My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, April 18, 2006

Kennari eður ei


Ég hef aldrei átt þann draum að vera eða verða kennari. Hætti meira að segja við að læra sagnfræði eða fornleifafræði vegna þess að ég sá ekki að ég gæti unnið sem kennari. Þess vegna gerði ég allt annað, afgreiddi í búð og vann á skrifstofu. Endaði svo á Bifröst og vinn líkast til á skrifstofu þar til ég hætti alveg að vinna úti.

Framsóknarmenn, nei fyrirgefið mér, exbé, vill að ég sé kennari. Ég er búin að biðja um leiðréttingu, ég vil vera skrifstofumaður eða sviðsstjóri. Bað aftur um leiðréttingu í dag. Sjáum hvort hún gengur í gegn. Hugsanlega er starfsheitið búið að brenna sig við mig, Eirný kennari. Þið vitið þessi sem talar lítið, sýnir ekkert og verður óþolinmóð ef þú skilur ekki í fyrstu atrennu.

Fór í klippingu í dag. Geri allt fyrir samstarfsmenn mína. Þeir sögðu mér í morgun að fyrir nokkrum árum hefði ég alltaf verið mikið stuttklipptari en í dag, settlegri í framkomu og klæðaburði og ljóshærðari. Dreif mig til hárgreiðslukonu, bað um strípur og klippingu. Breyti ekki um fatastíl. Sniðugt ef síðbuxur, jakki/peysa og skyrta eru afslappaðri í dag en fyrir sjö árum.

Nú erum við öll hjá RANNÍS á fimmtu hæð. Öll á minna en helmingi þess gólfpláss sem við höfum haft. Sumir sitja þröngt á meðan aðrir hafa tiltölulega mikið rúm. Öll sitjum við þó við sama borð er kemur að kaffi og te. Erfitt að fá vatn og enn erfiðara að þrífa í kring. Við verðum að halda út í fjórar vikur og rúmlega það. Hugsanlega verður einhver orðinn langþreyttur að þeim tíma liðnum.

Nú vilja sumir Reykvíkingar víst að Sundabraut verði slegið á frest, til að minnka þenslu. Þegar ég bjó á Akranesi keypti ein vinkona mín íbúð á Kjalarnesi, var þess fullviss að Sundabrautin væri alveg að koma. Sú kom frá Siglufirði, hafði varla heyrt um göng til Ólafsfjarðar nema sem skrítlu. Nú er hún löngu komin suður og þá tala ráðamenn um að fresta einu samgöngubót höfuðborgarsvæðisins en það er víst afar mikilvægt að gera Héðinsfjarðargöng. Hvað ætli margir noti Héðinsfjarðargöng (sem kosta nær því það sama og fyrsti áfangi Sundabrautar)? Hvað ætli umferðin um Sundabrautinga yrði mikil? Hvort væri meiri ávinningur? Er meira vit í að gera göng á milli tveggja hnignandi staða en bæta vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu? Hvers vegna er það? Ég þarf að fá svör við því, Sigmundur eða Eiríkur, segið mér hvers vegna 8 milljarða framkvæmd fyrir 1.5oo manns er hagkvæmari en 7 milljarða fyrir 200 þúsund. Hvers vegna hún eykur ekkert við þenslu, hvers vegna þjóðfélagið, verktakarnir, þjóðin bíður í ofvæni eftir að geta keyrt í gegnum fjall.

Ég var í Köben með Sigmundi í mars, þá tók hann mynd af mér fyrir utan Evrópu, í minningu umræðu Framsóknar um Evrópusambandið. Ég vissi ekki að ég væri svona björt en það er í lagi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home