Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, March 19, 2012

Bóhem

Við fórum á La Bohéme á laugardaginn. Hera Mist fór með okkur Sigmundi. Við buðum henni með okkur því við viljum gjarnan kynna sem flest fyrir henni og vera eins mikið saman og hægt er.

Ég áttaði mig á því á föstudag að Hera væri lítið spennt. Ópera, oj. Ég hefði kannski getað undirbúið hana en veit varla, ég hefði lítið getað gert til að þetta yrði spennandi. Ef mamma hennar hefði gefið eftir þá hefði stelpan ekki komið með.

Því varð ég fegin þegar sýningin var að hefjast og svo allan tímann þar til allt var búið. Þetta er flottasta og líflegasta uppfærsla á óperu sem ég hef séð. Hef ég þó séð þær allnokkrar. Það er einna helst að ópera sem ég sá í Króatíu sumarið 2002 sem kemst næst þessu. Þar var uppfært á torgi. Hljóð umhverfisins áttu svo vel við, hundar, hænsn og fleira. Aftur að íslensku óperunni sem var litrík, mannmörg, full gleði og svo frábærir söngvarar.

Hera Mist er þokkalega ánægð, þetta var öðruvísi en hún hafði hugsað sér. Að vísu er allt sungið á ítölsku og því skildi hún lítið sem ekkert, helst það sem Sigmundur hvíslaði að henni.
Nú erum við að skoða Vesalingana í Þjóðleikhúsinu (það eru aðrir en Fávitar). Ef henni líst á þá förum við saman í maí.

Mikið er gaman að snjó eftir miðjan mars. Hann hverfur svo fljótt. Birtan hefur svomikið að segja.

Saturday, March 17, 2012

Helgi

Það er yndislegt veður. Í gær var jafnfallinn snjór, logn, bjart og fagur. Eiki átti afmæli. Hann sagði að þetta lýsti samvisku hans vel, hrein sem nýfallin mjöll. Ég taldi að það lýsti hvernig árið hefði verið. Hvorutveggja gott.
Í dag er kaldara en svo fallegt. Snjór hylur lauka, fuglarnir kroppa í fóðrið. Ég vakna seinna en þeir vilja. Þeir vilja fóður um líkt leyti og sólin kemur upp og svo aftur þegar fer að skyggja. Virka daga næst fyrri tíminn. Flesta daga næst seinni tíminn einnig. Um helgar verða þeir að gera sér að góðu að svelta eða leita annað þar til ég fer fram úr.
Við ætlum að gefa út næstu viku, rétt fram yfir jafndægur. Danir segja að ef maður gefi fuglum þá verði að gefa allt árið. Ég hafna því, þeir vilja lítið í görðum á sumrin. Þá er betra að hafa gróður þannig að fræ séu næg að hausti og lítið eitrað svo það séu flugur og lirfur til að höggva í.

Ég hitti Ídu á fimmtudaginn. Við spjölluðum lengi, lengi, afar lengi. Það er svo gaman að hitta hana. Hún hefur skemmtilega sýn á lífið og er svo falleg að utan og innan. Þegar ég hafði kvatt hana þá fór ég í gegnum Stjörnutorg (við hittumst alltaf á Kaffitári í Kringlunni). Þar sá ég Hrefnu. Hana hafði ég ekki séð síðan 1999. Hún hefur ekkert breyst frá því ég kynntist henni 1988, sumarið sem ég leysti hana af í þrjá mánuði í Landsbankanum á Akranesi. Nú er hún hætt að vinna, er í ferðalögum og nýtur lífsins á margan hátt. Frábær kona. Þegar ég gekk inn í Kringluna þá fannst mér ég sjá konu sem ég vissi að er dáin. Fyrr um daginn hafði ég einnig séð mann sem ég vissi líka að var ekki hér á jörðu. Það er skrítið þegar fortíðin og samferðarmenn dragast að manni. Þetta var fólk sem ég kynntist á Akranesi. Einmitt þaðan sem Hrefna er.

Nú sit ég og hlusta á upptökur með Ute Lemper. Við förum í óperuna í kvöld La Boheme. Ute á lítið skylt með óperu en ég gleymi seint tónleikum sem ég fór eitt sinn á með henni (þar sem hún var á sviði). Mig langar aftur. Ég væri til í að fara út í heim gagngert til að hlusta á hana.

Thursday, March 15, 2012

Vor í lofti

Í gær sá ég fyrstu knúppa á krókusum. Ég sá líka að anemónurnar eru farnar að gægjast upp og brumin á koparreyninum að þrútna. Ég er hrifin af birkinu, það lætur lítið plata sig þó kona fari um garðinn og mæni upp brum og knúppa. Ég er nokkuð viss um að írisarnir séu farnir að stinga upp kollinum. alla vega eru grænir toppar þar sem ekkert á að vera nema íris.

Það er komið vor í mig. Ég fór í græna vatteraða jakkann í dag. Mig langar svo að geta verið léttklædd og án vettlinga. Því fór ég í límónu grænan jakka, dimm fjólubláar grifflur, setti á mig kóngabláan trefil og leið bara skratti vel. Líklega leið mér vel því ég sá límónu grænan kjól í glugga hjá Stórum stelpum. Kannski fer ég og athuga hvort hann sé fyrir mig. Ég lyftist öll upp í gærkvöldi og var bara nokkuð hress í morgun. Var tilbúin fyrir daginn um hálf sjö. Geri aðrir betur. Var búin að lesa Fréttablaðið og Finn áður en ég hélt út í daginn. Oft er ég ekki búin að því fyrr en um kvöldmat.

Það er fortíðarþrá í mér. Nú hugsa ég um Bifröst og árin þar. Skrítið þegar liðnir tímar sækja á.