Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Saturday, June 30, 2018

Gangur lífsins

Nú eru tvö ár síðan við Máni vorum saman meira og minna heilt sumar.
Hann á öðru ári, að læra að fóta sig á tveimur og kynnast náttúrunni. Ég að nálgast sextugt og að æfa mig í að halda jafnvægi.
Hér á lóðinni eru ágæt leiktæki, lítið hús, sandkassi og rólur. Grasiklæddir hólar, góðar brekkur og stór tré.
Máni brasaði við að komast inn í húsið, út úr því aftur. Heilsaði í gegnum glugga. Ögraði ömmu sinni og tróð öllu sem hægt var í munninn og umlaði mmmm, brosti svo hálftannlausu brosi er ég krakaði úr munninum.
Stundum dró ég hann upp hólana, velti mér niður brekkurnar og bað hann að gera eins. Stundum skreið hann sjálfur upp og renndi sér á rassinum niður.
Ég man hve ég var hreykin er hann komst sjálfur upp og niður, út og inn.
Í dag hleypur hann milli hóla, fagnar og finnst amman sein. Svo tilkynnir hann að húsið sé of lítið. Hann verði að beygja sig til að komast inn og sitja á hækjum sér til að sjá út um gluggana.
Trakteringarnar eru eins.
Ég kaupi fiskbollur og sósu. Kartöflur og kjöt
Borga með skeljum og steinum.
Að vísu hefur dýrtíðin hækkað verðið og drengurinn segir óskammfeilinn - Ég ætla að fá alla peningana þína, sem þú ert með í báðum höndum -
Amma beygir sig undir valdið því hún er svöng. Notar tækifærið og telur, verðleggur steina eftir stærð og æfir tugi og hundruð.
Svo sitjum við á bekk og horfum á tjaldinn leita orma í grasinu.

Friday, June 29, 2018

Nýir tímar

Undanfarnar vikur hef ég leitt hugann að því hvort ég ætti að opna vefsíðu. Skrifa um það sem er efst í huga mér hverju sinni en hafa þó reiðu á hlutunum.
Í dag ákvað ég að prófa hvort bloggið sem ég opnaði síðast árið 2014 væri enn til eða hvort ég ætti að opna aðra síðu, með öðru nafni.
Eins og fyrir töfra þá mundi ég nafnið og aðgangsorðið.

Nú er stóra spurningin hvort hverdagur sé gott heiti eða hvort það ætti að vera annað og þá hvað. Þið megið gjarnan koma með tillögur.