Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Saturday, February 28, 2009

Ómur fortíðar

Það er margt skrítið í kýrhausnum og þá sérstaklega þegar pólitík er annars vegar (er hún kannski ekki yfir öllu og allt um kring?).

Í gegnum árin hefur orðum Jóhönnu, minn dagur mun koma, verið haldið á lofti. Jón Baldvin fór af þingi er Alþýðuflokkurinn var orðinn jafn lítill og við lok viðreisnar. Jóhanna hélt áfram. Jón Baldvin flæktist um heiminn sem sendiherra, komst að lokum á aldur og varð nokkurs konar ,,grand old man" um ýmis málefni, hugsanlega eins og vera ber. Jóhanna varð ráðherra svo forsætisráðherra. Hver reis þá upp, vildi endurnýjun, nýtt blóð! Hver nema sá gamli, sá sem nær hafði nær því gengið af flokk dauðum. Hvaða blóð er nýtt í þeim skrokki? Hvaða fruma er ný í þeim heila?

Mér finnst óþarfi af fólki sem búið er með sinn skammt af völdum og áhrifum að ætla okkur hinum að kjósa það. Mér finnst óþarfi að geta einungis valið á milli úreltra lista, úreltra flokka og úreltra manna. Mér finnst skandall, hreinn skandall, að með ógildum atkvæðum séu auð atkvæði. Það er mikil yfirlýsing að skila auðu. Það er ekki hægt að segja það skýrar að ekkert framboð sé þess verðugt að fá atkvæðið. Það á lítt sameiginlegt með ógildu atkvæði.
´
Bloggið heitir ómur fortíðar þar sem mér finnst enn einu sinni að lítið sé hugsað um kjósendur.
Auðvitað á ekki að hugsa um kjósendur, kjósendur eiga að hugsa um sig sjálfir og hafna öllum framboðum og ómi fortíðar.

Friday, February 27, 2009

Stór sigur eða læðist vorið nær

Mér finnst svo bjart á morgnana, það liggur við að ég geti ekki opnað augun af hræðslu við ofbirtu. Í morgun þegar ég kom fram og sá hvíta glugga bera við snjóinn þá gladdist ég. Það er bara á útmánuðum sem birtan er svona falleg, sem snjórinn gerir allt bjart og platar fuglana til að syngja.

Í byrjun árs hafði ég áhyggjur af haustlaukunum og setti greinar af jólatré yfir og mold þar yfir. Nú eru laukarnir farnir að stinga upp kollinum í gegnum hrúguna. Hvenær ætti ég að taka greinarnar af? Ætti ég að geyma þær þar til vorið hefur endanlega gengið í garð? Ég er svo heppin að þurfa ekki að taka endanlega afstöðu fyrr en eftir miðjan mars, jafnvel ekki fyrr en eftir 22. mars. Kaupmannahöfn 12.-15. mars þar sem við ætlum að njóta lífsins og fara í óperuna. Helgina þar á eftir förum við í bústað með Barða og Boggu. Svo fer að koma að vorverkunum. Taka girðinguna niður, taka eitthvað af birkinu, setja upp skjólvegg. Að því loknu fer ég til Ingibjargar Sigmunds og kaupi það sem mig vantar.

Hefl litla löngun til að skrifa um pólitík. Hef skoðun á stjórnmálum, lítið breyst að því leyti. Finnst annað skemmtilegra þessa dagana t.d. að venja mig af að nota en, bara og ekki (þarf að finna út hvernig ég set broskarla inn) . :)

Monday, February 23, 2009

Klósettnauðgari?? Keflavíkursigur!!

Hætti seint að furða mig á fyrirsögnum.

Hver er sá er nauðgar klósetti? Keflavíkursigur, hvað er það? Svo heyrði ég hluta af Víðsjá í dag, finnst að orðið umhverfisfeministi hafi borið á góma. Hvers vegna þarf alltaf að búa til tungubrjóta og nafnorðahröngl? Það leiðir enginn keppni um furðulegustu fyrirsögnina, flestir fjölmiðlar sem ég sé eða heyri í standa sig nokkuð vel, svo ég skrifa eins og margir segja, verma efsta sætið. Mín málvitund er að einhver vermi botninn en þeir er fjalla um íþróttir segja einatt að hinir og þessir vermi efsta sætið.

Enn einu sinni finnst mér alþingismenn gera eitthvað annað en vinna í þágu þjóðarinnar. Hvers vegna gátu þeir er sitja á þingi fyrir Xbé ekki verið sammála um að vera á móti eða með? Hvers vegna klofnaði örflokkur?

Hvernig kem ég því skýrast til skila að mér hugnast lítt þeir flokkar sem nú eru á þingi og enn verr þeir sem hæst gala um ágæti sitt fyrir næstu kosningar.

Tímaskekkja

Skrifaði í gær að það hefði tekið mig tvö ár að finna aðgangsorðið að blogginu. Reiknaði aftur í nótt. Það tók mig þrjú ár og svo allt í einu bingó, aðgangsorðið var þarna, ég mundi meira að segja hvaða netfang ég hafði skráð fyrir blogginu. Ótrúlegt en satt, ég get gleymt hlutum sem öðrum finnst ógleymanlegir.

Fórum og dönsuðum í gærkvöldi. Þriðja kvöldið af fjögurra kvölda dansnámskeiði. Við Sigmundur fórum fyrir nokkrum árum og höfum ekkert haldið því við, líkast til fórum við haustið 2006. Nú segist Sigmundur vera tilbúinn að fara aftur haustið 2010 eða vorið 2011. Ég tel að því fylgi að ekkert verði dansað á milli. Hugsið ykkur ef þið færuð og lærðuð kínversku og notuðu hana aldrei nema þegar þið væruð á námskeiði á tveggja ára fresti. Til hvers að læra kínverskuna? Ég legg kínversku og dans að jöfnu, það er jafnlangt í dans og tónmál.

Sunday, February 22, 2009

Komin aftur

Það tók mig nær því tvö ár að nenna að leita að leið til að fá aðgang aftur að blogginu.

Já, Palla, nú ætla ég að blogga aftur. Mér leiðist snjáldrið, skil varla tilganginn með því. Finnst skemmtilegra að skrifa langan texta en skjóta inn orði og orði. Það geri ég þegar ég er með mörgu fólki, skýt inn einu og einu orði og er svo hás og aum í hálsinum lengi á eftir. Fingurnir klikka aftur á móti ekki :)

Skrítið að lesa gömlu bloggin. Þau gætu verið ný, þau gætu verið úr framtíðinni. Meira að segja ég sjálf er enn með sömu málin. Nú er verið að mála, finna tíma til að mála, klára. Hætta að vera í öllu á rúi og stúi. Ætli ég sitji í hringekju, hringekju framkvæmda, Sífellt að gera eitthvað, kem mér úr einu í annað. Allt svipað.