Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Wednesday, May 15, 2013

Breyttur smekkur, þroski eða aldur?

Breytist smekkur með aldrinum einum saman? Getur verið að smekkur þroskist? Ég velti ýmsu fyrir mér, til dæmis því hvers vegna mér finnst Guðrún Á. Símonar góð söngkona, eiginlega með þeim betri sem ég hef heyrt. Ég man, þegar ég var barn, hve mig hryllti við þegar rödd hennar heyrðist í útvarpi og þegar hún sást í sjónvarpi, vá, það var nóg til að gera mann fráhverfan sígildri tónlist um aldur og ævi.
Nú er spurning hvort aldurinn hafi náð mér og ég muni una mér við Guðrúnu Á. og fleiri raddir líkar henni ævi mína á enda.
Einhver gæti sagt að ég hafi þroskast. Frá hverju þroskaðist ég og í hvað? Gæti þetta verið merki um hrörnun?
Vorið læðist að. Það er hlýtt dag eftir dag, hlýrra en í apríl. Nú blómstrar kirsið en töfratréð ætlar að þráast við í ár eins og undanfarin ár. Ætli ég verði ekki að pota eggjaskurn niður með stofninum í sumar, það vill kalkríkan jarðveg og ég hef grun um að lóðin sé frekar súr. Ég er nokkuð viss um það. Hvaða della er það líka að setja runna sem vill kalk í pínulítill blett þar sem öllu ægir saman.

Tuesday, May 14, 2013

Stinga höfði í sandinn - eða jafnvel stein

Nú er verið að mynda stjórn, eins og margir vita. Framsókn og Sjálfstæðismenn eru enn einu sinni að mynda stjórn. Auðvitað er okkur fátt sagt, svona rétt á meðan verið er að semja um helstu embætti og það sem bráðliggur á að gera. Formenn flokkanna falla í alþekkta gryfju þeirra sem taka við völdum. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir stöðunni, umfanginu, tekjum og skuldum, skuldbindingum og því sem brýnt er að fást við.

Þessi ræða hefur oft heyrst, bæði í sveitarstjórn og ríkisstjórn. Nú er það ekki svo að engar upplýsingar liggja fyrir um stöðu hins opinbera. Því er á annan veg farið. Allt er galopið, umræður um fjárlög taka marga mánuði, ríkisreikningar liggja opnir öllum. Ég held að hver sem er geti fengið og fái skýringu á hverjar tekjur ríkisins eru og í hvað þær fara.

Auðvitað eru skiptar skoðanir á hver eru mikilvægustu málefni og hvað er brýnt að fást við. Aumum stjórnmálamönnum til afsökunr verður að skýra frá því að það að reka ríki er annað en að vígja nýjar brýr og leggja hornstein að byggingum. Að reka ríki er einnig að taka ákvarðanir sem eru líklegar að verða óvinsælar hjá helstu skrifurum athugasemda og haugdreifurum sérhagsmuna. Að reka ríki hefur verið að jafna aðstöðu þannig að við sem flest höfum aðgang að heilsugæslu, erum varin með lögum og aðstoð lögreglu, hér er haldið uppi tollgæslu og landhelgisgæslu, grunnmenntun að sextán ára aldri, vatnsveitu, fráveitu, sorphirðu og samgöngum. Einhver gæti sagt, já, en sveitarfélögin eiga að sjá um margt af þessu. Það er rétt, sveitarfélög og ríki verða vart aðskilin. Ríkið setur lög og sveitarfélög sinna grunnþjónustu í samræmi við þau og reglugerðir sem þeim fylgja. Þetta eru sjaldan störf böðuð dýrðarljóma. Eiginlega má segja að flestir standi upp að öxlum í því sem kemur frá sorpi og fráveitu og öflugustu vatnsveitur ná ekki að skola því af.

Í fráveitum finnast öðru hvoru gullfiskar, þar er minni íslenskra kjósenda komið.

Monday, May 13, 2013

Maí 2013

Nú er langt síðan ég hef bloggað. Eiginlega er snjáldurskinnan alveg búin að taka yfir en þó fullnægir hún ekki skrifþörf minni svo innra með mér hleðst upp efni sem gaman væri að viðra.
Ég ætlaði nú áðan að finna mynd af okkur Sigmundi, við eigum enga af okkur saman nema þá með hópi fólks. Það er varla til mynd af mér, nokkrar af honum því honum bregður fyrir öðru hvoru þegar ég tek myndir. Þar sem okkur vantar mynd þá þarf að kalla til hirðljósmyndara vorn, sá býr á Rauðalæk. Vonandi á hann leið hjá í vikunni.
Það sem helst er að frétta nú er að við förum til Belgíu í sumar. Skiptum á húsnæði við hjón. Það gekk seint að finna einhvern sem gæti skipt við okkur. Fyrst var vandamálið að við áttum erfitt með að negla niður tíma, það voru svo margar veiðiferðir sem þurfti að taka tillit til. Svo vorum við orðin sammála við hjón á Ítalíu, alveg niður við strönd, sól og sumarylur lá í loftingu. Þá afþökkuðu þau. Svo leist okkur ágætlega á hjón í Hollandi, svo kom í ljós að þau voru með barn. Þá þurfti rúm, stól í eldhús og stól á hjól. Við gátum hugsað okkur að verða við þeim óskum. Eftir að við höfðum sagt að við myndum útbúa íbúðina á þann veg kom spurning um bíl, svo ítrekun, eftir það hreint og beint beiðni. Samt höfðum við tekið fram að við skiptum ekki bíl og að hér væri ekkert fyrir börn. Við afþökkuðum. Svo dældi ég fyrirspurnum út, nær því út um allan heim (ef Bandaríki Norður-Ameríku) eru undanskilin. Loksins fann ég hjón í Belgíu sem vildu gjarnan fara til Þýskalands, svona alveg eins og við. Við vildum einnig fara til Þýskalands ;)
Nú verðum við rétt við landamæri Frakklands og munum njóta lífsins. Sigmundur farinn að skoða landakort og ég að finna bækur um fyrri heimsstyrjöldina og Belgíu.

Þessi er frá Apavatni, vorum þar í mars.