Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, June 19, 2006

Samningar á vinnumarkaði - stéttarfélög

Nú ræða aðilar á vinnumarkaði saman til að koma í veg fyrir að samningar verði lausir í haust. Það er víst hætta á því að samningar verði lausir vegna þess hve verðbólga er mikil. Verðbólgan eykst og eykst vegna þess að smásalar greiða mjólkina ekki niður. Þær leiðir sem eru helst ræddar beinast flestar að því hvernig ríkið geti greitt götu ASÍ og SA. Rætt hefur verið um breytingu á barnabótum, þær verði greiddar til 18 ára aldurs. Rætt hefur verið um vaxtabætur, endurskoða þarf reglur þar um. Er fólk taldi fram í vor þá kom í ljós að ótrúlega margir fá ekki vaxtabætur nú í ágúst. Eignir höfðu aukist umfram skuldir. Þá hefur verið rætt um fleiri skattþrep, svokallað láglaunaskattþrep (væri ekki hægt að kalla það aumingjaskattþrep?). Hvernig væri að hækka persónuafslátt svo skattleysismörk væru viðunandi? Svo eru það lífeyrissjóðir, almennir og opinberir. Þar virðist LSR vera slegið saman við Lífeyrissjóð ráðherra og alþingismanna alveg án þess að viðmælendur skammist sín. Ég hef ekki mikinn tíma til að blogga núna en eitt vil ég segja að lífeyrissjóðurinn minn og þær greiðslur sem ég get fengið úr honum eru ekki í neinu samræmi við lífeyrissjóð ráðherra og alþingismanna.

Enn og aftur virðist ASÍ ætla að reyna að ná þokkalegum lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna niður á grunnþrep það er almennir lífeyrissjóðir eru í. Finnst ykkur nokkurt vit í baráttu þar sem aðalatriðið er að allir fari niður á lægsta þrep í stað þess að vinna að því að hinir fari upp. Þar að auki er athugandi að bera í raun saman hver munur er á áunnum rétti þess er byrjar í ár að greiða í LSR og annars er byrjar að greiða í Sameinaða lífeyrissjóðinn. Ég veit að LSR er með bakábyrgð ríkisins en er ekki viss á að það sé meiri munur að öðru leyti, réttindi vinnast svipað. Það er löngu hætt að opinberir starfsmenn fái lífeyri eftir launum eftirmanns.

Bíðið þið - ég skrifa meira á morgun eða hinn. Nú bíður sigin grásleppa.

Friday, June 09, 2006

Almenn viðhorf

Enn einu sinni er Framsókn í ófæru. Ófæru sem hún kom sér sjálf í. Miðstjórnarfundur í dag sem ég komst ekki á. Ég fór á fundinn í febrúar, þá fékk ég á tilfinninguna að flokkurinn væri að deyja, rétt í andarslitrunum. Öll umgjörð, húsnæði, viðurgerningur, fundarmenn, málefni. Allt var með þeim hætti að ljóst var að að fundinum stæði flokkur/samtök/félag er ætti ekki langt líf fyrir höndum. Nú er mér sagt að fundurinn í dag sem haldinn var á Hótel Sögu hafi verið með öðru yfirbragði en þó hafi ræður margra verið minningarræður og fundurinn fram yfir klukkan sjö nálgaðist að vera minningarathöfn.

Ég hef velt ýmsum atriðum fyrir mér
- hver stakk upp á Finni sem formannsefni
- hverjir tóku undir þá uppástungu
- hverjir eru nánustu samstarfsmenn Halldórs Ásgrímssonar og unnu að undirbúningi fléttunnar sem raknaði upp um hvítasunnuna
- hverjir eru traustir heimildarmenn fjölmiðla um málefni Framsóknar en koma þó ekki fram undir nafni
- hvers vegna hættir Halldór ekki á flokksþingi, bæði sem formaður og forsætisráðherra
- hagsmuna hverra var verið að gæta þegar unnið var að því að fá miðstjórn til að velja formann
- hverjir aðrir áttu í raun að víkja með Halldóri nú á miðstjórnarfundinum

Einu hef ég komist að og er það ekki í fyrsta sinn. Það eru ótal margir innan flokksins sem eru tilbúnir að tala við fjölmiðla og segja þeim allt sem gerist, alveg niður í það í hvaða röð fólk fer á snyrtingu á fundum, en þeir hinir sömu vilja vera nafnlausir, andlitslausir slefberar. Þegar ég hef spurt hvers vegna fólki er illa við að koma fram undir nafni og standa fyrir máli sínu þá eru ótrúlega margir hræddir. Hræddir við að fá ekki framgang, hræddir við að vera settir til hliðar, hræddir við hið óþekkta afl sem mörgu virðist ráða. Ég tel alveg víst að það er ekki hægt að stjórna í skjóli hræðslu og nafnleysis nema af því að aðrir heimili það, annað hvort með þögn eða óorðuðu samþykki. Mér þykir lítið til flokks koma þar sem þingmenn og aðrir trúnaðarmenn veltast hver um annan þveran til að koma fram því sem þeir vita, nafnlaust. Ég fyrirlít svona vinnubrögð, ég tek ekki þátt í þeim. Ég vil vera langt frá þeim sem iðka það. Gæti verið að einn mér kær hafi haft rétt fyrir sér er hann sagði, fyrir mörgum árum, að nálægt Framsókn kæmi enginn með kústskafti hvað þá nær.