Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, October 30, 2012

Síðustu dagar október

Nú eru síðustu dagar október. Haustið hefur verið með eindæmum gott hér sunnan lands. Við fengum ekki hret eins og Norðlendingar í byrjun september. Engin haustlægð komið með beljandi suðaustan átt eða enn verri suðvestan. Nú er aftur hret fyrir norðan, ef hret skyldi kalla. Spár segja að það verði viðvarandi norðanátt, snjókoma og frost fram yfir helgi. Allt upp í 20 m/sek. Hér fyrir sunnan verður þurrt, hvasst með fjöllum þar sem honum slær niður og svo út á sjó. Mikið hlýrra en fyrir norðan.
Ég þakka fyrir að lægð eins og kom í september 1973 eða apríl 2010 sé utan spákorta. Ég man eftir lægðinni 1973. Þá vorum við Baddi á ferð í sendibíl KÁ í Þorlákshöfn, hann gekk allur til. Ég man líka eftir lægðinni í apríl, þá fór allt sem farið gat, meira að segja sandur spændist upp úr fjörum og langt upp á land.
Undanfarna daga hef ég verið hálfgerður lasarus og þó. Ég fann hvernig ég eiginlega lyppaðist niður að kvöldi fimmtudags. Ég kom mér heim með hraði. Hef síðan haft seyðing í hálsi, kláða í augum og nefið hálfstíflað af og til. Ég hef verið í vinnu og það hefur verið í góðu, get lesið, skrifað og dregið ályktanir. Aftur á móti hef ég litla eirð, það er slæmt að klæja í augun.
Ég fór til húðsjúkdómalæknis í dag. Lét klippa nokkrar gamalmenna vörtur af hálsi og svo voru tvö þykkildi fryst. Annað á kinnbeini, hitt á framhandlegg. Ég hef fengið þykkildi áður, þá á vanga. Þegar þau eru fryst þá kemur ekkert ör, lítill roði og húðin er fljót að jafna sig. Líklega verð ég að vera vakandi fyrir vörtunum og þykkildunum í framtíðinni. Þetta fylgir aldri, annað er meinlaust en vont að hafa á hálsi, hitt er einnig meinlaust og er afleiðing lífsins. Húðin heldur að hún hafi skaðast og endurnýjar sig í sífellu.
Á laugardaginn er dagur myndlistarinnar, þá er opin stofa á Seljavegi 32. Þangað langar mig að fara, sjá hvað Anna Sigga er að gera núna.

Wednesday, October 24, 2012

Heim aftur

Komin heim úr góðri ferð til Wiesbaden.
Varð ástfangin. Langar að vera lengur þar, langar að koma aftur, langar að vera þar sem vorar snemma og haustið varir til jóla. Litirnir voru hreint að gera mig veika.

Wednesday, October 17, 2012

Rökkur

Daginn styttir óðum. Nú er dimmt þegar ég fer á fætur en bjart þegar ég rölti í vinnuna. Það er bjart þegar ég hætti að vinna og flott að vera í sundi í ljósaskiptum. Aftur á móti er orðið dimmt þegar ég kem mér heim. Ég er svo heppin að Simmi nær oft í mig þannig að ég þarf sjaldan að ganga alla leið heim. Í mörg ár hef ég haft þann vana að vera með endurskinsmerki þegar vetrar. Helst aldrei færri en tvö í hverri yfirhöfn. Simmi segir að ég sé eins og jólatré. Í kvöld gekk ég heim. Það getur verið að ég sé eins og yfirstórt jólatré en bílstjórar taka í það minnsta eftir mér. Nú þurfti ég aldrei, endurtek aldrei, að bíða á gangstéttarbrún. Það var tekið tillit til og bílar stöðvaðir eiginlega áður en ég kom að gatnamótum. Mér er sama þó ég veki eftirtekt. Ég er búin að læra það að ég kemst illa í gegnum lífið án þess að eftir sé tekið. Meira að segja þegar ég ætla að fara með veggjum, renna saman við veggfóðrið, þá er tekið eftir mér.

Það er svo unaðslegt veður. Dag eftir dag. Logn, bjart, þurrt og yndislegt. Hvað er hægt að biðja um meira. Í morgun þegar ég kom í vinnuna, eftir að hafa gengið að heiman, var ég svo fegin að það væri langt síðan rigndi og það virðist langt í rigningu. Í það minnsta í huga mínum. Mér þykir svo sem lítið að rigningu. Ég er alveg eins úti þó rigni. Það er bara svo mikið þægilegra þegar það er þurrt. Þá get ég nefnilega málað mig áður en ég fer að heiman. Þegar rignir þá rennur svo mikið í burtu eða ég þurrka málninguna af þegar inn er komið. Ég hef nefnilega lítið álit á vatnsheldu dóti og það hefur illa lukkast að koma þurr inn þegar rignir.

Í dag fór ég í Reykjanesbæ. Skutlaðist eftir Brautinni með Þorláki. Sá Vogana, sá Ströndina. Fór á hvorugan staðinn. Geri það á morgun. Geri það um leið og ég fagna með þeim sem þar búa að nú eru 140 ár síðan skólastarf hófst á Ströndinni. Það eru fáar byggðir sem geta státað af því, eitthundrað og fjörutíu ára samfelldu skólahaldi.

Ég var 35 mínútur í vinnuna í morgun. Ég var 25 mínútur heim frá Laugardalslaug núna seinnipartinn. Ég synti kílómeter. Hefði viljað synda fleiri metra en þrekið var búið. Átti enda eftir að taka við þvotti en Simmi setti í vélarnar áður en hann fór á fund.

Saturday, October 13, 2012

Njótum lífsins

Við Simmi njótum lífsins. Tökum forskot á sæluna eða að sumra mati forskot á áhyggjur.
Við höfum bæði gaman að jólum og því sem okkur finnst tilheyra.
Simma finnst alveg sjálfsagt að setja ljós í trén. Hann setur netseríu svona um miðjan nóvember og lætur vera fram í febrúar. Í nokkur ár (við höfum verið saman í örfá ár) keyptum við seríu á útsölu milli jóla og nýárs. Í fyrra tókum við niður verð í desember og sáum út hvaða seríur við ætluðum að kaupa þegar lækkað verð væri auglýst. Í ljós kom að seríurnar voru jafndýrar þegar búið var að lækka þær og ef við hefðum keypt í byrjun desember. Upphaflegt verð var nefnilega hærra. Við keyptum ekkert en bölvuðum BYKO og Húsasmiðjunni í bak og fyrir.
Núna pöntuðum við á netinu og flytjum inn frá Bandaríkjunum. Ætli þrjú net og ein innisería kosti ekki svipað og eitt net út úr búð hér á landi. Bara rugl í helv. verðlagningu.
Við höfum haft andarbringur á nýársdag, Barði og Bogga koma og borða með okkur. Hera Mist kemur líka ef hún er ekki upptekin í mat annars staðar. Um páskana höfðum við heilsteikta fyllta önd, steikta í fleiri klukkutíma. Við ætlum að hafa svoleiðis á nýársdag. Ummmmm, keyptum öndina í gær í Kjötkompaníi í Hafnarfirði. Alger snilld.
Jæja, bara gaman. Við höfum stundum keypt bringurnar í Danmörk, franskar endur, alveg í sömu pakkningum og hér heima en við mikið lægra verði.
Við keyptum líka kastaníuhnetur í fyllingu með kalkún. Að vísu er kalkúninn ekki fylltur þar sem við matreiðum bara skipið en fylling er þetta samt.

Nú sit ég við tölvuna og nýt þess að hlusta á Svavar Gests kynna tónlist. Simmi eldar svínalundir og útbýr rauðkál. Honum þykir rauðkál svo gott og vill helst gera það sjálfur. Hann keypti rauðkál í Mosfellsbæ í gær og athugaði í leið hvenær ætti að panta skipið.
Kvöldið lofar góðu. Bæði James Bond og Hercule Poirot á DR1. Það er eitthvað fyrir mig.

Ég safna skrefum. Hef lítið sem ekkert slegið af. Ég er komin með nokkuð gott þol og hraða. Nú geng ég í vinnu á strigaskóm og íþróttafötum. Hef svo föt í vinnunni. Það passaði illa að vera í skyrtu og stífpressuðum buxum á nokkuð miklum hraða eða vafin í regnklæði. Uss, hvað buxurnar fóru illa í pollabuxunum. Ég man ekki eftir að hafa leitt hugann að því þegar ég var á Akranesi, kannski voru vegalengdir styttri. Jú, jú ég var aldrei nema milli 5-10 mínútur í vinnuna þar en hér er ég allt að 40 mínútum.

Wednesday, October 10, 2012

Eitthvað nýtt

Það vetrar. Dagskrá útvarpsins ber þess öll merki.
Ég heyri sagt frá myndlistarsýningu. Sýningu þar sem verkin verða til án þess að listamaðurinn geti haft mikil áhrif því efnið tekur yfirhöndina eða fær að breytast eins og því er eðlilegt.
Sagt frá silfri sem fellur á, það verk verður seint endanlegt.
Sagt frá mynd sem er í raun sprungurnar í olíumálningunni.
Þetta er víst minimalismi í reynd. Jaaaaaaa, ég þekki marga sem skapa slík listaverk á degi hverjum, hverju ári. Án þess að vera hampað sem listamönnum enda hafa þeir lítið sem ekkert lært til þess.
Fyrr í dag heyrði ég þátt um mat. Ég segi heyrði því ég nennti ekki að hlusta. Það var mikið hlegið, pískrað og ískrað. Viðfangsefnið var gamlar matreiðslubækur og uppskriftir. Þeir sem töluðu voru þáttagerðarmaður og sagnfræðingur. Líklega hafa báðir gaman að mat en hvílíkir fordómar sem birtust í pískrinu og ískrinu.
Þar áður gaf ég þáttagerðarkonu, sem ég er búin að gleyma nafninu á, séns, loka. Hún hefur lengi verið með þætti þar sem hún röltir um Reykjavík og segir frá ýmsu, oft með gott fólk með sér. Ég hef hlustað í raun á marga þætti. Svo í sumar fór hún út úr Reykjavík, austur fyrir fjall. Þá missti ég álit á henni og hef lítið hlustað síðan. Hún er svo montin og ánægð með að vera Reykvíkingur. Það var dapurlegt að heyra hvernig hún talaði þegar hún var utan borgarmarkanna.
Í dag fór hún um Þingholtin, líklega Fjólugötu. Þar kom montið, snobbið og allt það skýrt í ljós. Alveg rétt, það er Lísa Pálsdóttir sem ég hef misst álit á.
OK, ok, ég hef verið heima í þrjá daga og engan talað við nema Sigmund á kvöldin. Ég hef verið með höfuðverk, ógleði og hita. Ég veit að þá er ég vandlátari á það sem kemur að augum og eyrum.

Ergo, niðurstaða dagsins er, það er fátt nýtt undir sólinni. Það er fátt sem rúmast utan þess að vera list.
Mig vantar þætti með Poirot og Marple.

Sunday, October 07, 2012

Október

Alveg mánuður frá því ég skrifaði síðast á þessa síðu.
Hef oft ætlað að skrifa en alltaf fundið mér annað að gera. Afleiðingar eru að ég er með marga pistla í höfðinu sem velta hver um annan þveran og vilja koma fram.
Margir merkilegir með afbrigðum eins og sá um þá staðreynd að ég þekki fá örnefni í Reykjavík. Þegar ég horfi á Esjuna þá sé ég fjall en engin örnefni. Ég er búin að láta leitarvélar renna nokkrum sinnum í gegnum upplýsingar með slóð í líkingu við örnefni í Esjunni. Mig minnir nefnilega að SPRON hafi gert kort og jafnvel pésa um Esjuna. Finn það hvergi. Nú liggur við að mér þyki verst að það hafi horfið með SPRON.

Annar merkilegur pistill er um garðrækt og haust. Það eru allar líkur á að kristþyrnirinn verði fagur með afbrigðum. Mikið af rauðum berjum. Ég velti fyrir mér, ætti ég að klippa af og geyma í skreytingu eða skreyta strax eða bíða þar til að ári eða lengur. Ef ég geymi, hvernig ætti ég að varðveita svo litirnir haldist?

Þriðja undrið er um hreyfingu og brennslu. Mér er sagt (ég hef bæði lesið og heyrt) að þeir sem stunda líkamsrækt í 30 mínútur brenni meira en þeir sem eru virkir í 45 mínútur (í einu). Því grennast þeir sem hreyfa sig í 30 mínútur samfellt meira en þeir sem puða í 45 mínútur. Ég hef auðvitað mínar skýringar á því.
Ef ég hreyfi mig í 45 mínútur samfellt þá er ég nokkuð góð með mig og hef litla hvöt til að ná púlsinum upp oftar yfir daginn. Ef ég hreyfi mig í 45 mínútur samfellt þá er ég sátt og borða meira. Ef ég hreyfi mig í 45 mínútur samfellt þá eyði ég orku sem ég hefði annars haft til að taka mínútur hér og þar.
Sá sem hreyfir sig í 30 mínútur á enn heilmikið eftir af orku og hefur safnað orku. Einnig finnst honum að hann eigi eftir nokkrar mínútur í hreyfingu þannig að dansspor eða auka hringur er lítið mál. Þá hefur hann færri ástæður til að verðlauna sig því 30 mínútur eru svo sem ekki neitt.

Danssporin, ha, myndbönd með tónlist. Ég er til á einu slíku, gæti verið á þúvarpinu. Að kvöldi föstudags skaust ég út til að safna skrefum. Veðrið var gott, bjart og fagurt. Þar sem ég var á Háaleitisbrautinni töluðu nokkrar stelpur við mig. Spurði hvort ég vildi dansa með þeim? Ein tæki upp. Þær sýndu mér sporin. Ég réð við það, þykjast vera á hesti og sveifla línu. Svo við dönsuðum (og ég safnaði sporum). Á laugardaginn skildi ég að ég hefði tekið þátt í æði sem nú tröllríður Suður-Kóreu það er Gangnam Style.
Hérna er slóð fyrir þá sem hafa enga hugmynd um hvað Gangnam er http://www.youtube.com/watch?v=60MQ3AG1c8o&feature=related
Tek fram að ég er ekki á myndbandinu.