My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, May 22, 2006

Innan við vika í kosningar

Nú eru nokkrir dagar í kosningar. Það þyrfti að vera afar lyginn maður sem héldi því fram að spennan ykist. Mér finnst ekki spennandi þegar horfurnar eru þær að annað hvort fær sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í borginni eða nær honum með tilstyrk frjálslyndra.

Björn Ingi floppaði á heimasíðu sinni. Hótar því að stjórnarsamstarf á landsvísu verði stirt ef exbé nær ekki manni inn í Reykjavík. Jahá, það er hótun í lagi. Allir sem eru ekki hallir undir ríkisstjórnina og hefðu getað hugsað sér að kjósa exbé munu nú kjósa annað. Sjálfstæðismenn sem sjá fram á að það er möguleiki að fá meirihluta munu fylkja sér um XD. Sjálfstæðisflokkurinn getur vel farið í þingkosningar í haust en framsókn yrði vita vonlaus og vængbrotin í þeim slag. Ég sé fyrir mér að formaður framsóknar rjúfi þing og boði til kosninga. Enn eitt vandamál sem við gætum ekki leyst úr.

Nú eru trésmiðir að vinna í baðherberginu. Vonandi getur flísari komið sem fyrst, helst í þessari viku. Ég er orðin þreytt, heldur þreyttari en ég var þar sem nú er ekkert salerni. Það er vita vonlaust að vera í íbúð þar sem ekkert salerni er. Hugsanlega gæti ég gert þarfir mína í brekkunni út að Kringlumýrarbraut. Það gæti jafnvel haft það í för með sér að borgarstarfsmenn kæmu og gengu frá lóðarmörkum. Hugmynd, ef þú býrð í blokk við umferðaræð. Blokkin að verða 20 ára og borgin gengur ekki frá lóðarmörkum né sinnir nauðsynlegu viðhaldi á opnu svæði. Kannski fengist mön, allt til að fela íbúann sem nýtir brekkuna til hins ítrasta.

Þurfti að velja tvö valfög fyrir næsta ár. Gerði það í dag. Mér leiðist svona, sjaldan það í boði sem ég hef áhuga á. Exaði við tvö fög af átta. Allt eins víst að hinir 37 hafi exað við allt önnur fög og að mín verði ekki kennd. Þá gæti ég eins endað með vöruþróun og flutningafræði sem val bara af því að aðrir hafa áhuga á því. Einn af ókostunum við að læra á Íslandi er að skólarnir eru svo litlir að ekki er um raunverulegt val að ræða. Ég hef heyrt af háskólum þar sem hægt er að velja allt milli himins og jarðar og kúrsar ganga heilu dagana. Ef ekki er hægt að mæta í tíma klukkan átta, þá er það hægt klukkan tíu, tólf eða tvö.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home