Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Wednesday, May 13, 2009

Bjartsýni, líklega ódrepandi bjartsýni

Ég var að lesa seinasta bloggið mitt.
Þá hlakkaði ég til næstu viku, spáð sunnanátt og líkast til auðveldara að hjóla en var.

Eru mörk á leyfilegri bjartsýni? Er hægt að reikna með því að sæmilega veðurglögg kona sem hefur gaman af útiveru og hefur náð 52 ára aldri hafi hemil á bjartsýni þegar veðurspár eru til umræðu? Ég bara spyr.

Þessi vika hefur verið áskorun, hrein og bein áskorun. Ég hef borist með vindum, ekki þurft að stíga hjólið áfram. Á öðrum tímum hef ég barist við hjólið, dregið það áfram eins og þrjóskan krakka. Bitið saman vörum, beygt mig fram og haft það af, haft það af að þrjóskast á móti sunnan áttinni milli Brunnastaða og Voga. Leið sem er falleg og fljót yfirferðar á góðum degi. Er nema von þó velviljaðir samstarfsmenn haldi því fram að það sé hættulegt að hreyfa sig? Þeir sjá mig koma í sundlaugina, gangandi, blauta, hrakta, vindbarða, örsjaldan hjólandi, oftast brosandi.

Ég hlakka til að hjóla á föstudaginn. Þá er spáð einmunaveðri. Synd að svo skuli vera helgi, vonast til að spáin fram í næstu viku haldi. Það er spáð hægu veðri og lítilli úrkomu :)

Thursday, May 07, 2009

Hreyfing

Varla hægt að segja að veðrið sé yndislegt. Hávaðarok af norðri. Stíf norðan átt á Ströndinni.
Ég hjólaði Ströndina á leið í vinnuna í dag og í gær. Hjólaði Ströndina á leiðinni heim í gær. Mér fannst það erfitt, svo mikill vindur. Er að telja í mig kjark, ætti ég að reyna að hjóla í dag. Verð að minnsta kosti að ganga svo ég komist heim.

Í hádeginu örkuðum við Svanborg af stað. Fórum og skoðuðum Háabjalla. Lítið mál að ganga þangað en meira að kjaga á móti vindi. Ætli við höldum okkur ekki við stígana kringum bæinn á morgun.

Hlakka til næstu viku. Þá verður áttin sunnanstæð. Þá verður auðveldara að fara heim en koma í vinnu.

Ég talaði við mömmu í gær. Hún var í nokkuð góðu formi. Fegin að Lalli var kominn út aftur. Hún vill helst ekki að hann fari frá Hirtshals. Skildist á henni að hún hefði sett hann í bann þar til hún væri öll. Veit ekki hvenær það verður, líkast til ekki í bráð því hún var að láta laga tennurnar.

Tuesday, May 05, 2009

Hjólað í vinnuna

Næstu daga hef ég hugsað mér að aka, hjóla, ganga í vinnuna (akandi, hjólandi, gangandi, skríðandi). Vona að ég skríði aldrei, hugsa að ég hökti öðru hvoru.
Fer að vísu ekki alla leið, er ekki svo brött að ég sjái fyrir mér að ég gangi 2x35 km á dag.

Sem sagt, þeir sem hafa ekki skilið það, ég ætla að taka þátt í ,,hjólað í vinnuna". Það má ganga og synda auk þess að hjóla. Ég læt sjósund eiga sig, reyni allar aðrar leiðir.

Við erum búin að koma garðhúsgögnunum í lag eftir veturinn, þrífa, bera á og herða skrúfur. Grillið er komið á stéttina. Hvað segir maður þá? Koma sumar, já, koma! Ef ég trúi Jóa þá er sumarið komið í Skagafirðinum, gott ef það er ekki komið haust. Þar líður tíminn svo mikið hraðar en annars staðar og árstíðirnar eru ekki eins fljótandi og á Suðurlandi.

Monday, May 04, 2009

Mánudagur

Rigning, hæglætis veður.
Fór ekkert út í hádeginu, hugsanlega hélt ég að veðrið væri verra en það er vegna þess að það var verið að þvo húsið með háþrýstingi. Alveg frá því snemma í morgun og fram undir hálf fjögur var hávaði hér. Hávaði og ausandi vatn.
Alveg furðulegt að þeir sem gerðu þetta hafi ekki haft skilning á hinum vinnandi manni sem þarf næði :)
Þar sem vatnið dundi á veggjum og gluggum komst ég ekki út til að athuga hvar trén vaxa. Geri það á morgun, vona að þá verði betra að komast frá húsi.

Það saxast örlítið á bækurnar hjá mér. Best er þó að í hvert sinn sem ég lýk 2-3 bókum þá koma heldur fleiri nýjar inn. Ég hef oft lýst því yfir að hamstrar í búri séu mér lítt að skapi, hlaupa og hlaupa og komast ekki úr stað. Mín tilfinning hefur verið að mörg afkastahvetjandi kerfi hafi sama innbyggða fídus, fá fólk til að leggja hart að sér án þess að ávinningur verði svo orð sé á gerandi. Ætli ég og bækurnar mínar séu ekki að ná sama status, ég les og les og staflinn, breiðurnar, hillumetrum fjölgar sífellt.

Sunday, May 03, 2009

Fimm daga vinnuvika

Þá er fimm daga vinnuvika framundan. Mér finnst flestar vikur apríl hafa verið fjögurra daga vinnuvikur. Ég hlakka til styttri vinnuvikna sem eftir eru fram á sumar. Eina ætla ég að nýta og fara norður á Raufarhöfn. Ég hlakka mikið til þeirrar ferðar. Kem við á Kópaskeri og skoða vitann og sýninguna sem verður þar í tengslum við Listahátíð. Auðvitað rennum við einnig við á Sauðárkróki, alla vega verður stoppað í Varmahlíð og staðan tekin fyrir sumarið.

Nú um helgina gerðum við Sigmundur víðreist. Vorum viðstödd þegar Golfklúbbur Vatnsleysustrandar vígði æfingavöll/braut. Fórum og heilsuðum upp á Elsu Unnars og skoðuðum aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra í Þorlákshöfn. Renndum í gegnum Selfoss og upp í Þjórsárdal. Litum við hjá Ingibjörgu á Hunkubökkum. Það er ekki komið mikið úrval í gróðrarstöðvar, ekki enn sem komið er. Vika til hálfur mánuður, þá verður allt á fullu. Ég kaupi líkast til ekki mikið í vor. Einstaka sumarblóm og hugsanlega plöntur sem eiga að þekja moldina. Í ágúst kaupi ég það sem mig langar að hafa þar sem birkið er núna. Verð víst að sjá hvað plássið verður mikið.