Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Sunday, April 23, 2006

Sumar með glæsibrag

Var í sumarbústað í Svignaskarði í rúman sólarhring. Sigmundur og félagar hafa farið saman í bústað í 25 ár (árin aðeins á reiki eftir því hver telur og við hvað er miðað). Furðulegt hve allt gengur smurt fyrir sig. Innkaup á einni hendi, matreiðsla í ákveðnum skorðum, borðhald og frágangur líka. Þar sést að það er margt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Við fórum aðeins upp á Bifröst. Barði gekk með hópnum um allar byggingar og útskýrði og sagði frá. Ég hef komið 2x á staðinn frá 1990 og þetta er í fyrsta sinn sem hann er hreint og beint ekki fráhrindandi. Skelfilega eru nýju byggingarnar hráar og gráar. Þær gömlu eru grænar og lúnar og þar má engu breyta vegna arkitektúrs en sá nýi (arkitektúrinn) er bara fyrir hálfvita. Hver vill í raun búa og vinna í hrárri steinsteypu?

Nú er komið að lokum apríl. Vonandi næ ég pípulagningamanni inn í Neðstaleiti í þessari viku. Þó ekki væri til annars en segja hvort ég get eitthvað fært til lagnir og gefa mér fastan dag hvenær hann kemur í raun. Það er ekki aðlaðandi möguleiki að þurfa að leita að öðrum pípara. Hefði frekar viljað gera það í febrúar en núna þegar komið er að þeim tíma sem flísari og trésmiður eru tilbúnir.

Thursday, April 20, 2006

Sumardagurinn fyrsti

Gleðilegt sumar,
Nú verður gaman að sjá hvernig veðrið breytist fram í maí. Mín reynsla segir að nú ætti að ganga í þrálátar norðanáttir. Alla vega var það svo þegar ég bjó í Þorlákshöfn. Bjallan byrjaði að verpa um sumardaginn fyrsta og svo eyðilögðust hreiðrin í kulda og sandstormi í byrjun maí. Fuglinn var og er svo harður að hann byggði aftur upp og verpti allt að þrisvar.

Reynslan af garðræktinni segir mér líka að það sé ekki komið sumar í raun, alla vega ekki fyrir ræktendur. Á Akranesi var varla hægt að stinga niður kartöflum í garðlöndum fyrr en eftir 20. maí. Þá stóð maður oft í kviksyndi og stakk kartöflum niður í ískalda leðju. Svo hlýnaði og garðarnir þornuðu og kartöflur spruttu. Alveg ótrúlegt hve þær spruttu vel þó moldin/leirinn væri kaldur og rakur og lofthiti lítill.

Nú baslast ég við að pota nokkrum kartöflum niður í garðinum hjá mér. Ég held að það verði að breiða yfir dekkin í ár. Það er svo kalt, ég vorkenni útsæðinu svo mikið. Svo hlakka ég til að sjá hvernig til tekst og hvort það þurfi að bæta mikilli mold við í ár. Svo veit ég að ég tími varla að taka upp aftur, það er svo lítið sem ég set niður.

Þversögnin í mér er að ég vil búa í miðju þéttbýlis, vinna í miðju þéttbýlis, hafa góðan kartöflugarð og geymslu, stutt í sund og ósnortna náttúru. Auðvitað á ég ekki að búa í 103 og vinna í 101. Ég á bara að vera úti á landi og fá allt sem ég vil þar. Ég þarf ekki að vera í þéttustu byggð Íslands til að vera í þéttbýli og ,,længes" eftir náttúrunni. Ég er ekki náttúrubarn sem sér ekkert nema ósnortið víðerni heldur þarf ég að komast í snertingu við mold og gróður til að líða vel. Kartöflugarður er fínn, helst 50-100 fermetrar en skrúðgarður er alveg ótækur, þá get ég eins verið í vinnu.

Tuesday, April 18, 2006

Kennari eður ei


Ég hef aldrei átt þann draum að vera eða verða kennari. Hætti meira að segja við að læra sagnfræði eða fornleifafræði vegna þess að ég sá ekki að ég gæti unnið sem kennari. Þess vegna gerði ég allt annað, afgreiddi í búð og vann á skrifstofu. Endaði svo á Bifröst og vinn líkast til á skrifstofu þar til ég hætti alveg að vinna úti.

Framsóknarmenn, nei fyrirgefið mér, exbé, vill að ég sé kennari. Ég er búin að biðja um leiðréttingu, ég vil vera skrifstofumaður eða sviðsstjóri. Bað aftur um leiðréttingu í dag. Sjáum hvort hún gengur í gegn. Hugsanlega er starfsheitið búið að brenna sig við mig, Eirný kennari. Þið vitið þessi sem talar lítið, sýnir ekkert og verður óþolinmóð ef þú skilur ekki í fyrstu atrennu.

Fór í klippingu í dag. Geri allt fyrir samstarfsmenn mína. Þeir sögðu mér í morgun að fyrir nokkrum árum hefði ég alltaf verið mikið stuttklipptari en í dag, settlegri í framkomu og klæðaburði og ljóshærðari. Dreif mig til hárgreiðslukonu, bað um strípur og klippingu. Breyti ekki um fatastíl. Sniðugt ef síðbuxur, jakki/peysa og skyrta eru afslappaðri í dag en fyrir sjö árum.

Nú erum við öll hjá RANNÍS á fimmtu hæð. Öll á minna en helmingi þess gólfpláss sem við höfum haft. Sumir sitja þröngt á meðan aðrir hafa tiltölulega mikið rúm. Öll sitjum við þó við sama borð er kemur að kaffi og te. Erfitt að fá vatn og enn erfiðara að þrífa í kring. Við verðum að halda út í fjórar vikur og rúmlega það. Hugsanlega verður einhver orðinn langþreyttur að þeim tíma liðnum.

Nú vilja sumir Reykvíkingar víst að Sundabraut verði slegið á frest, til að minnka þenslu. Þegar ég bjó á Akranesi keypti ein vinkona mín íbúð á Kjalarnesi, var þess fullviss að Sundabrautin væri alveg að koma. Sú kom frá Siglufirði, hafði varla heyrt um göng til Ólafsfjarðar nema sem skrítlu. Nú er hún löngu komin suður og þá tala ráðamenn um að fresta einu samgöngubót höfuðborgarsvæðisins en það er víst afar mikilvægt að gera Héðinsfjarðargöng. Hvað ætli margir noti Héðinsfjarðargöng (sem kosta nær því það sama og fyrsti áfangi Sundabrautar)? Hvað ætli umferðin um Sundabrautinga yrði mikil? Hvort væri meiri ávinningur? Er meira vit í að gera göng á milli tveggja hnignandi staða en bæta vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu? Hvers vegna er það? Ég þarf að fá svör við því, Sigmundur eða Eiríkur, segið mér hvers vegna 8 milljarða framkvæmd fyrir 1.5oo manns er hagkvæmari en 7 milljarða fyrir 200 þúsund. Hvers vegna hún eykur ekkert við þenslu, hvers vegna þjóðfélagið, verktakarnir, þjóðin bíður í ofvæni eftir að geta keyrt í gegnum fjall.

Ég var í Köben með Sigmundi í mars, þá tók hann mynd af mér fyrir utan Evrópu, í minningu umræðu Framsóknar um Evrópusambandið. Ég vissi ekki að ég væri svona björt en það er í lagi.

Monday, April 17, 2006

Kvíði/vandamál, lúxus eða ekki

Kvíði eða vandamál. Sumir gætu jafnvel sagt að ég væri bara lúxuspíka með tilbúin vandamál.

Ég ætti að fara í tvö próf í maí, annað munnlegt og hitt heimapróf. Það styttra 30 mín og hitt sex klukkustundir. Munnlegt próf í aðferðafræði verkefnastjórnunar og svo dæmisaga um stjórnun og samninga. Þessi próf eru lok á skrítinni yfirferð vetrarins og staðfesting á því að ég geti í raun setið í verkfræðideild og lokið master þaðan að ári.

Síðan í lok mars hef ég lítið lesið og í raun lagt bókunum. Ég var búin að lesa mikið, pæla og hafði gaman að. Svo hitti ég, ásamt fleirum, blessaða kennarana, þeir létu vita að við værum einungis búin að lesa helming efnis og að bréf frá verkfræðideild um hækkun skólagjalda stæðist. Svo töluðu þeir mikið um hvað þeir höfðu barist fyrir að við fengum inni í náminu. Við sem höfðum fengið inntökubréf fyrir ári síðan.

Mér finnst ég standa á krossgötum
- á ég að fara í próf
- á ég að sleppa prófum og þar með næsta vetri
- á ég að pirrast yfir því að kennararnir reyna að gera sig meiri en þeir eru
- á ég að hræðast að reyna að ná fótfestu meðal þeirra nemenda sem hafa verið í reglulegu námi í vetur
- á ég að hætta við master vegna þess að hann verður ca 300 þús dýrari en ég hélt

Ég veit að ég læt þetta pirra mig vegna þess að það er erfitt að vera í fullu námi og fullri vinnu. Ég veit að ég læt þetta pirra mig vegna þess að mér er illa við ef fólk stendur ekki með sjálfu sér. Ég veit að ég læt þetta pirra mig vegna þess að ef ég fer ekki í próf þá er ég búin að fyrirgera rétti að halda áfram næsta vetur.
Ég veit að ég læt þetta pirra mig vegna þess að ef ég hætti núna þá finnst mér að ég sé hætt formlegu námi.

En, Barði kom heim úr páskafríi í dag. Það var reglulega gaman að sjá drenginn aftur þó það væri stutt. Hann fór upp á Bifröst beint eftir mat, skóli byrjar kl. 08.00 í fyrramálið. Vonandi næ ég á hann í síma á morgun svo við getum ákveðið með hitting á laugardag. Á laugardag langar okkur Sigmundi að fara með Sæmundarmenn á Bifröst og sýna þeim staðinn, segja þeim frá liðinni tíð og framtíðaráformum (þar kemur Barði sterkur inn).

Nú skal ég reyna að muna aðgangsorðið og blogga öðru hvoru, ekki með eins löngu millibili og hingað til.

Að liðnum páskum

Já,
Ég skána ekkert. Gleymi leyniorði og notendanafni í sífellu. Sigmundur spurði hvers vegna ég segði Barða ekki hvaða orð ég notaði. Hann telur líklegt að Barði muni það sem ég gleymi.

Nú ætti taktur baráttunnar um atkvæðin að verða hraður, alla vega hraðari en verið hefur. Ég játa að mér leiðist að sjá andlitið á Birni Hrafnssyni þegar ég fer inn á heimasíður fjölmiðla, það er á auglýsingarönd. Eitt af því sem mér leiðist mikið við heimasíður eru auglýsingar. Þær opnast þegar síst varir og glepja augað. Ætli auglýsendur geri sér grein fyrir að sumir notendur netsins pirrast á þessu? Ætli það séu fleiri sem glepjast og skoða það sem verið er að auglýsa?