Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, September 18, 2018

Lestur, læsi, miðlun

Ég heyri ýmislegt um lestur og læsi en stundum lítið um hvernig upplýsingum er miðlað.
Nema kannski með netinu og þá er gjarnan bent á að vera rýninn. Rýna hver birtir, um hvað, hvaðan heimildirnar eru og hverjum umfjöllunin gæti gagnast.

Nú heyri ég að einn sem stóð sig svo svakalega vel í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna hefði ALDREI lesið bók. Samt væri hann SVO vel að sér og vissi margt. Það hefði hann lært með youtube, netflix og fleiri efnisveitum.

Uhm, uhm .... jú, jú ég hef fræðst um ýmislegt með því að horfa á misvandaða þætti. Jafnvel hefur farið svo að kvikmyndir hafa kveikt áhuga á að fræðast meira.

En hins vegar. Þetta er alveg ný hugsun sem ég deili með ykkur.
Ef fólk þarf ekkert að lesa. Þarf ekki að læra það því öllu verður miðlað með myndum í framtíðinni og talmáli. Þá er staðan ný en samt gömul.

Við sjáum fyrir okkur að þeir sem tala miðla efni, nota til þess netið og slíkt.
Erum við þá komin aftur fyrir tíma prentaldar?
Færumst við til þess tíma er þekking og reynsla var varðveitt í munnlegri geymd. Þegar það voru örfáir sem lærðu utan að og endursögðu svo.
Svo þegar prenttækni fleygði fram þá lásu mikið fleiri og þar með færðist þekking hraðar milli manna.

Sjáum við fyrir okkur að læra allt af sjálfshjálpar myndskeiðum. Náttúrufræði, eðlisfræði, samskipti og tungumál.
Stærstu hugsuðir eru með sjálfan sig á SnapChat og Twitter (nei, forseti Bandaríkjanna er ekki hugsuður). Það sem ekki er hægt að selja í mynd hverfur því enginn kann að lesa. Þú þarft ekki að geta orðað hugsun og meitla, nema kannski í stein.

Mikið sem allt verður betra þegar ekkert geymist og er áþreifanlegt. Þá skil ég að fólk þurfi engar geymslur - því það á hvort eð er hvorki jólaskraut, skíði né golfsett.

Ný vika

Í dag er mánudagur, þá byrjar ný vika.
Í gær var sunnudagur, hinn sjöundi dagur og jafnframt hvíldardagur. Vikunni lauk þá.

Hvaðan kemur sá siður að flest dagatöl hafa sunnudag sem fyrsta dag vikunnar á meðan dagbækur hafa mánudag þann fyrsta?

Þessi vikan verður fremur stutt. Skilið á þann veg að ég verð ekki í vinnu á föstudeginum. Hins vegar verður hún í lengri kantinum þar sem ég fer á fund að kvöldi þriðjudags, undirbý mig fyrir hann í kvöld. Svo verð ég í hreyfingu að kvöldi miðvikudags.

Hvað er það sem gerir viku, dag, ár, mánuð, dagspart, langa/n? Eru það klukkustundirnar sem varið er í misáhugaverð verkefni eða er það þyngd verkefnanna? Ég veit að ég hef gaman af að fara á fundinn og nærist á honum um leið og ég læri sitthvað nýtt. Ég veit líka að undirbúningurinn er mér mikilvægur. Þá er deginum ljósara að hreyfingin á miðvikudagskvöldið er mér nauðsynleg og kær.

Nú ætla ég að halda áfram að þýða spil sem heitir Bluff á þýska frummálinu. Ég leita að íslensku orði. Gæti verið blöff, að blöffa.

Thursday, September 13, 2018

Haustar

Veðrið, árstíðirnar, gróðurinn og fleira slíkt er ofarlega í huga mér.
Það er sífellt verið að segja að þeim fækki óðfluga sem hafi áhuga á þessum efnum eða hafi tengingu við þau.
Svona eins og þeir sem koma í útvarp og sjónvarp og byrja alltaf að tala um veðrið. Sama hvernig það er.
Erum við kannski orðin mörg sem horfum á lífið í gegnum skjá, hvort sem það er á raftæki eða rúðugler?

Nei, ég held ekki en við erum svo gjörn á að taka hluta fyrir heild.

En aftur að árstíðunum.
Ég á fúksíur (við Simmi eigum fúksíur). Þær fóru hálf illa síðast liðinn vetur því hitalögnin í geymslunni bilaði og það varð of kalt á þeim. Þær dóu en rótin lifði.
Svo var sumarið eins og það var hér við Faxaflóann. Kalt, dimmt og rakt. Þær áttu ósköp erfitt uppdráttar. En september bjargaði þeim.
Þær hafa verið úti, þar til í gærkvöldi, þá tók ég þær inn því ég taldi að nóttin  yrði köld. Svo setti ég þær út í morgun, áður en ég fór í vinnu.
Nú fylgist ég með, verður kalt í nótt.
Simmi lofar að þær fái að fara í geymslu um helgina, í það minnsta aðra helgi.
Svo er það sláturtíð, sem fylgir árstíð.
Hvenær verður byrjað að selja slátur?
Mig munar í heita blóðmör og væna sneið af lifrarpylsu.

Wednesday, September 12, 2018

Nú eða þá

Það eru til heilu fræðin um nú-ið
Núvitund. Lifa í núinu. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
Þá á heila tíð - þátíð. Einnig þáliðin tíð (sem ég viðurkenni að vita lítið um annað en að orðið er til)
En getur einnig verið framtíð.
Við erum svo mörg sem segjum eftir fimm ár ÞÁ ætla ég, geri ég, verð ég, fer ég .... svo fjarar röddin út, ætlunin fer og mátturinn dvínar.
Um leið og við hlæjum að fimm ára áætlunum og gleymum því að þær eru skylda hjá sveitarfélögum og ríkisfjármál eru einnig sett upp í þann ramma þá erum við svooo meðvituð um að það sé gott að setja sér mælanleg markmið. Brotin niður í tíma og verkefni svo við getum auðveldar séð fyrir okkur að við náum þeim því ÞÁ.

Ég æfi mig í að vera hér og nú. Sleppa því að skipuleggja fram í tímann og vera sífellt að pæla í að þegar ég er orðin léttari, eldri, vitrari, betri, skynsamari, ÞÁ!

Þetta er erfitt og meira puð en ég hefði haldið. Eitt af því sem ég gerði, til að létta mér lífið núna, var að losa mig við öll föt sem ég passa ekki í NÚNA en gæti gert ef ég myndi léttast því ÞÁ væri ég líklega til í að ganga í fötum sem eru keypt fyrir tug ára eða meira.
Annað var að losa mig við bækur sem ég veit að ég mun aldrei lesa - og ef ég læsi þær ÞÁ myndi ég láta þær fara.

Svo hef ég haldið mig við það að undirbúa mig fyrir ferðina sem ég er að fara í en grauta ekki öllum ferðunum saman. Lesa um Hérað, Glan, Hornafjörð og Dublin í einum graut. Nei, eitt í einu, kryddað með ritum um íslenskar bókmenntir til að létta á huganum.

Þar sem ég er fullkomlega mannleg þá læt ég mig auðvitað dreyma. Ég varð til dæmis afar glöð þegar ég fékk tölvupóst um að langþráð námskeið í fyrrihluta Njálu yrði í febrúar, 2019. Þá sá ég tækifæri til að endurlesa Njálu og láta mig hlakka til að fara, í febrúar.
ÞÁ hef ég væntingar um notalegar stundir, fyrst heima í janúar og svo á námskeiðinu í febrúar.

Ég er sem sagt að reyna að tileinka mér að hvíla í núinu. Njóta þess og gera sem mest úr því í stað þess að vera sífellt á leið eitt og annað eftir að hitt og þetta hefur gerst.

Monday, September 10, 2018

Mett

Að morgni laugardagsins lá ég í rúminu og naut þess.
Hlustaði fyrst á KK á reki um víðáttur tónlistarinnar.
Svo hlustaði ég á veðurlýsingu. Bolungarvík, Halla, Hólmavík, Andrea var þar, Nautabú - æ, ég vissi nú betur hvernig veðrið á Króknum var þegar lýsing kom frá Bergsstöðum. Svona rakti ég mig áfram með minningum og myndum. Raufarhöfn, Palla, Þórshöfn, Inga.
Svo hefur Höfn bæst við, Barði, auðvitað missi ég aldrei af Stjórnarsandi og ég heyri líka hvernig veðrið er á Hellu þó Olga vinni á Hvolsvelli.

Ég fann allt í einu að ég var mett. Södd og sæl. Ánægð.
Ánægð með að vera hér.
Ánægð með að vera búin að fara hringinn og finna út að ég vil vera hér, við hlið Simma.

Það er þægileg tilfinning að vera mett.Það er yndislegra en að vera búin að fá nóg.

Seinnipartinn fórum við Simmi í ferð um nýju hverfin í Mosfellsbæ. Hann var að gá hvernig botnplötur eru járnabundnar.
Sakleysinginn ég spurði.
Hvers vegna ferð þú ekki í Voga og athugar hvernig nýja byggðin þar er bundin?

Þó ég aki í Voga til að fara í gönguferð með hópi fólks þá finnst honum Mosfellsbær nær.

Friday, September 07, 2018

Orð og notkun þeirra


Orð og notkun þeirra

Ég vinn við að þýða texta (vörulýsingar) af ensku, dönsku og þýsku yfir á íslensku. Ein lýsing á frönsku hefur slæðst með.
Stundum finnst mér ég hafa notað þekkingu mína á íslensku og orðum svo mikið að ekkert sé eftir. Galtómt.
Þá fer ég í sund. Horfi á Keili. Hlusta eftir niðnum á Kringlumýrarbrautinni. Fer í garðinn, sé framtíðina fyrir mér um leið og ég dáist að núinu.
En í þessari vinnu, eins og öllum hinum sem ég hef sinnt, gerist það að ég verð nörður, hugsa of mikið, velti mér upp úr vinnunni meira en góðu hófi gegnir.
Nei, nei ég er enn jafnblind á boðhátt og germynd, skildagatíð og margt slíkt sem ég hef aldrei náð.

Ég horfi og hlusta á nýjan hátt. Les og skrái  hjá mér. Horfi á myndir með minnsblað mér við hlið (í höndunum í stað spila).

Í LEGO er mikið um farartæki, fyrir láð og lög. Þyrlur, þyrilvængjur og eitthvað fleira. En orðið fastvængja hefur aldrei komið fyrir þar. Ég rakst á orðið í skrifum um sjúkraflutninga (ég er enn með hugann við hvað gæti styrkt heilsugæslu víða um land). Þar var sagt þyrlur og fastvængjur.
Ég gúgglaði, leitaði og fann. Allir sem sjá sig sem sérfræðinga og skrifa um sjúkraflutninga þekkja orðið fastvængjur. Ég held, eftir að hafa lesið meira en mig hefur nokkru sinni langað af sérfræðitexta um sjúkraflutninga, að fastvængja sé flugvél svona eins og Ernir, Icelandair, WOW, Mývatnsflug og fleiri nota - sem sagt með fasta vængi. Svo eru til þotur, þrýstiskrúfur og sitthvað fleira en vængirnir eru fastir.

Jæja. Ég skrifa texta sem aðrir semja.
Öðruvísi mér áður brá.

Þá skrifaði ég:
http://www.bbl.is/frettir/skodun/brothaett-byggd-%E2%80%93-tharf-ad-halda-thessu-ollu-i-byggd/17014/

Svo skrifaði ég þegar ég var orðin þreytt og sá fram á að vera að hætta:
http://www.bbl.is/frettir/skodun/brothaettar-byggdir--bitlaust-verkfaeri/16985/

Nú er ég meira í svona:
https://a4.is/product/veidispil-med-litum-1#veidispil-med-litum-1

https://a4.is/product/fotur-likan#fotur-likan