My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, May 23, 2006

Baðherbergi, skríður áfram

Þá er smiðurinn búinn með sitt. Sigmundur skríður á gólfinu og kíttar í rifu milli klæðingar og gólfs. Flísari, flísari hvar ert þú? Vonandi kemur þú á morgun og verður fljótur.

Veðrið er dásamlegt. Ef ég byggi á Grænlandi þætti mér líkast til dásamlegt vorveður núna. Núna finnst mér kalt, kaldara og kaldast. Einn vinnufélagi minn vildi að við leiddum hugann að því hvernig veðrið væri ef nú væri janúar eða febrúar. Við mótmæltum, nógu erfitt er að eiga við hret í maí þó svo ekki sé verið að heimfæra það yfir á myrkur.

Fer á sjúkrahús 2. júní. Varð svo fegin þegar það var hringt í dag og ég spurð hvort ég gæti komið í aðgerð þann dag að ég nær því hrópaði já. Að vísu fóru þær fáu heilasellur sem enn eru virkar hjá mér á fullt við að raða og skipuleggja því sem þarf að gera fram til 2. júní og því sem þarf að gera eftir þann tíma. Ég held ég sé svo ómissandi í vinnunni að ég legg dag við nótt til að undirbúa vinnustaðinn fyrir fjarveru mína. Svo finn ég leiðir til að halda um alla þræði þó ég sé óvinnufær. Ég finn leiðir.

Stærsta málið er að ná almennilegu taki á Pennanum. Penninn er ekki enn búinn að gefa mér ákveðna dagsetningu sem þeir ætla að afhenda húsgögn á. Húsgögn sem áttu að afhendast 15. maí skv. tilboði. Ég held ég byrji daginn á morgun á því að hafa samband við Pennann og segja að ef öll húsgögn verða ekki komin í hús og sett upp seinnipart dags 31. maí, 2006 þá séu aðstæður þær hjá RANNÍS að ekki verði hægt að taka á móti húsgögnum og reikningi fyrr en eftir 19. júní. Best að tiltaka ekki ár og verða svo fúl ef það verður reynt að afhenda húsgögnin í júní á þessu ári.

Fór á kosningaskrifstofu exbé í gærkvöldi. Lífsreynsla. Áhugavert. Margt sem kom í upplýsingabankann það kvöld.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home