Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Thursday, January 31, 2019

Fylgst með

Þið vitið það eflaust.
Það er fylgst með ykkur.
Ég sé að það er fylgst með mér.
Langt í frá svona nágrannagæsla eða vinsemd þeirra sem búa í götunni/hverfinu.
Heldur.
Alltaf þegar ég skrifa eitthvað á bloggið fæ ég pósta frá fyrirtækjum í Þýskalandi sem dauðlangar að vera í samskiptum við mig.
Eftir að ég lokað reikninginum á Facebook þá fæ ég ítrekað tölvupósta frá fyrirtækinu með boð um að skrá mig. Það endaði með að ég merkti þá sem óviðeigandi/meiðandi.
Þýskaland aftur á móti er mér minna á móti skapi. Ég skoða heimasíðurnar, slóðirnar, upplýsingarnar. Ætli þýskt fyrirtæki sem segist hafa unnið fyrir Post Danmark sé í lagi? Ég meina er nokkuð til lengur sem heitir Post Danmark?



Wednesday, January 30, 2019

Fari það í grængolandi ....

Ég sem ætlaði ...
Nei, mig langaði ....
Réttara væri að segja að stefnt hefði verið að ....

Svo situr maður uppi í lok árs eða átaks og hefur ekkert gert nema berja höfuðið við stein og segja sjálfum sér - sko, ég sagði þér þetta, þú hefðir átt að vita það, þú stendur aldrei við neitt, lýkur sjaldan því sem þú þó byrjar á o.s.frv.

Alveg þar til ætlunin er gleymd og sú næsta drifin upp. Um leið eru úrtöluraddirnar í höfðinu pússaðar, látnar gera æfingar. Kinnarnar titra, stútur á munninum, sönglað og svo er haldið af stað. Nú skal lært að lesa. Lesa eina bók á viku næsta árið. Árið þar á eftir skulu tungumálin verða tvö, þar á eftir þrjú og svo bara öll tungumál sem hægt er að komast yfir á prenti.

Já, já. Látið ykkur dreyma. Næsta víst er að bókin hefur strax vikið fyrir spjalli, hittingi, myndefni, fjölskyldu og því um líku. Tungumálin verða víst fjarlægur draumur.

En, hey, úrtöluraddirnar og neikvæðnin fitnar og bólgnar. Enn eitt skipbrotið bætist í safnið.

Verið alveg róleg. Ég og lestur heyrum enn saman. Bók á viku, fer létt með það, jafnvel á sólarhring.

Vissuð þið það að það er alls ekki sjálfgefið að geta lesið. Manninum er ekki ætlað að lesa líkt og að gefa frá sér hljóð eða nota hendurnar.
Vissuð þið að þegar þið lesið þá notið þið tungumálið, færni til að skynja form, einbeitingu, bæði heilahvel og framheili eru virkjuð. Svo þarf að æfa sig, aftur og aftur. Hér á vel við að æfingin skapi meistarann. Eftir því sem meira er lesið af flóknum texta, löngum setningum og heilum bókum þá eykst vellíðunarhormón.

Hins vegar vissuð þið ekki að stundum er ég spurð um í hverju ég sé góð. Ég segi að lesa, synda, ganga, skynja umhverfi, almennt að vera til.

Viðbrögðin eru oft svona, hmm - ekkert spes, þetta geta nú allir, allt meðfæddir hæfileikar og færir engum neitt.

Hvers vegna er ekkert spes að geta það sem almennt er haldið að allir eigi að geta þó það sé langt í frá allir sem geti eða geri það?

Thursday, January 24, 2019

Þökk sé

Í morgun, þegar ég kom inn eftir gjöfina þá.
Þá horfði ég út aftur og gekk á alla glugga.
Ég uppgötvaði að það hafði verið nær því logn í fleiri daga og snjórinn liggur því á trjám og gróðri eins og hann féll.
En svo leið á daginn og það byrjaði að bæta í vind.
Nú blæs af þökum, þessum háu sem ég sé en bílarnir hér á planinu sem hafa staðið kyrrir frá því í haust eru enn þaktir snjó.
Skafrenningur er ótrúlegt fyrirbæri.
Meðan ég er innandyra þá horfi ég og fer að gera annað.
Þegar ég er úti þá er áhugavert að sjá hvar dregur í skafla og hvar strengir myndast.
Hins vegar, þegar ég er bílstjóri þá bölva ég og reyni að stytta ferðina eins og hægt er. Sérstaklega ef ég er innanbæjar.

En sko, ég vona að það lægi hið fyrsta. Að vindurinn verði aldrei mikill. Að það verði auðvelt að fara um seinni part dags því þá verð ég á ferðinni.

Wednesday, January 23, 2019

Nú er það svart, allt hvítt og enn bætir í!

Ég les og hef unun af því.
Í gærkvöldi lagði ég frá mér bókina München die Isarmetropole. Hana las ég því við Sigmundur verðum þar í nokkra daga með vorinu.
Nú hvíli ég mig aðeins á þýskunni áður en ég legg í Buddenbrooks eftir Thomas Mann.
Á meðan ég hvíli mig þá les ég Fatal Path eftir Ronan Fanning - bókin er um bresku stjórnina og írsku byltinguna árin 1910-1922. Þessi bók færi fyrir ofan garð og neðan hjá mér ef ég hefði ekki áður lesið Ireland eftir Frank Delaney. Þar er sagt frá sögunni á lifandi hátt, með sögum.
Svo þegar ég þarf að láta hugann fá frið þá gríp ég í Endurtekninguna eftir Kirkegaard.
Nja, sko Kirkegaard er seinlesinn.
Nú er mig farið að vanta léttlestrarbækur á íslensku.
Annaðhvort endurles ég eitthvað sem ég á eða rölti yfir á bókasafn.
Svo er það danskan. Ég á tvær ólesnar á því tungumáli. En hvorug léttlestrarbók, önnur er um helstu hugsuði veraldar og hin um hvernig embættismenn innan dönsku stjórnsýslunnar búa mál í hendur stjórnmálamanna.

Það snjóar, svo sem engar fréttir fyrir þá sem fylgjast með fjölmiðlum á höfuðborgarsvæðinu.
Fuglarnir ná hvergi í auðan blett.
Ég gef, eins og öll ár sem ég hef staðið sjálf fyrir heimili.
Í vetur eru tegundirnar fáar.
Ég hef einungis séð einn snjótittling.
Talið mig heyra í auðnutittling.
Engir flækingar.
Fáir hrafnar.
Öðru hvoru vokir mávur yfir, við lítinn fögnuð minn.
Borgargæsirnar eru þaulsetnar.
Starrinn kemur í sveim.
Skógarþrösturinn er nær því gæfur.
Svartþrösturinn er þolinmóður, sem segir að það hafi verið stutt í hreiður síðastliðið sumar.