Hverdagur

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

Monday, August 01, 2011

Veður

Loksins er farið að rigna á suðvestur horninu. Það veitti ekki af eftir þurra mánuði. Auðvitað hefði ég viljað að það rigndi meira á nóttunni og væri þurrt og sólríkt á daginn. Þá hefði ég getað legið í sól og beðum að vild.
Skrítið eins og það er þá fer að kólna fyrir norðan. Ég ætla á Akureyri og Sauðárkrók í vikunni. Auðvitað fer hitinn þá undir tíu gráðurnar. Ég vildi svo gjarnan vera í hitabylgju fyrir norðan.
Það styttist í veiðiferð. Undanfarin ár höfum við farið með Boggu og Barða í veiðiferð. Gist eina eða tvær nætur í veiðikofa og bleytt stangir í vatni. Höfum engu skilað heim nema flundru úr Andakíl.
Í ár verður farið í Botna í Meðallandi. Það hlýtur að koma fiskur heim. Getum verið með tvær stangir og svo má Hera Mist reyna að vild. Það er gaman að fara í svona veiði, reyndar er gaman að fara í alla veiði. Þegar legið er í veiðihúsi þá skiptir veður minna máli. Má rigna og blása að vild.
Fyrir mörgum árum fór ég oft í veiði, oft á hverju sumri. Ávallt var legið í tjaldi. Ég man varla eftir leiðinlegu veðri. Ég man varla eftir rigningu. Aftur á móti man ég eftir vandræðum þegar við tjölduðum þar sem kamrar voru. Ég man eftir að hafa reynt að standa og pissa því ég gat varla hugsað mér að setjast. Ég man eftir að hafa reynt að halda í mér, lengi, lengi því ég gat ekki hugsað mér að fara á kamar.