudaginn og sá dagur byrjar yfirleitt með bravör. Fundir, fundir og aftur fundir.

Saturday, February 11, 2006

Helgi

Hitti vini mína í kvöld. Borðum saman og spjöllum svo fram eftir kvöldi. Hópur sem fór í gegnum verkefnisstjórnun saman og pældi í hvað hópefli er. Hvað er hópefli? Er það aðferð sem eflir keppnisanda eða er það ástand samheldni, virðingar og opinna skoðanaskipta. Ástand þar sem fólk þorir að afhjúpa algera vanþekkingu, fordóma og veikleika. Mér finnst hópefli oft miða að því hafa vinning, hvað sem það kostar. Fara með sigur af hólmi, skilja andstæðinginn eftir í sárum og liðið í molum en hampa bikar. Við urðum sammála um að það sem skipti máli væri að liðið stæði heilt eftir átök, hvort sem væri keppni í leik eða að ná yfirburðastöðu á markaði. Það væri til lítils að ná markaði ef hver klifraði á annars bak og níddi niður.

Frá og með gærdeginum má segja að ég verði meira og minna upptekin um helgar fram yfir 19. maí. Ýmist er ég gestur eða með gesti. Þetta verður eflaust skemmtilegur tími og minnisstæður. Ég man þegar ég var virk í JC Þorlákshöfn, þá varð einn vetur allsherjar fjarvera frá heimili. Sá vetur var vinna og svo JC.

Wednesday, February 08, 2006

Íslensk króna - ekki lengur til

Forsætisráðherra sagðist í dag sjá það fyrir sér að árið 2015 væri íslensk króna ekki til. Við værum gengin í ESB og myntbandalagið. Boðskapurinn var ekki nýr. Halldór Ásgrímsson hefur svo sem áður daðrað við hugmyndina. Hjá mér vöknuðu ekki þjóðerniskenndir þær er vöknuðu hjá Árna Mathiesen, íslensk króna í viðskiptum á Íslandi. Hjá mér vöknuðu spurningar um hvort þetta væri raunhæft markmið. Er hægt að sækja um aðild að ESB og klára málið fyrir 2015? Eru ekki skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta fengið aðild að myntbandalaginu? Hver eru þau skilyrði og hvað þarf til að uppfylla þau? Hugnast þau skilyrði íslenskum markaði, bæði opinberum og einka? Lausn sem Samtök iðnaðarins hafa stundum sett fram, að taka upp evru eða binda íslensku krónuna við evruna er ekki varanleg lausn. Þó ég skipti um nafn breytist ekkert annað hjá mér, ekki tilhneiging til að safna holdum, eyða peningum í bækur og vera lítt mannblendin. Tenging íslensku krónunnar við evrunnar er lítt ígrunduð lausn ef ekkert annað er gert.

Á viðskiptaþingi var rætt um að íslenska þjóðin þyrfti að verða tvítyngd og að það yrði að kenna ensku strax á fyrstu árum í grunnskóla. Jafnframt var rætt um að framtíðin liggi í Kína og Indlandi sem og annars staðar í Asíu. Sniðugt að leggja áherslu á að við tölum ensku. Alltaf gaman að reyna að skilja fólk er hefur tónmál sem móðurmál og talar svo ensku. Flied lice er ekki bara grín heldur framburður sem bæði Kínverjar og Thailendingar hafa er ætlunin er að segja fried rice. Flott að einbeita sér að ensku sem er hækja hjá báðum. Er fólk virkilega svo þröngsýnt að það sjái ekki tækifæri í að læra spænsku, kínversku og arabísku ef við ætlum að verða alþjóðlegri. Indverskar mállýskur eru einnig áhugaverðar.

Framsókn eða öllu heldur gildi tilverunnar

Er í klípu. Líkast til búin að vera lengi í henni en nú æpa óþægindin, þrengslin og ósamkvæmið á mig. Ég er framsóknarmaður (nú eða þá kona ef einhver vill það frekar) og búin að vera það lengi. Eins lengi og ég man. Jafn lengi hef ég verið vinstri sinnaður miðjumaður, félagshyggja stendur mér nær. Ég viðurkenni að ég er ekki hrifin af stjórnarsamstarfi við sjálfstæðismenn. Geri mér þó grein fyrir að Framsókn hefur unnið vel að mörgum af sínum málum og náð ýmsu í gegn sem hægt er að vera stoltur af.

Það sem stendur þversum í hálsi mér og gengur ekki niður hversu fast sem ýtt er á eftir, hversu mikið sem skrifað er og rætt í útvarpi og sjónvarpi er hægri sveiflan á sumum þeim sem telja sig vera framtíð flokksins og jafnframt forysta hans. Stóra spurningin er hvort ég geti verið í flokksfélagi þar sem Björn Ingi leiðir lista til borgarstjórnar. Félagi þar sem hann hefur mest um skipan í stjórnir og ráð félags að segja. Flokki þar sem hægri gildum er haldið á lofti. Auðveld leið er að segja sig úr flokknum og vera utanflokka. Hætta að skipta mér af stjórnmálum. En er það hægt? Er nokkuð að því að vera pólitískur? Er verra að vera sinnulaus um þjóðmál en virkur? Er afleitt fyrir flokk að flokksmenn eru ekki allir sammála?

Sunday, February 05, 2006

Önnur tilraun

Pældi aðeins í því að nú þarf ég að senda tölvupóst til þeirra sem mig langar að láta vita að ég er aftur byrjuð. Það er valt að treysta því að fólk slái nafni mínu inn á google og finni þannig út að ég er netverji. Hvers vegna ættu vinir og vandamenn að leita upplýsinga um mig á netinu?

Fyrsti dagur



Byrjuð að blogga aftur eftir langt hlé og ákvað þá að prufa aðra síðu.

Hef öðru hvoru velt því fyrir mér hverskonar sýniþörf það er að skrifa á netið. Sýna öllum sem ramba á bloggið hvað veltist í fingrum og heila manns.


Svona vorum við systkinin og mamma í sumar er leið (sumarið 2005). Hugsanlega finn ég fleiri myndir en varla af okkur öllum.

Hellti mold yfir haustlaukana í dag. Fannst þeir hafa tekið of mikið mark á hlýindum janúar og vera of líflegir. Kaffærði það sem komið var upp úr moldinni. Rótaði til í dekkjum sem ég rækta kartöflur í . Komst þá að því að blómlaukar eru ekki einu lífverurnar sem láta hlýindi plata sig. Þar voru ánamaðkar í fullu fjöri. Mikið líflegri en á vorin þegar ég pota útsæði niður.

Gerði nokkuð í dag sem ég hef aldrei gert áður. Fór á kosningaskrifstofu annars flokks en Framsóknarflokksins. Hef ákveðið að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar um næstu helgi. Ætla að kjósa utankjörstaða. Það verður áhugavert að sjá hvort Samfylkingin sé með eins prófkjörsreglur og Framsókn í Reykjavík var með. Þar var allt á frjálslegum nótum enda er Framsókn frjálslegur flokkur sem sækir fylgi til óákveðinna og ungra sem vilja mikið líf og mikið fjör.