Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Friday, May 26, 2006

Frídagur

Hafði lengi gælt við að vera í fríi í dag, lengja helgina - uppstigningardagur, föstudagur, laugardagur og sunnudagur. Á miðvikudaginn fannst mér ég hafa svo mikið að gera og allt vera í steik í vinnunni að það væri ómögulegt að vera í fríi í dag. Eftir 30 ára afmæli, brúðkaup og 80 afmæli sem ekkert varð af þá fannst mér ég eiga skilið að vera í fríi í dag. Eins gott því flísarinn ákvað að þetta yrði dagurinn. Dagurinn sem hann byrjaði fyrir alvöru. Ef ég hefði verið í vinnu þá hefði sú vinna verið trufluð af samskiptum við flísarann og skutli heim. Það versta við Reykjavík er að það er varla hægt að skjótast heim og opna fyrir iðnaðarmanni, tala við hann, leggja honum lífsreglurnar og fara svo í vinnu aftur og líta heim öðru hvoru.

Nú nálgast kosningar, á morgun. Ég er hundleið á fjölmiðlum, sífellt ónæði af ekki fréttum af undirbúningi flokkanna og líkum á að hinn og þessi komist inn. Ef ég tæki þátt í könnunum þá væri ég orðin biluð, könnun á hverjum degi. Félagsvísindastofnun, Fréttablaðið og Gallup. Fullt af ruslpósti og glataðir fréttatímar og umræðuþættir. Þar sem ég er ein af þeim sem hef áhuga á pólitík og er virk en er að kaffærast hvernig líður þá hinum sem hafa engan áhuga. Allt í lagi, allt í lagi. Þeir biluðustu í stjórnmálum halda því fram að lífið sé pólitík og það sé ein af frumskyldum hvers og eins að taka þátt í umræðu og kosningum. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Frumskylda má aldrei kaffæra einstaklinginn. Áhugamál nokkurra og lifibrauð má ekki vera áþján annarra.

Ég segi efnislega eins og Eggert Magnússon þegar hann vill ekki skipta sér af innanríkismálum í Þýskalandi (skiljist vændi og mansal) að það sé ekki hægt að þrönga okkur hinum til að hafa elju og orku atvinnupólitíkusa. Rónarnir koma óorði á vínið, íþróttamenn koma óorði á kappleiki og stjórnmálamenn koma óorði á stjórnmál.

Okkur Sigmundi var boðið í afmæli á miðvikudaginn. Góður vinur Sigmundar varð 30 og hélt afmælið heima hjá sér. Bauð afar mörgum, bæði vinum og vandamönnum sem og stórum hluta fjölskyldu kærustunnar. Þau voru búin að setja upp tjald út í garði, tvö frekar en eitt. Þegar tveir tímar voru liðnir af afmælinu var öllum boðið út í tjald, það væri búið að hita upp og koma fyrir fullt af teppum. Nú ætti að koma afmælisbarninu á óvart!!! Afmælisbarnið kom okkur á óvart. Í tjaldinu var prestur og svo hófst brúðkaup. Afmælisgleði snérist í brúðkaupsfögnuð. Þetta var flott.

Nú er helgin framundan. Hún verður róleg eins og vanalega. Simmi og Barði koma flísum fyrir í Neðstaleiti í kvöld. Sigmundur lagar rist fyrir niðurfall. Hann skiptir einnig um bremsuklossa í bílnum. Svo er það kosningar, veisla hjá nýstúdent, Barði og Jórunn í mat og endað í Hvassaleitinu. Hvernig ætli helgi sé þar sem mikið er um að vera?

Tuesday, May 23, 2006

Baðherbergi, skríður áfram

Þá er smiðurinn búinn með sitt. Sigmundur skríður á gólfinu og kíttar í rifu milli klæðingar og gólfs. Flísari, flísari hvar ert þú? Vonandi kemur þú á morgun og verður fljótur.

Veðrið er dásamlegt. Ef ég byggi á Grænlandi þætti mér líkast til dásamlegt vorveður núna. Núna finnst mér kalt, kaldara og kaldast. Einn vinnufélagi minn vildi að við leiddum hugann að því hvernig veðrið væri ef nú væri janúar eða febrúar. Við mótmæltum, nógu erfitt er að eiga við hret í maí þó svo ekki sé verið að heimfæra það yfir á myrkur.

Fer á sjúkrahús 2. júní. Varð svo fegin þegar það var hringt í dag og ég spurð hvort ég gæti komið í aðgerð þann dag að ég nær því hrópaði já. Að vísu fóru þær fáu heilasellur sem enn eru virkar hjá mér á fullt við að raða og skipuleggja því sem þarf að gera fram til 2. júní og því sem þarf að gera eftir þann tíma. Ég held ég sé svo ómissandi í vinnunni að ég legg dag við nótt til að undirbúa vinnustaðinn fyrir fjarveru mína. Svo finn ég leiðir til að halda um alla þræði þó ég sé óvinnufær. Ég finn leiðir.

Stærsta málið er að ná almennilegu taki á Pennanum. Penninn er ekki enn búinn að gefa mér ákveðna dagsetningu sem þeir ætla að afhenda húsgögn á. Húsgögn sem áttu að afhendast 15. maí skv. tilboði. Ég held ég byrji daginn á morgun á því að hafa samband við Pennann og segja að ef öll húsgögn verða ekki komin í hús og sett upp seinnipart dags 31. maí, 2006 þá séu aðstæður þær hjá RANNÍS að ekki verði hægt að taka á móti húsgögnum og reikningi fyrr en eftir 19. júní. Best að tiltaka ekki ár og verða svo fúl ef það verður reynt að afhenda húsgögnin í júní á þessu ári.

Fór á kosningaskrifstofu exbé í gærkvöldi. Lífsreynsla. Áhugavert. Margt sem kom í upplýsingabankann það kvöld.

Monday, May 22, 2006

Innan við vika í kosningar

Nú eru nokkrir dagar í kosningar. Það þyrfti að vera afar lyginn maður sem héldi því fram að spennan ykist. Mér finnst ekki spennandi þegar horfurnar eru þær að annað hvort fær sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í borginni eða nær honum með tilstyrk frjálslyndra.

Björn Ingi floppaði á heimasíðu sinni. Hótar því að stjórnarsamstarf á landsvísu verði stirt ef exbé nær ekki manni inn í Reykjavík. Jahá, það er hótun í lagi. Allir sem eru ekki hallir undir ríkisstjórnina og hefðu getað hugsað sér að kjósa exbé munu nú kjósa annað. Sjálfstæðismenn sem sjá fram á að það er möguleiki að fá meirihluta munu fylkja sér um XD. Sjálfstæðisflokkurinn getur vel farið í þingkosningar í haust en framsókn yrði vita vonlaus og vængbrotin í þeim slag. Ég sé fyrir mér að formaður framsóknar rjúfi þing og boði til kosninga. Enn eitt vandamál sem við gætum ekki leyst úr.

Nú eru trésmiðir að vinna í baðherberginu. Vonandi getur flísari komið sem fyrst, helst í þessari viku. Ég er orðin þreytt, heldur þreyttari en ég var þar sem nú er ekkert salerni. Það er vita vonlaust að vera í íbúð þar sem ekkert salerni er. Hugsanlega gæti ég gert þarfir mína í brekkunni út að Kringlumýrarbraut. Það gæti jafnvel haft það í för með sér að borgarstarfsmenn kæmu og gengu frá lóðarmörkum. Hugmynd, ef þú býrð í blokk við umferðaræð. Blokkin að verða 20 ára og borgin gengur ekki frá lóðarmörkum né sinnir nauðsynlegu viðhaldi á opnu svæði. Kannski fengist mön, allt til að fela íbúann sem nýtir brekkuna til hins ítrasta.

Þurfti að velja tvö valfög fyrir næsta ár. Gerði það í dag. Mér leiðist svona, sjaldan það í boði sem ég hef áhuga á. Exaði við tvö fög af átta. Allt eins víst að hinir 37 hafi exað við allt önnur fög og að mín verði ekki kennd. Þá gæti ég eins endað með vöruþróun og flutningafræði sem val bara af því að aðrir hafa áhuga á því. Einn af ókostunum við að læra á Íslandi er að skólarnir eru svo litlir að ekki er um raunverulegt val að ræða. Ég hef heyrt af háskólum þar sem hægt er að velja allt milli himins og jarðar og kúrsar ganga heilu dagana. Ef ekki er hægt að mæta í tíma klukkan átta, þá er það hægt klukkan tíu, tólf eða tvö.

Tuesday, May 16, 2006

Baðherbergið komið af stað

Þá er ballið byrjað. Píparar mættu í gær og luku því sem þeir gátu gert í fyrstu umferð. Nú bíð ég eftir trésmið. Ekkert hægt að gera meir fyrr en hann er búinn að setja upp plötur á tvo veggi. Þá kemst flísari að og svo endar á pípara. Auðvitað gleymi ég rafmagni og málningu en það er nokkuð sem Sigmundur mun bjarga undir styrkri stjórn minni.

Fórum í þrjár búðir og skoðuðum ljós í dag. Kaupi þau fljótlega. Þá þarf að athuga hver getur selt mér skápa og borðplötu. Þessu gamni lýkur um mánaðamótin ekki fyrr.

Eyþór Arnalds ók drukkinn. Keyrði á og stakk af. Nú heitir það víst að hann axli ábyrgð fyrst hann ætlar ekki að vera virkur í bæjarstjórn Árborgar á meðan hann tekur út þá refsingu sem honum verður dæmd. Geir Haarde og fleiri segja að Eyþór hafi orðið fyrir því að aka drukkinn, keyra á og stinga af. Orðið fyrir því eins og þegar gangandi vegfarandi lendir fyrir bíl, sá verður fyrir bíl, oftast alsaklaus. Aumingja Eyþór, líkast til má bæta því við að hann hafi orðið fyrir því að drekka áfengi. Furðulegt að málið skuli vera blásið upp á þennan hátt og það þyki fréttnæmt að Eyþór ætli að taka út refsingu.

Sjáið fyrir ykkur þegar Lalli Johns mætir í alla spjallþætti því hann axlar ábyrgð og tekur út refsingu þegar hann næst á flótta. Lalli Johns er að vísu atvinnuafbrotamaður á meðan hinn er atvinnupólitíkus. Báðir á flótta.

Nú er rúm vika síðan ég tók seinna prófið og tvær síðan ég tók það fyrra. Einkunnir eru ekki komnar á vefinn. Furðulegt þar sem annað var munnlegt og hitt skriflegt. Það munnlega fyrr og kennarinn sagði strax daginn eftir að allir hefðu staðist að vísu misvel. Sá sem lagði skriflegt fyrir sendi út tilkynningu um að hann hefði skilað einkunnum af sér föstudaginn 11. maí. Nú er áhugavert að vita hvort það er nemendaskrá sem lætur einkunnir seint inn á vefinn eða hvort kennarar standa sig ekki þó þeir segi annað.+

Monday, May 15, 2006

Kvörtun

Sigmundur kvartar. Hann kvartar yfir því að ég bloggi ekki, líkast til telur hann sig ekki vita hvað brýst um í mér nema ég bloggi.

Búin með próf. Það var góð tilfinning. Nú er sumarið framundan og nóg að lesa annað en fræðibækur. Ég hlakka til að lesa Tolkien og fleiri góða doðranta. Draumalandinu er haldið stíft að mér (Sigmundur fékk hana í afmælisgjöf) en ég hef ekki mikinn áhuga. Ég hef svo sjaldan áhuga á því sem er mikið auglýst.

Ég fór á Egilsstaði á föstudaginn. Þar var fundur LFK, á fundinn mættu 30 konur ef ekki fleiri. Hann var góður og málefnalegur. Þarna er ekki barlómur eða allt á niðurleið. Fólk er virkt og hlakkar til að takast á við framtíðina. Konurnar sem ég hitti voru glaðar, glaðar vegna þess að börnin eru á leið austur aftur. Fólk sem nú er komið yfir þrítugt sækir austur aftur. Það fór að heiman um 16 ára aldur, sumir beint suður, aðrir á Eiða eða Egilsstaði og svo suður. Nú er vinna fyrir alla lærða og ólærða.

Það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr kössunum þann 27. maí. Spennandi að vita hvort það verður pláss fyrir mig eða ekki. Hvort það verður þörf fyrir mig eða ekki.

Nú sit ég og bíð. Bíð eftir pípulagningamanni. Hann ætlaði að vera kominn um klukkan hálf níu og nú er klukkan rúmlega hálf tíu. Að vísu ætlaði hann að koma í apríl og svo ætlaði hann að koma 10. maí. Hvað er mánuður á milli iðnaðarmanna?

Hvernig er það, getur enginn sem hefur lært iðn sagt okkur hinum frá því hvernig tímanum líður hjá iðnaðarmönnum. Hvaða dagatal þeir nota og hvernig tímamæli. Stundum held ég að það hljóti að vera múhameðstrúarmenn eða búddhistar sem leggja iðn fyrir sig.