Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, November 08, 2012

Jafnaðarmennska eða heimtufrekja og tillitsleysi

Það er all langt síðan fyrstu hugmyndir að sósíalisma, kommúnisma og jafnaðarmennsku kom fyrst fram í ræðu og riti.
Hér á landi hefur þeim sem hafa haldið slíkum kenningum og lífsskoðunum á lofti oftast verið kennt um flest sem illa fer og lagt illt til þeirra.
Ég geri mér fulla grein fyrir að það eru til öfgar í þessum kenningum, eins og öðrum. Ég óska engum að hafa lifað í Albaníu, búið við hörmungar Stalíns eða harðræði Norður-Kóreu.
Samt sem áður hef ég oft verið á sama máli. Jafnræði er af hinu góða. Samfélagsleg ábyrgð er góð.
Íslendingar eru afar stoltir af framtaki einstaklings og frábiðja sér alla afskiptasemi hins opinbera. Það er kallað eftir lægri sköttum og minni þjónustu hins opinbera svo sem að heilsugæsla og sjúkrahús verði rekin af félögum og einstaklingum, án afskipta ríkis og sveitarfélaga.
Um leið og barist er af hörku og ákefð fyrir fullkomnu frelsi einstaklings og félaga er engur minni umræða um mat sem börn á grunnskólaaldri er boðið upp á.
Mér heyrist að það sé skólanna að sjá um að börn borði rétt samsetta fæðu. Borði það sem uppfyllir viðmið lýðheilsu og heilbrigðra lífshátta. Ég tel að í raun og veru sé krafa margra foreldra sú að grunn- og leikskólar eigi að sjá um börnin, lána foreldrum þau nokkra vökutíma á hverjum sólarhring og taka við þeim aftur. Kenna þeim að borða rétt, kenna þeim að hreyfa sig, kenna þeim mannasiði, kenna þeim umgengni, kenna þeim að reima skó og renna úlpu.
Ég skil alltaf minna og minna í því hvers vegna hér á landi eru fáar sem engar kommúnur eða samyrkjubú. Ég skil alltaf minna og minna í því hvers vegna fólk er yfirhöfuð að eignast börn fyrst það er ætlast til þess að hið ljóta opinbera skrímsli sjái svo um allt nema montið þegar vel gengur.

Döpur

Ég er dálítið döpur. Ég sá umfjöllun um tvær barnabækur, önnur heitir Bleika bókin mín og hin Bláa bókin mín. Fallegar og litríkar bækur með límmiðum. Forlagið gefur út.

http://www.forlagid.is/?p=609764
http://www.forlagid.is/?p=609763

Það er hægt að skrifa margt um bækur og það sem í þeim er, kyngervi og afstöðu til heimsins  yfirleitt. Þessar tvær skera sig þó úr í nýlegum bókum  hér á landi.
Í bleiku bókinni er eingöngu fjallað um heimilisstörf og einungis sýndar myndir af stelpum.
Í bláu bókinni er fjallað um risaeðlur, geimfara, bíla, skurðgröfur og lækna, einungis eru myndir af strákum.

Ég varð döpur. Ég hélt að slíkt liðist ekki í Norður-Evrópu. Ég veit að það þekkist. Annað er að það líðist.

Wednesday, November 07, 2012

Hrós og endurgjöf

Nú fæ ég hrós og aðra endurgjöf í hvert sinn sem ég birti skrif á vefnum.
Lítið veit ég hvaðan það kemur, allt á ensku, ekkert nafn. Það kemur varla frá Rússlandi því þeir sem lesa skrif mín eru nú á Bretlandi og í Bandaríkjunum.
Ég viðurkenni að mér hlýnar um hjartaræturnar, það er sjaldan sem mér er hrósað svona. Meira að segja Barðis segir fátt þó honum sé yfirleitt vel við mig.

Nú ætla ég út, kannski rignir, hugsanlega er þurrt. Það er sama. Ég er í regngalla frá hvirfli til ökkla.

Tuesday, November 06, 2012

Rigning, regn, úrkoma

Nú rignir. Eiginlega í fyrsta sinn frá því fyrir mörgum, mörgum mánuðum. Alla vega eru margir dagar síðan.
Ég fór í sund, í Árbæjarlaug, neðan af Köllunarklettsvegi. Gekk úr Hraunbænum. Það rigndi, blés örlítið, en það var í lagi. Ég var nefnilega vel klædd. Með sægrænan sjóhatt sem situr vel á höfði. Í limegrænni regnkápu sem er fóðruð. Í dimmbláum pollabuxum sem eru vel víðar. Með bakpoka á baki varinn með appelsínugulri hlíf. Glitmerki á hliðum og vasaljós í hanskaklæddri hendi. Einna helst að skórnir væru lélegir í vatnsveður en það hafðist.
Í sund fór ég og synti um hálfan kílómeter, sat örlítið í heitapottinum og skaust svo upp úr. Ætlaði að vera með fyrra fallinu því í kvöld er frítt í Árbæjarlaug og partístemmning. Þá er gott að vera komin upp úr vel fyrir átta.
Svo rölti ég á móti Simma. Náði alveg niður í Hraunbæ, ákvað að bíða þar í biðskýli strætó. Dansaði ýmis afbrigði samkvæmisdansa meðan ég beið í rigningu. Nú varð ég blaut í fæturna.
Gott að koma heim og fara í ullarsokka. Gott að koma heim og fá te og rúgbrauð með osti. Það bjargar flestu, te og gróft brauð með osti.
Líklega verður rigning flesta daga fram að helgi, mismikil. Það er í góðu. Ég get haldið áfram að velta fyrir mér mun á óbyggðum (fleirtala) og landsbyggð (eintala).

Saturday, November 03, 2012

Dagur myndlistar

Í dag er dagur myndlistar, 3. nóvember. Roberto á einnig afmæli, hann er 41 árs.
Í tilefni dagsins fórum við Sigmundur og litum á vinnustofur listamanna að Seljabraut 32. Ég hef alltaf gaman af að skoða og held að Sigmundi finnist það líka. Aðalaðdráttaraflið var auðvitað Anna Sigga. Ég hef gaman af að fylgjast með sköpun hennar.

Í fyrra ætluðum við Sigmundur að gefa hvort öðru magnara svo við heyrðum í hvort öðru (mest þó hann í mér). Að öllu gamni slepptu þá var magnarinn með plötuspilaranum bilaður. Okkur langaði í að geta notað tækin. Haft þau í stofunni og spilað af hjartans lyst. Við skoðuðum og skoðuðum. Fundum einn sem uppfyllti allar kröfur Simma, þar með talið verð. Ákváðum að bíða. Svo fórum við af stað tveimur vikum seinna og þá var enginn til. Bara magnari með plötuspilara og öllu. Við slepptum því. Óþarfi að eiga tvo plötuspilara. Svo mikil er græðgin ekki.
Í ár vorum við alveg ákveðin. Jólagjöfin í ár verður magnari. Í dag fórum við og skoðuðum. Fundum einn sem fyllti öll skilyrði og var ódýrari en sá sem við hefðum keypt í fyrra ef við hefðum ekki ákveðið að bíða þar til allir væru uppseldir. Sigmundur ætlaði að geyma kaupin. Ég vildi kaupa og það var keypt. Nú skríður Sigmundur um gólf og teygir sig bak við innréttingar. Líklega verður tónlist í öllum hornum íbúðar í kvöld.

Thursday, November 01, 2012

Nóvember

Fyrsti dagur nóvember. Mánuðurinn heilsar með kulda og roki. Einnig fallegri birtu og snjóföl. Þá færði nóvember mér Pöllu að norðan. Líklega hitti ég hana aftur um miðjan mánuðinn.
Hvað er hægt að hugsa sér það betra. Spjall, te og spjall við kæra vinkonu og systur.

Ég sé fyrirsagnir á vefnum. Umhverfisráðherra vill banna lausagöngu búfjár. Talsmaður bænda segir að þá sé fótunum kippt undan búskap.

Ok, ok. Ég nenni vart að lesa um hvað málið fjallar. Á að banna lausagöngu sauðfjár eða alls búfénaðar. Mér er slétt sama. Við erum svo arfavitlaus.

Umhverfisráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, er umhugað um landið og náttúruna. Þess vegna lætur hún eyða  óæskilegum útlendum gróðri með eitri. Þess vegna leggur hún til að búfénaður bíti heimahaga. Á sama tíma hef ég ekkert séð um að hún vinni að því að umferð um landið minnki. Hvorki umferð gangandi, hjólandi, akandi eða þeirra sem ferðast um á hestum. Það er all mikil ánauð þegar allt að milljón ferðamenn koma hingað. Það er all mikil ánauð þegar farið er í hestaferðir, oft með marga til reiðar, um slóðir sem fáir sem engir hafa ferðast um fyrr nema gangandi. Það er all mikil ánauð þegar gengið er með stafi, mosinn tættur og þunnur svörður allur gataður.

Nú þegar eru íbúar Íslands líklega um sex sinnum fleiri en þeir voru flestir á velmektardögum fyrri alda.

Á að taka ofan fyrir umhverfisráðherra sem talar fyrir eiturhernaði?