Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Tuesday, January 31, 2012

Sorp, flokkun, nýting

Ég hef áhuga á og skoðanir á sorpi, tilurð, meðferð og flokkun. Um daginn fór ég til Kaupmannahafnar og skoðaði þá fróðlega sýningu um sorp. Sýningin var í borgarminjasafninu, hún spannaði söguna frá upphafi byggðar til dagsins í dag. Helgina áður en ég fór út fórum við Sigmundur á móttökustöð Sorpu. Við losuðum okkur við jólatré, dagblöð og svo ýmislegt annað smálegt.

Enn einu sinni velti ég fyrir mér. Hvers vegna eru móttökustöðvar Sorpu skipulagðar svona en ekki öðru vísi? Hvers vegna er lítið sem ekkert hvatt til þess að við flokkum sorp áður en við komum með það á móttökustöð? Hvernig væri hægt að hafa þetta skipulegra, aðgengilegra og þægilegra? Hvað þarf til?

Ég tel að það þurfi að hvetja til flokkunar. Hvetja til að við komum með flokkað á móttökustöð. Pappír sér, plastefni saman, timbur í einni hrúgu, spilliefni saman o.s.frv. Skilti þyrftu að vera stærri, sýnilegri. Líkast til ættu stöðvarnar einnig að vera stærri, meira pláss. Svo þyrfti að fræða, sífelld fræðsla.

Þegar ég kem á móttökustöð þá finn ég blaðagáminn án þess að leita mikið. Oft sé ég hauginn fyrir garðúrgang en efast stundum að það sé í raun rétt því þar er oftast fullt af plastpokum því við nennum ekki að losa pokana.

Hvers vegna er okkur svona illa við að nýta vel það sem við höfum? Hvort sem það eru keypt gæði, land, vatn eða við sjálf? Hvers vegna erum við svo óöguð sem þjóð að við göslumst áfram sem sóðar og bjánar í stað þess að huga að framtíðnni? Ja, framtíð, ég held að það sé oft hreint og beint nútíðin sem við nennum ekki að huga að.

Monday, January 30, 2012

Bækur

Undanfarna mánuði hef ég lesið margar bækur. Hæst ber ævisögu Matthíasar Jochumsonar og ævisögu Hannesar Hafstein. Auðvitað hafa bækur sem eru um og innan við 200 blaðsíður slæðst með t.d. Gamlinginn og Allt með kossi vekur eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Nú er ég að verða búin með bók um fjármálaskandal í Assitenthúsinu, sannsöguleg skáldsaga, gerist um og eftir aldamótin 1900. Enn einu sinni fæ ég nasaþef af því hvernig Kaupmannahöfn var á þessum tíma.
Ég velti fyrir mér hvaða bók verður sú sem yljar mér næstu vikuna. Ég á nokkrar á dönsku, örfáar á ensku og að ég held engar ólesnar á íslensku. Skynsamlegt væri að taka krimma. Um daginn rakst ég á bækur eftir Robert Wilson og keypti eina, den blinde mand i Sevilla. Hún er um 500 bls. Ummm, ef mér líkar hún þá verður lífið gott.

Í vetur hef ég lært með Heru Mist hans Barða. Fyrir jól lærðum við saman á fimmtudögum, eftir skóla hjá henni. Nú er hún í Cross fit tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Framvegis ætlum við að vera saman á miðvikudögum. Við höfum pælt í mörgu og lært margt, aðallega stærðfræði. Ég hef rifjað ókjörin upp. Liggur við að ég fari í stærðfræði í framhaldsskóla til að halda þessu við.

Nema, það bíður því um miðjan febrúar fer ég að læra bókband. Það verður fyrsta námskeiðið sem ég fer í sem miðar að því að ég geti gert eitthvað í höndunum. Öll hin námskeiðin hafa verið bókleg, miðað að því að auka færni mína á vinnumarkaði. Kannski verð ég afar hæf sem MBA, MPM vegna þess að ég kann bókband.

Við Sigmundur förum til Amsterdam í lok mars. Ég hef einu sinni komið þar áður, var í tvo eða þrjá daga. Sigmundur fer reglulega, ég veit lítið um hvað hann hefur séð af borginni. Ég verð að finna mér upplýsingabækling og lesefni. Það er alveg öruggt, ég fer á listasafn eða tvö. Ég verð að sjá mynd/ir eftir Rembrandt, van Gogh og, og, og.

Sunday, January 29, 2012

Vor á þorra

Enn eitt árið vorar á þorra. Ég er ánægð. Fer út í garð, tek rusl, hlúi að plöntum og læt mig dreyma um sumar og gróður. Ef það verður autt um næstu helgi þá klippi ég runna og fer í Garðheima og læt mig dreyma. Að vísu er hægt að láta sig dreyma í Garðheimum hvernig sem veðrið er.

Þegar ég var að bardúsa í garðinum í dag varð mér hugsað til góðra vina sem gefa ráð út og suður. Það hljóta að vera fleiri en ég sem eiga vini sem gefa ráð, alveg óumbeðið. Ég á vini sem hafa sagt þegar þeir kveðja mig að loknu matarboði ,,endilega hafðu samband næst þegar þú ætlar að halda veislu, ég skal hjálpa þér að skreyta". Ég á líka vini og þegar þeir komu fyrst inn á heimili mitt eftir margra ára vináttu lýstu því hástöfum yfir að það væri ekkert heimili ef það væru ekki lifandi blóm. Árum saman hef ég einungis haft einn kaktus, það er víst annað en lifandi blóm. Ég á líka vinkonur sem hafa boðist til að flikka upp á mig, panta tíma á snyrtistofu, á hárgreiðslustofu og fara með mér svo það væri gert það rétta við mig. Einnig að fara með mér í búðir og hjálpa mér að velja SMART föt. Ég á vinkonu sem segir mér alltaf af og til frá því að það sé ágætis ,,outlet" hér og þar með þokkalega góðum fötum í stórum stærðum. Ekki það að ég hafi nokkru sinni rætt fatamál eða innréttingar heimilis við þetta ágætis fólk. Samt gefur það góð ráð í erg og gríð.

Hvað ætli vinirnir segðu ef ég gæfi þeim góð ráð?

Tuesday, January 17, 2012

Nýtt ár

Þessa dagana hugsa ég mikið. Velti ýmsu fyrir mér.
Ætti ég að opna síðu þar sem ég safna saman ambögum, skrítilegum fyrirsögnum og fleira því um líku? Ætti ég að opna aðra síðu þar sem ég safna því sem vel fer í samfélaginu, öllu því jákvæða er gerist hér og þar um landið? Svo er spurning hvort ég eigi að sitja þessar hugleiðingar af mér og bíða eftir að vorið komi, gróandinn og allt sem því fylgir. Eilíf útivera og yndislegt líf.

Í gær fór ég í gönguferð. Gekk eftir hitaveitustokknum upp á Réttarholtið og til baka. Ég er alveg úthaldslaus. Það batnaði lítið við að fá tvær pestir, þá síðari milli jóla og nýárs. Ég er fljót að missa niður virkni lungna.