My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, November 06, 2012

Rigning, regn, úrkoma

Nú rignir. Eiginlega í fyrsta sinn frá því fyrir mörgum, mörgum mánuðum. Alla vega eru margir dagar síðan.
Ég fór í sund, í Árbæjarlaug, neðan af Köllunarklettsvegi. Gekk úr Hraunbænum. Það rigndi, blés örlítið, en það var í lagi. Ég var nefnilega vel klædd. Með sægrænan sjóhatt sem situr vel á höfði. Í limegrænni regnkápu sem er fóðruð. Í dimmbláum pollabuxum sem eru vel víðar. Með bakpoka á baki varinn með appelsínugulri hlíf. Glitmerki á hliðum og vasaljós í hanskaklæddri hendi. Einna helst að skórnir væru lélegir í vatnsveður en það hafðist.
Í sund fór ég og synti um hálfan kílómeter, sat örlítið í heitapottinum og skaust svo upp úr. Ætlaði að vera með fyrra fallinu því í kvöld er frítt í Árbæjarlaug og partístemmning. Þá er gott að vera komin upp úr vel fyrir átta.
Svo rölti ég á móti Simma. Náði alveg niður í Hraunbæ, ákvað að bíða þar í biðskýli strætó. Dansaði ýmis afbrigði samkvæmisdansa meðan ég beið í rigningu. Nú varð ég blaut í fæturna.
Gott að koma heim og fara í ullarsokka. Gott að koma heim og fá te og rúgbrauð með osti. Það bjargar flestu, te og gróft brauð með osti.
Líklega verður rigning flesta daga fram að helgi, mismikil. Það er í góðu. Ég get haldið áfram að velta fyrir mér mun á óbyggðum (fleirtala) og landsbyggð (eintala).

0 Comments:

Post a Comment

<< Home