My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, April 20, 2006

Sumardagurinn fyrsti

Gleðilegt sumar,
Nú verður gaman að sjá hvernig veðrið breytist fram í maí. Mín reynsla segir að nú ætti að ganga í þrálátar norðanáttir. Alla vega var það svo þegar ég bjó í Þorlákshöfn. Bjallan byrjaði að verpa um sumardaginn fyrsta og svo eyðilögðust hreiðrin í kulda og sandstormi í byrjun maí. Fuglinn var og er svo harður að hann byggði aftur upp og verpti allt að þrisvar.

Reynslan af garðræktinni segir mér líka að það sé ekki komið sumar í raun, alla vega ekki fyrir ræktendur. Á Akranesi var varla hægt að stinga niður kartöflum í garðlöndum fyrr en eftir 20. maí. Þá stóð maður oft í kviksyndi og stakk kartöflum niður í ískalda leðju. Svo hlýnaði og garðarnir þornuðu og kartöflur spruttu. Alveg ótrúlegt hve þær spruttu vel þó moldin/leirinn væri kaldur og rakur og lofthiti lítill.

Nú baslast ég við að pota nokkrum kartöflum niður í garðinum hjá mér. Ég held að það verði að breiða yfir dekkin í ár. Það er svo kalt, ég vorkenni útsæðinu svo mikið. Svo hlakka ég til að sjá hvernig til tekst og hvort það þurfi að bæta mikilli mold við í ár. Svo veit ég að ég tími varla að taka upp aftur, það er svo lítið sem ég set niður.

Þversögnin í mér er að ég vil búa í miðju þéttbýlis, vinna í miðju þéttbýlis, hafa góðan kartöflugarð og geymslu, stutt í sund og ósnortna náttúru. Auðvitað á ég ekki að búa í 103 og vinna í 101. Ég á bara að vera úti á landi og fá allt sem ég vil þar. Ég þarf ekki að vera í þéttustu byggð Íslands til að vera í þéttbýli og ,,længes" eftir náttúrunni. Ég er ekki náttúrubarn sem sér ekkert nema ósnortið víðerni heldur þarf ég að komast í snertingu við mold og gróður til að líða vel. Kartöflugarður er fínn, helst 50-100 fermetrar en skrúðgarður er alveg ótækur, þá get ég eins verið í vinnu.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home