My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, May 14, 2013

Stinga höfði í sandinn - eða jafnvel stein

Nú er verið að mynda stjórn, eins og margir vita. Framsókn og Sjálfstæðismenn eru enn einu sinni að mynda stjórn. Auðvitað er okkur fátt sagt, svona rétt á meðan verið er að semja um helstu embætti og það sem bráðliggur á að gera. Formenn flokkanna falla í alþekkta gryfju þeirra sem taka við völdum. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir stöðunni, umfanginu, tekjum og skuldum, skuldbindingum og því sem brýnt er að fást við.

Þessi ræða hefur oft heyrst, bæði í sveitarstjórn og ríkisstjórn. Nú er það ekki svo að engar upplýsingar liggja fyrir um stöðu hins opinbera. Því er á annan veg farið. Allt er galopið, umræður um fjárlög taka marga mánuði, ríkisreikningar liggja opnir öllum. Ég held að hver sem er geti fengið og fái skýringu á hverjar tekjur ríkisins eru og í hvað þær fara.

Auðvitað eru skiptar skoðanir á hver eru mikilvægustu málefni og hvað er brýnt að fást við. Aumum stjórnmálamönnum til afsökunr verður að skýra frá því að það að reka ríki er annað en að vígja nýjar brýr og leggja hornstein að byggingum. Að reka ríki er einnig að taka ákvarðanir sem eru líklegar að verða óvinsælar hjá helstu skrifurum athugasemda og haugdreifurum sérhagsmuna. Að reka ríki hefur verið að jafna aðstöðu þannig að við sem flest höfum aðgang að heilsugæslu, erum varin með lögum og aðstoð lögreglu, hér er haldið uppi tollgæslu og landhelgisgæslu, grunnmenntun að sextán ára aldri, vatnsveitu, fráveitu, sorphirðu og samgöngum. Einhver gæti sagt, já, en sveitarfélögin eiga að sjá um margt af þessu. Það er rétt, sveitarfélög og ríki verða vart aðskilin. Ríkið setur lög og sveitarfélög sinna grunnþjónustu í samræmi við þau og reglugerðir sem þeim fylgja. Þetta eru sjaldan störf böðuð dýrðarljóma. Eiginlega má segja að flestir standi upp að öxlum í því sem kemur frá sorpi og fráveitu og öflugustu vatnsveitur ná ekki að skola því af.

Í fráveitum finnast öðru hvoru gullfiskar, þar er minni íslenskra kjósenda komið.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home